Höf.: Anna Bentína Hermansen
Að undanförnu hefur borið á umræðu um að femínistar séu leynt og ljóst að þrýsta á stjórnvöld til að taka upp svo kallaða „öfuga sönnunarbyrði“. Með hugtakinu „öfug sönnunarbyrði“ er átt við þegar sakborningur þarf að sanna sakleysi sitt, en í réttaríki er það hlutverk ákæruvaldsins að sanna sekt þess sakbornings sem ákærður er. Þau rök sem liggja á bak við þessa fullyrðingu virðast byggja á frumvarpi til laga sem þingmennirnir Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Valgerður Bjarnadóttir hafa ítrekað lagt fram á undanförnum árum[1]. Í greininni „Réttarvernd kynfrelsis“[2] útskýrir Atli hugmyndir sínar með frumvarpinu. Þar leggur hann höfuðáherslu á friðhelgi einkalífs, sem eru stjórnarskrárvarin réttindi samkvæmt 71. gr.[3] Þau réttindi hverfast um að hver maður hafi rétt til lífs og rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi. Frumvarpið leggur til breytingu á á nauðgunarákvæði hegningarlaganna þannig að dregið verði úr þætti ofbeldis eða hótunar um ofbeldi í verknaðarlýsingu ákvæðisins.
Ekki er tilgangur minn með þessari grein að svara fyrir frumvarpið, það geta þingmennirnir gert miklu betur en ég. Þrasið sem hefur myndast í kringum ofangreint frumvarp virðist byggjast á miklum vilja til að túlka það þannig að reynt sé að þvinga fram öfuga sönnunarbyrði. Hvergi í ofangreindu frumvarpi er minnst orði á slíkt heldur er farið fram á að andlegar afleiðingar nauðgana hafi meira vægi en nú er þegar kemur að sönnunarbyrði, enda andlegir áverkar oft alvarlegustu afleiðingar kynferðisofbeldis.
Gagnrýnendur þessa frumvarps gefa sér að sönnunarmat á andlegum áverkum (áfallastreituröskun) sé fúsk og að þeirra mati ekki haldbærar sannanir. Þeir gefa skít í slíka sérfræðiþekkingu og telja sig geta bent á áreiðanlegar rannsóknir sem sanni að hægt sé að gera sér upp áfallastreitu. Út frá þessum rannsóknum geta gagnrýnendur fullyrt að með því að leggja meiri áherslu á andlega þáttinn og hverfa frá verknaðarlýsingu séu „femínistar“[4] leynt og ljóst að sækjast eftir öfugri sönnunarbyrði.
Í kynferðisbrotum gegn börnum eru sýnilegir áverkar yfirleitt ekki til staðar og oft upplýsast þessi brot ekki fyrr en löngu eftir að þau eru framin. Sérfræðingar eru iðulega notaðir til að meta trúverðugleika vitna og sýna fram á afleiðingar brotanna. Fáum dettur í hug að tengja slíkt mat við öfuga sönnunarbyrði, enda ber ákæruvaldinu að koma með sannanir fyrir brotunum og leggja fram gögn sem hafin eru yfir skynsamlegan vafa.
Þungamiðjan í nauðgun er glæpurinn gegn kynfrelsi brotaþolans, rétt eins og þungamiðjan í þjófnaði er eignatjónið sem eigandinn verður fyrir. Stuldur á reiðhjóli er alveg jafn mikill stuldur hvort sem þjófurinn beitir valdi með því að slíta hjólið úr höndum eigandans eða tekur hjólið í leyfisleysi af lóð hans. Verknaðaraðferð þjófsins skiptir ekki máli hvað varðar eðli brotsins. Sama gildir ekki um nauðganir. Þar er megináhersla lögð á að annars konar ofbeldi sé beitt við verknaðinn eða hótunum um slíkt. Reiðhjólið okkar er því í raun betur varið en kynfrelsi okkar og líkami.
Nauðgunarákvæðið hefur margoft verið gagnrýnt
Nauðgun og önnur ólögmæt kynferðisnauðung eru samsett brot sem felast í ólíkum verknaðarþáttum, þ.e. ofbeldi, hótunum, nauðung og þvingunum í þeim tilgangi að ná fram kynmökum gegn vilja brotaþola. Margir fræðimenn hafa bent á að heildarskilning á brotinu skorti þegar fjallað er um málin í réttarkerfinu; þar sem aðaláherslan virðist lögð á það ofbeldi sem er beitt og það yfirskyggir allt annað[5]. Niðurstaða í dómum bendir til að tjón brotaþola sé metið út frá líkamlegum áverkum sem ekki eru til staðar nema í fjórðungi mála[6].
Gagnrýnin umræða um kynferðisbrot og meðferð þeirra í réttarkerfinu er ekki bundin við Ísland, né einskorðast sú gagnrýni við yfirlýsta femínista. Þessi mál hafa verið mikið til umfjöllunar víðs vegar um heiminn í fjölmörg ár og umræðan hefur leitt til þess að löggjöf hefur verið breytt til þess að standa vörð um mannréttindi brotaþola. Markmiðið með breytingunum er alls staðar hið sama: í fyrsta lagi að einfalda reglurnar og gera þær nútímalegri með aukinni þekkingu á þessu sviði; í öðru lagi að auka vernd brotaþola gegn kynferðisbrotum.
Löggjöf er sett með það að markmiði að hafa almenn og sérstök varnaðaráhrif, að fæla einstaklinga frá brotunum og endurhæfa þá. Hún er einnig sett til þess að fullnægja réttlætistilfinningu þjóðfélagþegna sem sætta sig ekki við að einstaklingur geti órefsað skert mikilvæg réttindi annars einstaklings[7].
Breytingar á lagaákvæðum um nauðgun 2007
Lagaákvæðin um nauðgun er að finna í 22. kafla almennra hegningarlaga (194. grein) sem var endurskoðaður og samþykktur sem lög nr. 61/2007. Í frumvarpi þeirra laga er það sjónarmið lagt fram að dregið verði úr áherslu á verknaðaraðferðir en í staðinn verði megináhersla lögð á brot gegn kynfrelsi brotaþola þar sem samþykki skortir.
