Eftirlýsta slagorðið

Höf.: Eyja Margrét Brynjarsdóttir

 

Af og til á undanförnum árum hef ég rekist á fólk sem segir eitthvað á þá leið að vissulega hafi femínistar gert ýmislegt gott en stundum gerist íslenskir femínistar nú sekir um ofstæki, öfgar eða karlahatur og að gott dæmi um það hafi verið þarna um árið þegar þeir notuðu slagorðið „Karlar nauðga“. Nú getur merking vissulega verið misjöfn eftir samhengi og aðstæðum en ég á satt að segja erfitt með að ímynda mér það samhengi sem gerði það að góðri hugmynd að nota þetta sem slagorð, af ýmsum ástæðum sem mér finnst eiginlega ekki taka því að tíunda. Sem sagt þá gæti ég vel tekið undir að slagorðið „Karlar nauðga“ sé afleitt sem slíkt og mögulega merki um ofstæki, öfgar eða karlahatur. Málið er bara það að ég held að íslenskir femínistar hafi aldrei notað það.

Þessir eru alveg vissir um að þetta var hér allt í gær!

Þegar ég hef spurt hvenær slagorðið ósmekklega hafi verið notað og af hverjum þá hef ég annað hvort fengið mjög óljós svör, að viðkomandi muni nú ekki nákvæmlega hver hafi notað þetta eða hvenær, eða ég hef fengið svör sem við nánari athugun fengu ekki staðist. Lítum nú á nokkrar útgáfur af hinu síðarnefnda:

1. Þetta var herferð á vegum Stígamóta

Í einni útgáfunni stóðu Stígamót fyrir auglýsingum í strætisvögnum fyrir einhverjum árum síðan sem á stóð stórum stöfum „KARLMENN NAUÐGA“ og svo Stígamót undir. Þetta væru svo sannarlega ljótar auglýsingar ef rétt væri. Ég grennslaðist fyrir um þetta hjá Stígamótum og þar kannast enginn við þessa herferð.

2. Þetta var herferð karlahóps Femínistafélags Íslands fyrir verslunarmannahelgina 2003. Einföld athugun leiddi í ljós að herferðin hét „Nauðgar vinur þinn?“. Seinna var karlahópurinn svo með herferð sem hét „Karlmenn segja NEI við nauðgunum!“. Strax meðan á þessari herferð stóð virðist þó sú saga með einhverjum dularfullum hætti hafa komist á kreik að hún héti „Karlar nauðga“ eða „Strákar nauðga“. Sem dæmi um það má nefna þennan umræðuþráð á Málefnunum frá því rétt fyrir verslunarmannahelgi 2003. Þarna er verið að ræða um þessa herferð og einhvern veginn fer umræðan fljótt út í þras fram og til baka um það hvort „Karlar nauðga“ sé viðeigandi slagorð. Loksins á síðu 5 í þræðinum rankar einhver við sér: „Ég var nú að komast að því að þessi umræða okkar hér er rugl…slagorð ofbeldisvarnarhóps Femínistafélags Íslands er: Nauðgar vinur þinn?“ Þarf að hafa fleiri orð um þetta?

3. Það er fjöldinn allur af greinum á netinu sem femínistar hafa skrifað að undanförnu sem hafa þann boðskap að allir karlar séu líklegir til að nauðga. (Hér er að vísu vikið frá því að um sé að ræða sérstakt slagorð, en boðskapurinn væri væntanlega sá sami eða svipaður.)

Þegar ég hef beðið um nánari ábendingar um slíkar greinar hef ég þó ekki fengið þær. Geti einhver bent mér á þennan herskáa femíníska greinabálk sem farið hefur fram hjá mér þá væri það vel þegið.

4. Þessu var haldið fram í MA-ritgerð í mannfræði árið 2004

Þarna er átt við ritgerð Guðrúnar M. Guðmundsdóttur „Af hverju nauðga karlar?“ Titill ritgerðarinnar vakti mikið umtal og sumir héldu því fram að hann fæli í sér þá staðhæfingu að allir karlar nauðguðu. Eins og glöggt má sjá ef litið er til þess sem Guðrún hafði að segja, bæði í ritgerðinni sjálfri og í viðtali um hana í Morgunblaðinu, er langt frá því að hún hafi gefið nokkuð slíkt í skyn eða að hún sé að halda uppi einhverjum áróðri þess efnis að allir karlar séu nauðgarar.

