Höfundur: Sóley Tómasdóttir
Ég fékk tölvupóst í gær með ábendingu um mann sem tengist barnastarfi og borgarkerfinu og hefur samkvæmt póstinum gert tilraun til að misnota barn. Hann var kærður, lögreglan taldi það nægilega alvarlegt til að senda það til saksóknara sem svo felldi málið niður þar sem það þótti ólíklegt til sakfellis (eins og flest önnur sambærileg mál). Hér var um dæmigert „orð-á-móti-orði-mál“ að ræða.
Ég er sem sagt með upplýsingar um nafn þessa manns og stöðu og frásögn af því sem hann á að hafa gert en ég er líka með bréf frá saksóknara um að málið hafi verið fellt niður vegna skorts á sönnunum þótt í því standi líka að líklegt sé að eitthvað hafi gerst umrædda nótt.
Hvað á ég að gera við upplýsingar sem þessar? Hvaða valkosti hef ég?
1. Ég get opinberað upplýsingarnar. Nafngreint manninn og sagt frá því að ég viti að hann hafi verið kærður fyrir tilraun til misnotkunar en málið hafi verið fellt niður vegna ónógra sannana. Þá myndi einhver segja að ég sé að brjóta gegn grundvallarreglu réttarríkisins og láta samfélagið um framhaldið (eða að „taka manninn af lífi án dóms og laga“), þótt auðvitað skuli maðurinn teljast saklaus gagnvart yfirvöldum uns sekt hans er sönnuð.
2. Ég get haft samband við þá sem tengjast manninum og farið fram á að hann verði látinn fara. Án þess að hafa neitt í höndunum til að krefjast þess þar sem sekt mannsins hefur ekki verið sönnuð. Mögulega verður brugðist við, talað við manninn eða hann látinn fara án útskýringa, en framtíðarmöguleikar hans til starfa í tengslum við börn verða eftir sem áður ótalmargir.
3. Ég get látið eins og ekkert sé, treyst á réttarkerfið og vonað það besta. Þá á ég á hættu að lenda í því eftir fjörutíu ár að horfa á sjónvarpsþátt afhjúpa áratuga barnaníð manns sem meðal annars hafði tengst borgarkerfinu um tíma og ég hefði hugsanlega með einhverjum ráðum geta stoppað.
Enginn þessara kosta er góður.
Umfjöllun Kastljóss undanfarin kvöld um Karl Vigni Þorsteinsson og hans hroðalegu verk undanfarna áratugi hafa vakið fólk til meðvitundar um þöggunina sem hefur einkennt þennan málaflokk í áranna rás. Flestir vilja þó trúa því að samfélagið hafi breyst – að svona lagað gæti varla gerst í dag, enda tíðarandinn annar og viðbrögðin faglegri. En er það svo? Getur verið að fyrir einhverjum árum eða áratugum hafi fólkið í kringum Karl Vigni og þolendur hans staðið í svipuðum sporum og ég nú?
Ég vildi að ég gæti lagt til lausn hér í niðurlagi pistilsins. En ég hef því miður ekki komið auga á hana. Það hefur vissulega verið aðdáunarvert að fylgjast með því hugrakka fólki sem hefur talað umbúðalaust um ofbeldið sem það varð fyrir af hálfu Karls Vignis, en það er þó í mjög sérstakri stöðu. Karl Vignir hefur játað á sig brotin og þolendurnir eru það margir að enginn efast um að frásagnirnar séu réttar. Núna fyrst. Margir reyndu. Margir töluðu. En ekkert var gert.
Þannig er það í langflestum þessara mála. Þolendur reyna að tala og jafnvel að kæra. En samfélagið bregst. Stundum neita nánustu aðstandendur þolenda að trúa þeim. Stundum stoppa málin hjá lögreglunni, stundum hjá saksóknara og stundum í réttarsal. Í langfæstum tilfellum eru ofbeldismenn dæmdir, ekki af því að sýkna hafi verið í málinu, heldur af því að sektin var ekki sönnuð. Og þá geta ofbeldismennirnir haldið áfram. Kannski í einhver ár, kannski áratugi og kannski allt sitt líf.