Enda er aðalatriði kynferðisbrots að brotið hefur verið gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi kynlíf, frelsi þess og friðhelgi, sem er alvarlegast fyrir brotaþola. (Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor, 2006. Bls. 98).
Í frumvarpinu er tekið fram að ekki séu skilyrði um að ofbeldið sé svo mikið og þolandi svo illa leikinn að hann verði bjargarlaus. Engar kröfur eru gerðar varðandi eðli árásar eða varanlegar afleiðingar af henni og þurfa afleiðingar ekki að vera aðrar en kynmökin sem ætlunin er að ná fram með ofbeldinu, enda eru þau þungamiðja brotsins. Einnig kemur þar fram að rannsóknir hafi sýnt að brotaþolar kynferðisofbeldis verði yfirleitt fyrir miklu andlegu áfalli við árásina. Oftast hefur slíkt andlegt áfall mun meiri afleiðingar fyrir brotaþolann en hugsanlegir líkamlegir áverkar, þar sem kynferðisofbeldi skilur eftir varanleg spor í sálarlífi þolenda. Eða eins og segir í frumvarpinu:
Þessi einkenni geta sálfræðingar og aðrir sérfræðingar greint og við sönnunarmat og ákvörðun refsingar er sjálfsagt að taka tillit til upplýsinga frá þeim um líðan þolenda eftir kynferðisbrot. (Ragnheiður Bragadóttir 2006. Bls. 138).
Tilgangur kynferðisbrotalaga er ekki „öfug þolandabyrði“
Lögin eiga að vernda persónufrelsi, tryggja öryggi brotaþola og refsa kynferðisbrotamönnum. Eins og staðan er í dag er raunin sjaldnast sú þar sem afar fá nauðgunarmál berast dómstólum og af þeim nauðgunarmálum sem tilkynnt eru enda um 3% með sakfellingu[8]. Flestum finnst þetta ekki viðunandi og vilja leita leiða til að tryggja enn frekar rétt brotaþola en 194. grein hegningarlaga um nauðgun á að hverfast um verndarhagsmuni þeirra.
Þær raddir sem hafa hljómað um að femínistar leitist við að umbreyta sönnunarbyrði þannig að ákærði þurfi að sanna að hann hafi ekki nauðgað brotaþola, byggja á afar huglægu mati og lítilli þekkingu á eðli og afleiðingum nauðgana. Rauði þráðurinn í gagnrýni þeirra virðist beinast að því sem ég vil kalla „öfug þolendabyrði“ þar sem hinn ákærði er sjálfkrafa og án nokkurra forsenda settur sem líklegt fórnarlamb þeirra sem kæra að ósekju.
Verndarhagsmunir 194 gr. hegningarlaga hverfist þannig um sakborning og þá hættu að hann verði dæmdur sekur út frá öðrum þáttum en líkamlegu ofbeldi. Í raun og veru er slík framsetning viðsnúningur á þeim verndarhagsmunum sem lögunum er ætlað að gæta. Í réttarríki ber ákæruvaldi að sanna sekt hins ákærða og hvers kyns vafi er hinum ákærða alltaf í hag. Í réttarríki ber líka að vernda samfélagsþegna fyrir hvers kyns nauðung, þvingunum og brotum.
Eins og staðan er í dag er réttarvernd kynfrelsis ekki tryggð og því þarf að breyta.
[2] Atli Gíslason og Jóhanna Katrín Magnúsdóttir (2006). Réttarvernd kynfrelsis. Guðrúnarbók. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
[4] Gríðarleg gagnrýni hefur verið á verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins. Ekki er ljóst hversu margir femínistar eru þar á meðal, enda slík flokkun jafnhæpin og að flokka gagnrýnendur eftir aldri, kyni, stjórnmálaskoðun eða öðrum breytum.
[5] Ragnheiður Bragadóttir 2006. Kynferðisbrot. Reykjavík: Lagastofnun Háskóla Íslands.
[6] Skýrsla nauðgunarmálanefndar. Rv. 1989, 361 bls. (Sameiginlegar tillögur og greinargerðir er Jónatan Þórmundsson samdi ásamt fjórum öðrum nefndarmönnum og ritara nefndarinnar, 80 bls., svo og ritgerð Jónatans Þórmundssonar: Um kynferðisbrot, bls. 95-130.
[7] Ragnheiður Bragadóttir 2006. Kynferðisbrot. Reykjavík: Lagastofnun Háskóla Íslands.
Það væri áhugavert að heyra afstöðu þína til umrædds frumvarps, Anna Bentína, því í því felst einmitt að snúa eigi sönnunarbyrðinni við: Með því að taka skilgreininguna á nauðgun úr lagatextanum neyðast dómarar til að lesa greinargerðina til að úrskurða hvað sé nauðgun. Í greinargerðinni stendur m.a. eftirfarandi:
„Ástæða er til að árétta að tímabundnar og varanlegar andlegar afleiðingar nauðgunar eru augljósar og þekktar og einatt alvarlegri og síður læknanlegar en líkamlegir áverkar meiri háttar líkamsmeiðinga. Komi þessar andlegu afleiðingar fram eftir kynmök eru fram komnar fullnægjandi sannanir fyrir því að þolandanum hafi verið þröngvað til kynmaka, að ofbeldi hafi verið beitt eða hótun um ofbeldi.“
Hér er verið að tala um áfallastreituröskun, sem fylgir stundum í kjölfar nauðgunar. Að halda því fram að með slíkum einkennum séu „fram komnar fullnægjandi sannanir fyrir því að þolandanum hafi verið þröngvað til kynmaka“ er brjálæðislegt, af því að sömu einkenni geta átt sér margs konar ástæður en nauðgun.
