LEGO – varðhundur kynhlutverkanna

Höf.: Nikolaj Munk
Þýð.: Halla Sverrisdóttir

Danskir netheimar endurómuðu af fagnaðarhrópum (sjá t.d. hér og hér) þegar í ljós kom að markaðssetningin á LEGO Friends hafði tekist með eindæmum vel og skilað LEGO gríðarlegum hagnaði. Hvers vegna vakti þessi árangur fyrirtækisins svona fölskvalausa gleði? Jú, vegna þess að margir femínistar hafa gagnrýnt LEGO fyrir að hafa fest staðalmyndir kynjanna og kynhlutverk enn frekar í sessi með þessari nýju leikfangalínu. Ráðherra jafnréttismála, Manu Sareen, hefur tekið undir þá gagnrýni. En LEGO lét þessar bitru, fúlu femínistakerlur ekki trufla sig hætishót – og stóð uppi með pálmann í höndunum! Húrra! Algjör Hollywood-endir.

Enn gleðilegri fréttir bárust nú á dögunum af bæði dönsku og alþjóðlegu atvinnulífi: LEGO hefur þénað svo vel á nýju línunni – raunar tvöfalt meira en væntingar stóðu til – að fyrirtækið þarf að ráða 1000 nýja starfsmenn til að standa undir vinnuálaginu í verslununum. Hér erum við sem sagt að tala um sömu leikfangalínuna og Sareen jafnréttismálaráðherra gagnrýndi nýlega[1] á Facebook-síðu sinni: „Það hefur verið lífleg umræða um LEGO-línuna LEGO Friends, sem er sérstaklega beint að stúlkum sem markhópi, m.a. með mikilli notkun bleika litarins. Gagnrýnin beinist einkum að því að leikföngin byggi um of á staðalmyndum kynjanna. Ég er sammála því. Það er gremjulegt að fyrirtæki sem framleiðir jafn einstaka og hugmyndaauðgandi vöru og LEGO gerir skuli nú taka þátt í að halda hefðbundnum kynhlutverkum að börnunum.“

En Camilla-Dorothea Bundgaard á bloggsíðunni Damefrokosten er ekki sammála ráðherra jafnréttismála og fjallar ítarlega um málið í færslunni Piger må også gerne gå i kjole!:

[…] femínistaskarinn, með Manu Sareen sér til fulltingis, er að æsa sig að ástæðulausu. Jafnrétti snýst nefnilega ekki um annað hvort/eða. Það snýst um bæði/og. Það snýst ekki um að það sé frábært þegar Herbert fer í kjól en skelfilegt að Henriette geri það.

Hinn danski Herbert, sem finnst best að vera í kjól

Já, ætli við munum ekki öll eftir Herbert-umræðunni. Það var þarna í fyrra, þegar allir femínistarnir ráku upp ægilegt stríðsöskur og hafa allt frá þeim degi, eins og alþjóð veit, barist af offorsi fyrir því að héðan í frá muni aðeins drengir mega klæðast kjólum og stúlkur aldrei öðru en buxum. Í besta falli stuttbuxum, ef hitinn fer yfir 25 stig.

Þetta snýst ekki um að stelpur megi fyrir alla muni ekki leika sér með neitt bleikt. Þetta snýst um að þær megi líka leika sér með bleik leikföng, rétt eins og að drengir eigi að mega það. Og það sama gildir auðvitað um blá leikföng, með sömu formerkjum, ef einhver skyldi nú velkjast í vafa.

Prýðilegt. Ætli við getum ekki flest verið sammála um það.

Í fyrsta lagi er enginn tilgangur með því að láta kynin skipta um hlutverk – það er ekkert jafnrétti fólgið í því. Í öðru lagi er hugsunarhátturinn á bak við allt þetta uppistand ótrúlega ferkantaður því það veit enginn hvort stelpunum sem finnst frábært að leika sér með Legodót finnst líka frábært að leika sér að Ninja Turtles dóti. Og í þriðja lagi er nú þegar vaxin úr grasi heil kynslóð kvenna sem átti foreldra sem voru afskaplega meðvitaðir um staðalmyndir kynjanna en sem hafa samt fengið að leika sér með bleik leikföng. Margar þessara kvenna fást í dag við nákvæmlega sömu störfin og karlkyns jafnaldrar þeirra. Þær standa ekki heima og strauja og þvo og elda. Þær eru í námi og í vinnu. Þær eru úti í samfélaginu, fjárhagslega sjálfstæðar og með bein í nefinu. Svo allt þetta bleika dót er kannski ekki svona hættulegt.

[…] Slöppum bara af og kaupum dálítið af stelpuleikföngum, eitthvað af „Cars“-dóti og einn-tvo kjóla handa krökkunum og látum þau sjálf ráða fram úr þessu. Ætli þau verði ekki sjálfstæðar, óheftar manneskjur þegar upp er staðið, sérstaklega ef við leyfum þeim að verða það og kennum þeim að verða það. Bleik eða blá leikföng breyta þar engu um. Og stelpur mega bara alveg ganga í kjólum!

Allt í fína. Tökum þetta aðeins saman: Bæði stelpur og strákar mega leika sér með bleikt dót og það sama á við um blátt dót. Það er einfaldlega móðursýki hjá femínistunum að halda því fram að nýja LEGO Friends-dótið geti verið varasamt. Því það þarf jú ekki að vera „stelpudót“ eða ýta undir staðalmyndir kynjanna, bara vegna þess að það er bleikt!

