Um rangar sakargiftir í kynferðisbrotamálum

Höfundur: Guðrún C. Emilsdóttir

 

 

Töluvert hefur verið rætt um „öfuga sönnunarbyrði“ í kynferðisbrotamálum að undanförnu og femínistum legið á hálsi fyrir að vilja koma henni á hér á landi. Femínistar almennt kannast ekki við þetta og gerir Anna Bentína Hermansen grein fyrir þeim misskilningi sem liggur að baki þeirri trú í grein sem birtist hér á Knúzinu 16. janúar s.l. Í grein sinni segir hún m.a. að í frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum varðandi kynferðisbrot „[sé] farið fram á að andlegar afleiðingar nauðgana hafi meira vægi en nú er þegar kemur að sönnunarbyrði, enda andlegir áverkar oft alvarlegustu afleiðingar kynferðisofbeldis“. Þeir sem eru mótfallnir því að andlegar afleiðingar kynferðisbrota fái meira vægi hafa talið sig geta bent á að rannsóknir sýni að hægt sé að gera sér upp áfallastreitueinkenni og að kærur um nauðgun séu oft byggðar á röngum sakargiftum.

Hér ætla ég ekki að ræða hvort hægt sé að gera sér upp áfallastreitueinkenni eða ekki, enda hef ég ekki kynnt mér málið. Hins vegar hafa mér þótt fullyrðingar um rangar sakargiftir einkennilegar og ekki rökum studdar, a.m.k. miðað við íslenskan veruleika. Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir sem snúa að röngum sakargiftum, en þær sem gerðar hafa verið skv. viðurkenndum vísindalegum aðferðum sýna fram á að 2-11% kæra um nauðgun séu rangar. Ágæta samantekt um þessar rannsóknir má nálgast hér. Engin slík rannsókn hefur verið gerð á Íslandi og til að reyna að fá einhverja hugmynd um stöðu mála hér á landi ákvað ég að gera smá rannsókn byggða á tölum frá Alþingi og Hagstofu Íslands og dómum frá domstolar.is. Síðustu heildartölur sem hægt er að byggja á eru því miður ekki alveg glænýjar, en ég sé enga ástæðu til að ætla að hlutföll hafi breyst að ráði.

Samkvæmt svari við fyrirspurn frá Alþingi um fjölda mála er varða kynferðisbrot kemur í ljós að tilkynningar um slík brot voru 125 á árinu 2006. Afdrif þeirra vekja athygli:

Mál er varða kynferðisbrot árið 2006
Alls %
Tilkynningar* 125
Sent til ríkissaksóknara 68 54,4%
* Af þeim voru 67 vegna nauðgana
Niðurfellt 48 70,6%
Ákært 14 20,6%
Ekki vitað* 6 8,8%
Alls 68 100,0%
* Í þessum tölum frá Alþingi er misræmi í fjölda mála en hugsanlegar skýringar gætu verið að mál hafi ekki verið tekið til meðferðar fyrr en 2007.
Sýknað í héraðsdómi 2 14,3%
Sakfellt í héraðsdómi 8 57,1%
Ekki vitað* 4 28,6%
Alls 14 100,0%
* Í þessum tölum frá Alþingi er misræmi í fjölda mála en hugsanlegar skýringar gætu verið að mál hafi ekki verið tekið til meðferðar fyrr en 2007.

Rúmlega helmingur tilkynninga er sendur til saksóknara og einungis 20,6% mála sem þangað berast leiða til ákæru. Ef tekið er mið af fjölda tilkynninga enda aðeins 11,2% þeirra fyrir dómstólum. Það skal tekið fram að hér ekki greint á milli mála er varða nauðganir, tilraunir til nauðgunar, kynferðisbrot gegn börnum, sifskaparbrot o.s.frv., en ef tölur frá Hagstofu Íslands um sakfellingar eftir brotum eru skoðaðar virðast þessi 8 mál þar sem sakfellt var í héraðsdómi vera vegna nauðgana.