Að dómarar eigi að líta á það sem fullnægjandi sannanir fyrir nauðgun að meint fórnarlamb sýni einkenni af þessu tagi er nákvæmlega að snúa sönnunarbyrðinni við, því með því er verið að þvinga sakborning til að verja sig gegn „sönnunargögnum“ sem alls ekki geta sýnt fram á sekt hans.
Líkamlegir áverkar geta líka verið tilkomnir af öðrum ástæðum en ofbeldi. Sérfræðingar ættu ekki að vera í meiri vandræðum með að ákvarða orsakir áfallastreituröskunar en glóðarauga eða brotinnar tannar. Þetta eru heldur haldlítil rök á móti því að taka líðan fórnarlamba með í reikninginn.
Á hverju byggirðu þessa staðhæfingu, Ragnhildur? „érfræðingar ættu ekki að vera í meiri vandræðum með að ákvarða orsakir áfallastreituröskunar en glóðarauga eða brotinnar tannar“?
Sérfræðingar sem greina áfallastreituröskun sem rekja má til nauðgunar, eiga að greina hana út frá mörgum samverkandi þáttum, þá er spurningarlisti um áfallastreituröskun ekki nóg, eins og rannsókn sem Eva Hauksdóttir bendir á, segir til um. Fleiri þættir eru kannaðir eins og fortíð viðkomandi, önnur áföll, vitnisburður aðstandanda svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem sérhæfa sig í greiningu á áfallastreituröskun telja sig geta greint á milli þessara þátta.
Hægt er að gera sér upp verki og hægt er að gera sér upp allan fjandann ef út í það er farið. Sérfræðingar telja sig í mörgum tilfellum geta greint á milli uppgerðar og þess sem er ekki uppgerð. Á því byggir margra ára sérfræðinám og reynsla.
Frumvarp Atla og co hefur verið lagt fyrir fimm sinnum og alltaf vísað frá, ekki á þeim forsendum sem þú telur fram að það sé brjálæðislegt að taka tillit til áfallastreituröskunar, heldur vegna þess að nauðgunarákvæðið á að hljóma: Sá sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ´frá tveimur árum upp í 16 ár.
Þá vantar skilgreiningu á orðinu nauðgun og hún verður að vera til staðar. Þess vegna get ég ekki tekið undir frumvarpið óbreytt.
Að taka tillit til þátta eins og áfallastreituröskunar finnst hins vegar gagnrýnendum vera mesta brjálæðið. Það er að mínu mati brjálæðisleg afstaða, í ljósi þeirrar þekkingar sem skapast hefur á nauðgunarmálum og réttarvörslukerinu. Aðeins í 25% tilfella er barist á móti, nauðgunarákæðið í dag gerir ekki kröfur um að viðbrögð brotaþola eigi að snúast um líkamlega mótspyrnu, en þið virðist gera kröfur um hana.
Það væri fróðlegt að heyra hvaða afstöðu þeir sem túlka frumvarpið sem öfuga sönnunarbyrði, telja vera nauðgun?.
Því svo virðist sem þeir hafi þá skoðun að nauðgun sé ekki nauðgun nema til komi sýnilegir líkamlegir áverkar og þá er ekki nóg áverkar á kynfærum. Því eins og sumir pistlar hafa borið með sér er lítið gert úr áverkum á kynfærum og þeir gætu léttilega komið eftir harkalegt kynlíf. Þetta gerir gríðarlega lítið úr brotaþolum kynferðisofbeldis og þeim afleiðingum sem nauðgun felur í sér.
Það er rétt að taka fram að ég sagði ekki að það væri brjálæði að taka tillit til áfallastreituröskunar.
Nauðgun er í mínum huga það þegar manneskja er beitt einhvers konar nauðung til að ná fram kynmökum eða kynferðislegum athöfnum (sem þurfa ekki endilega að vera samræði, en þurfa að vera „grófari“ en koss). Undir þetta á líka að falla, eins og raunin er í dag, að nota sér hjálparleysi, t.d. svefndrunga eða andlega fötlun, til að koma fram vilja sínum.
En, það er ekki það sem við erum að ræða hér, er það? Heldur hvað skuli teljast sannanir í kynferðisbrotamálum. Burtséð frá því að það er alls ekki einfalt mál að greina áfallastreituröskun svo öruggt sé, hvað þá að fullvissa sig um af hverju hún stafi, þá er hún ekki meiri sönnun fyrir nauðgun en hnífssár er sönnun þess að ég hafi verið stunginn af annarri manneskju. Þ.e.a.s., slíkt getur aldrei verið fullnægjandi sönnun þess að ég hafi orðið fyrir árás annarrar manneskju.
Þetta er fáránlegur samanburður sem er í engu takti við það sem um ræðir. Sérfræðingar eru fengnir í að greina áfallastreitu, þeir eiga að geta greint hana með nokkurri fullvissu um að viðkomandi sé ekki að gera sér hana upp.
Hvað finnst þér vera fullnægjandi sönnun í kynferðisbrotamáli gegn barni, þar eru sjaldan áverkar fyrir hendi? Og hvernig á að sanna svefndrunga eða hjálparleysi? Og er auðveldara að sanna slíkt?
Ef eitthvað er þá tel ég að það sé í það minnsta haldbærari sönnun að ákvarða áfallastreitu en hvort viðkomandi brotaþoli hafi verið of hjálparlaus. Það hlýtur að byggjast enn frekar á huglægu mati. Í það minnsta höfum við eitthvað mat sem hlutlaus sérfræðingur á að sjá um til að meta áfallastreituröskun.
Hvað hefurðu fyrir þér í þessu, Anna?: „Sérfræðingar … eiga að geta greint hana með nokkurri fullvissu um að viðkomandi sé ekki að gera sér hana upp.“
Ég get ekki svarað því á neinn einfaldan hátt hvað séu fullnægjandi sannanir í kynferðisbrotamálum yfirleitt; enda er slíkt yfirleitt ekki gert í lögum, af skiljanlegum ástæðum. Ég get hins vegar sagt að frásögn barns í slíku máli ein sér getur ekki almennt séð verið fullnægjandi. Dæmin um hrylling sem af slíkri afstöðu hafa leitt eru of mörg. Hér eru tvö:
http://en.wikipedia.org/wiki/Kern_County_child_abuse_cases
http://en.wikipedia.org/wiki/McMartin_preschool_trial
Ólíkt lögfræðinni sem er byggð á gildum, hefðum og samkomulagi sem yfirleittt eru huglæg eðlis, er sálfræðin raunvísindi sem byggist á mælieiningum. Það er því auðveldara að meta með NOKKURRI VISSU greiningartæki áfallastreituröskunnar.