Ef „Af hverju nauðga karlar?“ felur það í sér að allir karlar nauðgi þá felur „Af hverju fitna börn?“ það væntanlega í sér að öll börn séu feit, „Af hverju beita mæður börn sín ofbeldi?“ felur í sér að allar mæður geri slíkt og „Af hverju hætta unglingar í skóla?“ gefur til kynna stórfellt brottfall úr skólum á unglingastigi. Eða hvað?

5. Slagorðið er að finna á jólakorti Femínistafélags Íslands

Árið 2005 lét Femínistafélagið útbúa rafræn jólakort með teiknuðum jólasveinum sem báru fram femínískar jólaóskir. Tveimur árum síðar voru einhver þessara korta prentuð og seld. Eitt af kortunum frá 2005 varð strax umdeilt vegna textans sem á því var og það var ekki meðal þeirra sem prentuð voru. Á kortinu stendur: „Askasleikir óskar sér að karlar hætti að nauðga.“ Sumum þótti þessi texti gefa til kynna að allir karlar, eða meirihluti karla, væru líklegir til að nauðga meðan aðrir sáu ekkert athugavert við hann. Hér held ég reyndar að fólk lesi mismunandi merkingu út úr textanum eftir því samhengi sem það setur hann í. Þeir sem telja sig hafa ástæðu til að tortryggja það sem kemur frá Femínistafélaginu eða til að vera almennt varir um sig gagnvart því sem femínistar segja um karla og nauðganir skilja textann sem alhæfandi árás á karla. Þeir sem ganga út frá því að þeir sem hafi útbúið kortin hafi haft það eitt fyrir augum að setja fram áróður gegn nauðgunum skilja textann sem eitthvað sárasaklaust og sjá enga alhæfingu út úr honum. Samhengið hefur nefnilega heilmikið að segja um það hvort við lesum alhæfingar út úr setningum sem að forminu til eru þær sömu eða svipaðar. Ef karlrembufélagið byggi til dæmis til kort með áletruninni „Jólasveinarnir óska þess að konur hætti að væla“ þá lægi beint við að líta á það sem alhæfandi dylgjur um konur, þrátt fyrir að það sé óumdeilt að til eru konur sem væla og mættu gjarnan hætta því. Ef kennarasamtök gæfu hins vegar út „Jólasveinarnir óska þess að unglingar hætti að falla brott úr námi“ þá myndum við varla skilja það sem alhæfingu um unglinga.

Í stuttu máli sagt þá er skiljanlegt að einhverjir hafi túlkað þetta tiltekna jólakort sem aðdróttanir í garð karla, jafnvel þótt ég geri sjálf ekki ráð fyrir að það hafi verið tilgangur þeirra sem áttu hugmyndina að því. En burtséð frá því þá fæ ég ekki séð að þetta sé það sama og að fara um með slagorðið „Karlar nauðga“ á vörunum.

6. Slagorðið „Karlar nauðga“ er afskaplega algengt slagorð hjá femínistum í alls konar samhengi. Það þarf nú ekki annað en að gúgla þetta orðasamband til að finna hafsjó af dæmum.

Þegar ég gúgla „Karlar nauðga“ finn ég eftirfarandi:

a) Umræður þar sem gengið er út frá því að femínistar hafi notað þetta sem slagorð án þess að það sé rökstutt nánar. Til dæmis í umræðuþræðinum við þessa bloggfærslu: http://kaninka.net/snilldur/?p=1974

b) Umræður um meistaraprófsritgerð Guðrúnar M. Guðmundsdóttur sem ég tala um hér að ofan og einhverjir halda því fram að titillinn jafngildi orðasambandinu.

c) Umræður um jólakort Femínistafélagsins.

d) Þessi tvö orð inni í lengri setningum sem hafa aðra merkingu, meðal annars „Það er erfitt að ná utan um tölur yfir hversu mörgum konum er nauðgað og jafnframt hversu margir karlar nauðga…“ og „Þar sem langfæstir karlar nauðga…“.

