Kæra stúlkubarn

Höf.: Hanna Þórsteinsdóttir

 

4 ára stúlka sem ég þekki fékk snyrtivörusett í jólagjöf. Mér hefði fundist hreinlegast hefðu þessi skilaboð fylgt með frá framleiðanda:

 

Kæra 4 ára stúlkubarn

 

Nú ertu orðin nógu stór til að fara að átta þig á því að þú ert ekki nógu sæt. Stúlkur eiga að vera sætar og til þess að svo geti orðið í þínu tilviki er nauðsynlegt fyrir þig að nota alls konar drasl til að breyta óæskilegu útiliti þínu í æskilegt.

Hér færðu því varaliti, augnskugga, naglalökk, púður og fleira til að æfa þig og upplagt fyrir þig að leita til móður þinnar með ráðleggingar um notkun en það eru talsvert miklar líkur á að hún sé verulega óánægð með útlit sitt og geti því veitt þér ráðleggingar um hvernig best sé að breyta sér í eitthvað skárra.

Það er svo einlæg ósk okkar að þetta sé aðeins upphafið á einhverju meira og stærra og að í framtíðinni verðir þú með líkamsrækt og mataræði á heilanum og jafnvel, ef allt gengur upp, þá munir þú leita hamingjunnar í stærri brjóstum sem hægt er að fá með stórri aðgerð og mörgum peningum, sléttari maga með sömu aðferð og auðvitað fallegri skapabörmum. Einnig eru til alls kyns kvalarfullar leiðir til að losna við appelsínuhúð (sem 90% kvenna fá en þykir eintstaklega ógeðsleg) og þar mælum við með rafmagnsbylgjum sem skotið er í læri þín og rass. Andlitið er svo heill kapítuli út af fyrir sig en þar má skera, sprauta, vaxa, plokka, bæta á og taka af, það lærir þú betur þegar þú verður aðeins stærri.

Það verður gaman að sjá hvaða leið þú velur þér í lífinu en við vonum að þú áttir þig á því sem fyrst að þú ert ekki nógu góð eins og þú ert og farir því sem allra fyrst að leita leiða til að breyta þér. Við bendum þér hins vegar á að leitin verður endalaus og þú munt aldrei verða fyllilega ánægð með þig. Reyndu svo að þróa með þér mistakaótta eins fljótt og auðið er svo þú eyðir ekki of miklum tíma í að sækjast eftir því sem þú átt skilið. Og hættu strax að gera þér vonir um að eiga jafn mikla möguleika í lífinu og litli bróðir þinn, það mun spara þér orku og þú færð færri hrukkur þegar þú verður stór.

Gleðileg jól!

12 athugasemdir við “Kæra stúlkubarn

  1. Kæru knúzarar. Ég átti þátt í því að stofna þetta vefrit á sínum tíma og hef fylgst með því allar götur síðan og því segi ég, full væntumþykju og virðingar í ykkar garð: Mér finnst þessi málfflutningur í besta falli einfeldningslegur og ekki til þess fallinn að styðja baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna. Hér hefur oft verið bent á áhrif markaðsaflanna þegar kemur að leikföngum barna og sú umræða hefur stundum verið áhugaverð en hvað er eiginlega verið að segja hérna?

    „Hér færðu því varaliti, augnskugga, naglalökk, púður og fleira til að æfa þig og upplagt fyrir þig að leita til móður þinnar með ráðleggingar um notkun en það eru talsvert miklar líkur á að hún sé verulega óánægð með útlit sitt og geti því veitt þér ráðleggingar um hvernig best sé að breyta sér í eitthvað skárra“….svo er farið yfir í fegrunaraðgerðir o.s.frv. Mér finnst það í meira lagi vafasamur boðskapur að konur noti snyrtivörur í þeim tilgangi eingöngu að „breyta sér í eitthvað skárra“ og að ákvörðun um að nota slíkar vörur eigi rætur sínar að rekja til lágs sjálfsmats sem sé nokkuð öruggt að þessar konur hafi, skv. þessum pistli. Svo er þetta bara einfeldningslegur boðskapur, mér finnst álíka gáfulegt að segja að varalitanotkun leiði til brjóstastækkunnar og að bjórdrykkja leiði til heróínneyslu. Ég átta mig alveg á því að framsetningin á að vera kaldhæðin og töff en mér finnst þetta ekki vera alveg nógu vel ígrundað.