Sambærilegar tölur um brot vegna rangs framburðar eða rangra sakargifta er ekki að finna hjá Alþingi, en hjá Hagstofu Íslands má finna tölur um sakfellingar í málum sem farið hafa fyrir dómstóla.

Sakfellingar árið 2006
Alls % Karlar Konur
Öll brot 3133 2757 376
Nauðgun 8 0,26% 8 0
Rangar sakargiftir* 10 0,32% 6 4
* Í öllum brotategundum.

Eins og sjá má eru sakfellingar vegna nauðgunarmála innan við 0,5% allra mála (11,9% tilkynninga um nauðgun sem voru 67). Svipaða sögu er að segja um sakfellingar vegna rangra sakargifta eða rangs framburðar. Til að ganga úr skugga um hvers konar mál væri um að ræða leitaði ég í dómstólavefinn. Aðeins 7 mál komu upp þar sem orðin „rangar sakargiftir“ var að finna. Fimm þessara mála voru sakfellingar vegna rangra sakargifta eða rangs framburðar. Tvö önnur komu upp vegna þess að orðin komu fyrir í textanum, þótt sakfellt væri vegna annarra brota. Það vantaði því 5 mál upp á til að fá sömu tölu og kemur fram í töflunni. Ég reyndi ýmsar leitarskipanir og orðmyndir, en án árangurs. Annað hvort hafa þessi mál sem upp á vantaði ekki verið sett inn á vefinn eða orðalagið verið á annan veg.

Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara 5 mála voru vegna rangra sakargifta varðandi nauðgun. Fjögur þeirra voru vegna umferðarlagabrota og eitt vegna fíkniefnabrots.

Rangar sakargiftir 2006
Kona Karl Alls
Kynferðisbrot (nauðgun) 0 0 0
Umferðarlagabrot 2 2 4
Fíkniefnabrot 0 1 1
Alls 2 3 5

Ef við gefum okkur, þrátt fyrir þessar niðurstöður, að þessi 5 mál sem upp á vantar hafi öll verið vegna nauðgunarmála (þótt ótrúlegt megi teljast), þá er prósentutalan langt, langt, undir þessum 2-11% sem hafa verið í umræðunni varðandi upplognar sakir í nauðgunarmálum, eða í mesta lagi 0,16%.

 

 

Þessar niðurstöður segja vissulega ekki alla söguna, því til að fá raunverulega mynd af stöðu mála þyrfti að gera rannsókn á þeim málum sem tilkynnt voru upphaflega og kanna hvers vegna tæplega helmingur þeirra var ekki sendur til ríkissaksóknara og hvers vegna var ekki ákært í um 70% mála sem til hans bárust. Eins og fram kemur í þeim rannsóknum sem vísað er í hér ofar geta ástæðurnar verið margvíslegar: brotaþoli gæti hafa hætt við af ótta við erfið málaferli eða af ótta við gerandann, sannanir hafi ekki verið nægilegar, stuðningur ekki verið nógu mikill, ekki hafi verið um eiginlega nauðgun að ræða í skilningi laganna og auðvitað gæti komið í ljós í einhverjum tilvikum að um upplognar sakir væri að ræða. En það er þó ljóst að alhæfingar um algengi rangra sakargifta vegna nauðgunarmála á ekki við rök að styðjast samkvæmt tölum um sakfellingar. Áður en hægt er að fullyrða nokkuð um það þarf að rannsaka betur þessi mál.