Ég prófaði líka að gúgla „Karlmenn nauðga“ og fann þá eitthvað af ásökunum á hendur femínistum um að þeir stunduðu það að hrópa þetta. Í skrifum frá femínistunum sjálfum gat ég ekki fundið neitt á þá leið, en orðin tvö koma vissulega stundum fyrir saman inni í lengri setningum, eins og í „Um leið má þó hafa hugfast að fæstir karlmenn nauðga nokkurn tímann…“.

Niðurstaða: Leit mín að notkun slagorðsins ógurlega af hálfu femínista stendur enn. Ábendingar eru vel þegnar svo lengi sem þær fela eitthvað haldbært í sér. (Að gefnu tilefni áskil ég mér rétt til að láta hjá líða að taka mark á ábendingum á borð við „Þetta er út um allt á Facebook“, „Þetta er út um allt net, gúglaðu bara sjálf“, „Ég man glöggt að þetta gerðist en get þó ekki sagt til um hvar eða hvenær“ eða „Láttu ekki eins og þú vitir ekki af þessu, nóg er nú til af dæmunum“.)

 

9 athugasemdir við “Eftirlýsta slagorðið

 1. Varðandi slagorðið „karlar nauðga“ (sem ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir að hafa heyrt notað, leiðir leit á tímarit.is mig á þessa umfjöllun í Veru þar sem lagt er út af ritgerð Guðrúnar M. Guðmundssonar. Fyrsta setningin er:
  „Karlmenn nauðga og komast upp með það, er niðurstaða Guðrúnar M. Guðmundsdóttur mannfræðings sem rannsakað hefur málið.“ Þetta er aðeins afdráttalausari staðhæfing en í titli ritgerðar Guðrúnar (og er væntanlega á ábyrgð höfundar greinarinnar, Elísabetar Þorgeirsdóttur).

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=346530&pageId=5432052&lang=is&q=Karlmenn+nau%F0ga

  Og í bloggfærslu Hildar sem Eyja vísar í er það Hildur sjálf sem gengur út frá því að Sóley Tómasdóttir hafi notað þetta orðalag (hún nefnir það henni til hróss):

  „En tilfellið er að Sóley berst, rétt eins og ég, bara fyrir jafnrétti. […] Hún tekur sterkt til orða um misréttið sem hún upplifir í sífellu, á eigin skinni og annarra, hún fegrar ekki og notar ekki skrauthvörf, hún segir ekki „sumir karlar“ eiga sök á hinu og þessu, heldur „karlar.“ Hún segir ekki að sumir karlar nauðgi eða eigi sök á efnahagshruninu heldur að karlar nauðgi og eigi sök á efnahagshruninu. Og ég get skilið að það stingi en tilfellið er að hún segir aldrei að þetta gildi um alla karla.“

  Í athugasemdum við færsluna skapast umræða um þetta orðalag, sumir eru mótfallnir því en aðrir taka undir með Hildi, þar á meðal Ingólfur Gíslason og Hildur Knútsdóttir, sem hafa bæði látið að sér kveða í umræðu um femímisma og óhætt er að kalla íslenska femínista. Öll ganga þau út frá því að slagorðið „karlar nauðga“, hafi verið notað. Þau vísa ekki í heimildir eins og Eyja bendir á en aftur á móti sé ég ekki betur en að þau séu sammála inntaki slagorðsins og réttmæti þess að nota það.

  Ég skil svo sem að einhverjum kunni að finna þetta orðalag stuðandi, þótt það stingi sjálfan mig svo sem ekki. Eyja segir hins vegar í grein sinni: „Sem sagt þá gæti ég vel tekið undir að slagorðið „Karlar nauðga“ sé afleitt sem slíkt og mögulega merki um ofstæki, öfgar eða karlahatur. Málið er bara það að ég held að íslenskir femínistar hafi aldrei notað það.“ Ég held hins vegar að þessi dæmi sem ég nefni sýni að íslenskir femínistar hafi vissulega notað orðalagið „karlar nauðga“ í opinberri umræði – þó ekki endilega sem slagorð.