Það á ekki að vera á valdi einstaklinga að velja milli þeirra vondu kosta sem ég stend frammi fyrir núna. Samfélagið á að taka á kynferðisafbrotum af myndugleik, það á að verja börn gegn hvers kyns ofbeldi og koma höndum yfir gerendurna. Samfélag sem ekki gerir það er samfélag sem leyfir ofbeldi að grassera og hvetur bæði til þöggunar og mannorðsmorða, því gerendur eru sjaldan dæmdir sekir. Vandinn liggur í meingölluðu réttarríki sem tekur ekki á þessum málum.
vel skrifaðar vangaveltur Sóley og ég segi einsog þú, erfitt að sjá leiðina og lausnina á þessu. Þessi mál eru óheyrilega erfið og snúin, en niðurstaðan er því miður alltaf að hagsmunir fórnanarlamba ofbeldisins líða. Gangi þér vel með þetta
Hafðu endilega samband við: http://www.blattafram.is/Default.asp?Page=169
og fáðu ráð, þarna er reynslan.
Ég skil vandamál þitt. Sem einstaklingi, BER þér að greina frá málinu til yfirvalda. Sem kjörnum fulltrúa, þá ber þér að viðeiga þagnarskildu. Hvort hlutverkið er mikilvægara; er hægt að setja þessi hlutverk á vogaskálirnar? Get ekki um það dæmt.
Má ég gefa þér ráð? Ekki notafæra þér þetta til pólitískra framdrátta. Sársauki annarra á aldrei að vera notaður sjálfum sér til upphafningar.
Þarna má kannski bæta við valkostinum að stórbæta mönnun í barnaumönnun þannig að fólk sé aldrei eitt með börnum, skóli án aðgreiningar sé verndaður þannig að krakkarnir okkar með erfiðustu aðstæðurnar séu ekki teknir úr umferð sem gerir þau berskjaldaðari og svo vinna félagslega með ofbeldi til þess að draga úr umfangi þess og auðvelda fórnarlömbum lífið eftir að skaðinn er skeður.
Ég held ekki að réttarkerfið muni nokkurn tíman geta tekið vel á þessum málum og því er ástæða til að festast ekki í að eina lausnin sé þar að finna.
Það á ekki að vera til neinn fyrningarréttur á svona málum- það ætti að vera fyrsta skrefið að breyta því og hafa svo refsinguna þannig að hún hafi fælingarmátt (t.d. vönun eða annað álíka… )
„Ég fékk tölvupóst í gær með ábendingu um mann sem tengist barnastarfi og borgarkerfinu og hefur samkvæmt póstinum gert tilraun til að misnota barn.“ Ekki skal ég dæma um hvað kann að vera til í þessari ásökun, hef engar forsendur til að meta þær, en óneitanlega hljómar upphafssetningin þannig að engin vissa liggi fyrir í málinu. Og af því þú átt í erfiðleikum með að ákveða framhaldið, bendi ég á þessa grein í Jyllandsposten. Hvort lestur hennar leysi vandamálið fyrir þig er alls óvíst en hún sýnir að hætturnar eru fleiri en ein í svona málum. „Flere uskyldige pædagoger udråbt som pædofile“ http://jyllands-posten.dk/indland/article4970625.ece
Lausnin hlýtur að vera sú að kerfið, þ.e. einhvers konar batterí á vegum ríkis/borgar hafi viðbragðsáætlun við svona ásökunum. Flytji manninn til í starfi, fylgist með því að hann vinni ekki með börnum að minnsta kosti. Síðan þarf þetta batterí að safna reynslu, jafnvel kynna sér hvað er í gangi erlendis hvað varðar viðbrögð við svona málum.
Er ekki hlutverk fagfólks og stjórnmálamanna að finna hvaða viðbrögð er hægt að negla niður?
Er þetta ekki spurning um að hafa samband við þann aðila sem sendir þér bréfið sem er væntanlega nákomin fórnarlambinu og benda viðkomandi á að hafa samband við nánasta yfirmann þess sem sakaður er með sömu ábendingu í eigin nafni? Það kemur þá beint frá kúnni og verður vonandi til þess að hægt sé að fylgjast með aðilanum í framtíðinni.
Tek það fram að maðurinn er ekki starfsmaður borgarinnar og ekki í beinu starfi með börnum. Hann tengist aftur á móti bæði borgarkerfinu og starfi með börnum, meira vil ég ekki segja að svo komnu máli.
Þurfa stjórnmálamenn að fá formlegt erindi til að búa til tillögur að reglum og viðbragðsáætlunum? Frá hverjum ætti slíkt erindi að koma?
