Hin fullkomna og óumdeilanlega uppskrift að fórnarlambi

Höfundur: Hertha Richardt Úlfarsdóttir

Ég er þreytt.

Ég er afskaplega þreytt þessa dagana. Það hefur eitthvað með óhugnanlegar fréttir af ofbeldi, hérlendis sem annars staðar, að gera.

Ég er þreytt á slakri umræðuhefð hér heima. Hún sést berlega í kommentakerfum fjölmiðla. Fjandsamlegum orðum er fleygt fram líkt og þau valdi engum skaða. Vanþekking og vanvirðing veður uppi og þeir sem verja þolendur kynferðisofbeldis eru vændir um öfgar eða mannhatur. Brotaþolar sjálfir eru svo byttur, dræsur eða athyglissjúkar dramadrottningar. Upp hefst heilmikið rifrildi og brotaþolar virðast oft og tíðum gleymast.

Ég er aðallega þreytt á því að heyra um þessa dularfullu uppskrift að fórnarlambi. Þessi uppskrift hefur reyndar verið á reiki í nokkurn tíma. Ég er ekki eingöngu að tala um klassísku mýturnar: Ef hún daðraði við hann átti hún þetta skilið eða er að ljúga. Ef hún var klædd á ögrandi hátt hlýtur hún að hafa grátbeðið um þetta. Ef hún var dauðadrukkin hefði hún bara átt að passa sig betur ef þetta var ekki bara einhver „misskilningur“. Ef hún var kærasta hans átti hann einfaldlega rétt á því að fara upp á hana þegar honum sýndist. Sofandi eða ekki. Þannig eru sambönd náttúrulega. Ef hún sagði ekki nei, þá var það sjálfkrafa samþykki. Það skiptir ekki máli hvort hún var of skelfd, drukkin eða sofandi til að andmæla. Einmitt. Þessar hugmyndir eiga eitt sameiginlegt. Þær eru hliðhollar ofbeldismanninum.

Þetta eru mýtur sem samfélag okkar er nýverið byrjað að hafna. Ég fagna því, enda neita ég að trúa því að karlmenn séu svo miklar skepnur og dýr að þeir bara ráði ekki við sig. Eða svo heimskir og vitlausir að þeir skilji ekki samskipti. Eða að upp til hópa vilji þeir bara taka sénsinn og hunsa skilaboðin sem eru í raun afskaplega skýr. Við erum víst öll af sömu tegund, og eins ólík og við erum sem einstaklingar, þá þykir mér harla ólíklegt að við séum svona ólík. Ég hef heldur engan áhuga á að trúa því að karlmenn séu svo sjálfselskir og sjálfhverfir að þeim sé sama um nautn rekkjufélagans. Ég trúi ekki öðru en að upp til hópa hafi þeir jafngaman af kynlífi og konur og kunni, líkt og þær, jafnmikið að meta jákvæð viðbrögð, bros, hlátur og fullnægingu. Orðið „já“ er hreint út sagt ágætisorð. Ég trúi því að góðmennska og velvild sé reglan. Því miður eru til undantekningar.

The ResilientHver týndi leiðbeiningunum?

Ég er þreytt á mýtunni um „hvernig skal hegða sér eftir að manneskja er beitt kynferðisofbeldi“. Ég er þreytt á því að ekki sé hlustað eða tekið mark á þeim sem þekkja á eigin skinni hvernig upplifunin er. Þeir einstaklingar, og aðeins þeir, eru brotaþolar. Aðrir geta skrásett, skoðað og safnað saman upplýsingum. Sálfræðingar og aðrir fræðimenn hafa rannsakað áhrif kynferðisofbeldis og slík upplýsingasöfnun er af hinu góða. Því meira sem við vitum, því betra. Brotaþolar eru engu að síður þeir einu sem vita hvað hrærist innra með manneskjunni á meðan á ofbeldinu stendur og hvað gerist eftir á. Það getur tekið mörg ár að átta sig á ferlinu og sársaukanum. Þetta allt annað en eftirsóknarverð reynsla.