Það er líka athyglisvert að þú vintar í mál þar sem áfallastreita kemur hvergi við sögu, í réttarkerfi sem byggir á öfugri sönnunarbyrði í þessum málum. Slíkt er ekki upp á teningnum í ofangreindu frumvarpi, þar sem bent er á mikilvægi þess að láta andlega þætti og mælieiningar sem hafa verið metnar sem gildar af vísindasamfélaginu, vegna aukinnar þekkingar.
Frá árinu 1982 þar sem fyrsta málið er frá, hefur gríðarlega miklar framfarir átt sér stað í þessum málum.
Sífellt er verið að prófa áreiðanleika listanna og hvaða listar eru ekki eins áreiðanlegir og það ætti enn frekar að skapa með okkur traust um að vel sé staðið að ´þessum málum. Þið hjónin viljið hins vegar horfa á þetta sem sönnun um að prófin séu ófullnægjandi. Enn og aftur byggir það á hæpnum forsendum, þar sem skautað er framhjá upplýsingum sem henta ekki ykkar málflutningi.
Mér að vitandi hefur engin femínisti sagt að í þessum málum eigi einöngu að meta framburð þolanda. Þeir eru ítrekað að segja að réttarkerfið virki ekki þegar eingöngu 3% mála enda með sakfellingu. En þar eru þið ekki sammála, enda láguð þið yfir dómum í kynferðisbortamálum og mátuð þau fullnægjandi út frá niðurstöðum dómsúrskurðar, sem n.b er alltaf settur fram til að styðja þá niðurstöðu. Einnig gerðuð þið rannsókn á kynverðisbrotadeild lögreglunnar og komust að því að ekkert væri að verklagsþáttum lögreglu og vælið í brotaþolum um lélega starfshætti ætti við engin rök að styðjast. ekki hvarlaði að ykkur að leita til brotaþola til að kanna upplifun hans, enda er það aukaatriðið í öllu þessu.
Aðalatriðið virðist beinast að því að viðhalda réttarkerfi sem er ekki að virka sem flestir telja að sé ekki að virka. Þið viljið með ráðum og dáð halda í það kerfi sem er í dag og segið að hverskyns viðleitni til breytinga til að vernda kynfrelsi brotaþola sé skerðing á mannréttindum sakbornings. Það er einfaldlega rangt því lögin vernda hann, réttarkerfið byggist upp á því að ákæruvaldinu ber að sanna sekt sakborningins og því vill engin breyta. Um það erum við sammála. Við erum hins vegar ekki sammála um virkni réttarkerfinsins í dag. Það er mikilvægt að umræða um þessi mál fari fram en ekki á þessum skotgrafarnótum, það leiðir ekki til neins nema endlaus málþófs.
Það sem þú ert sýnilega að vísa til minnar heimildavinnu en ekki Einars (það er til í dæminu að konur vinni sjálfstætt enda þótt þær séu í sambúð og mér finnst frekar ömurlegt að Einari sé eignaður heiðurinn af henni) leyfi ég mér að svara þessu.
Hvernig og með hvaða mælitækjum er áreiðanleiki ptsd greiningar metinn?
Breskt réttarkerfi viðurkennir sannarlega ekki að það byggi á öfugri sönnunarbyrði í þessum málum þótt mörg dæmi bendi til að sú sé raunin.
PTSD greining er algeng meðal þeirra sem telja sig fórnarlömb SRA. Í Södertäljemálinu var stúlkan greind með áfallastreituröskun og í Umeå-málinu stemmir lýsingin á ástandi stúlkunnar við PTSD og var tekið tillit til andlegs ástands hennar þótt það sjúkdómsheiti væri ekki notað. Ég kom aðeins inn á þau mál hér http://www.pistillinn.is/?p=1619
Ég hef hvergi sagt að ekkert sé að verklagsháttum lögreglu, Ég hef hinsvegar sagt að reglurnar séu í lagi http://www.pistillinn.is/?p=2052. Ég sagði líka í viðtali í Silfri Egils í apríl að hugsanlega séu reglur brotnar og að ég vilji meira eftirlit með lögreglunni.
Því síður hef ég talað um „vælið í brotaþolum“ enda hef ég afskaplega lítið séð af kvörtunum frá brotaþolum. Það eru fyrst og fremst Stígamótakonur sem hafa viðhaldið þeirri mýtu að brotaþolar fái svo hræðilegar viðtökur hjá lögreglu.
Það er kannski ekki skrítið að ég spyrði ykkur sambúðaraðilum saman í ljósi þess að Einar er alltaf mættur við hlið þér í „rökræður“ í hvert skipti sem einhver gagnrýnir tittrædda heimildarvinnu þína. Að auki fór Einar með þér í „rannsóknarvinnu“ eða úttekt ykkar á lögreglustöðina, Eða misminnir mig?
Varðandi áreiðarnleika PTSD gætir þú skoðað rannsóknina sem þú vísar sjálf í. Nema að þér finnst hún ekki áreiðanleg þegar skoða á hana út frá þeim þætti, að hvers kyns gagnrýni sýni jafnframt notagildi og mögulegar breytingar til batnaðar á matsatriðum.
Það eina sem ritrýnda rannsóknin sem þú vitnar í sýndi er gagnrýni á það að nota eingöngu ákveðna gerð af spurningarlistum og meta áfallastreitu út frá þeim. Það þurfa fleiri þættir að koma inn í.