Númer 1 ekki leita lausna í réttarkerfi sem er ekki til. Nr 2 Ekki bíða þangað til að réttarkerfið sé tilbúið að taka á vandanum. Nr 3 Taktu málin fyrst í hendur sem einstaklingur og hringdu í manninn, segðu honum að þú hafir þetta bréf undir höndum og útskýrðu fyrir honum að þú sért að fylgjast með honum, segðu honum svo að þú ættlir sem ábyrgur borgari að senda vinnustaðnum hanns bréfið. Nr 4 sendu bréfið á vinnustað mannsins og hringdu svo og spurðu hvað þeim finnist um það og hvað þeir ættli að gera í því. Nr 5. Hringdu í manninn aftur og segðu honum að þú munir alltaf fylgjast með honum og að hann ætti að fá sér vinnu þar sem hann er ekki að vinna með börnum og að þú sért tilbúin að hitta hann og spjalla við hann og ráðleggja honum hvert hann eigi að snúa sér til að fá meðferð við barnagirnd. Nr 6 Sendu svo lögreglunni alla söguna í pósti svo þeir viti af því að þú sért að fylgjast með þessum manni.Nr 7.( Númer 7 skal einungis nota ef maðurinn verður reiður eða bregst illa við).. Þá segir þú honum að þú munir láta fjölmiðla vita af því að hann sé að starfa með börnum þrátt fyrir kæru þess efnis að hann hafi áreitt barn. Eftir 40 ár verður þú enn að fylgjast með honum reglulega og munt hafa komið í veg fyrir að hann fái að starfa í kringum börn og þar með hefur þú dregið verulega úr líkum á því að hann hafi brotið af sér.
Ef kerfið kemur ekki í veg fyrir að grunaðir barnaníðingar vinni með börnum allan daginn þá verður bara venjulegt fólk að gera það. Það er allt hægt Sóley og ef maður vill hjálpa þá verður maður að hafa fyrir því. Að hjálpa öðrum er launalaus vinna peningalega séð en þó svo þess virði.
Enginn af þeim sem tjá sig hér gera ráð fyrir þeim möguleika að maðurinn gæti verið saklaus. Elín Jónína hvetur til þess að haft sé samband við fjölmiðla og vinnustað, án þess að Sóley hafi í raun nokkra sönnun fyrir meintum afbrotum mannsins. Í andrúmslofti þar sem fólk tekur lögin í eigin hendur, væri afar auðvelt að ljúga barnaníði upp á mann sem einhverjum væri illa við og líf hans væri þar með eyðilagt, án dóms og laga. Viljum við þannig samfélag?
Ég vil ekki þannig samfélag.
Annað mál: Það er munur á karlmönnum sem níða stúlkur en þá sem níða drengi. Munurinn er sá að ef þetta er níð á drengjum að þá eru miklu meiri líkur á að hann hætti því ekki, jafnvel ef hann fær kæru á sig eða jafnvel dóm. Held að það sé þess virði að hafa það í huga.
Spurning hvort maðurinn sé á sakaskrá eða hafi komið við sögu hjá barnaverndarnefnd sem á að sjálfsögðu að fá að vita um málið hvort sem kært hefur verið eða ekki. Hjá öðrum hvorum þessara aðila gætu legið frekari upplýsingar um manninn sé hann sekur. Látir þú barnavernarnefnd vita ber þeim skylda til að athuga málið og skoða hvort fleiri börn hafi kvartanir fram að færa og einmitt núna er líklegt að það yrði gert í ljósi undanfarinna atburða.
Í mínum huga er misnotun á barni einhver alvarlegasti glæpur sem til er. Manneskja sem fremur slíkan glæp hefur skaðað sálarlìf annarar manneskju fyrir lífstíð. Ég er sammála þér Sóley að þú stendur frammi fyrir erfiðu vali og ég er algjörlega sammála þér að við búum við meingallað réttarkerfi þegar kemur að þessum málum. Ég er hins vegar ekki sammála þér að þú skulir birta þessar upplýsingar hér þ.e. að þú vitir um mann sem tengist barnastarfi og borgarkerfinu sem hefur gert tilraun til að misnota barn. Þetta getur leit það af sér að foreldrar fari að líta á alla karlmenn sem starfa með börnum innan borgarkerfisins hornauga. Hefði ekki verið betra að kynna þetta tiltekna mál fyrir öðrum borgarfulltrúum, fagaðilum og reynt að eiga við það innan kerfisins áður en rokið er til og birtur pistill um það á netinu. Við megum ekki vera of fljótfær. Við verðum að vinna svona mál eftir réttum leiðum áður en rokið er í fjölmiðla eða á netsíður. Sòley ég hvet þig til að vinna í þessu máli en gerðu það skipulega og yfirvegað. Vöndum okkur. Áfram Sòley! 🙂
Látum ekki staðar numið látum þetta mál verða til þess að hér verði vendipungtur í meðferð svona mála. Það verður að standa vörð um alla sem málið snertir þolendur og ekki síst gerendur eiga að hljóta bæði meðferð og eftirlit.
