Hvítar og vitlausar

Höfundar: Vala Pálma og Nanna Hlín.

Stundum þegar maður er hvít lítil stelpa sem brosir, virðist heimurinn svo óendanlega góður. Þangað til að maður fattar að heimurinn brosir framan í litlar hvítar stelpur með forréttindavegabréf.

Í desember síðastliðnum fórum við stöllur á alþjóðlegt kynjafræðinámskeið í Berlín sem bar yfirskriftina „Cultural Analysis of the Interdependencies of Racism and Sexism.“ Okkur var gert að lesa nokkra texta fyrir námskeiðið sem  flestir voru skrifaðir útfrá sjónarhorni svokallaðs svarts femínisma (e. Black feminist thought).

Textarnir áttu það sameiginlegt að gagnrýna hvíta forræðishyggju innan vestræns femínisma sem og sexisma innan frelsishreyfingu svartra. Svartar fræðikonur settu fram kenningar um „intersectionality“ sem hefur verið nefnt samtvinnun mismunabreyta á íslensku. Slíkar hugmyndir ganga út á að fólk sé staðsett með tilliti til ólíkra breytna svo sem kyns, litarháttar, stéttarstöðu og kynhneigðar. Reynsla af einni breytu, eins og kyni, er lituð af því hvaða öðrum breytum viðkomandi tilheyrir eða samsvarar sig með.

Gagnrýni svarts femínisma felst í að vestrænn femínismi hafi gengið útfrá reynslu hvítra millistéttarkvenna og með því að leggja ofuráherslu á feðraveldið hafi hann horft framhjá rasisma. Alhæfingar um reynslu kvenna af feðraveldinu þóttu þagga niður í konum með aðra reynslu og þar með „endurframleiða nýlenduskipanina“ (e. reproducing the colonial order).

Þetta var ekki nýtt fyrir okkur fræðilega. Við höfum báðar lesið femíníska hugmyndasögu og töldum okkur vera ágætlega vel að okkur í þessum fræðum sem og beitingu þeirra á umhverfi okkar.

En annað kom í ljós úti í Berlín! Í þessu námskeiði var samankomið fólk með ólíkan bakgrunn sem átti það þó sameiginlegt að láta sig jafnréttismál í víðum skilningi varða. Mikil áhersla var á að við virtum tilfinningar hvers annars og var leitast við að skapa svokallað öruggt rými (e. safe space). Námskeiðið var mjög róttækt að því leyti að lögð var áhersla á samband fræða, tilfinninga og mismunandi reynslu. Samband valds og þekkingar myndaði rauðan þráð í umræðunum svo forðast mætti tilhneigingar til þess að tala út frá algildu sjónarhorni.

Við gerðum okkur grein fyrir að fræðilegur skilningur leiði ekki endilega til meðvitundar um afleiðingar orða og athafna í daglegu lífi. Og hér kemur sjokkið!

Við erum hvítar!

Meinarðu ekki: Sumir hvítir femínistar?

Nokkrir nemendur í námskeiðinu ásamt kennara voru nokkuð aðgangsharðar og hjálpuðu okkur að horfast í augu við eigin hvítleika. Okkur leið eins og þær hnýttu í hvert okkar orð og tengdu við forréttindastöðu okkar sem hvítra. Við urðum stressaðar og fannst stundum eins og það sem við sögðum væri rangtúlkað. Við fundum einhvernveginn veginn hjá okkur þörf fyrir að útskýra reynslu hinna af mismunun í burtu. Við gætum kallað þá athöfn „að hvítskýra.“

Við fórum semsagt í vörn. Það var erfitt og við urðum stundum sárar. Við þurftum að hemja okkur og reyna ekki að útskýra fyrir þeim að þetta kerfi væri ekki okkur persónulega að kenna. Á einhvern barnalegan hátt vildum við sannfæra hópinn um að við værum í rauninni góðar stelpur! Við erum ekki rasistar! Enginn vill vera rasisti… Við erum búnar að lesa kynjafræði for crying out loud!

Eftir að við komum heim hefur reynslan af þessu námskeiði setið í okkur. Smátt og smátt höfum við þurft að skoða okkar eigin tilfinningar gagnvart því sem við upplifðum á námskeiðinu.

Það er óþægilegt að þurfa að horfast í augu við eigin forréttindastöðu. Til að draga saman lærdóm okkar af þessari reynslu viljum nefna tvennt:

Íslenskt samfélag er ekki einsleitt þó að hin yfirlýsta varnarorðræða felist í því að Ísland sé stéttlaust, hvítt og þar ríki jafnrétti kynjanna. Algengt viðkvæði er: Við erum svo fá!  En þurfum við ekki að horfast í augu við eigin hvítleika og forréttindastöðu?