  2. ég læt höfundi greinarinnar um að svara fyrir hana sem slíka en að mínu viti er grundvallarþáttur í þessum pistli að markhópurinn sem þessi vara beinist að, og var í þessu tilviki gefin, er barn. Það þurfa ekki allir að vera sammála um það að hvaða marki snyrtivörunotkun kvenna tengist vanmætti þeirra gangvart linnulausum skilaboðum frá (markaðs)samfélaginu um að þær þurfi að bæta útlitið en ætli við vitum nú ekki flest að yfirgengileg velta snyrtivörufyrirtækja byggist að verulegu leyti á því að banka á nákvæmlega þann auma blett. Auðvitað nota konur snyrtivörur í mismiklum mæli og af alls konar mispersónulegum ástæðum.

    Þegar barni er svo rétt snyrtivörusett tekur þessi markaðsvæðing að mínu mati – og hér tala ég sem einn af tíu ritstjórum og ein af stórum hópi femínista sem langt í frá tala allir einum munni – á sig einhverja mynd sem hættir að vera svolítið dapurleg og íþyngjandi og verður afkáraleg og móðgandi, finnst mér. Ég er ekkert yfir mig hrifin af stríðsleikföngum en strákur með leikfangabyssu er t.d. frekar ólíklegur til að eignast alvöru byssu síðar meir á ævinni (hér í okkar norræna samfélagi, þ,e.) en stúlkan með meiköppsettið mun nánast örugglega nota umtalsverðan hluta neyslutekna sinna í fullorðinsútgáfuna af þessu seinna á ævinni og já, horfir nánast örugglega á móður sína eyða talsverðri orku í það á degi hverjum að bjástra við fullorðinsútgáfuna af því sem var í jólapakkanum. Tengslin á milli leiks og veruleika eru því mjög sterk þarna og það ber að hafa í huga. Þessi pistill vekur athygli á því og mér finnst það verðugt umfjöllunarefni. En um það geta auðvitað verið skiptar skoðanir.

  3. Hvaða rugl er þetta, við notum öll snyrtivörur, það eina sem vantar er markaðsetning fyrir stráka, á snyrtivörum þ.e.s…..þarna er bara verið að búa til bömmer og móral, þetta eru mómentin sem mann langar í frumskóginn þar sem karlar eru skrautlega málaðir og málningin kemur úr náttúrunni, en bara í smástund og í útópískri fantasíu því lífið í frumskóginum er of erfitt, fyrir minn smekk allavega. Nú eða mann langar að hverfa aftur fyrir franska byltingu…..en nei, það er of mikil áhætta, maður gæti lent í almúgastöppunni. Kannski bara á áttunda áratuginn, þegar karlmenn virtust vera að meðhöndla frelsi til að snyrta sig og smá fantasíu um lítil snyrtibox fyrir fjögurra ára gamla stráka, en nei….sú frelsisbylting karla var kæfð með gallabuxum og lumberjack tísku úr dressmann…..æ þessu er ekki viðbjargandi.

  4. Mér finnst nú bara frekar sjúk hugsun að geta ekki leyft börnum að njóta gjafanna sinna án þess að brengla raunveruleikan á þennan hátt.

    Það má ekkert og út úr öllu er snúið, djöfullinn býr í hverju horni og ímyndað hatur og fyrirlitning einnig… Ég vona að fólk almennt sjái það að í raunveruleikanum býr þessi öfgi og brenglun einungis í huga fólks sem hugsar eins og höfundur þessarar greinar.

    Þessar endalausu öfgar og ofsóknaræði eru ekki til að styrkja málstaðinn. Þessi pistill hljómar eins og að það sé draumamarkmið höfundar að konur gangi um í útigangsástandi alla daga af því að öfgafólki finnst ekki eðlilegt að konur snyrti eða hugsi um sjálfa sig… af því að það er greinilega merki um kúgun kvenna.

