„Það er mjög vafasamt að nokkur stúlka íslensk hafi unnið þjóð sinni meira gagn í ár en sú ljóshærða og fríða, sem brosir til okkar á þessari mynd og býður okkur íslenskan saltfisk.“
Það getur verið góð skemmtun að grafa ofan í gömul blöð á vefnum timarit.is. Ég stend mig oft að því að brosa yfir gömlum fréttum og velta því um leið fyrir mér hvernig allt hefur nú breyst.
Sú var einmitt mín fyrsta hugsun á dögunum þegar ég var að róta á tímaritavefnum og rakst á 57 ára gamla útgáfu af Vikunni. Þar var á forsíðu mynd af ungri stúlku með útflattan saltfisk báðum í höndum. Og yfirskriftin: Hún seldi saltfisk í útlöndum, sjá nánar á blaðsíðu þrjú.
Umfjöllunin þar gekk út á það hversu vel hefði tekist upp við átak í sölu á íslenskum saltfiski. Það taldi blaðið ekki síst að þakka myndinni af íslensku, ljóshærðu stúlkunni. Myndin hefði ferðast milli fiskikynninga víða um Evrópu og all staðar vakið lukku.
Vikunni var ókunnugt um hvort stúlkan sem mynduð var með saltfisknum hefði nokkurn tíma komið til útlanda. Blaðið hafði heldur ekki hugmynd um hvað hún hét. Hins vegar vissu nú þúsundir manna í útlöndum að „…á Íslandi eru ekki einungis feikn fallegar stúlkur heldur og gríðarlega fallegur saltfiskur.“
Fyrstu viðbrögð við þessu gamla Vikuefni voru bros. Myndin af stelpunni fannst mér krúttlega hallærisleg. Og textinn, þar var sko hlutgerving í sinni tærustu mynd. Fegurð kvenna og fisks rædd í sömu setningu. Slíkt myndi varla gerast í dag.
Þessar hugsanir voru þó fljótar að leysast upp í aðrar. Líklega er enginn eðlismunur á því hvernig konur birtast í auglýsingum hátt í sextíu árum eftir að mynd af ljóshærðri stúlku sem seldi fisk á Ítalíu.
Ég leiddi hugann að auglýsingu á strætóskýli sem ég hef átt leið hjá daglega í vetur. Sú sýnir bakhluta konu í þröngum kjól (man ekkert hvað er verið að auglýsa, bara eftir rassinum á þessari konu).
Hlutgerving kvenna er enn daglegt brauð. Fáklæddum konum er stillt upp óháð því hvort seldir eru bílar eða veiðistangir. Svona var þetta árið 1980, árið 2011 og er enn í dag, 57 árum eftir að sú íslenska ljóshærða (nafnlausa!) seldi útlendingum saltfisk.
Er við öðru að búast árið 2070?
Þetta segir mér aðeins eitt, þrátt fyrir árangur baráttu femínista í áratugi og árhundruð þarf enn að halda áfram!
Hvar er auglýsingin með manni og tveim stúlkum í sömu lopapeysunni?
Ég var einmitt að leita að þeirri mynd á netinu. Reyndar sá ég fyrir mér þrjár konur, var einn karl og tvær konur? Þessa mynd þyrfti að finna!
Stúlkan með saltarann vekur upp gamlar umræður. En þegar Gísli er með saltfisk í Landanum er ekkert sagt.
Er Gísli í Landanum á nærbrókinni að auglýsa saltfisk og er verið að höfða til þess hve fallegur hann er af því að hann lifi á saltfiski?
Það má segja um auglýsinguna frá 56 að konan þar er þó þokkalega klædd og henni ekki stillt upp eins og hún sé í þann veginn að fara að stunda kynlíf með eða gegn vilja sínum eins og stór hluti auglýsinga með myndum af konum eru í dag.
Hér er svo hún ungfrú Idaho í kartöflunum:
Ég get ekki orða bundist yfir eyrunum á ungfrú Idaho, er það alþjóðlegt að tengja álfa og kartöflurækt? 🙂
Þegar horft er nútímaaugum á fraktauglýsinguna: Þú kemur alltaf einni lettneskri í gámana frá okkur 😦