Ég gat náttúrulega gefið mér það, að þú vitnaðir í sjálfan þig og þína heimildarvinnu. Sem ég gef lítið fyrir. Heimildarvinna þín virðist miðast við að setja fram tilgátu og finna heimildir sem rýma við þá tilgátu. Jafnframt skautar þú framhjá öllu sem sýnir eitthvað annað. Að auki gerir þú það af miklum hroka, þar sem þú dregur menn og málefni í umræðuna; uppnefnir, hæðir eða gerir lítið úr þeim. Þannig að málflutningur þinn er litaður af fyrirframgefnum viðhorfum um niðurstöður þínar, sem síðan birtast í lokin og klappstýrur þínar dásama þig fyrir.
Stíll þinn virðist vera að nota e.k. samanburð sem heldur engu vatni en sýnir enn frekar hugarfar sem er litað af fordómum og lítilsvirðingu fyrir málefninu. Þú átt samt góða spretti inn á milli en eyðileggur trúverðugleika þinn með þessu rætna hugarfari gagnvart femínistum og brotaþolum og taktleysi í málflutningi.
Stígamótakonur hafa starfað í 23 ár, á þeim árum hefur gríðarleg breyting átt sér stað í verklagsreglum lögreglunnar. Sú breyting er ekki síst að þakka þeirri „mýtu“ að viðtökur brotaþola hjá lögrelgu hafi verið hræðilegar. Sú „mýta“ kemur beint frá brotaþolum sem leitað hafa á Stígamót vegna reynslu sinnar af lögreglu. Þú sýnir enn og aftur hversu hugarfar þitt gagnvart brotaþolum er litað af því sem ég talaði um í ofangreindum pistli: öfugri þolandabyrði, þar sem eini þolandi í kynferðisbrotamálum, er meintur gerandi.
Athyglisverð og mjög upplýsandi afstaða konu sem þykist vera femínisti til annarar og miklu sjálfstæðari konu:
„Það er kannski ekki skrítið að ég spyrði ykkur sambúðaraðilum saman í ljósi þess að Einar er alltaf mættur við hlið þér í “rökræður” í hvert skipti sem einhver gagnrýnir tittrædda heimildarvinnu þína.“
Verður kona sem sagt ósjálfstæð ef hún hefur sambúð við karl? Er það afstaða þín?
Ég held ég verði að´ústkýra þetta aðeins betur. Einar og Eva fóru saman í úttekt á kynferðisbrotadeild lögreglunnar til að kanna verklag hennar. Út frá því skrifaði Eva grein þar sem þetta kemur fram og Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.
Einar og Eva fóru saman í gegnum dóma héraðsdóm í kynferðibrotamálum og Eva skrifaði um það nokkrar greinar þar sem hún deildi þeirri sýn sinni að ekkert væri að réttarkerfinu. Einar var mættur við hlið hennar í hverri umræður um málið.
Eva spyrðir öllum femínistum saman í einn hóp (sjá 100 og eitthvað greinar um femínista). Hvað þýðir það í þínum huga? Og hvað er femínisti? Eru það „sjálfstæðar“ lesbískar konur sem hata karlmenn og hverskyns sameining karla og kvenna er merki um að vera ekki femínisti?
Hvað hefurðu fyrir þér um eftirfarandi staðhæfingu, Ragnhildur?: „Sérfræðingar ættu ekki að vera í meiri vandræðum með að ákvarða orsakir áfallastreituröskunar en glóðarauga eða brotinnar tannar“?
Og, það eru hvergi svo ég viti til, ákvæði í lögum um að hnífsstunga á manni sé „fullnægjandi sönnun“ þess að hann hafi verið stunginn af öðrum manni. Sem betur fer.
Það er hins vegar nær alltaf raunin.
… og sem betur fer. Hvers vegna er það þá einungis í kynferðisbrotamálum að horft er framhjá augljósum staðreyndum, eins og dómendur séu skyndilega gripnir einhvers konar öfgahughyggju, þar sem hlutlægur raunveruleiki á sér hvergi stað og orsakasamhengi er ekki til? Ekki segja að þetta sé post hoc ergo propter hoc, því slíkt orsakasamhengi er vel þekkt fyrirbæri. Við vitum að það er möguleiki og þegar ekki er hægt að sýna fram á að aðrar ástæður gætu hafa átt við, þá er það auðvitað fullgild sönnun.
Ég veit ekki um neinn sem er mótfallinn því að taka tillit til áfallastreituröskunar eða annarra kvilla sem sérfræðingur staðfestir. Frumvarpið gerir hinsvegar ráð fyrir að slíkt vottorð verði fullnægjandi sönnun og það gengur ekki. Ekki frekar en að vottorð um verki í fæti getur verið fullnægjandi sönnun fyrir líkamsárás.
Annars sé ég að ég þarf greinilega að skrifa pistil um fjölda meinsærismála, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem kærandi bar öll merki þess að hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli en viðurkenndi síðar að hafa bara sagt ósatt. Feministar mega allavega eiga það að þeir eru dulglegir við að skaffa mér verkefni 🙂
Samanburður þinn er í fyrsta lagi fáránlegur. Að greina áfallastreitu eftir nauðgun er ekki í neinni líkingu að vottorð um verki í fæti sé fullnægjandi sönnun um líkamsárás. Ef þú telur þetta samanburðarhæft er undarlegt að þú sért ekki mótfallin því að taka tillit til áfallastreituröskunar yfir höfuð og ekki undarlegt að í þessari undarlegu útfærslu getur þú jafnframt túlkað ofangreint frumvarp sem viðsnúningi á sönnunarbyrði.
Samanburður þinn sýnir líka brotaþolum mikið viðringarleysi. Hreinlega skammarlegt virðingaleysi sem jafnframt afhjúpar það hugarfar og viðhorf sem þú ert svo ötul að dreifa.
