23:1 – Hvernig Gettu betur eyðilagði daginn

Höf.: Stefán Pálsson

Þriðjudagurinn fokkaðist upp. Samkvæmt vinnuáætluninni ætlaði ég að sitja við frá klukkan hálf níu og semja spurningar. Það gerist nokkurn veginn þannig að ég plægi mig í gegnum útlenskar vefsíður með furðufréttum og kjúríosítetum, slæ svo upp í Wikipediu til að reyna að vinsa frá bullið og flökkusögurnar. (Og ég sem hélt að líf sjálfstætt starfandi sagnfræðingsins fælist í að grafa upp leyniskjöl og fletta ofan af gátum fortíðar…)

Mynd af strákaliði – fengin á dv.is

En það var enginn tími í þetta. Rétt áður en ég fór að sofa á mánudagskvöldið skellti ég nefnilega sakleysislegri athugasemd inn á Fésbókarsíðuna mína þar sem ég benti á að í sjónvarpshluta spurningakeppni framhaldsskólanna í ár yrðu 23 strákar og ein stelpa. Afleiðingin varð sú að allur næsti dagur fór í að prjóna við endalausa spjallþræði og tala við fjölmiðla – allt frá Ríkissjónvarpinu til Bleikt.is.

Samt var þetta engin frétt. Kynjahlutfallið í Gettu betur er eins og fyrsti frostdagurinn á haustin. Allir vita að frostið mun koma, samt eru allir óviðbúnir og hissa þegar það skellur á. Gettu betur-keppnin var fyrst haldin árið 1986 og allan þann tíma hefur fjöldi stelpnanna í fjórðungsúrslitunum legið á bilinu engin og upp í fjórar – yfirleitt nær lægri mörkunum. Ein stúlka hefur verið í sigurliði frá upphafi og sigursælasti skólinn, MR, tefldi fram eina kvenkyns keppandanum sínum um þær mundir sem Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra og Frammarar bestir í fótboltanum.

Ég skapaði skrímsli

mynd af strákaliði – fengin á vefritid.is

Sjálfur ber ég reyndar talsverða ábyrgð á kynjahalla MR-inganna. Ég var hluti af vandamálinu. Byrjaði sem liðstjóri sextán ára, keppti í eitt ár og var svo þjálfari í nokkur misseri. Á þessum tíma tefldum við bara fram strákaliðum – og það sem meira máli skipti: bjuggum til fyrirbærið spurningaliðsklíkuna.

Spurningaliðsklíkan var raungerð útgáfa af skáktöffurum Radíus-bræðra; sex til átta stráka hópur sem hékk saman og spanaði sig upp í keppnisskap við að æfa fyrir Gettu betur eins og hún væri hver önnur íþróttakeppni. Í hópnum var stigveldi: liðstjórarnir (ungu guttarnir sem vissu að þeirra tími kæmi síðar), liðsmennirnir og gömlu jaxlarnir – háskólastrákar sem ráku stundum inn nefið og sögðu raupsögur.

Mynd af strákaliði – fengin af sveppsvepp.blogspot.com

Dáldið súrt? Kannski, en svo sem ekkert verra en hvað annað þegar maður er nítján ára. Og þetta svínvirkaði. MR vann ellefu ár í röð. Einu liðin sem áttu séns voru skólarnir sem höfðu apað eftir skipulagið og áttu sínar eigin spurningaliðsklíkur. Þetta voru allt strákaklíkur, nema hjá MH-ingunum sem höfðu þetta blandað. Þeirra klíka virkaði samt alveg á sama hátt.

Ekkert gamanmál

Í huga keppenda og þjálfara spurningaliðanna er Gettu betur íþróttakeppni. Markmiðið er að vinna og að tryggja að allt í skipulagi og reglunum sé með þeim hætti að æfingarnar skili árangri og sterkasta liðið vinni. Við börðumst hatrammlega gegn öllum hugmyndum Sjónvarpsins um að fjölga spurningum sem gæfu mörg stig og ykju þannig heppnisþáttinn. Á sama hátt risum við upp á afturfæturnar í hvert sinn sem aðstandendur keppninnar fóru að ræða um að kynjahlutföllin væru afleit. Um tvítugt hefði ég getað haldið langar ræður um að þetta væri ekkert vandamál og endurspeglaði bara ólíkan áhuga kynjanna á keppninni.