Höfum þessi vísdómsorð Camillu í huga þegar við kíkjum inn á heimasíðu LEGO Friends. Hér er það sem fyrir augu ber:

Fullt af bleiku. Allt í góðu með það, eins og við höfum fregnað þarf það ekki að þýða neitt. Þarna er dýraspítali með hesti og litlum hundakofa – og fimm flissandi stelpur. Allar fimm eru afskaplega stelpulega til fara og þær eru allar í einhverri flík, skóm eða með fylgihlut sem er bleik að meira eða minna leyti.

Auðvitað eru leikföngin sem hér eru kynnt líka fyrir stráka! Þeir geta samsamað sig með samtals … engri af persónunum á myndinni.

Setjum okkur nú í ímyndargírinn stundarkorn og gefum okkur þá forsendu að bleiki liturinn sé almennt frekar tengdur stúlkum en drengjum. Það krefst nokkurrar einbeitingar, ég veit, en við skulum samt koma í þykjustuleik þar sem bleiki liturinn kemur nánast aldrei fyrir í hönnun leikfanga ætluðum drengjum og auglýsingum fyrir slík leikföng og þar sem bleiki liturinn kemur mjög oft fyrir í hönnun leikfanga ætluðum stúlkum og auglýsingum fyrir slík leikföng. Ímyndum okkur líka að að auglýsingar geti í raun haft bein áhrif á viðhorf og heimsmynd barna (ef þetta síðasta er of snúið er það allt í lagi).

Getið þið reynt að ímynda ykkur þess háttar heim? Flott.

Í ímyndaða „bleikt-er-fyrir-stelpur“-heiminum okkar væri freistandi að halda því fram að LEGO Friends sé ólíklegt til að ná verulegum vinsældum meðal drengja. Markhópurinn fyrir þessa vöru væri líklega einkum stúlkur.

Ættum við þá kannski að skoða aðeins hvað það er sem LEGO Friends-línan í raun býður stúlkum upp á?

Tvær af þessum vörum skera sig úr: Heartlake Flying Club og Adventure Camper. Báðar þessar vörur gefa færi á að LEGO Friends-stúlkurnar fáist við iðju og starfsemi sem við tengjum alla jafna frekar við drengi og karlmenn. Gæti verið verra.

Hinar þrettán eru hins vegar afar dæmigert „stelpudót“. Þarna erum við með bleika húsið, kaffihúsið, dýralækninn, bakaríið, kanínugerðið, já og gæludýrasnyrtistofuna. LEGO Friends-stúlkurnar okkar fimm fá með öðrum orðum ekki ýkja mörg tækifæri til að gera eitthvað sem er virkilega gagnlegt fyrir samfélagið. Margar af vörunum byggja á þeirri grundvallarhugsun að sýna stúlkur sem umhyggjusamar, félagslega virkar eða hégómlegar – sem eru gildi sem gjarnan eru tengd við stúlkur og konur.

Hvernig væri þá að kíkja á nokkur dæmi um það sem drengjunum er boðið að gera í þessari litlu LEGO-tilraun okkar? Hér eru tvö dæmi um vörulínu þar sem kvenkyns einstaklingar eru næstum ekki sjáanlegir eða með öllu ósýnilegir og þar sem auglýsingar sýna drengi að leik. Þeim stendur t.d. til boða:

Fjúff, maður, eins gott að þetta sem ég var að lýsa núna er bara svona tilbúinn veruleiki og að börn skuli í raun vera bæði mjög gagnrýnin á veruleikann sem birtist í auglýsingunum og algjörlega laus við að verða fyrir minnstu áhrifum af skilaboðunum sem þau meðtaka ómeðvitað gegnum leik sinn – eða finnst ykkur það ekki?

 

Um höfundinn: Nikolaj Munk er nítján ára gamall Dani sem heldur úti bloggsíðunni mandfjols.dk og er einnig að finna á Facebook. Halla Sverrisdóttir þýddi með góðfúslegu leyfi.

 

 


[1] Fréttin sem er vísað í er raunar afskaplega gott dæmi um það þegar gagnrýnisrödd er breytt í „reiðilestur“ – hér er fyrirsögn fréttarinnar „Manu Sareen raser over …“ (þ.e. Sareen er „bálreiður yfir…“), sem verður að teljast óþarflega ýkt túlkun á fremur hófstilltum gagnrýnisorðum Sareens (innskot þýðanda).

6 athugasemdir við “LEGO – varðhundur kynhlutverkanna

 1. Nokkrar spurningar:

  Hvernig hafa Heartlake Flying Club og Adventure Camper selst?
  Er það gagnlegra fyrir samfélagið að berjast við skrímsli en að flissa með vinum sínum?
  Er það gagnlegra fyrir samfélagið að sinna námagreftri en að vinna á dýraspítala?

 2. Kæra dagbók, ég er óvinsæla frænkan sem gef stelpum aldrei bleikt og strákum grænt en ekki blátt – systkinadætur mínar HEIMTA bleikt og vilja að ég hætti þessari óumbeðnu „jafnréttisvæðingu“. Hvað á ég að gera?

 3. Bakvísun: 15. Feminismi er kvennamenningu fjandsamlegur | Pistlar Evu

 4. Bakvísun: Sjö aðferðir til að skaða framtíðarhorfur dætra okkar | *knúz*

 5. Bakvísun: LEGO og Charlotte og hinar stelpurnar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.