Einungis brotaþolar vita í raun hversu sterk afneitunin og áfallið er. Að vera beitt/ur kynferðisofbeldi er djúpt sár á sálinni. Þetta er svo ljótt, svo vont og það er svo erfitt að vita að þetta hafi gerst. Eitt af því versta við þessa reynslu er að brotaþoli veit að ofbeldisverkið var framið af annarri manneskju. Manneskju sem fékk kikk út úr því að meiða aðra manneskju eða jafnvel riðlast á henni þótt hún sárbændi um grið. Manneskju sem var sama þótt brotaþoli segði nei og reyndi að ýta gerandanum frá en lyppaðist svo niður – sökum áfalls, ótta. Vantrúin og hræðslan getur orðið svo mikil að það sem maður vill að sé öskur verður kjökur, það sem maður vill að verði rothögg reynist vanmáttugur hnefi. Brotaþolar kynferðisofbeldis eru alveg eins og aðrir meðlimir samfélagsins að því leyti að þeir vilja ekki trúa því að önnur manneskja sé fær um slíkt ofbeldi. Þetta er einn af mörgum þáttum sem gera þessa lífsreynslu svo lamandi. Brotaþolar hafa því miður fengið að reyna þetta „eitthvað“ sem önnur manneskja er fær um. Það eitt og sér er ömurleg byrði. Það er sannleikur sem svíður.

Ég er þreytt á mýtunni um að sá sem verður fyrir kynferðisofbeldi eigi að átta sig strax á því hvað sé að gerast. Þess er ekki krafist af þeim sem lendir í slysi eða missir náinn ástvin. Fólk er skilningsríkt gagnvart fórnarlömbum náttúruhamfara eða annarra hörmunga. En það er skiljanlegt og algengt að manneskja frjósi eftir áfall og þurfi tíma til að jafna sig. Mannskepnan er ekki gerð úr grjóti heldur er hún bæði breysk og viðkvæm. Þetta á einnig við um þá sem verða fyrir kynferðisofbeldi. Að því viðbættu að vettvangur ofbeldisins fylgir þolendum statt og stöðugt því vettvangurinn er líkami þeirra.

Ég er þreytt á því að heyra fólk rægja brotaþola og ásaka þá um lygar ef þeir hafa sest niður með ofbeldismanni sínum daginn eftir ofbeldisatvikið, jafnvel borðað með honum morgunmat, varið tíma með honum, rétt honum vatnsglas og brosað. Brotaþolar ganga ekki með skilti á sér sem á er letrað: „Ég var beitt/ur kynferðisofbeldi rétt í þessu.“ Ekki frekar en ofbeldismennirnir flagga yfirlýsingu um gjörðir sínar. Við getum falið lífsreynslu okkar fyrir okkur sjálfum, sem og öðrum. Við gerum það til að lifa af.

Þegar einstaklingur hefur verið beittur kynferðisofbeldi verður hversdagsleg hegðun oft eina haldreipið. Þegar eitthvað svona slæmt hefur átt sér stað og manneskja er dofin á sálinni þá getur hún einungis brugðist vélrænt við. Fæst okkar eru skilyrt til þess að bregðast við kynferðisofbeldi í okkar daglega lífi. Hversdagslegar athafnir á borð við að rétta einhverjum vatnsglas, fara í vinnuna eða setjast niður og borða morgunmat eru athafnir sem eru okkur tamar. Við framkvæmum þær nokkuð til án umhugsunar. Í sjokki er manneskjan ekki endilega í ástandi til að hugsa eða meðtaka, hún getur einungis brugðist við á sjálfvirkan máta.