Við skiljum nú betur tilfinningalega hvers vegna sumir fara í vörn gegn gagnrýni femínisma. Það er erfitt að vera skotspónn gagnrýni sem fulltrúi hóps og vera þar af leiðandi gagnrýndur fyrir eitthvað sem maður telur sig ekki bera persónulega ábyrgð á. En eigum við ekki að sameinast í að nýta þessar tilfinningar og gagnrýni til þess að horfast í augu við eigin forréttindastöðu?

Merking litarhafts, kyns og stéttar er í sífelldri endursköpun í samfélaginu. Ef við erum meðvituð um hvernig við eigum öll þátt í því kerfi opnast um leið möguleiki á breytingum. Þegar við einblínum á úrelta mynd af íslensku samfélagi þar sem allir eru hvítir og tala fullkomna íslensku þá erum við að endurskapa nýlenduskipanina. Ísland er lítið land og hefur ekki verið stórtækur gerandi á alþjóðavettvangi. Við höfum skýlt okkur bakvið það að vera herlaust land, að við áttum engar nýlendur og að vorum sjálf fátæk og ósjálfstæð þangað til fyrir sextíu árum. Hvað um það, við tilheyrum samt sem áður heimshluta og hugmyndafræði sem hefur kúgað og arðrænt og heldur því áfram. Horfumst í augu við það!

Við teljum að eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag sé að reyna að skapa rými fyrir fleiri raddir og sjónarmið. Stundum þurfum við, forréttindapakkið, einfaldlega að halda kjafti og hlusta.

 

16 athugasemdir við “Hvítar og vitlausar

 1. Mjög þörf hugsun, myndi vilja sjá meira um þetta, fara dýpra í málið og upplýsa okkur forréttindapakkið. Finn vissulega fyrir því hve ofarlega í fæðukeðjunni ég er!

 2. Já kannski þyrftum við Vala að skella í framhaldsgrein. En hins vegar erum við svo mikið forréttindapakk sjálf að við getum lítt upplýst um reynslu af mismunun. En hvernig getum við skapað vettvang til þess að heyra í fleiri röddum án þess að þær fari í gegnum okkur forrétindapakkið?

 3. VÁ! Mjög góð grein. Þetta er nefnilega akkúrat meginpunktur málsins að flest neikvæð viðbrögð eru vegna misskilnings og að þeir aðilar (þá oft ungir hvítir karlmenn) telja að það sé verið að ráðast á sig fyrir sakir sem þeim finnst þeir ekki hafa unnið sér til saka heldur fyrri kynslóðir. Það er óþægilegt að einhver upplifi mann sem einhvern kúgara af því að hann passar við eitthvað norm sem hvítur karlmaður. Held að báðir aðilar gætu bætt samskiptin, við strákarnir með að slaka aðeins á vörninni og hlusta á rökin sem liggja fyrir og svo að þeir sem eru of fastir í því að benda og dæma að slaka á áheyrslunni að finna sökudólga og kynna mál sitt betur þannig að á þá sé hlustað. Þá fer þetta vonandi að hætta að vera eins og einhver skotgrafahernaður á öllum spjallborðum landsins og við getum byrjað að leysa úr hlutunum saman. Ég neita bara að trúa því að það séu í alvörunni margir sem að vilji ekki jafnrétti óháð kyni, kynhneigð eða kynþætti.

  • Það er gott og blessað að bæta samskipti og fólk ætti alltaf að hlusta á hvert annað. Þess vegna er það mjög milvægt að þeir sem eru í forréttindstöðu – hvort sem það eru t.d. hvítir karlar eða hvítir femínistar – líti svolítið gagnrýnið í eigin barm og velti fyrir sér hvað það er í raun sem mótar skoðanir þeirra. Og virkileg taki það til sín þegar fólk sem er ekki í sömu forréttindastöðu bendir á bjálkann í augum þeirra.

 4. Góð grein og þörf. Mér hefur þessi skotgrafahernaður (samanber mansplaining grienin hér á knúz fyrir nokkrum vikum) vera tilgangslaus og aðeins til þess að fæla frá þá sem eru að velta þessum hlutum fyrir sér, skoða sig og sitt umhverfi. Margir eru að oppna augin yfir þessari umræðum sem hefur verið undanfarið, því ber að fagna.

 5. Fræðandi en er einhver Falsifiability í Intersectionality? Hvernig mælir maður forréttindi og hvað eru ekki forréttindi? Getur maður sagt að einhver sem er lamaður frá hálsi njóti meiri forréttinda en þeldökkur þræll frá Suður-Afríku eða vice versa. Hvað byggjast forréttindi á? Er maður ennþá með forréttindi ef maður er hvítur og á heima í landi þar sem 99% eru austurlenskir? Hafa allir sem eru hvítir átt forréttindi sama um stað og stund? Hvar endar Intersectionality og hvar byrjar það ef enginn má ræða aðstæður annarra?