Það væri gott að þú kæmir með pistil um fjölda meinsærismála á Íslandi líka. Og í þeim ríkjum sem byggja á sama réttarkerfi og Ísland, annars er samanburður þinn marklaus og eingöngu byggður á spádómum. Það væri líka rétt að rukka þig um rannsókn á áfallastreitu þeirra sem hafa lent í nauðgunum og hversu áreiðanlegar þær eru taldar vera. Þær rannsóknir sem þú taldir upp á sínum tíma fjölluðu ekki um nauðganir.
En það er gott að femínistar gefi þér efnivið í skrif þín. Afraksturinn virðist vera stór kippur í fjölgun á femínistum og gríðarlega aukinni forvitni á feminískum málefnum, fyrir það áttu þakkir skyldar 🙂
Áfallastreituröskun er greind út frá upplýsingum sem sjúklingur gefur sjálfur um líðan sína. Hvernig er það ekki samanburðarhæft við skýrslu læknis um líkamlega líðan sem sjúklingur lýsir? Þessi samanburður sýnir brotaþolum ekki neitt virðingarleysi, ekki frekar en það væri virðingarleysi við mann sem þjáist af verk í fæti að ekki væri hægt að taka vottorð læknis um slíkt sem fullgildri sönnun um líkamsárás. Því miður er ekki bæði hægt að tryggja réttaröryggi sakborninga og um leið að taka gögn sem eru byggð á frásögn einnar manneskju sem fullgilda sönnun.
Við vitum ekkert um fjölda falskra kynferðisbrotamála á Íslandi. Það eina sem við vitum er að tvisvar hafa fallið sektardómar í slíkum meinsærismálum. Við vitum líka að í amk einu máli þar sem maður var sýknaður af nauðgun, sýndi konan sem kærði hann öll merki áfallastreituröskunar http://www.pistillinn.is/?p=1833 Ég verð að segja að eftir að hafa horft á þetta myndskeið http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV25B82B3F-6D41-49FD-82C7-0AC1FC7E4677 hlýt ég að þakka fyrir að þessi ólög um að ptsd vottorð verði að fullgildri sönnun hafi ekki náð fram að ganga.
Ég hef þegar bent á rannsóknir á áfallasteituröskun sem leiða í ljós að slík greining er ekki áreiðanleg. Þær eru birtar í ritrýndum tímaritum en ef þú telur þær gallaðar endilega bentu þá á gallana. Hvað kemur þér til að halda að einhverjar aðrar tölur eigi við um fólk sem kærir nauðganir?
Kom þessi kippur í fjölgun feminsta vegna skrifa minna eftir að þú fórst að kvarta yfir því að ég skrifaði of mikið?
Augljóst er að þekking þín á áfallastreitu er afskaplega lítil og það afhjúpast hér. Áfallastreituröskun er ekki eingöngu greind úr frá frásögn sjúklings, heldur eru fleiri þættir teknir til greina eins og fyrri saga sjúklings, frásagnir aðstandanda svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir sem þú vísar í segja einmitt frá því að ekki sé hægt að nýtast við spurningarlista um áfallastreitu eingöngu. Að sama skapi eru til fullt af ritrýndum rannsóknum um áreiðanleika áfallastreituröskunar sem þú hefur eflaust skautað fram hjá, því þær hentuðu ekki framsetningu þinni.
Kippur í fjölgun femínista kemur líkalega vegna aukinnar umræðu og stundum afar afhjúpandi þar sem andfemínistar fara á kostum í samsæriskenningum sínum gegn femínistum en ásaka þá um það sama. Ég undrast oft hvað þú skrifar mikið og skil eiginlega ekki hvernig þú hefur tíma til þess að vera alltaf á „vaktinni“ gegn femínistum eins og þú orðar það og hef haft áhyggjur af þessari þráhyggju. Það er allt annað en kvörtun. Eina kvörtunin sem frá mér hefur komið er taktleysi þitt í skrifum og hvernig þú dregur persónur inn í þau á niðrandi hátt.
Jú ég held ég hafi kvartað einu sinni við þig á síðunni þinni, þegar þú skrifaðir pistil um mig sem persónu og að ég hafi verið ráðin á Stígamótum í staðinn fyrir sálfræðing. Þá sá ég að þú varst komin í persónulegar skotgrafir líklega af því að þig skortir öll rök. Það er hins vegar eitthvað sem þú segist aldrei skorta og þá skemmtirðu mér gríðarlega því ég er algjörlega á öndverðri skoðun, en mér skylst að það sé leyfilegt.
Ég hef einfaldlega ekki rekist á fleiri rannsóknir um áreiðanleika ptsd greiningar en ég þigg gjarnan ábendingar.
Áfallastreituröskun er fyrst og fremst greind út frá lýsingum sjúklings á líðan sinni. Einkennin eru þess eðlis (t.d. endurupplifun, forðun, martraðir, sventruflanir, minnisleysi á örlagaríka atburði, streita) að það er ekkert hægt að mæla þau nema út frá frásögn sjúklings, ekki frekar en verki.
Það er kannski vegna þess að þú leitaðir ekki eftir þeim. Þær eru ansi margir og svo veistu náttúrulega að það eru til ólíkir kvarðar eða listar sem lagðir eru til grundvallar til að meta áfallasteituröskun. Hér er t.d ein rannsókn af fjölmörgum: http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/1097-4679(199103)47:2%3C179::AID-JCLP2270470202%3E3.0.CO;2-P/abstract
og hér http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/jts.2490060405/abstract.
Áfallastreituröskun er ekki grein eingöngu út frá lýsingum sjúklings á líðan sinni, Sérfræðingur metur þessa lýsingu í samræmi við fleiri þætti, Svo við notum verkinn, þá sjúkdómsgreinir læknir ekki sjúkling eingöngu út frá lýsingu á verk, það þurfa fleiri þættir að spila þarna inn í.
Þú segir líka á undan að þú hafir hvergi sagt að ekkii eigi að taka tillit til áfallastreituröskunar. Ef álit þitt á greiningu hennar er svona takmarkað. Hvers vegna ætti þá að taka eitthvað tillit til þess?
Og hvaða sannanir hljóta þá náð í þínum augum? Hvað þarf til að nauðgun verði naugðun?