Og í raun get ég ennþá alveg skrifað upp á seinni hluta staðhæfingarinnar. Alltof margir telja að Gettu betur gangi út á að finna gáfuðustu táningana – og að nánast algjör fjarvera stúlkna úr keppninni jafngildi fullyrðingu um að strákar séu gáfaðri en stelpur. Það er stórkostlegur misskilningur. Keppni sem gengi út á að reikna greindarvísitölur ungmenna væri ömurleg afþreying.

Strákalið – af murderiseverywhere.blogspot.com

Því fer fjarri að Gettu betur-ljónin séu gáfuðustu krakkarnir. Spurningaliðskeppendur eru þannig sjaldnast afburðanámsmenn eða dúxar. Þeir eru líklegri til að standa sig vel í eftirlætisfögunum sínum, einkum sögu og öðrum kjaftagreinum (ég má nota þetta orð af því að ég er sjálfur sagnfræðingur), en slugsa í því sem vekur minni áhuga. Ætli sagnfræðin í háskólanum sé ekki algengasti áfangastaður Gettu betur-njarða?

Beðið eftir Godot

Gettu betur er nördakeppni og eins og staðan er í dag er miklu fremur félagslega viðurkennt fyrir stráka á framhaldsskólaaldri að gangast opinberlega við nördinu í sér en stelpurnar. Þannig er það bara og ef við ætlum að bíða eftir að það breytist þá þurfum við að bíða mjög, mjög lengi eftir því að kynjahlutföllin jafnist af sjálfu sér.

Sú taktík að bíða og vona hefur þó ráðið för ansi lengi hjá RÚV. Strax á níunda áratugnum byrjaði stofnunin að senda almenn tilmæli til nemendafélaga skólanna um hvort þeir gætu nú ekki hugsað sér að hafa keppendur af báðum kynjum. Nýir dómarar fá einatt óskir um að reyna að skella inn nokkrum kvenlægum spurningum, enda vilja margir trúa því að kynjahallann megi að einhverju leyti skýra með því að spurningarnar séu meira fyrir stráka.

Sú kenning var reyndar rækilega afsönnuð í byrjun tíunda áratugarins, þegar spurningasamningin var í höndum kvenna fimm ár í röð. Allir lýstu dómararnir (þar á meðal ein af forystukonum Kvennalistans) því yfir að spurningarnar yrðu margar hverjar kvenlægar og því skynsamlegt að kippa stelpum með. Þrátt fyrir þetta varð engin fjölgun stúlkna á tímabilinu. Vandinn er nefnilega menningarbundinn í skólunum sjálfum.

Grípum í taumana

En alltaf heldur RÚV áfram að bíða og vona. Vona að línuritið sem dansað hefur á milli núll og fjögurra frá 1986 fari allt í einu að taka strikið upp á við af sjálfu sér. Og fólkið á RÚV vonar það í raun og veru. Þau vinna við að búa til sjónvarpsefni og eru fullkomlega meðvituð um að brenglaða kynjahlutfallið er akkilesarhæll þáttarins. Stelpuskorturinn (og það að eldra fólk skilur sjaldnast muldrið í hraðaspurningunum) er aðalumkvörtunarefni áhorfenda. Þáttur með tuttugu og þremur strákum og einni stelpu er einfaldlega vont sjónvarp.

Og þarna er ég kominn hinu megin við borðið. Síðustu árin hefur talsverður hluti vinnu minnar falist í að stjórna, semja fyrir eða hjálpa til við að undirbúa spurningaþætti í sjónvarpi. Ég lít ekki lengur á Gettu betur sem íþróttakeppni heldur skemmtiþátt í sjónvarpi, sem þess utan er á besta útsendingartíma hjá stærstu sjónvarpsstöð þjóðarinnar. Og þetta er ekki nógu gott sjónvarp!

