Höfundur: Erla Guðrún Gísladóttir
Líkt og margir Íslendingar hef ég fylgst spennt með för Vilborgar Gissurardóttur á Suðurpólinn. Vilborg er fyrst íslenskra kvenna til að komast á afskekktasta hjara veraldar og það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með henni. Daginn sem Vilborg komst á sjálfan Suðurpólinn var ég spennt að sjá umfjöllun Ríkissjónvarpsins um afrek hennar, enda erum við lítil þjóð og hreykjum okkur hátt þegar eitthvert okkar gerir merkilega hluti. Ég bjóst því við að fjallað yrði um pólgöngu Vilborgar í fyrsta frétt í sjónvarpsfréttatíma RÚV en því miður var engin umfjöllun.
Í sjálfu sér hefði þetta ekki átt að koma mér á óvart. Hlutfall kvenna í fjölmiðlum er lágt og endurspeglar hvorki fjöldann af konum né afrek þeirra. Könnun sem var gerð á vegum Menntamálaráðuneytisins árið 2005 sýndi að hlutfall kvenna í fjölmiðlum var þá um 32% – aðeins hærra en gengur og gerist í öðrum löndum (þar sem hlutfallið er um 24%, samkvæmt rannsókn Global Media Matters árið 2009). Þrátt fyrir að ég vissi að hlutfall kvenna í fjölmiðlum væri svona lágt þá hélt ég – eða vonaðist til – að Ríkissjónvarpið okkar myndi samt gera afreki Vilborgar góð skil. Það er enda ekki á hverjum degi sem Íslendingar rölta um á Suðurpólnum og fjandinn hafi það, þetta hefði átt að vera fyrsta frétt hjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins. Í mínum huga ætti það að teljast veigamikil ástæða til þess að taka alla verkferla fréttastofunnar til endurskoðunar. Ef fólki finnst léttvægt að ekki hafi verið fjallað um það þegar Vilborg náði á sjálfan pólinn þá má til viðbótar nefna litla fjölmiðlaumfjöllun um Norðurlanda- og Evrópumeistarana okkar í fimleikum, sem er engan veginn í samræmi við þann árangur sem þær hafa náð.
Ég var svo svekkt og fúl yfir því að ekki hafi verið sagt frá því þegar Vilborg náði á sjálfan Suðurpólinn að ég sendi fréttastofunni kvörtunarbréf. (Ef Þjóðarsálin væri enn til hefði ég eflaust hringt þangað til að kvarta.) Í svarbréfinu kom fram að þeim þætti þetta leitt, þau telji að svona hafi farið vegna lítilla upplýsinga frá upplýsingafulltrúum Vilborgar. Hefðin sé sú að slíkar upplýsingar berist með formlegum hætti frá upplýsingafulltrúum og fari svo í útsendingu. Þau sögðust vonast til að heyra frá fulltrúum Vilborgar til að hægt væri að gera afreki hennar viðunandi skil.
Ríkissjónvarpið stóð sig ekki sem skyldi og það er hluti af stærra vandamáli. Margir á fréttastofum þessa lands virðast telja að lágt hlutfall kvenna í fréttum stafi af því að konur geri sjaldan eitthvað fréttnæmt og það litla sem þær þó geri sé ekki vinsælt (og rati því ekki í fréttirnar). Ef konur gera hins vegar eitthvað fréttnæmt og vinsælt er því miður ekki til myndefni og stundum er borið fyrir sig þekkingarleysi, enginn á fjölmiðlum vissi neitt. Ef við sættum okkur við þessar skýringar mun lítið breytast og mistök líkt og þau sem áttu sér daginn sem Vilborg náði á Suðurpólinn halda áfram að gerast.
Lágt hlutfall kvenna í fjölmiðlum er ekki konum að kenna því jafnvel þó að konur nái mögnuðum árangri líkt og Vilborg dugar það ekki til. Það væri óskandi að þessi mistök yrðu til þess að Ríkissjónvarpið endurskoðaði þau gildi og viðmið sem eru ráðandi viðað ákvarða hvað kemst í fréttirnar því þau gildi og viðmið sem nú eru ríkjandi urðu til þess að ekki var minnst á það þegar Vilborg náði á pólinn sjálfan.