Barnaníð er og verður viðurstyggilegur glæpur. Við getum hins vegar ekki tekið þau mál út fyrir sviga, og undanskilið þau því réttarfari sem við viljum öll búa við. Allir eru jafnir fyrir lögum, og allir eiga rétt á sanngjörnum réttarhöldum, verði þeir ásakaðir um glæp. Líka barnaníðingar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Leiðir 1 og 2 sem þú virðist velta fyrir þér eru leiðir dómstóls götunnar. Þetta mál hefur farið sína leið í réttarkerfinu, þó ekki hafi það leitt til ákæru. Það er samt leiðin sem við viljum að þessi mál fari, ekki að einstaklingar taki málin í eigin hendur. Þar er alltaf sú hætta fyrir hendi að saklaus einstaklingur verði gerður burtrækur úr þjóðfélaginu sögum múgæsingar.
Á grundvelli tölvupósts, sem væntanlega er kominn frá einhverjum tengdum meintu fórnarlambi í þessu máli, getur þú ekki séð alla myndina, og átt því ekki annan kost en að velja leið 3. Það er leið réttarríkisins. Það er leið siðmenntaðs samfélags, jafnvel þegar um viðurstyggilega háttsemi er að ræða. Þú spyrð þig þeirrar spurningar hvort það sé þitt að dæma út frá þeim, væntanlega, takmörkuðu gögnum sem þú hefur undir höndum. Það er bara eitt svar við þeirri spurningu.
Annars sitjum við kannski eftir 40 ár og horfum á sjónvarpsþátt um þá sem voru úthrópaðir sem barnaníðingar af samfélagi meðvirkni og hópsála, eftir uppljóstranir einstaklinga í fjölmiðlum.
Tek undir hvert orð Sóleyjar!
Sóley.
Þú gefur kost á þér að vinna fyrir fólk innan borgarkerfisins og þar þykist þú hafi skoðanir ?
Hvers vegna þarftu að notast við þessa aðferð í þessu máli ?
Þú ert að segja okkur að þú sért heigull og vitir í raun voðalega lítið !
Valkostur 4. Láta börnin njóta vafans, láta vita af þessari kæru og afdrifum hennar en sleppa því að gera kröfur um viðbrögð vinnuveitandans.
Ég er ekki sammála þér Sóley, kostur 1 og 2 eru í boði !!!! Af hverju er ekki hægt að láta ummæli barnsins njóta vafans um meinta árás á sig af hans hendi ? Af hverju er alltaf eðlilegt að ef ekki sannast á persónu meint brot gegn barni að það teljist bara eðlilegt að persónan haldi vinnu og vistarveru við barn sem áður er búið að safna kjarki til að segja frá ? Af hverju erum við að verja nafn manna og kvenna í svo ógeðfelldum málum ???? Af hverju er alltaf sagt, barnanna vegna þá er ekki unnt að greina frá nafni einstaklingsins ! Bíðið við BARNANNA VEGNA ??? Hvaða barna ? Sem kannski eiga eftir að lenda í klóm þessara einstaklinga, af tví af enginn fékk að vita og vara sig á þeim ! Eða er kannski verið að tala um fórnalömbin sem lentu í viðbjóðnum, að þeirra vegna má ekki gefa upp nafnið á einstaklingnum ? Af tví að það gæti komið upp tá hvaða barn þetta er ???? HINGAÐ OG EKKI LENGRA !!!!! Hvenær á að hætta að leyfa þessum viðbjóð að viðgangast í skjóli nafnleyndar ? Hverju er verið að koma inn hjá börnunum ? Að ekki segja frá !! Að þau þurfi að skammast sín !! Alls ekki nafngreina, þá komist upp um ÞAU ! ÞAU EIGA EKKI AÐ SKAMMAST SÍN, ÞAU GERA OG GERÐU EKKERT RANGT !!!!!Helv…….mammon þjóðfélag, allt í lagi að nafngreina fólk þegar um brot er að ræða er varðar peninga o.fl tengt peningum en ofbeldi gegn börnum……..þá þegir þorpið, helv…..aumingjarnir ykkar !!! Og að endingu, Sóley ! Þú endar greinina á því að við eigum ekki að þurfa að velja á milli þess að Þegja eða segja frá, nei það er heldur ekki valkostur góða mín ! Þú ert meðsek ef þú hefur vitneskju um hugsanlegt ofbeldi gegn barni og velur að þegja !!!