  • Það að nota eitthvað sem slagorð setur það í talsvert annað samhengi en ef það er sagt í umræðu í annars konar samhengi. Ef ég væri að tala um eitthvað í sambandi við morð í Póllandi gæti verið fullkomlega eðlilegt að ég segði, í einhverju samhengi, „Pólverjar myrða“ og svo eitthvað relevant í framhaldi af því. Það væri engin ástæða til að túlka það sem einhverjar dylgjur í garð Pólverja almennt. Ef ég færi hins vegar af stað með herferð með yfirskriftina „Pólverjar myrða“ þá væri það allt, allt annað mál. Án þess að þekkja samhengið þá segir það manni ósköp lítið að Sóley Tómasdóttir, eða einhver annar, hafi sagt „karlar nauðga“. Það er auðvitað fullkomlega satt að karlar nauðgi, í þeim skilningi að sumir þeirra geri það. Í sama skilningi er það líka satt að konur nauðgi, að foreldrar misþyrmi börnum sínum o.s.frv. Og í ýmsu samhengi getur verið meiri ástæða til að ræða sérstaklega um að karlar nauðgi, af þeirri ástæðu að þeir eru í miklum meirihluta gerenda, þótt það geti svo í öðru samhengi verið ástæða til að tala um að konur nauðgi. En punkturinn er sá að ekkert af því jafngildir því að eitthvað af þessu sé sett fram sem slagorð, sem mundi gjörbreyta samhenginu. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig einhverjum færi að detta í hug að nota „Karlar nauðga“ sem slagorð. Slagorð fyrir hvað? Hver væri boðskapurinn með slíku slagorði? Að hvetja karla til að nauðga (sbr. slagorðið „Íslendingar borða SS-pylsur“)? Að gera karla upp til hópa tortryggilega? Hvað væri áunnið með því?

   Nú get ég ekki talað fyrir Ingólf eða Hildi en ég held að það að fara að verja réttmæti notkunar einhvers ímyndaðs slagorðs þurfi ekki að jafngilda því að þau hefðu sjálf valið slíkt slagorð fyrir einhverjar raunverulega herferð sem þau færu að skipuleggja.

 2. Ég kem því hér með að, að ég hef enga vitneskju um neina „karlar nauðga“ herferð nokkurs staðar. Það sem ég man eftir er jólakortið fræga. Hins vegar les ég dálítið af mjög herskáum útlenskum femínistum sem skrifa svona hluti – en það sem þeir eiga við er nákvæmlega þetta: Spurning: Hvað eiga nauðgarar sameiginlegt? Svar: Þeir eru karlar.

  Til að útskýra það enn frekar þá er meiri hugsun á bakvið þetta. Oft og iðulega er talað um nauðgun á þann hátt að það kemur ekki fram að það er einhver sem nauðgar. Talað er um að konum sé nauðgað, körlum sé líka nauðgað, svo og svo margir lenda í nauðgun, verða fyrir ofbeldi. Í öllu þessu kemur ekki fram grundvallaratriðið, að það eru einhverjir sem gera þessa hluti. Þannig að í staðinn fyrir að segja: Um 25% kvenna eru beittar kynferðisofbeldi einhvern tíma, gæti maður sagt: Um 25% kvenna lenda í því að karl beitir þær kynferðisofbeldi, eða karlar beita 25% kvenna kynferðisofbeldi. Áherslan er á að vandinn sé gerenda, sem eru karlar. Það eru fyrst og fremst karlar sem nauðga.

  • Ég var einmitt að leita að tölfræði varðandi kynjahlutföll nauðgara og rakst inn á þessa síðu sem er með ágætar upplýsingar að mörgu leiti. Það er hins vegar hvergi minnst á kynjahlutföll, eða ég sá það ekki, nauðgara eð hversu mörg % karla/kvenna eru nauðgarar. Mér sýndist reyndar að það væri bara gefin ónefnd staðreynd að karlar nauðgi en konur séu fórnarlömb. Það væri áhugavert að sjá þessa tölfræði.