Þess vegna stakk ég upp á því (og hef svo sem gert áður á opinberum vettvangi) að tekinn yrði upp kynjakvóti í Gettu betur. Öll lið verði skylduð til að hafa keppendur af báðum kynjum. Punktur og basta. Tæp þrjátíu ár er nógu langur tími fyrir flestar félagsfræðitilraunir – það er einfaldlega fullreynt að þetta lagist af sjálfu sér. Blönduð lið munu gefa keppninni skemmtilegri blæ, kæta áhorfendur og auka vinsældirnar. Þess utan er ekki ólíklegt að fjölbreytilegri áhugasvið liðsmanna muni hreinlega leiða af sér betri lið.

Ráðist á allt fallegt og gott

Strákalið – fengin af gettubetur.is

Þegar ég kynnti þessa hugmynd og í umræðunum í framhaldinu greip ég ekki til neinna feminískra raka. Ég rökstuddi hana ekkert sérstaklega með því að mikilvægt væri að búa til fyrirmyndir fyrir stúlkur, vinna gegn staðalmyndum o.s.frv. (þótt slík rök séu góð og gild). Rökstuðningurinn snerist í raun bara um keppnina sem afþreyingarefni í sjónvarpi – að einsleitir keppendur væru þættinum fjötur um fót.

Einmitt þess vegna komu viðbrögðin mér á óvart (en þó ekki). Gagnrýnin á spjallþráðum netsins gekk öll út á að hér væri pólitísk rétthugsun gengin út í öfgar! Hvers vegna ekki homma eða svartan mann í hvert lið? Hvers vegna á að PÍNA stelpurnar til að keppa í ömurlegum lúðaspurningaleik? Aumingja kvenkeppendurnir sem allir munu hía á og stimpla sem vesaling sem slapp í liðið á kvóta!

Heitustu andstæðingar tillögunnar reyndust vera fólk sem hefur miklar áhyggjur af síendurteknum árásum kvenhyggjupakksins á varnarlausar stofnanir samfélagsins. Í ljós kom að margir í þeim hópi eru miklir sérfræðingar í því fullkomna valferli sem íslenskir framhaldsskólar nota til að finna spurningaliðsdrengina sína. Ferlið tryggir víst hina bestu mögulegu niðurstöðu og skilur hafrana frá sauðunum. Með því að víkja frá þessu vísindalega vali með annarlegum sjónarmiðum væri þátturinn ónýtur og fáránlegt skrum.

Í umræðurnar blandaði sér hins vegar líka talsverður fjöldi fólks sem komið hefur að keppninni með beinum hætti: gamlir keppendur, þjálfarar, spyrlar og dómarar. Nær undantekningarlaust leit þetta fólk á kynjahallann sem stórt vandamál og tók vel í hugmyndinar – þótt fleiri en einn og fleiri en tveir vildu halda til haga frásögnum af misheppnuðum tilraunum til að lokka stelpur í keppnislið.

Af þessu verður hver og einn svo að draga sínar ályktanir.

36 athugasemdir við “23:1 – Hvernig Gettu betur eyðilagði daginn

 1. Getur verið að stelpur hafi almennt minni áhuga á þátttöku í svona keppni en strákar? Ef svo er, er það þá ekki vafasöm jafnréttisstefna að þvinga fram meiri þátttöku þeirra, frekar en að búa til sjónvarpsefni sem frekar höfði til stelpna (varðandi þátttöku)?