Að lokum má nefna einn athyglisverðan punkt varðandi ásakanir um upplognar sakir. Í þessum tveimur málum sem minnst hefur verið á að ekki séu sakfellingar vegna rangra sakargifta, er sakfellt vegna kynferðisbrota gegn börnum. Í dómunum kemur fram að þeir sem ákærðir voru neituðu sök og sögðu að um rangar sakargiftir væri að ræða. Dómararnir úrskurðuðu hins vegar að málflutningur brotaþola, aðstandenda og sérfræðinga væri trúverðugur, m.a. með tilliti til mats á andlegu ástandi brotaþola, hvort sem um var að ræða niðurstöður viðtala við sálfræðinga, upptökur við yfirheyrslur eða frásagnirnar sjálfar. Það segir mér að hægt sé að taka mark á slíkum gögnum án þess að um beinar sannanir sé að ræða og að dómurum sé vel treystandi til þess að meta þau gögn af almennri skynsemi.

 

6 athugasemdir við “Um rangar sakargiftir í kynferðisbrotamálum

 1. Hér kemur fram að samkvæmt áreiðanlegum rannsóknum SANNAST rangar sakargiftir í allt að 11% tilvika. Sem segir auðvitað ekkert um það hversu mörg slík mál komast ekki upp. Áhugavert væri að fá fram svör við því hvort greinarhöfundur telur ástæðu til að ætla að rangar sakargiftir séu sjaldgæfari á Íslandi en annarsstaðar. Ef svo er ekki þá getum við fastlega reiknað með að á Íslandi sitji saklausir menn í fangelsi og sitji uppi með nauðgarastimpilinn ævilangt.

  Varðandi það hversu lágt hlutfall mála fer fyrir dóm þá er ekki einfaldlega hægt að skýra það með gölluðu réttarkerfi. Um 40% þeirra sem tilkynna kynferðisbrot fylgja málunum ekki eftir og í um 30% tilvika finnst gerandinn ekki. Ég skrifaði um þetta hér http://www.pistillinn.is/?p=1700 og síðar krafði ég lögregluna svara um það hversvegna svona hátt hlutfall nauðgara gangi þeim úr greipum. Hér má sjá svörin sem ég fékk: http://www.pistillinn.is/?p=2052

  • Rannsóknirnar gefa mismunandi niðurstöður eftir því hversu ítarlega mál brotaþola eru skoðuð og eftir því við hvaða skilgreiningu er notast við varðandi sönnun á að EKKI hafi átt sér stað kynferðisbrot. Niðurstöður þeirra rannsókna sem byggja á viðurkenndum vísindalegum aðferðum eru eftirfarandi: 2,1%, 2,5%, 3,0%, 5,9%, 6,8%, 8,3% 10,3% og 10,9%.

   Höfundar samantektarinnar, sem einnig gerðu rannsókn, benda á nauðsyn þess að skilgreina hvað felst í því að sannað sé að kynferðisbrot hafi EKKI átt sér stað og nota síðan þá skilgreiningu við rannsóknir af þessu tagi. Einnig þyrfti að samræma flokkunarkerfi lögreglu þannig að ekki færi milli mála hversu mörg mál falla niður vegna rangra sakargifta.

   Þessar niðurstöður segja mér alveg eins, að í aðeins 2,1% mála sem tilkynnt er til lögreglu er um rangar sakargiftir að ræða. Ég er sammála höfundunum að erfitt sé að fá nákvæmlega úr því skorið hver rétta hlutfallstalan sé á meðan forsendurnar eru ekki þær sömu í öllum rannsóknunum.
   Ég tel hlutfallið vera mjög lágt á Íslandi og finnst tölfræðin benda til þess. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að mál fari ekki alla leið til dómstóla og bent er á nokkrar þeirra í grein minni og í samantekt rannsóknanna.

   • Það væri gaman ef að vísað væri í þessar vísindalegu rannsóknir þannig að lesendur geti kynnt sér rannsóknirnar og þá helst hvaða aðferðafræði var notuð til þess að flokka ákærur sem falsaða.