    Af hverju er rangt að hugsa um sjálfa sig? Af hverju er rangt að líða vel þegar maður lítur vel út?

    Er ekki verið að senda sjálfstraustum og hamingjusömum konum þau skilaboð að það sé eitthvað að þeim af því að þær stunda líkamsrækt og hugsa um útlit sitt? Að þær hljóti að vera kúgaðar og bældar af því að þær hafa gaman af tísku og snyrtivörum?

    Að eitthvað sé virkilega mikið að og brenglað í sálarlífi ungra stúlkna sem vilja leika sér með förðunarvörur eins og mamma… er rétt að senda ungum stúlkum þessi skilaboð? Að það sé eitthvað að þeim af því þeim finnst gaman í prinsessuleik?

    Er eitthvað brenglað við að klæða sig upp í þykjustuleik?

    Mínar bestu barnæskuminningar tengjast því þegar við vinkonurnar klæddum okkur upp í föt af mömmum okkar, hælaskónna þeirra og læddumst í snyrtibuddanu þar sem við nældum í varalit í laumi, skemmtum okkur tímunum saman í þykjustuleik… sem tengdist ekkert kúgun eða slæmu sjálfstrausti, þetta var ekki upphaf vítisgöngu í átt að sjálfshatri og kvennkúgun

    Að líkja saklausu snyrtivörusetti (sem stúlkan hefur án efa verið í skýjunum yfir og þótt fallegt og skemmtilegt) við upphaf endaloka sjálfsvirðingar og sjálfsálit barnsins er eins og að segja að kókdrykkja sé upphafið að löngum ferli í fíkniefnaneyslu…

    Hér er bara ekkert rökrétt samhengi á milli hlutanna

    Þessi grein er ekki hnyttin eða skemmtileg (eins og höfundur hefur eflaust haldið)

    Þessi grein er bara og eingöngu full af hatri, biturleika og fyrirlitningu á einhverju sárasaklausu og fallegu eins og jólagjöf barns

  5. Til Þorgerðar

    Að sjálfsögðu er ég ekki þeirrar skoðunar að konur noti snyrtivörur aðeins í þeim tilgangi að “breyta sér í eitthvað skárra”. Að sjálfsögðu dettur mér ekki í hug að varalitanotkun hjá barni ein og sér geti leitt af sér brjóstastækkun síðar meir. Með fullri virðingu fyrir þér alltaf hreint og þakklæti, en þá þykir mér þetta jaðra við útúrsnúning. Ég leyfi mér að halda að þér misklíki stíllinn sem ég notaði meira en boðskapurinn sjálfur.

    Ég er þér alls ekki sammála að svona umræða gagnist ekki baráttunni enda lít ég svo á að allt það sem dynur á stúlkunum okkar (og drengjum líka en hér ætla ég að tala um stúlkur einungis) hafi gríðarleg áhrif hvernig sjálfsmynd þeirra þróast og einnig hvaða viðhorf til samfélagsins þær tileinka sér.

    Frá upphafi fá þær skilaboð um hvernig best sé að haga sér og líta út. Skilaboðin koma í gegnum auglýsingar, bíómyndir, barnaþætti, með orðum fullorðna fólksins og fl. Munurinn á hvernig fullorðnir koma fram við drengi og stúlkur er gríðarlegur og mér dettur helst í hug áhugaverður samanburður í bókinni “Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri”. Þú hefur sjálfsagt lesið hana en þar kemur til að mynda fram að frá fæðingu þykja okkur strákarnir okkar sterkir og flottir og grátur þeirra er merki um reiði á meðan stúlkurnar okkar eru sætar og blíðar og gráturinn þeirra merki um að þær séu leiðar. Frá upphafi er búið að velja fyrir þau, strákar elska blátt, stelpur bleikt, stelpur elska prinsessudót og strákar stríðsdót og svo framvegis. Í mínum huga hafa þau ekki raunverulegt val.