Jafnvel þegar brotaþoli nær að púsla saman upplifuninni og hryllingnum og skilur hvað átti sér stað er vel hugsanlegt að brotaþoli „lofi öllu fögru“ til þess eins að sleppa úr haldi ofbeldismannsins. Hver verður ekki hræddur eftir svona lífsreynslu? Það skiptir ekki máli þótt ofbeldismanninum kunni að finnast ofbeldið fullkomlega eðlileg hegðun af hans hálfu. Ég held að enginn vilji gangast við að hafa beitt ofbeldi, að hafa þurft „að tala stelpuna til“ (les: þvinga hana með orðum eða gjörðum). Ég held að engum finnist flott að hafa sofið hjá grátandi manneskju eða að hafa „sýnt henni hvað alvöru kynlíf er“ með því að hunsa vilja hennar og mörk.

Ofbeldismenn bera ekki endilega sjálfir kennsl á að þeir séu ofbeldismenn. Það breytir því ekki að ofbeldið átti sér stað. Sú meðvirkni að réttlæta gjörðir ofbeldismannsins gengur ekki upp til lengdar enda þykist ég viss um að við vitum flest hversu óeðlilegar, ógeðslegar og óæskilegar þær eru. Við einfaldlega þorum ekki að standa uppi í hárinu á þeim. Við gætum sært einhvern eða verið ásökuð um lygar, nú eða verið úrskurðuð geðveik og með brenglaða sýn á heiminn. Þöggun hefur aldrei „dottið úr tísku“.

Ég er einmitt líka þreytt á því að heyra útundan mér að þessi eða hinn sé geðveik/-ur og því ómarktæk/-ur þegar viðkomandi sýnir einkenni áfallastreituröskunar. Þegar hjálpin er lítil og særður einstaklingur reynir að klóra sig upp úr forarpytti sem önnur manneskja henti honum ofan í er oft bara ein leið fær: Að berjast. Hamast. Það er ekkert rými fyrir rökhugsun, það er ekkert rými til þess að greina eigin hegðun og oft er ekkert rými til þess að reyna að skilja lífsreynsluna.

Það er búið að koma af stað stríðsástandi í bæði líkama og sál og brotaþolinn þarf að berjast við að skilja veruleikann upp á nýtt. Samfélag okkar er afar illa upplýst um afleiðingar kynferðisofbeldis og upplifanir þeirra sem fyrir því verða. Skilningsleysið veldur því að margir brotaþolar ráfa um einir, villtir og án hjálpar. Margir berjast við einkenni sem þeir hreinlega skilja ekki. Sumir brotaþolar fá síðan þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Það eru enn of margir sem fá hana ekki.

Ég er þreytt á því að það sé talað um brotaþola sem skemmda og ég er alveg jafnþreytt á að heyra að ef manneskja getur stundað kynlíf eða notið lífsins hafi árásin ekki verið nógu „alvöru“ eða hljóti jafnvel að vera uppspuni. Ég er líka skelfilega þreytt á því að þegar svo fer að brotaþola er orðið sama um eigin líkama og eigin kynverund finnist sumum allt í lagi að fara illa með hann. Að brotaþoli bjóði upp á það með því að hata sjálfan sig og allt sem honum sé gert sé á hans ábyrgð. Það virðist ekki skipta máli að sumt á maður einfaldlega ekki að gera, þar á meðal að notfæra sér sársauka annarra. Við eigum velflest skilið almenna virðingu. Það að sýna öðrum þá virðingu er einn af grundvallarþáttum þess að vera almennileg manneskja.

Til varnar reiðum aðstandendum vil ég segja: Hver verður ekki reiður þegar ráðist er á einhvern sem maður elskar? Hver upplifir ekki sársauka yfir því að geta ekki bjargað barninu sínu, systkini, foreldri, maka eða vinkonu? Þessi reiði er erfið viðureignar í samfélagi sem málar alla gerendur í kynferðisbrotamálum sem skrímsli, samfélagi sem hefur takmarkaðan skilning á eftirköstum kynferðisbrota, samfélagi sem gerir okkur erfitt fyrir að átta okkur á að ofbeldismennirnir eru manneskjur. Þeir eru einstaklingar sem eru færir um að brjóta á öðrum.