 6. Sambreytni er flott orð! spurning um að reyna að koma því í umferð. Annars held ég, til að svara casgrave, að erfitt sé að mæla forréttindastöðu með nákvæmum vísindalegum mælitækjum. Þetti snýst mikið um huglæga upplifun af aðstæðum sem þó eru grundvallaðar í mjög áþreifanlegum líkamleika og tengist efnislegum gæðum. Hins vegar er til tölfræði yfir hvernig efnisleg gæði eru háð kyni, litarhætti og fleiru… hvernig möguleikar og hindranir tengjast hinum ýmsu breytum.

  Ásta kom með góðan punkt hér að ofan þegar hún nefndi þetta með að líta í eigin barm ,,þeir sem eru í forréttindastöðu … líti svolítið gagnrýnið í eigin barm og velti fyrir sér hvað það er í raun sem mótar skoðanir þeirra. Og virkileg taki það til sín þegar fólk sem er ekki í sömu forréttindastöðu bendir á bjálkann í augum þeirra“.

 7. Frábær grein, takk fyrir hana. Greinargóðar skýringar á intersectionality. Held að okkur sé öllum hollt að líta í eigin barm annað veifið.

 8. Takk fyrir góða grein Vala og Nanna! Endilega koma með framhaldsgrein 🙂 Ég elska þetta – að koma með tilfinningarnar inn í fræðipælingarnar.

  Mér finnst svo áhugavert að hugsa um okkur sem manneskjur sem búum yfir kvenlegum og karllægum eiginleikum. Hvert og eitt óháð kyni. Þó ekki sé nema bara sem tæki sem geta hjálpað manni að hugsa um tilveruna. Ég næ kannski ekki að útskýra þetta í þaula í þessari athugasemd, en vildi bara koma smá á framfæri.

  Á undanförnum áratugum hafa kvenleg gildi átt meira upp á pallborðið sem svar við kvenfyrirlitningu og útskúfun kvenna sem var farin að vera óásættanlega ríkjandi. Konur hafa því krafist réttinda og virðingar í samfélaginu. Nú þegar við tölum saman við hvert annað sem jafningjar (og ég hef þá trú á okkur að það sé það sem við viljum) eigum við kost á að beina sjónum að því kvenlega og því karllæga og þeirri dýnamík sem þar á sér stað. Hvaða stjórnhættir eru eftirsóknarverðir. Hvernig er spennandi að takast á við lífið þannig að öllum líði vel? Þannig að öllum líði vel já, mjög hefðbundin kvenleg pæling. Að hugsa um vellíðan allra. En hér er ég að hugsa um okkur sem börn sem þurfa virðingu og skilning og nánd. Og að við förum fyrst að læra og öðlast vilja til að skilja þegar við finnum fyrir þolinmæði og hvatningu. Þegar við verðum forvitin um „andstæðinginn“.

  Mér fannst svo gaman að sjá viðbrögð Ómars hér að ofan þar sem hann talar um þann misskilning sem margir virðast haldnir að feðraveldið sé á þeirra eigin persónulegu ábyrgð, fari þar með í vörn og vilji ekki hlusta. Sama á við um okkur hvítingjana í því valdasamhengi eða þeirri forréttindastöðu sem við búum við í heiminum. Ég vildi að ég myndi hvaða pistil ég var að lesa um daginn eftir svartan mann sem talaði um hvað það væri ótrúlega erfitt að tala um rasisma við hvítt fólk því það yrði alltaf svo tilfinningalegt og sad. Það væri alltaf álitin árás á einstaklinginn fremur en samræða um kerfið í heild.

  „Leysa úr hlutunum saman“ – Ó já, takk! Svo sannarlega! Vel mælt Ómar! Við erum í grundvallaratriðum sammála og þörfin er svo brýn. Ef við tölum um hefðbundna „kvenlega eiginleika“, eins og þann að tala um tilfinningar og tala saman fremur en að rífast eða ásaka, þá erum við svo sannarlega komin eitthvað áleiðis. Og karlmenn eru svo sannarlega að opnast fyrir því. Þannig að ég vildi bara þakka þér Ómar fyrir gott innlegg og ykkur stelpur fyrir frábæra grein.

  Smá um bjálkann – í svona virðingarsamhengi fyrir náunganum er réttara að tala um flís 😉 En ég er nottla með rosalegan bjálka sjálf, þannig að hver er ég svosum að dæma.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.