    Kannski er þetta smá útúrdúr en í þeirri bók er líka sagt frá því að hópur fólks hafi verið látinn lesa blaðagrein, helmingurinn hélt að greinin væri eftir karlmann og hinn helmingurinn hélt hún væri eftir konu. Þau sem lásu greinina eftir karlinn þótti hún hnyttin, vel skrifuð og skemmtileg en þau sem lásu greinina eftir konuna þótti hún illa skrifuð, leiðinleg og óþörf, sama greinin. Svo viðhorfin fylgja okkur frá upphafi til enda og í mínum huga eitt af því sem erfiðast verður að yfirstíga í jafnréttisbaráttunni.

    Ég veit alveg að þú hefur heyrt þetta allt áður og sagt margt eða allt af þessu sjálf og óþarft að þylja meira upp hér en það sem ég vildi koma til skila með því að svara þér er þetta:

    Snyrtivörusettið sem litla stúlkan fékk í jólagjöf getur aldrei eitt og sér leitt til þess að hún fari í brjóstastækkun en tilgangurinn með þessum hvössu skrifum (einfeldningslegu að þínu mati) var að ýta við fólki og fá það til að velta því fyrir sér hvað við erum að bjóða stúlkunum okkar upp á.

    Segjum að þessi sama 4 ára stúlka horfi reglulega á Disney mynd, til dæmis er myndin um Garðabrúðu uppáhalds myndin hennar (en hún hefur ofurmátt í ljósa síða hárinu og um tíma lítur út fyrir að hún hafi misst máttinn því ljósa, síða hárið var klippt af og hún varð dökk- og stutthærð), hún er oftast kölluð “sæta” og fær sérstakt hrós sé hún með fallega greiðslu og í fallegum fötum og sér jafnvel móður sína við og við bölsóttast út í eigin líkamsvöxt í speglinum, fær ítrekað hrós fyrir að vera þæg og prúð og er ekki kennt að taka pláss og standa með sér. Ætli þetta sé ekki veruleiki margra lítilla stúlkna? Ég gæti best trúað því og ég er ekki bara að skjóta út í loftið en ég hef kennt stúlkum á aldrinum 2-7 ára í mörg ár, sem sagt bæði í leikskóla og barnaskóla og veit því örlítið um málið.

    Þegar þær verða stærri fara þær síðan á netið og sjá alla fjölmiðla uppfulla af greinum um hvernig á að líta út, í hverju á ekki að vera, í hverju á að vera, hversu fljótar þær eiga að vera að ná sér eftir barnsburð og fleira og fleira. Snyrtivörusettið í textanum er aðeins táknmynd fyrir allt ruglið sem 4 ára stúlkur sjá og heyra og munu sjá og heyra.

    Ég er að ala upp tvær stúlkur, önnur þeirra er 7 ára og hin er nú bara rétt að verða 8 mánaða. Við foreldrarnir völdum þegar sú eldri fæddist að gera allt sem í okkar valdi stæði til að gefa henni raunverulegt val um alla skapaða hluti. Hún er nú ansi vel heppnuð, þó ég segi sjálf frá, en það hefur oft á tíðum reynst erfitt að halda boðskapnum sífellt á lofti því alls staðar annars staðar er búið að ákveða hvað hún vill og hvernig hún skuli vera.
    Og þessi 8 mánaða, ég mun gera mitt besta með hana líka. En á hennar stuttu ævi hefur móðir hennar tvisvar fengið að heyra hvað það væri nú gaman ef það væri hægt að setja teygju eða skraut í hárið á henni. Stúlkan er nánast hárlaus og er svo hrikalega ótrúlega flott akkúrat eins og hún er. Byrjar snemma!

    En ég stend með því sem ég skrifaði. Ég gerði mér þó grein fyrir því að stíllinn myndi fara fyrir brjóstið á mörgum en öðrum gæti þótt hann koma boðskapnum vel til skila og ég get alveg tekið því. Mér finnst hins vegar leitt að þér skuli finnast ástæða til að gagnrýna ritsjórn knúz fyrir að birta hugleiðinguna og finnst sú gagnrýni ekki eiga við rök að styðjast þrátt fyrir að þér líki ekki við framsetningu textans því umræðan er í mínum huga þörf.