Ég er þreytt á því að heyra að brotaþolar eigi „bara að jafna sig á þessu“ eða „get over it“. Fólk vinnur úr áföllum og ofbeldi á mismunandi hátt og það skiptir miklu fyrir bataferlið að virða nálgun hvers og eins. Mig grunar reyndar að í sumum tilvikum falli þessi orð ekki vegna þess að fólki sé svo umhugað um bata brotaþola. Fólk er einfaldlega þreytt á því að heyra af þessu eða kann illa á aðstæður. Auðvitað er erfitt að heyra um svona viðbjóð, auðvitað er erfitt að horfa upp á einhvern í sínu nærumhverfi reiðan og sáran. En þessi atburður hverfur ekki úr lífi brotaþola, hann hefur átt sér stað og það er lítillækkandi að segja viðkomandi að jafna sig á því. Þetta skilningsleysi íþyngir brotaþolum margfalt og hægir jafnvel á bata.

Ég er orðin þreytt á því að þolendur og aðstandendur þeirra séu ásakaðir um fórnarlambsvæðingu þegar talað er um kynferðisofbeldi, þegar talað er um að það þurfi að gera kynferðisofbeldismenn ábyrga fyrir gjörðum sínum eða að samfélagið beri sinn skerf af ábyrgðinni. Það er lítillækkandi fyrir samfélagið, lítillækkandi gagnvart þeim sem hafa verið í þeirri stöðu að vera fórnarlamb á einhverjum tímapunkti. Það á ekki að vera smán í því að hafa verið fórnarlamb – við vitum öll hvar skömmin á að liggja og það er ekki hjá brotaþolum. Að stimpla þessa gagnrýni sem fórnarlambsvæðingu er lítið annað en þöggun. Það þarf að gagnrýna til að knýja fram breytingar, það þarf að tala um þessa hluti til að vekja samfélagið. Enginn deilir þessari reynslu með öðrum upp á athyglina eða fjörið heldur af þrá til þess að breyta samfélaginu okkar til hins betra.

Mýta eitt, tvö og þrjú

fari maidenÉg er þreytt á að brotaþolum skuli ekki vera treyst fyrir því að vita sjálfir hvað þeir upplifðu, hvað átti sér stað. Ég er orðin þreytt á því að einhver dularfull „formúla að fórnarlambi“ sé ítrekað notuð til þess að gera lítið úr orðum og upplifun brotaþola.

„Hún borðaði morgunmat með honum, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún var hrifin af honum, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún var ekki með áverka, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún var full og þegar maður er fullur býr maður til minningar, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún svaf í sama rúmi, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún sagði ekki neitt fyrr en tveimur árum síðar, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Hún er geðveik, hún hlýtur að vera að ljúga“

„Þau umgangast enn hvort annað, hún hlýtur að vera að ljúga“

Skítt með að það er erfitt að horfast í augu við upplifunina þegar þessar mýtur og rætinn orðrómur eru í vændum. Skítt með að það sem margir þrá einna helst er að reyna að lifa eðlilegu lífi, komast hjá þessum fordómum, og þegja þess vegna. Skítt með að þolandinn er farinn að hata sjálfan sig svo mikið að hann reynir að eyðileggja sig, reynir að losna við manneskjuna sem var beitt ofbeldinu. Skítt með að ástæðan fyrir því að brotaþoli umgengst ofbeldismann sinn ennþá er að hann er hluti af vinahópnum. Að það eru jafnvel einhverjir vinanna sem segja „þetta var nú varla svo slæmt“, „þetta var bara misskilningur“, „þið voruð bæði full“ eða „ekki vera með vesen“. Það þarf ekki að vera að þessir vinir meini þetta illa, þeir vita einfaldlega ekki betur. Þessir fordómar hjálpar engum nema ofbeldismanninum.