 3. Hér er yfirlit, aðallega um þolendur: http://www.cdc.gov/ViolencePrevention/pdf/sv-datasheet-a.pdf (Bandarískt samhengi)
  Hér er yfirlit, líka um gerendur: http://www2.binghamton.edu/counseling/documents/RAPE_FACT_SHEET1.pdf

  Einföldustu matstölur: 13-18% kvenna er nauðgað einhvern tíma í lífinu. 6-14% karla nauðga einhvern tíma í lífinu.

  Það er hægt að finna heimildir sem meta líka nauðganir sem ekki er dæmt fyrir, en þessi skýrsla segir að 99% dæmdra nauðgara séu karlar. http://bjs.ojp.usdoj.gov/content/pub/pdf/SOO.PDF

 4. Þetta er ekki spurning um eitthvað slagorð heldur orðræðu margra feminista. Fjölmörg dæmi finnast um að málsmetandi feministar noti þetta orðalag, á borð við „karlar nauðga“, „karlar komast upp með nauðganir“, o.s.frv. eins og Bergsteinn benti á hér að ofan. Svo verður ekki komist hjá jólakortinu fræga. Það kom frá opinberum samtökum íslenskra feminista. Því er innantómt að reyna að komast undan ábyrgð feminista á þessari orðræðu.

  Í Bandaríkjunum eru svartir þrisvar sinnum líklegri en aðrir kynþættir til að vera dæmdir fyrir morð. Það myndi samt engri heilvita manneskju detta í hug að láta hafa eftir sér „svartir myrða“ í blaðaviðtali eða hreinlega í samtali við vini. Hvað sem allri tölfræði líður eru ekki allir svartir morðingjar, og ekki eru allir karlar nauðgarar. Þetta er því móðgandi orðræða í garð allra karla.

  • Þetta er reyndar víst spurning um slagorð. Margir hafa haldið því fram að þetta hafi verið notað sem slagorð og tala eins og það sé gefinn hlutur að það hafi gerst. Ég taldi rétt að leiðrétta þá rangfærslu.

   Hvernig orðræðan er og hvaða skilning megi leggja í orð hinna ýmsu femínista undir hinum ýmsu kringumstæðum og í ýmiss konar samhengi er svo miklu stærra og flóknara mál. Ákveðinn hópur virðist reyndar staðráðinn í því að líta á allt sem sagt er í nafni femínisma sem tortryggilegt og að túlka það á versta mögulega veg. Mér sýnist eiginlega fremur tilgangslaust að reyna að ræða við þann hóp um það í hvaða samhengi hlutir eru sagðir eða settir fram en minni á velvildarregluna (gúglast sjálfsagt sem principle of charity) sem flest hugsandi fólk lítur á sem grundvallarreglu í allri túlkun. Ég held að 99,9% mannkyns, hvort sem um er að ræða femínista eða ekki, geri sér grein fyrir því að það séu ekki allir karlar nauðgarar. Flestum finnst það satt að segja svo hrópandi augljóst að þeir sjá ekki ástæðu til að taka það fram, t.d. þegar sagt er „karlar komast upp með nauðganir“, að þarna sé aðeins átt við *þá karla sem nauðgi* en ekki alla karla í heiminum. Ég fæ ekki séð hvaða hag neinn (þar með talið femínistar) ætti að hafa af því að halda því fram að allir karlar væru nauðgarar (nema þá kannski einmitt þeir sem eru nauðgarar og vilja trúa því að þetta sé eitthvað sem allir geri bara) eða hvernig í ósköpunum það ætti að hvarfla að nokkurri heilvita manneskju sem hefur lifað í mannlegu samfélagi og umgengist fólk af báðum kynjum að allir karlar væru nauðgarar. Þetta er bara svo frámunalega heimskuleg alhæfing og þar með langsótt túlkun á orðum sem eru áreiðanlega í yfirgnæfandi meirihluta tilvika ekki hugsuð sem slík alhæfing, eins og væntanlega má ráða af samhenginu.

Færðu inn athugasemd við Kristín Páls Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.