Myndin er fengin að láni af bloggsíðu Vilborgar, http://www.lifsspor.is
Bíddu nú við, er þetta ekki fréttastofa? Gátu þau ekki bara hringt í Vilborgu eða hennar upplýsingarfulltrúa? Hvað er málið með að bíða þar til þau heyra frá þeim…
Þegar maður slær upp nafni Vilborgar á vef RÚV sést að það hefur verið fjallað um ferð hennar frá upphafi til enda. Morguninn eftir að hún komst á pólinn tók Kristján Sigurjónsson t.d. við hana símaviðtal. Nú veit ég ekki hvað réð því að fréttin rataði ekki í aðalfréttatíma Sjónvarpsins um kvöldið, en sú skýring að það hafi verið vegna þess að það hafi komið upplýsingar frá einhverjum almannatengli stenst ekki í ljósi þess að RÚV hafði fjallað talsvert um ferðalagið og fréttamenn rætt við Vilborgu oftar en einu sinni.
Það hafi ekki komið upplýsingar frá almannatengli … á að standa þarna.
Nú er ég engan veginn sammála þessum pistli. Finnst afrek Vilborgar hafa fengið mikla og verðskuldaða athygli. Frábært þótti mér svo undir lokin að næstum var hætt að tala um hana sem „Fyrstu íslensku konuna“ til að ganga á Suðurpólinn, heldur var talað um „Fyrsta Íslendinginn til að ganga einn á Suðurpólinn“. það finnst mér vera gott spor í að hætta að kyngreina alla hluti.
Sumir muna eflaust eftir sk. „Fyrsta íslenska kvennaleiðangrinum yfir Grænlandsjökul“ f. ca. 15 árum. Þrjár hörkuduglegar konur gengu yfir Grænlandsjökul og kölluðu þetta kvennaleiðangur. Samt voru þær í fylgd fararstjóra og skipuleggjanda ferðarinnar sem var karlkyns. Þessi ferð var gott dæmi um öfga í kyngreiningum.
Ég minnist þess aldrei að þegar karlmenn vinna einhver afrek, að áhersla sé lögð á að kyngreina þá. Þegar Haraldur, Ólafur og Ingþór gengu á Suðurpólinn um árið, var aldrei talað um „karlaleiðangur“ eða „fyrstu íslensku karlmennina“ til að komast á pólinn. Það var bara talað um Íslendinga, nákvæmlega eins og hin frábæra Vilborg er.
Þess má reyndar geta að Vilborg kom á pólinn um klukkan 23 að íslenskum tíma, semsagt eftir bæði kvöldfréttir og tíufréttir.
Þessi frétt var flutt í hádegisfréttum degi síðar http://www.ruv.is/sarpurinn/hadegisfrettir/18012013/vilborg-komin-a-polinn-vidtal En í fréttinni er m.a. talað við Vilborgu.
Ég er sammála því að fjarvera kvenna í fjölmiðlum er of mikil en þetta dæmi er kannski ekki það besta til að taka varðandi það landlæga vandamál
Tek undir það sem Árni Tryggvason segir hér að ofan. Um fjarveru kvenna í fjölmiðlum að þá sýnist mér það hafa breyst verulega á síðustu hvað 1,5 árum, því komið hafa dagar ef ég man rétt þar sem tæpast var mynd af karlmanni í blaði eða vitnað sérstaklega til aðila af slíku kyni, s.s. í Fréttablaðinu. Ég sýti það engan veginn að svo hafi verið ef það átti við, að viðmælendur hafi verið kvennkyns og ekki verið að fjalla um karla.
Alveg hefur þessi mikli kynjahalli í Fréttablaðinu, konum í vil, farið framhjá mér.
2010: http://kaninka.net/snilldur/?p=1368
2011: http://kaninka.net/snilldur/?p=1886
2012: http://kaninka.net/snilldur/?p=2332
Þakka þér kærlega, Erla, fyrir að skrifa þessa grein og fyrir að spyrja fréttastofuna út í fréttamatið hennar. Áfram þú!