  • Sæll Einar,
   Ég sé bara engin haldbær rök fyrir því að konur ættu hafa minni áhuga á því? Nema náttúrulega þau að stemningin sem ræður ríkjum í kringum liðin í skólunum hrindi þeim frá. Það er líka mikill kynjahalli í MORFÍS; er hægt að segja að stelpur hafi almennt engan áhuga á því sem gengur á innan menntaskóla? Varla.
   Er þetta ekki líka nákvæmlega það sem sagt var um margt annað, t.d. boltaíþróttir og hljóðfæraleik, en annað kom auðvitað á daginn um leið og einhverju var breytt og konum var gert auðveldara að stunda íþróttir eða taka upp gítar? Heldurðu að það hafi ekki verið margir sem veltu vöngum yfir því hvort „þær hefðu nú yfirhöfuð einhvern áhuga á stjórnmálum“ þegar spurningunni um kosningaréttinn var velt upp? Og af hverju ætti þá að þvinga þær til að kjósa, þessar elskur?
   Ég bara spyr, sko.

   • Sæll Finnur

    Ég spurði nú bara spurningar, og það þarf engin rök til þess. Það þarf heldur hvorki rök né gögn til að láta sér detta í hug, miðað við ástandið, að stelpur hafi hugsanlega minni áhuga á þessu en strákar. Það er ansi margt sem er ólíkt með kynjunum, og það er ekki sjálfgefið að það þurfi að útskýra með rökum af hverju það sé „óeðlilegt“. Nema maður gefi sér fyrirfram að það hljóti að vera óeðlilegt að stelpur hafi minni áhuga á þessu en strákar. Sú grundvallarafstaða, sem sumir hafa, virðist ekki studd neinum gögnum eða rökum.

    En, ég hef enn ekki fengið neitt svar við spurningunni hvort ekki væri betra, ef markmiðið er að rétta af kynjahalla, að finna sjónvarpsefni sem stelpur hefðu meiri áhuga á. Mér skilst (leiðréttið mig ef þetta er rangt) að stelpur taki ekkert síður þátt á Skrekki en strákar. Af hverju er það skynsamlegri leið til að jafna kynjahlutföll að berjast við að fá stelpur í Gettu betur, en að búa bara til efni sem vitað er að stelpur hafi meiri áhuga á?

    Er Gettu betur eitthvað merkilegra en það sem gert er í Skrekki, og er það þess vegna sem það verður endilega að sjá til að fleiri stelpur taki þátt í GB? Er það kannski bara karlremba sem er grundvöllur þesarar kröfu um fleiri stelpur þar, frekar en að krefjast bara meira stelpuefnis?

   • Annað hvort eru stelpur lélegri eða áhuglausari um keppnina — nema þeim sé markvist haldið frá keppninni gegn kappsamri baráttu þeirra fyrir að fá að taka þátt. Af frásögn Stefáns að dæma er þeim ekki markvist haldið frá því að vinna sér rétt til þátttöku. Og ekki eru þær hæfileikalausar.
    Er þá um nokkuð annað að ræða en að orsökin fyrir þessari tölfræði 23:1 — í 30 ár — sé einfaldlega þessi að ekki hefur tekist að vekja sérstakan áhuga stelpna á þátttöku í keppninni.

   • Guðrún G. – Eins og greinarhöfundur útskýrir myndast strákaklíkur í kringum liðin og stelpunum er bolað
    út. Ég fylgdist með slíku sem foreldri út í bæ, reyndar minnir mig að það hafi verið í kringum Morfís. Allt fínir strákar, en þeir tróðu um tær.

   • Ef skólarnir eru með sérstakt úrtökupróf sem liðaval þá skiptir það engu máli hvort einhverjir vinir tóku þátt eða ekki. Í þeim tilvikum sem ég þekki til þá enduðu keppnissætin í höndum þeirra einstaklinga sem náðu 3 hæstu einkununum úr úrtökuprófinu.

  • Gefum okkur að þetta sé rétt hjá þér. Hvers vegna ætli sá áhugamunur sé? Ætli þetta sé bara líffræðilegt; að stelpur fæðist með skertan áhuga á spurningakeppnum í framhaldsskóla? Eða er þetta áhugaleysi meira vegna samfélagslegra þátta?

   Ef þetta er líffræðilegt, þá getum við náttúrulega lítið gert. Mér finnst það reyndar ólíklegt. Ef þetta eru hinsvegar samfélagsleg áhrif, þá getum við gert eitthvað til að vega á móti þeim. Kynjakvóti er ein leið til þess.