Fyrir um þrem árum síðan kærði ung stúlka þrjá menn fyrir nauðgun. Sem síðar kom í ljós að var ekki nauðgun. Hún var aftur á móti kærð fyrir rangar sakagiftir en var sýknuð af því af því að hún m.a. sýndi merki áfallastreituröskunar.
Hún var sem sé með áfallastreituröskun, skv. sérfræðingum, en var ekki nauðgað.
Er þá áfallastreituröskun, ein og sér, merki um að nauðgun hafi átt sér stað?
Um þetta snýst gagnrýnin um öfuga sönnunarbyrði. „Áverkarnir“ eru ekki sönnun einir og sér.
Ég þekki líka mann sem stakk sig sjálfur, óvart, með eigin klaufaskap. Hnífurinn fór í lærið og nokkuð djúpt. Var stungusárið merki um glæp, eitt og sér (kemur inn á dæmið sem Einar nefnir)?
Fyrri tengillinn virkar ekki. Síðari greinin er ekki aðgengileg í gegnum landsnetið. Reyndar bendir útdrátturinn til þess að hún fjalli alls ekki um líkurnar á því að sjúklingur sé ranglega greindur með ptsd.
Margir sjúkdómar eru greindir eingöngu út frá lýsingum sjúklings á verkjum.
Það að ég vilji ekki gera áfallastreituröskun að fullgildri sönnun merkir vitaskuld ekki að ég vilji ekki að neitt tillit sé tekið til slíkrar greiningar. Ég vil heldur ekki að frásögn kæranda sé metin sem fullgild sönnun en vitaskuld þarf rétturinn samt að hlusta á frásagnir aðila. Að gera ptsd vottorð að fullgildri sönnun er svipað og að gera áverka (eða jafnvel bara verk) að fullgildri sönnun í líkamsárásarmáli. Ég vil ekki að maður sé sakfelldur fyrir líkamsárás ef einu sönnunargögnin eru áverki sem gæti átt sér margar aðrar skýringar. Ef áverki væri fullgild sönnun hefði þessi maður t.d. verið sakfelldur fyrir manndráp http://www.dv.is/frettir/2011/7/29/eg-held-ad-hann-hafi-bara-misst-lifsviljann/
Sönnun er að mínu mati (og réttarkerfsins) komin fram þegar gögn málsins sýna að sekt sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Áfallastreituröskun út af fyrir sig er ekki slík sönnun.
Það er rétt Eva. Greinarnar fjalla um áreiðanleika PTSD ekki hvort sjúklingur sé ranglega greindur. Það er líka hægt að skoða greinar út frá þeim vinkli.
Hvað er þá fullnægjandi sönnun? Ég er búin að spurja þig að því nokkrum sinnum og ekki enn fengið svar. Miðað við alla dómana sem þú fórst í gegnum og birtir í pistlum þínum ættir þú að vera með það algjörlega á hreinu. ERtu sátt við réttarkerfið í dag? Finnst þér í lagi að 3% mála endi sem sakfellingu?
Hvar fyrir utan frumvarp Atla, hafa femínistar sagt að þeir vilji að sannanir í dómum byggi algjörlega á áfallastreituröskun?
Það er algjörlega útilokað að gefa tæmandi lista yfir það hvað telst fullnægjandi sönnun. Ekki einu sinni réttarkerfið reynir það, heldur er hvert tilvik metið fyrir sig.
Það er langt frá því að ég álíti réttarkerfið fullkomið en ég kann því miður enga aðra leið til að tryggja að saklaust fólk sé ekki sakfellt en þá að láta sakborning njóta vafans. Þessi tala 3% er mjög villandi eins og ég hef áður bent á t.d. hér http://www.pistillinn.is/?p=1700
Það sem mér finnst að þurfi að gerast í kynferðisbrotamálum er að finna aðrar leiðir en réttarkerfið til að taka á þeim málum sem eru á gráu svæði og þeim málum þar sem orð stendur gegn orði, því ég sé ekki að það sé neinum til góðs að fara með mál fyrir dóm þegar engin leið er að sanna þau. Því miður eru einu tilraunirnar sem ég hef séð í þá veru í höndum vitleysinga en ekki fagfólks.
Þú kemst inn á fyrri tengilinn með því að afrita hann allan. Eins og hver manneskja með lágmarks netkunnáttu getur séð er hann brotinn en maður kemst framhjá því með því að afrita og líma, gerðu svo vel.
Takk fyrir ábendinguna Kristín. Ég áttaði mig að vísu á þessu seint í gærkvöld.
Þessi grein segir ekkert um áreiðanleika ptds greiningar svo þarna fór enn einu sinni dýrmætur tími í það að lesa eitthvað sem feministar benda á, sem rennir ekki stoðum undir það sem þeir segja. Greinin er samt um margt áhugaverð og ég er ánægð með að hafa eytt tíma í að skoða hana.
Einar Steingrímsson segir: „Með því að taka skilgreininguna á nauðgun úr lagatextanum neyðast dómarar til að lesa greinargerðina til að úrskurða hvað sé nauðgun.“
Ég er ekki sammála þessu. Það vantar vissulega skilgreininguna í frumvarpið (eins og Anna Bentína bendir á). En slíka skilgreiningu er heldur ekki að finna í greinargerðinni, svo þangað geta dómarar ekki leitað til að finna skilgreiningu á hugtakinu. Þeir verða því að styðjast við annað.
Setningin sem Einar vísar í:
„Komi þessar andlegu afleiðingar fram eftir kynmök eru fram komnar fullnægjandi sannanir fyrir því að …“
felur ekki í sér skilgreiningu á hugtakinu nauðgun.
En fullyrðingin er samt sem áður ótæk. Um það er ég sammála Einari Steingrímssyni. Hún er þó ekki að mínu mati að mæla fyrir um „öfuga sönnunarbyrði“, en hún er að gefa sér að ákveðin tegund sönnunargagna séu ALLTAF fullnægjandi sönnun fyrir broti. Það sér það hver maður að svona sönnunargögn þarf að vega og meta í sérhverju tilfelli þó auðvitað þarf að gefa þeim mjög góðan gaum. Það er bara „wishful thinking“ að það sé hægt að „laga“ vanda dómstóla við að leysa úr kynferðisbrotamálum með þessum hætti.