    Að sama skapi væri hægt að spyrja hvað var óvísindalegt við svokallaða air force 1985 rannsókn sem sýnir nokkuð hærra hlutfall sem og í grein Eugene J. Kanin Ph.D. í Archives of Sexual Behavior
    Febrúar 1994, 1. tölublaði 23. árg, bls. 81-92, sem báðar flokka falsaðar ásakanir þegar fyrir liggja játningar ákærenda á því að hafa logið upp ákærur.

   • Það er vísað í samantekt á þessum rannsóknum í pistlinum þar sem aðferðafræðin er útlistuð og sagt frá því hvernig ákærur voru flokkaðar.

    Hef hins vegar ekki kynnt mér þessar rannsóknir sem þú bendir á.Haukur og mun sjálfsagt gera það við tækifæri. Takk fyrir ábendinguna.

   • Einmitt, fór missti óvart af hlekknum í fyrstu yfirferð.

    Við þurfum að átta okkur á í þessari umræðu að þessi rannsókn, sem og flestar aðrar rannsóknir um falskar ásakanir segja okkur eingöngu til um lægri mörk. Þ.e. að lágmarki 5,9% (og nú horfum við framhjá gefinni mormaldreifingu og 95% mörkum, til einföldunar rökræðunni) ákæra er fölsk. Ef við gefum okkur að héraðsómur dæmi aldrei saklausa menn í fangelsi, og með því að nota tölurnar hér fyrir ofan, þá getum við líka fullyrt að 8/125=6,4% af ásökunum eru sannar! Þetta þýðir að við vitum í raun ekki með fullri vissu um hvort að 7 af hverjum 8 ákærum eru sannar. Ef ekki þá er allri rökræði snúið á haus!

    Ég gæti kynnt rannsókn byggða á tölunum hér fyrir ofan sem segði 93,6% af öllum nauðgunarákærum eru ósannar, byggt á því að það sé sannað að 6,4% séu sannar. Það er í raun jafnmikið vit í því og að fullyrða að ef sannað sé að 5,9% séu fölsk, þá sé sjálfgefið að hin 94,1% séu sönn.

    Það er fjallað um Kanin rannsóknina í áðurnefndri grein. Hún er gagnrýnd fyrir að hafa „fylgt eftir“´málum. Þ.e. löngu eftir að málin voru „útkljáð“ ræðir hún við meint fórnarlömb og þó viðurkenna mörg þeirra að ákærurnar voru falskar. Þessi grein gagnrýnir aðferðarfræði Kanin á þeim grundvelli að ekki sé ljóst hverjar spurningarnar voru! Skiptir það máli ef við trúum á annað borð að það sem hún segir sé satt, þ.e. hef hún heimsótti konu sem viðurkenndi að þetta hefði ekki verið alveg satt, en að kærastinn hennar hefði komið að þeim þegar leikur stóð hæst (sbr. árshátíð lögreglumannamálið) og þetta hefði verið eina leiðin til að bjarga sambandinu, er víst að staðlaðar spurningar hefðu skipt einhverju máli?

    Framsetning þessarar rannsóknar er að sýna fram á (með rangtúlkun, eins og ég bendi á að ofan) að falskar ákærur eru fátíðar, byggt á því hvað sannast sem rangar ákærur. Markmiðið er ekki að komast að sannleikanum heldur að varpa fram tölfræði, og því hafna þær allri aðferðafræði sem er líkleg til að auka hlut falskra ákæra (t.d. þegar játningar liggja fyrir löngu seinna um falskar ákærur! Halló!) og þegar þær draga ákæruna til baka fram fyrir lygamæli (Og hér er rétt að gera sér grein fyrir því að fólk óttast lygamæla, þó sérstaklega fólk sem lýgur, og því getur hann valdið því að raunveruleg fórnarlömb kjósa að viðurkenna að þau væru að ljúga upp ákæru frekar en að fara í mælinn; persónulega myndi mér þykja vandræðalegra að leggja fram ákæru og draga hana svo til baka fyrir framan lygamæli, en fyrir mælingar, en að taka próf sem segði frekar ólíklega að ég væri að ljúga, bara ef ske kynni að mælirinn væri vitlaus (Reyndar er mun algengara að lygamælar sleppi lygum í gegn sem sannleik en taki sannleik fyrir lygi) en svona er nú mannfólkið skrýtið. En að gefa sér að allar játningar um falskar sakagiftir frammi fyrir lygamæli séu falskar játningar um falskar sakagiftir í málum þar sem raunveruleg nauðgun fór fram, er svolítið hæpin forsenda, ekki satt?