   • Það er ekki útilokað að þetta eigi sér líffræðilegar rætur (þ.e.a.s. einhvers konar áhugi á keppni). Það væri frekar skrítið ef mannskepnan, ein spendýra, væri algerlega laus við hegðunarmun á milli kynja. Það er samt alls ekki hægt að gefa sér að þessi munur hljóti að vera þess eðlis. Það gæti verið munur, og hann gæti einfaldlega verið „tilviljun“, eins og það er tilviljun hvaða munur er á sumum tískufyrirbærum milli barna í ólíkum skólum. Sá kynjamunur gæti þá stafað af þeirri staðreynd (eða hvað) að á framhaldsskólaaldri er algengt að unglingar umgangist í einkynjahópum (þótt hitt sé líkla algengt).

    Svo ég endurtaki mig: Ef þessi einkynjun á Gettu betur er vandamál, er ekki öruggari leið til að leysa það einfaldlega að bjóða upp á efni sem höfðar meira til stelpna?

   • Ef þú telur að áhugi á spurningakeppnum sé annaðhvort líffræðilegur eða hrein tilviljun án teljandi áhrifa frá samfélaginu þá held ég að við græðum ekkert meira á því að ræða þetta. En takk fyrir svarið.

    Og til að svara spurningunni þinni: Ég sé ekki hvers vegna við ættum að þurfa að velja eina leið, og legg því til að við gerum bara hvort tveggja.

   • Salvar: Ég sagði ekki að ég teldi þetta, og úr því að þú ert í þessum gír, er kannski rétt að ég bendi líka á að gaf mér ekki að eitt eða neitt væri rétt, eins og þú hélst fram.

    En, takk fyrir svarið; vona að þú svarir með málefnalegri hætti næst.

   • Gott og vel; þá skulum við bara láta eins og fyrri málsgreinin hafi ekki átt sér stað. Og til að svara aftur spurningunni þinni: Ég sé ekki hvers vegna við ættum að þurfa að velja eina leið, og legg því til að við gerum bara hvort tveggja.

    Ég vona að þér hafi þótt þetta nógu málefnalegt svar. Ef ekki þá biðst ég fyrirfram afsökunar.

 2. Ég get tekið undir það sem Stefán er að segja. Fyrsta árið mitt í MR var einmitt fyrsta árið af þessum 11 sem MR vann spurningakeppnina. Það var haldið stórt og mikið forval þar sem öllum nemendum skólans var boðið að taka þátt. Ég tók þátt í því og fullt af öðrum stelpum en bara strákar voru valdir í liðið. Áhuginn hjá mér dvínaði svo all svakalega næsta ár þegar þetta varð að strákaklíku. Ég held að þó að stelpur hafi kannski ekki eins mikinn áhuga (það voru fleiri strákar sem tóku þátt í forvalinu) þá sé ekki hægt afskrifa þær útaf áhugaleysi. Það hefði alveg verið hægt að velja 2 stráka og eina stelpu. Restin gengur bara út á að æfa út í eitt (ekki hvar í röðinni á prófi maður er). Það er ekki hægt að ætlast til að 16-20 ára strákar séu að fatta að það sé góð hugmynd að pæla í kynjahlutföllum og ef að val í þessi lið er engöngu í þeirra höndum þá breytist lítið.

 3. Það má líka semja fleiri spurningar um hefðbundin áhugasvið stúlkna. Þau eru ekkert minna merkileg heldur en hefðbundin áhugasvið stráka. Þá neyðast strákarnir til að hafa stelpur með í liðinu ef þeir ætla sér að eiga möguleika á sigri. Myndi eflaust virka betur en að þvinga stelpur í keppnina með kynjakvótum.