Það eru sloppý vinnubrögð að setja svona fram í greinargerð með fumvarpi. Þó að málefnið sé erfitt og tilfinningahlaðið þá verður umræðan að þola gagnrýni á vinnubrögð.
Hvernig í ósköpunum er sönnunarbyrðin ennþá hjá ákæruvaldinu ef gögn sem hafa ekkert sönnunargildi (eins og ptsd greining) eru skilgreind sem fullnægjandi sönnun? Þetta er þversögn.
Bara benda á það að þetta sem þú skrifar er rangt.
,, Stuldur á reiðhjóli er alveg jafn mikill stuldur hvort sem þjófurinn beitir valdi með því að slíta hjólið úr höndum eigandans eða tekur hjólið í leyfisleysi af lóð hans. Verknaðaraðferð þjófsins skiptir ekki máli hvað varðar eðli brotsins.“
244. gr. Þjófnaður á fjármunum eða orkuforða varðar fangelsi allt að 6 árum.
Ef þjófnaðarbrot er sérstaklega stórfellt, svo sem vegna verðmætis þess, sem stolið var, eða hvernig hinu stolna eða geymslu þess var háttað, vegna aðferðarinnar, sem höfð var við þjófnaðinn, eða hættu, sem honum var samfara, svo og þegar þjófnaður er framinn af mörgum í sameiningu eða sami maður hefur gerst sekur um marga þjófnaði, þá skal refsing að jafnaði ekki vera lægri en 3 mánaða fangelsi.
252. gr. Hver, sem með líkamlegu ofbeldi eða hótun um að beita því þegar í stað tekur af manni eða neyðir út úr manni fjármuni eða önnur verðmæti, kemur undan hlut, sem verið er að stela, eða neyðir mann til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem hefur í för með sér fjárhagstjón fyrir þann mann eða aðra, skal sæta fangelsi ekki skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum. Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu, getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi.
http://www.althingi.is/lagas/131b/1940019.html
Það er gerður greinarmunur á þjófnaði og ráni. Þannig að verknaðaraðferð skiptir klárlega máli. Þar sem þú tekur fram að beita valdi þá myndi væntanlega að rífa reiðhjólið með valdi flokkast sem rán og þar af leiðandi er þyngri refsirammi.
Kannski smáatriði en vildi bara benda á þetta.
Takk fyrir þetta Daði.
Þú skýrir enn betur að löggjafinn lítur á hvoru tveggja sem brot, hvort sem ofbeldi eða hótunum er beitt eður ei. Það virðist ekki vera gert í nauðgunarmálum. Munurinn á þessum tvennum brotum sem þú settir saman er að síðara brotið er samsett og því fylgir hærri refsing.
Þess er ekki krafist af þér að þú berjist á móti þegar einhver reynir að ræna þig. Það er ekki talið vera samþykki fyrir þjófnaði ef þú réttir ræningja veski þitt sem hótar þér, jafnvel þótt þú eigir sögu um að vera gjafmildur og styðja góðgerðarsamtök. Tilgangur minn með þessum samanburði var að ítreka hann.
Ég skil ekki þetta svar. Ef að ég sef hjá einhverjum og hvorki hóta né beiti ofbeldi, auk þess sem að ég er ekki að notfæra mér veikt ástand einstaklingsins, er ég þá samt að nauðga?
Ja hérna hér. Þvílík endemis vitleysis umræða!
Ég upplifi ummæli Einars og Evu á svipaðan hátt og ég upplifi umræðurnar á Alþingi, sérstaklega hjá stjórnarandstöðunni. „Ég hef alltaf rétt fyrir mér hvað rök og sanninir sem þú kannt að koma með fram og ég mun aldrei skipta um skoðun, alveg sama hversu vel þér tekst að benda á vitleysuna í mér!“
Ég dáist að þér Anna Bentína fyrir ötult og þrotlaust starf þitt við að reyna að breyta afstöðu fólks til þessara mála. Hafðu þökk fyrir.
Ps. Ég þekki eina konu sem hefur leitað til Stígamóta og hún sagði mér að sér hafi verið tekið vel og á hún varla orð til að lýsa aðdáun sinni á þér frir þá hjálp sem þú hafir veitt henni.
Gögn í málinu – fyrir mína parta finnst mér allt tal um öfuga sönnunarbyrði óskaplega hjákátlegt í samanburði við þessar alþjóðlegu tölur. Ég auglýsi hér með eftir samsvarandi gögnum um ranglega dæmda menn frá þeim sem kjósa að trúa að vandamálið liggi á hinn veginn, þrátt fyrir að öll vötn renni til Dýrafjarðar
http://theenlivenproject.com/the-truth-about-false-accusation/
„Að vandamálið liggi á hinn veginn“? Hver er að halda fram að vandamálið liggi bara á annan veginn?
Þessi linkur og myndin undir honum sem þú vísar á er hreint bull Þórlaug — bara skot útí loftið — enda hvergi vísað í gögn honum til stuðnings.
Fyrir utan ágiskanir um að margfalt fleiri tilkynni engum um glæpinn, þá mætti allt eins túlka allar ásakanir sem ekki sannast réttar vera lognar — með sömu aðferð og þarna er beitt.
Fyrir utan að þetta er ekki tekið úr neinum yfirfaranlegum gögnum heldur — bara hreinn áróður.
Þetta var svakalega málefnalegt og útskýrandi hjá þér, Kjartan …
Bakvísun: Um rangar sakargiftir í kynferðisbrotamálum | *knùz*
Bakvísun: Að finna karlrembu sinni farveg í feminisma | Pistlar Evu
Bakvísun: Skuggarnir leysast ekki lengur upp | Knúz - femínískt vefrit