Félaginu Vantrú barst einu sinni áþekkar upplýsingar. Í því tilfelli var brotamaðurinn prestur. Þetta voru gamlar upplýsingar og brotaþoli var látinn. Upplýsingarnar voru byggðar á trúnaðarsamtali. Þessi prestur var starfandi og mjög vinsæll. þetta var rætt fram og áftur í félaginu og niðurstaðan var sú að Vantrú gæti ekkert gert. Félagið gat ekki komið fram með þessar ásakanir því að þær hefðu umsvifalaust verið afreiddar sem lygi og áburður. Vantrú hefur eins og margir vita verið gagnrýnið á þjóðkirkjuna og þetta mál hefi bara farið ofan í þær skotgrafir. Það sem sagt ekki hægt. Það sem var gert var að það var skrifuð grein á vefinn þar sem látið var í ljós að við vissum af þessum presti og níðingshætti hans. Ég held að þau skilaboð hafi komist til skila. Þetta var erfiður tími og slæmt að standa í stððu þar sem allir kostir eru vondir eins og Sóley segir. Hérna er greinin frá Vantrú. http://www.vantru.is/2007/03/19/08.00/
Nokkru seinna var þessum presti vikið frá störfum fyrir þjóðkirkjuna vegna níðingsháttar. Þessi prestur er aftur kominn í umræðuna. Sjá hér. http://gunnipallikokkur.blog.is/blog/gunnipallikokkur/entry/1276278/
Góðar og mjög svo alvarlegar hugleiðingar.
Ég kýs nr. 2, þá hefur maður í það minnsta reynt.
Sjálf myndi ég í Sóleyjar sporum leita upplýsinga m.a. hjá reyndum lögfræðingi, lögreglunni, sérhæfðum sálfræðingum og barnaverndarnefndum,um hvaða viðbrögð við þessum upplýsingum,væru talin líklegust til að tryggja öryggi barna gagnvart barnanýðingum.
Hugsanlega er t.d. hægt að áfrýja ákvörðun saksóknari í þessu umrædda máli og taka það upp að nýju fyrir dómstólum.
Sóley á væntanlega greiðan aðgang að fjölmiðlum og ýmsum greinum stjórnkerfisins og ætti því að geta komið af stað umræðum um hvernig bregðast eigi við grun um kynferðislega misnotkun barna og hvaða lagabreytingar myndu koma þar að gagni.
Ég er gáttaður á viðbrögðum borgarfulltrúans Sóleyjar Tómasdóttur, þ.e. að hún skuli byrja á því að fara með efni tölvupóstsins á bloggið.
Verst af öllu þykir mér þó að Sóley skuli sjá ástæðu til að gefa upp ákveðnar upplýsingar um starfsvettvang hins grunaða og skilja þar með tiltölulega fámennan hóp karlmanna sem starfa með börnum og unglingum hjá borginni í ókræsilegri stöðu svo ekki sé sterkar til orða tekið.
Það hlýtur að vera lágmarks krafa til þeirra sem starfa í umboði borgarinnar að þeir haldi dómgreind þegar mál af þessum toga koma inn á þeirra borð upp og að þeir láti ekki stjórnast af hysterýu. Það er alveg nóg af henni fyrir.
Hilmar, ég skil ekki hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu að Sóley sé að „skilja tiltölulega fámennan hóp karlmanna sem starfa með börnum og unglingum hjá borginni í ókræsilegri stöðu.“ Hún tekur það sérstaklega fram að maðurinn er EKKI starfsmaður borgarinnar og EKKI í beinu starfi með börnum.