  • Stefán svara þessu sjálfur í pistlinum hjá sér:

   „Strax á níunda áratugnum byrjaði stofnunin að senda almenn tilmæli til nemendafélaga skólanna um hvort þeir gætu nú ekki hugsað sér að hafa keppendur af báðum kynjum. Nýir dómarar fá einatt óskir um að reyna að skella inn nokkrum kvenlægum spurningum, enda vilja margir trúa því að kynjahallann megi að einhverju leyti skýra með því að spurningarnar séu meira fyrir stráka.

   Sú kenning var reyndar rækilega afsönnuð í byrjun tíunda áratugarins, þegar spurningasamningin var í höndum kvenna fimm ár í röð. Allir lýstu dómararnir (þar á meðal ein af forystukonum Kvennalistans) því yfir að spurningarnar yrðu margar hverjar kvenlægar og því skynsamlegt að kippa stelpum með. Þrátt fyrir þetta varð engin fjölgun stúlkna á tímabilinu. Vandinn er nefnilega menningarbundinn í skólunum sjálfum.“

   Fyrir utan að hver eru hefðbundin áhugasvið stúlkna? Og síðan hvenær er t.d líffræði og saga Íslands orðin að hefðbundnum áhugasviðum stráka? Stelpur hafa alveg áhuga á þessu eins og strákar.

  • Þá yrði nú fyrst allt vitlaust ef stelpum væri sértaklega ætlað að svara spurningum um … hvað? — tísku? — barnapössun? — dúkkur? — eldhúsverk?
   Má spyrja sérstaklega um „áhugsvið kvenna“ og að ætla stelpunum sérstakelga að svara þeim spurningum?

 4. Ég hló örlítið að því hversu vel þér tókst að lýsa spurningaliðsklíkunum. Svo held ég að þú hafir hitt naglann á höfuðið með að fjölgun kvenkynskeppandi stuðli að því að Gettu betur verði skemmtilegra sjónvarpsefni. Ég get ímyndað mér að ein af ástæðnum fyrir því að ótrúlega margir muna enn eftir mér úr Gettu betur sé sú staðreynd að þeim þótti gaman að fylgjast með kvenkyns keppanda.

 5. Þetta er fáránlega leiðinlegt sjónvarpsefni spurningarnar þess eðlis að ekkert venjulegt fólk veit svörin nema örsjaldan og svo er ekki sjéns að skilja hverju keppendur svara held það hljóti að vera dalandi áhorfendafjöldi hvort sem er og bráðum nennir enginn að horfa á þetta nema keppendur sjálfir og fjölskyldur þeirra.

 6. Er vandamálið ekki bara þeir sem velja í liðin? Eru það ekki einhverjir strákar sem eru að velja aðra stráka í liðin? Það er engin pressa á þá að velja stelpur (Þar gæti RÚV komið með alvöru hvatningu). Hann Stefán segir það sjálfur…klíka. Ég held að það sé fráleitt að stelpur hafi minni áhuga en strákar á spurningakeppnum.

 7. Ég var í þessu brasi fyrir Verzlunarskólann á sínum tíma (náði að keppa einu sinni við Stefán, ef ég man rétt) og þjálfaði svo liðið fyrsta árið eftir að ég hætti. Þá var lagt fyrir svona nokkuð klassískt spurningapróf fyrir alla nemendur skólans, og var spurningunum skipt niður á hin aðskiljanlegustu svið. Þær voru að vísu samdar af karlmönnum og e.t.v. nokkuð karllægar, en ef ég man rétt röðuðu strákar sér í nánast öll efstu sætin í öllum flokkunum. Þannig að þarna var ekki bara um það að ræða að konur vildu ekki koma fram sem nördar eða væru of óframfærnar eða svoleiðis.
  Í framhaldinu skrifaði ég grein í Verzlunarskólablaðið sem bar titilinn „Eru stelpur fávísari en strákar?“ þar sem farið var yfir kynjatölfræði prófsins og hlaut sú grein ekki einróma lof kvenkynsins.