    Því er rétt að endurtaka það sem fram kom í textanum hér á undan, að eitthvað á bilinu 0-93,6% af nauðgunaákærum eru falskar og að 0-94,1% af meintum nauðgurum er saklausir.

    Góðar rannsóknir myndu reyna að minnka óvissuna sem við skyldum eftir um þessa 7/8 sem við vitum í raun ekkert um. Orð gegn orði í mörgum tilfellum. Menn hafa mjög ríka hagsmuna til þess að ljúga því að þeir hefðu ekki nauðgað einhverri konu, og sumar konur munu hafa ríka hagsmuna til þess að láta sitt nærumhverfi trúa því að þeim hefði verið nauðgað. Upptalning af ástæðum fyrir því er t.d. að finna i þessari frétt http://www.visir.is/otrulega-margar-falskar-naudgunarkaerur/article/200771228040

    En þar segir: „Þrjár af hverjum fjórum kærum um nauðganir sem berast til dönsku lögreglunnar eru beinlínis vafasamar. Og ein af hverjum fimm er hrein lygi.

    Bent Isager-Nielsen lögregluforingi í Kaupmannahöfn segir í samtali við Berlingske Tidende að lögreglan hefði haft á tilfinningunni að falskar ákærur væru yfir 10 prósent, en að það hefði komið þeim mjög á óvart að þær væru yfir 20 prósent.

    Í tölum lögreglunnar kemur einnig fram að í 54 prósentum tilfella hafi ekki verið um að ræða nauðganir í samræmi við þær kærur sem lagðar voru fram.

    Louise Skriver Rasmussen, sálfræðingur, segir að falskar nauðgunarkærur eigi sér margar orsakir. Í sumum tilfellum séu þær hróp eftir hjálp frá konum sem reyni að vekja athygli á neyðarástandi sem þær búa við.

    Í öðrum tilfellum geti verið um að ræða hefnd. Og í sumum tilfellum geti þetta verið skelfingarviðbrögð eftir frahjáhald eða vegna þess að ungar stúlkur koma of seint heim til sín.“

    En það vita nú allir hvernig danska lögreglan (rétt eins og starfsbræður hennar í Saudi Arabíu) er alltaf að níðast á konum!

 2. Takk fyrir góða úttekt. Það er líka ótrúlegt hvað rannsóknirnar sem þú vitnar í sýna að flestar kærur sem úrskurðaðar eru sem „falskar“ byggja á huglægu mati lögreglumanna. Þar sem þeir „upplifðu“ að brotaþolinn væri ekki trúverðugur. Matið byggist oft á miklu skilningsleysi og fordómum eins og svo oft fylgir þessum málum.

  Ég gef líka afskaplega lítið fyrir umsagnir hér að ofan frá konu sem ritaði þetta í pistli sínum: En svo er líka hugsanlegt að einhverjar þessara kvenna hafi dregið kærurnar til baka eða látið málin fjara út, vegna þess að þær höfðu í raun borið menn röngum sökum og vildu ekki ganga svo langt að koma þeim í fangelsi. Eða þær vissu að framburður þeirra var of vafasamur til að þær gætu staðið á honum og vildu frekar draga sig til baka en að éta ruglið ofan í sig?

  Vanþekking í hnotskurn endurspeglast í þessum orðum og afar afhjúpandi viðhorf.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.