Svamlað í for

Í tilefni V-dagsins 14. febrúar næstkomandi hefur Eve Ensler skrifað nokkurs konar manifestó, sem hún kallar Over it.

Þar lýsir hún því hvernig hún hefur fengið upp í kok af nauðgunum og kynbundnu ofbeldi gegn konum. Einn kaflinn í texta Ensler rímar að nokkru leyti við atriði sem ég hef í þó nokkurn tíma verið að velkjast með:

I am over the endless resurrection of the careers of rapists and sexual exploiters — film directors, world leaders, corporate executives, movie stars, athletes — while the lives of the women they violated are permanently destroyed, often forcing them to live in social and emotional exile.

Smugan hefur áður birt hugleiðingu Monu Chollet um mál Roman Polanskis í þýðingu undirritaðrar, en ég man í svipinn ekki eftir umfjöllun á íslensku um aðra karla sem hafa orðið uppvísir að ofbeldi gegn konum eða börnum en verið fyrirgefið af „kerfinu“ – þ.e.a.s. ekki aðeins fengið að halda óáreittir áfram að sinna list sinni, stjórna fyrirtækjum eða stjórnmálaflokkum, eða hvað það var sem gerði þá svo sérstaka, heldur njóta beinlínis verndar þess.

Hvað mig varðar hafa tveir menn valdið mér sérstöku hugarangri, en það eru frönsku stjörnurnar Bertrand Cantat og Joey Starr. Hvorugur þeirra hefur mér vitandi verið sakaður um kynferðisofbeldi, en báðir hafa barið konur og verið dæmdir fyrir það.

Bertrand Cantat

cantatAðfaranótt 27. júlí 2003 lamdi karl nokkur kærustuna sína á hótelherbergi í Vilnius í Litháen þannig að hún hlaut af heilaskaða. Tæpri viku síðar lést hún af völdum áverkanna.

Það sem skilur þennan tiltekna atburð frá öllum hinum ofbeldisverkunum sem eiga sér stað um allan heim, alla daga ársins, var að bæði karlinn og konan voru mjög fræg í Frakklandi. Gerandinn, Bertrand Cantat, er tónlistarmaður og var forsprakki hljómsveitarinnar Noir Désir sem spilaði hart og flott jaðarrokk. Þolandinn, Marie Trintignant, var þekkt leikkona og í þokkabót dóttir hins elskaða og virta leikara Jean-Louis Trintignant og kvikmyndagerðarkonunnar Nadine Trintignant. Franska þjóðin var harmi slegin.

Krufning sýndi svo ekki varð um villst að Marie Trintignant hafði verið myrt. Hún var með fjölda áverka á andliti og bjúg í heila. Áverkarnir gátu ekki hafa komið til vegna falls, enda neitaði Bertrand Cantat því aldrei að hafa ráðist á hana sjálfur.

Í kjölfarið á þessu ömurlega máli spunnust miklar umræður sem tóku á sig ýmsar myndir. Stór hópur fólks reis upp og minnti á að örlög leikkonunnar væru í raun hversdaglegur atburður, fjölmenni mætti í útförina á þeim forsendum að þessa útför væri í raun hægt að tileinka öllum þeim nafnlausu konum sem hefðu eða ættu eftir að falla fyrir hendi núverandi eða fyrrverandi eiginmanna sinna eða elskhuga. Fréttamenn sýndu þessari hlið málsins áhuga; daginn sem jarðarförin fór fram var í aðalfréttatíma France 2 ekki látið duga að sýna föðurinn bugast þegar hann ætlaði að tala yfir kistu dóttur sinnar, heldur var einnig talað við baráttukonur um ástæður þess að þær komu.

En umræðurnar leiddust vitanlega inn á afar kunnuglegar brautir þegar farið var að telja upp þau atriði sem voru Marie Trintignant í óhag, hið kunnuglega stef í viðleitninni til að færa sektina yfir á þolandann þegar karl ræðst á konu:

– Hún átti börn með fjórum mönnum. Hvílíkt lauslæti!

– Hún fékk sms frá einum barnsfeðra sinna fyrr um þetta örlagaríka kvöld, hann kvaddi hana með því að kalla hana „Janis sína“, en hún hafði einmitt nýlega leikið á móti honum í hlutverki Janis (Joplin). Daður! Og hún stöðvaði það ekki!

– Við krufningu kom í ljós að hún neytti kannabisefna reglulega. Dópisti!

– Hún var afbrýðisöm út í eiginkonu Bertrands Cantat, og nýfætt barn þeirra. Óþolandi þessar afbrýðisömu konur!

Bertrand Cantat var dæmdur í 8 ára fangelsi í Litháen, hlaut reynslulausn 2007 og taldist laus allra mála 2010. Hann sneri aftur til eiginkonu sinnar, sem fyrirfór sér skömmu síðar. Þótt foreldrar hennar vilji draga hann til ábyrgðar og haldi því stöðugt fram að hann hafi misþyrmt henni reglulega, hefur það aldrei fengið hljómgrunn í réttarkerfinu.

Joey Starr

JoeyStarr_2012Joey Starr ólst upp í fátæku úthverfi Parísar við erfiðar aðstæður hjá ofbeldisfullum föður og móður sem gat ekki hugsað um hann. Hann stofnaði rapphljómsveitina NTM (nique ta mère – ríddu mömmu þinni), sem varð strax mjög vinsæl og tókst að vekja athygli langt út fyrir neðanjarðarsenuna.