 8. Ég tók þátt í svona forvali í FB á sínum tíma, fyrir einum 20 árum. Spurningarnar voru mjög karllægar enda Getti betur þjálfarar yfirleitt strákar. Liðið skartaði að vísu stelpu í lokin, sem var afar klár og sat í miðjunni, en engu að síður þá vorum við að tala um mjög karlmiðaðar spurningar í forvalinu. Held að það skipti máli.
  Maður sér að í Útsvari er þetta öðruvísi.

 9. Vandamálið er ekki kynjahlutföllin, heldur þátturinn sjálfur. Í núverandi mynd verður hann ekkert betri með jöfnuðum hlutföllum og það er skammsýni að einblína á það sem lausn. Vegna vinsælda spurningaþátta í sjónvarpi jaðrar það við 111. meðferðina að fara svona með hugmynd sem í eðli sínu er góð, innbyrðis keppni framhaldsskólanna. Ég kýs Karþagóviðhorfið, legg til að þátturinn verði lagður niður og eftir það skoðað vandlega frá hvaða keppnum framhaldsskóla eigi yfirleitt að sýna því þeir keppa í ýmsum greinum. Þar með er hægt að byrja upp á nýtt, án þess að fulltrúar framhaldsskólanna eigi síðasta orðið. Ef þeir vilja halda núverandi formi á þættinum og búa til vont efni, þá ber RÚV engin skylda til að senda það út.

 10. Hvernig væri að koma með skemmtilega lausn á þessu en ekki leiðinlega? Gerum þetta eins og í flestum íþróttum og höfum „Getið betur karlar“ og „Getið betur konur“. Karla og kvennalið og svo er keppt í kvenna og karlariðlum. Það yrðu áhugaverðari úrslit. Í lokin gætu vinningsliðin keppt hvort við annað eða einhverjar blokkir – karlar vs. konur – Heildarskor skólanna gæti skipt máli (MR gæti unnið karla, MA konur, en FSU samanlagt karla + konur) – Efstu liðin gætu keppt við efstu liðin af hinu kyninu. Sá þáttur – Karlar vs. konur – Í úrslitaspurningakeppni mundi líklega fá mesta áhorf allra tíma. Þótt allir viti að endanlegaur árangur fer eftir undirbúningi og liðsheild þá held ég að jafnvel hörðustu anti-sjónvarpsgláparar mundu stilla á þáttinn og horfa.

  Gera þetta skemmtilegra, ekki leiðinlegra takk fyrir. Það þarf bara smá leikjahönnun í þessa jöfnu, ekki boð og bönn.

  • Hvernig er „Lágmark ein stelpa og einn strákur í hverju liði“ boð og bönn, en „Eingöngu strákar í þessu liði, og eingöngu stelpur í þessu liði“ sniðug og skemmtileg leikjahönnun?

 11. Ég hef lausnina. Vandinn er eðli spurninganna. Einfaldlega að fjölga spurningum á áhugasviði kvenna, þar til rétt hlutfall næst.

 12. Þessi grein Stefáns er svo full af sjálfsumgleði „ég skapaði skrímsi“ og fordómum að mér vöknaði næstum um augu.

  Það hafa allir nemendur jafna möguleika í þessari keppni. Það er ekkert ójafnrétti ef öllum nemendum er boðin þátttaka í undankeppni og ef einhver einstaklingur nær ekki einu af 3 efstu sætunum þá verður viðkomandi bara að lesa sig betur til.

  Punktur.

 13. Ef setja ætti á kvóta, þá mætti fara „fæðingarorlofsleiðina“. Þar fær hvort kynið 3 mánuði (að auki eru 3 til viðbótar sem fólk má deila á milli sín). Ef annað foreldri tekur ekki sinn hluta, þá fellur hann niður og hitt foreldrið getur þá ekki tekið þann hluta í staðinn. Hann er sumsé ekki framseljanlegur eins og segir í lögunum.

  Stundum hefur verið sagt að þetta sé ein umfangsmesta sértæka aðgerð Íslandssögunnar (þ.e. sjálfstæður og óframseljanlegur réttur feðra til fæðingarorlofs), og nokkuð kostnaðarsöm. En ávinningurinn af henni var metinn töluverður, og býsna góð sátt um hana. Það væri hægt að setja sambærilegar línur um Gettu betur: Hver skóli á rétt á að tefla fram einum karli og einni konu. Þessi réttur sé ekki framseljanlegur. Til viðbótar megi velja þriðju manneskjuna af hvoru kyninu sem er.