Ég er þreytt á að uppskriftin að fórnarlambi kynferðisofbeldis komi úr öllum áttum nema frá brotaþolum sjálfum. Að brotaþolar eigi einfaldlega að fylgja henni eins og viljalausar strengjabrúður. Ég er reyndar orðin þreytt á þessari uppskrift yfirhöfuð.

Þegar öllu er á botninn er hvolft, þá er ég þreytt á því að hafa enn þessa stóru, fallegu von í brjósti mér um að þetta komi til með að breytast. Það er svo ótrúlega sárt að verða ítrekað fyrir sömu vonbrigðunum. Sem betur fer virðist ég vera háð þessari von, ég kann einfaldlega ekki að gefast upp.

Að lokum vil ég bæta við að ég geri mér fyllilega grein fyrir því að karlmenn eru einnig beittir kynferðisofbeldi. Það er nauðsynlegt að opna þá umræðu og það gerir ekki lítið úr því ofbeldi, né dregur úr því, að tala um konur (hvort sem konan er með leg eður ei) sem brotaþola þegar það á við. Þetta er ekki samkeppni, þetta er ekki leikur og því er hugmyndin um að „trompa“ eitt eða annað með öllu óviðeigandi.

 

6 athugasemdir við “Hin fullkomna og óumdeilanlega uppskrift að fórnarlambi

  1. Frábær grein og þörf umræða. Þekki marga þolendur nauðgana en „hið fullkomna fórnarlamb“ virðist vera jafn sjaldgæft og einhyrningar með vængi. Kannski er það vegna þess að bæði eru goðsögn.

  2. Grein þín fékk tárin til að renna. Ekki af því að hún væri óþægileg, heldur af því að hún er svo sönn. Skrifuð af innsæi og skilning sem er of sjaldgæfur þegar rætt er um þessi mál. Brotaþolar eru ekki fórnarlömb, að ræða kynferðisofbeldi og afleiðingar þess er ekki fórnarlambsvæðing. Það sýnir einmitt að þrátt fyrir að vera þolendur brots, þá neita þær að vera fórnarlömb, heldur rísa upp og skila skömminni, smáninni, deila sársauka sínum og opna umræðu. Sem sumum finnst óþægilegt að heyra í sjálflægni sinni en gleyma að það sem þau eingöngu heyrðu með eyrunum, þurfti brotaþolinn að ganga í gegnum og upplifa. Áfram hetjur þessa lands. Að vera brotaþoli er að vera baráttujaxl.

  3. Mikið er ég sammála þér í einu og öllu. Málið er að með þögguninni þá er verið að fórnalamba fólk áfram. Kerfið sjálft býður upp á að fólk á erfitt uppdráttar. Ég er sammála þér að þetta er ekki keppni á milli kynjanna en eins og ég upplifi þetta þá finnst mér eins og samfélagið sé orðið pínulítið samdauna því að kvennmenn og stúlkur séu misnotaðar og ein mitt þetta viðhorf viðgangist en vegna þess að hve lítið hefur verið rætt um að drengir og karlmenn geti líka orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þá eru allir í sjokki, Sama hver persónan er þá á aldrei að líða ofbeldi og öllum eiga að standa til boða bætur og stuðningur. Sálfræðiaðstoð er ekki gefins, þrátt fyrir frábært starf hjá Drekaslóð og Stígamótum og fleirum stöðum þá þarf stundum sérfræðingur að grípa inn í vegna þess hve víðtæk afleiðing ofbeldisins er. En við fórnarlömbin höfum sem betur fer val og getum innréttað okkar líf upp á nýtt á gefnum forsendum. VIljum við vera fórnarlömb áfram eða ætlum við að fá uppreins æru. Stöndum saman og tölum þetta í hel.

  4. Takk fyrir þessa þörfu og flottu grein. Finn að þreytan er alveg horfin , náðir að hrista upp í mér! Kærar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.