    Hanna Þórsteinsdóttir

  6. Til Siggu S

    Ég er hvorki brengluð, hatursfull né bitur, ekki öfgafull né með ofsóknaræði.

    Draumamarkmið mitt er hreint ekki að konur gangi í útigangsástandi og mér finnst gott að konur og fólk almennt hugsi vel um sig og líði vel, hreyfi sig og sé hraust og glatt.

    Þú misskilur orð mín gríðarlega ef þú hefur tekið þeim sem skilaboðum til hamingjusamra kvenna um að þær væru kúgaðar.

    Ég sagði hvergi að sálarlíf ungra stúlkna væri verulega brenglað vildu þær leika sér með snyrtidót.

    Þykjustuleikir eru góðir og stór hluti af barnaleikjum.

    Það er allt í lagi að þér þyki greinin ekki hnyttin eða skemmtileg.

    Tilgangur með þessum skrifum var að fá fólk til að velta því fyrir sér hvaða skilaboð við sendum stúlkum með dótavali til dæmis. Finnst fólki í lagi að gefa 4 ára barni alvöru snyrtidót eða er þetta ef til vanhugsað? Gæti verið að með gjöfinni sé verið að ýta undir útlitsáhyggjur seinna meir, þrátt fyrir að gjöfin ein og sér gæti aldrei haft þau áhrif, það þarf meira til auðvitað.

    Og til að hafa það á hreinu þá hrópaði ég þennan pistil ekki upp á aðfangadagskvöld og eyðilagði þar með jól litla barnsins og hún er á engan hátt meðvituð um hvað mér finnst um gjöfina hennar, það væri fáránlegt.

    Hanna Þórsteinsdóttir

  7. Flott grein Hanna, þegar maður gefur börnum gjafir og dót þarf maður líka að hafa í huga hvaða skilaboð maður sendir.

  8. Flott grein! Sjálf verð ég stundum alveg steinhissa yfir gjöfum sem 4 ára dóttir mín fær stundum og hika ekki við að láta þær hverfa ef hún saknar þeirra ekki. Maður þarf að vera meðvitaður um það hvaða skilaboð maður sendir þessum litlu elskum. Bæði strákum og stelpum. Til að mynda hef ég ekki í huga að gefa 4 mánaða syni mínum ofbeldisleikföng í framtíðinni bara af því að hann er strákur. Og hvað er það annars að ota ofbeldi og bílum að strákum og snyrtivörum og eldhúsdóti að stelpum? Hvað er verið að segja? Strákar beita ofbeldi og keyra bíla á meðan stelpur mála sig og elda mat og hugsa um börnin? Ef sú er raunin; erum við sátt við það? Ekki ég allavega. Við munum öll græða á því að jafna út stöðluð kynhlutverk. Tími til að breyta þessu!!!

  9. Ég hef oft hrist hausinn yfir því sem mínum dætrum hefur verið gefið í jóla- og afmælisgjafir. Snyrtivörur, og alls kyns eftirlíkingar af fullorðinsdóti sem miðar að því að fegra útlit þeirra. Eins hafa þær fengið fatnað sem var afar óviðeigandi og kynferðislegur. Fyrir mína parta hefur mér þótt þetta frekar ógeðfellt en samt verið varnarlaus gagnvart þessu á vissan hátt, þá sérstaklega vegna fjölskylduaðstæðna. Hvaða skilaboð er fólk að gefa með svona gjöfum? þú átt að líta vel út? þú átt að snyrta þig? þú átt að vera sexí? Þegar fjögurra ára barn fær snyrtivörusett í jólagjöf er verið að gefa því röng skilaboð. þegar fjögurra ára gamalt barn fær eftirlíkingu af skambyssu er líka verið að gefa röng skilaboð. Þessi grein er mjög áhrifarík og sterk og stíllinn á henni er það sterka við hana. Takk kærlega.

  10. Þú hefur ekki lifað fyrr en þú átt dóttur-Ágúst Már Garðarsson 🙂

    Flott grein Hanna og ágætis stíll, kaldhæðnin kannski til þess gerð að margir snú þessu á versta veg. Ég allavega skil þetta vel og finnst þú kúl, sofðu rótt og hafðu það gott.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.