  Þannig eru skólarnir ekki „píndir“ til að hafa konur í liðunum og konur heldur ekki „píndar“ til að taka þátt, en það er kannski ekki mjög líklegt að skólar myndu kjósa að fullnýta ekki þennan rétt og tefla fram 2ja manna liði.

  Þetta er auðvitað sértæk aðgerð, en stundum þarf þær til að ná fram kerfisbreytingum. Og kannski er í þessu tilviki fullreynt að ná fram breytingum án þess að nota verkfæri af þessu tagi.

 14. Arnar þú vilt semsagt brjóta jafnrétti til að ná fram jafnri stöðu. Brjóta á rétti eins til að tryggja stöðu annars?

  Það sem er kannski einna verst í öllu þessu stuðnings- og kvótatali er að þið talið um konur og stúlkur eins og undirmálsfólk sem þarf að styðja sérstaklega til verka.

  • Sæll Kalli. Eins og kemur fram í þessu innleggi þá er ég ekkert sérstaklega að kalla eftir þessu, heldur bendi á þetta sem möguleika ef setja ætti á kvóta.

   En hvað finnst þér þá um breytingarnar sem gerðar voru á fæðingarorlofi þegar körlum var tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs? Var það „aumingjahjálp“?

   Þetta er líka spurning um kerfið, stundum er það gallað eða skekkt, og svona aðgerðir geta verið býsna áhrifaríkar (ekki síst í bland við aðrar leiðir) til að breyta kerfinu.

   Eins og ég segi þá er þetta ein leið. Aðrar aðferðir hafa ekki gefist sérlega vel í Gettu betur. Kannski finnst fólki þetta engu skipta. En ef markmiðið er að breyta þessu þá bendir ýmislegt til þess að skoða þurfi nýjar leiðir. Þetta gæti verið ein.

   • Jafn réttur kynjanna er af hinu góða, ég held að það finnist ekki sá íslendingur sem sé ósammála því.

    Vandamálið við kynjakvóta, í hvaða búning sem hann er klæddur, er að hann brýtur á rétti annars einfaldlega útaf kyni. Hvernig á að útskýra það fyrir þeim sem lenda í þannig ójafnrétti?

  • Hvað finnst þér um tvenndarkeppni í t.d. tennis og badminton? Er verið að brjóta jafnrétti þar til að ná fram jafnri stöðu? Eru konur í þeim keppnum undirmálsfólk sem þarf að styðja sérstaklega til verka?

 15. Bakvísun: Þessvenga þarf kynjakvóta í Gettu betur | Pistlar Evu

 16. Ég man eftir konu sem tók þátt í einhverri spurningakeppninni þegar ég var unglingur. Ég man satt að segja ekki hvort það var Gettur Betur eða önnur keppni en ég, ásamt fjölskyldu minni, heilluðumst mjög af ótrúlegri þekkingu hennar…hún bókstaflega vissi ALLT! Aðra eins frammistöðu hef ég ekki séð síðan..það er bara þannig.

  Svo ég spyr: Ef mannkynssaga, vísindi, líffræði, bókmenntir o.s.frv eru karllæg áhugamál, hvað er þá eftir sem getur talist kvenlæg áhugasvið? Um hvað eiga úrtökuprófin þá að snúast…Sex and the City?

  Langt síðan ég hef séð annan eins tilbúning vandamála og hártoganir. Ég efast ekki um það að ef einhver stúlka skilar sér efst á lista úrtökuprófs þá fer hún í liðið…amk ef þetta fólk hefur örðu af keppnisskapi.

  Takið bara þátt stelpur og hættið að kenna alltaf öðrum um ,,vandamálin“.

 17. Bakvísun: Kynlegur kvóti | Málbeinið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.