Af því að málið er mér skylt. Fréttastofa RÚV sagði ítrekað og oft frá för Vilborgará Suðurpólinn allt frá því hún hélt af landi brott í nóvember og fylgdist náið með henni í rúma tvo mánuði. Fréttastofa RÚV er ekki bara 19 fréttir Sjónvarps. Fréttir eru sagðar allan sólarhringinn í útvarpi og á vefnum og Morgunþáttur Rásar tvö og Spegillinn er á vegum fréttastofunnar. Stór hluti Spegilsins var tileinkaður Vilborgu daginn þegar von var á henni á pólinn, en henni seinkaði sem kunnugt er um nokkra klukktíma. Sagt var frá komu Vilborgar á Suðurpólinn í miðnæturfréttum útvarps um leið og hún komst þangað. Afrek hannar var fyrsta frétt Morgunfrétta kl. 7 og 8 morguninn eftir og ég tók viðtal við hana um leið og hún vaknaði sem flutt var í hádegisfréttum. Þegar Vilborg kom til landsins eftir miðnætti aðfaranótt mánudags tók fréttamaður RÚV á móti henni í Leifsstöð. Koma hennar var fyrsta frétt Morgunfrétta kl. 7 og 8 og rætt var við Vilborgu. Vilborg kom sjálf í Morgunþátt Rásar tvö í langt viðtal upp úr klukkan sjö og flutt var viðtal við móður hennar. Ég hef ekki tölu á öllum þeim viðtölum sem við hana voru tekin í Morgunþættinumi á meðan á göngunni stóð. Sagt var ítarlega frá heimkomunni í hádegisfréttum og í kvöldfréttum sjónvarps kl. 19. Vildi bara halda þessu til haga. Það var vissulega leiðinlegt að ekki var sagt frá Suðurpólskomunni sjálfri í sjónvarpsfréttum kvöldið eftir og ekki ætla ég að afsaka þau mistök. En að draga þá ályktun að við höfum ekki sinnt þessu afreki er ekki sanngjörn.
Ég á svolítið erfitt með að átta mig á sumum svörunum við grein Erlu. Erla bendir á að ekki hafi verið fjallað um ferð Vilborgar í næsta sjónvarpsfréttatíma Rúv eftir að Vilborg kom á pólinn. (Það er rétt hjá Snærósu að sá fréttatími var daginn eftir að Vilborg kom á pólinn, en það breytir því ekki að það var ekki fjallað um Vilborgu í þeim fréttatíma. Það er því svolítið erfitt að sjá hvað Snærós er að fara með athugasemd sinni.) Það er svo annað mál hvort, og hversu vel, var fjallað um ferð Vilborgar í *öðrum* fréttatímum Rúv. Það er gott að vita til þess að margir fréttamenn, þar á meðal Kristján, gerðu afreki Vilborgar góð skil. En Erla er ekki að fjalla um það; hún er að fjalla um þá staðreynd að afrekið skyldi ekki rata í næsta aðalfréttatíma Rúv. Ég held að við séum öll sammála um að það voru mistök. Kannski voru það skiljanleg mistök — kannski — en Erla var að benda á að þessi mistök eru líklega hluti af stærra vandamáli — að afrekum karla er kerfisbundið (en þó ekki endilega meðvitað) gert hærra undir höfðu en afrekum kvenna.
Kristján Sigurjónsson, af hverju eru það mistök að segja ekki af þessu líka og ENN OG AFTUR í kvöldfréttum? Þið eruð þarna til að segja fréttir en ekki til að útdeila viðurkenningum með fréttaflutningi ykkar. Eða er ég eitthvað að misskilja þetta?
Þessi grein fer í risastóran bunka dellumakerís um fjölmiðla og blaða- og fréttamennsku. Fólk sem fylgist illa með telur sig þess umkomið að vera með allskonar fullyrðingar og alhæfingar. Ef það sér ekki fréttirnar þá eru þær ekki til. Verra er þó þegar fólk vill ekki sjá fréttir, eins og með ítrekaðan fréttaflutning allra miðla fyrir hrun þess efnis að bankakerfið væri byggt á sandi; af því að fólk vildi ekki eða nennti ekki að lesa þetta þá eru þær fréttir ekki til og fjölmiðlar sekir um stórkostlega vanrækslu.
Menn eiga ekki endalaust að vera að standa í því að dekra við svona vitleysu.
Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*