Hann hefur m.a. verið dæmdur í fangelsi fyrir að ráðast á flugfreyju og berja hana illa og síðar fyrir að misþyrma sambýliskonu sinni. Þessar konur voru nokkurn veginn nafnlausar, ólíkt fórnarlambi Bertrand Cantat, og allar skýringar á hegðun Joey Starr snúast um erfiða æsku og óreglu og stjórnleysi í einkalífinu.

Hvers vegna valda þessir menn mér hugarangri? Þeir voru dæmdir og afplánuðu sinn dóm. Hvað vil ég meira?

Plakatið. Joey Starr er lengst til hægri.

Plakatið. Joey Starr er lengst til hægri.

NTM hefur lagt upp laupana en Joey Starr er enn sem fyrr mjög áberandi hér í Frakklandi. Nú síðast í haust brá mér við að sjá hann á flennistóru auglýsingaplakati á neðanjarðarlestarstöð við hliðina á ýmsum frægum gamanleikurum. Hann lék sem sagt veigamikið hlutverk í stóru grínmyndinni sem kemur alltaf út að hausti, þessari sem allir skólakrakkar fara að sjá með félögunum strax eftir sumarfríið.

Hljómsveit Bertrand Cantat, Noir Désir, hefur haldið áfram að gefa út tónlist og hefur komið fram opinberlega nokkrum sinnum, m.a. á Fête de l’Humanité, hátíð kommúnistablaðsins l’Humanité sem haldin er á hverju hausti. Honum gengur þó verr en Joey Starr að halda sér „mainstream“ í listinni, enda er glæpur hans ófyrirgefanlegri. Cantat myrti aðra stjörnu meðan Joey Starr lætur sér duga að berja nafnlausar konur.

Svo ég komi mér nú loksins að því sem ég ætlaði að skrifa um: Það sem veldur mér hugarangri er sú staðreynd að þessir menn, Bertrand Cantat og Joey Starr, tilheyra mun frekar jaðarhópnum anarkistar/vondir gaurar en raunverulegri franskri elítu. Ég minni á að franskt þjóðfélag er afskaplega meðvitað um hefðbundna stéttaskiptingu samfélags síns á einhvern hátt sem við Íslendingar myndum aldrei samþykkja í okkar samfélagi (það er líklega efni í góða ritgerð að spyrja sig hvort í því felist afneitun eða hvort þessi ímynd stéttlauss þjóðfélags sé sönn).

Bertrand Cantat er að vísu úr hvítri millistétt, alinn upp í Normandie af báðum foreldrum sínum og ekkert um það að segja annað en að tónlist hans og textar boða anarkí og niðurbrot valdsins. Þetta var t.d. notað gegn honum í grein í Figaro Magazine („La douleur des femmes“, 9. ágúst 2003), þar sem Joseph Macé-Scaron hikar ekki við að spyrða hann saman við ofbeldisfulla innflytjendur í fátækum úthverfum – sum sé þann þjóðfélagshóp sem Joey Starr tilheyrir óumdeilanlega. Fyrir bindiskallinum miðaldra sem öllu ræður eru þessir menn því af sama sauðahúsi.

marie-trintignant

Marie Trintignant

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að þessir menn geti engan veginn talist af sama sauðahúsi og til dæmis Dominique Strauss-Kahn, svo nefndur sé annar meintur nauðgari úr innsta hring elítuveldisins, í viðbót við fyrrnefndan Polanski, rís kerfið þeim til varnar. Þeir eru ekki fordæmdir, þeim er ekki kastað út í hafsauga og diskar þeirra eru ekki brenndir. Þeir afplána dóminn og koma svo aftur til vina sinna og samstarfsfélaga og halda áfram, næstum eins og ekkert hafi í skorist. Það er erfiðara fyrir Bertrand, en samt ekki með öllu ómögulegt.

Ég var aðdáandi Noir Désir. Ég á nokkra diska og hlustaði  um tíma mjög mikið á þá. Ég man að áður en Cantat barði Marie Trintignant til bana spilaði ég þetta m.a.s. fyrir dóttur mína, en þá var hún eins og hálfs árs. Síðan þetta gerðist hef ég aldrei fengið af mér að setja tónlist þeirra í spilarann. Ég hef heyrt lag með þeim í útvarpi, nú síðast á ferðalagi í sumar, og það vekur með mér mjög blendnar tilfinningar. Tónlistin er jafngóð og áður, en yfir henni vomir skuggi sem ég get ekki hreinsað í burtu.

Ég fann líka fyrir sterkri andúðartilfinningu þegar ég sá plakatið með Joey Starr í haust. Andúð mín beindist ekki að honum heldur að hinum leikurunum og að framleiðendum myndarinnar sem hefðu alveg getað ákveðið að taka ekki þátt. Um leið vakna með mér sömu blendnu tilfinningarnar:

Taka ekki þátt í hverju? Hvað á ég við? Vil ég bannfæringu? Vil ég að þessir karlar sem berja konur séu í eilífðarútlegð? Á ég ekki frekar að trúa því að þeir geti afplánað sinn dóm og séu eftir það lausir allra mála?

Og þessum spurningum get ég ekki svarað. Þetta er mér ofviða. Get ég aðskilið listamanninn frá verkum hans? Getur karl sem lemur konur hætt að vera þannig karl? Eða aðrir níðingar? Geta þeir „læknast“?

Á kerfið að láta eins og það sé hægt, að þeir geti læknast? Orðið betri menn? Hvað ef annað kemur í ljós? Hvað ef foreldrar Krisztinu Rády segja sannleikann, hvað ef Bertrand lamdi hana reglulega og á sök á sjálfsvígi hennar? Kemur okkur ekki við það sem ekki hefur verið sannað með dómi? Er hann bara saklaus? Hvað segir mér að Joey Starr sé hættur að berja konur? Hvað með alla þá menn sem bent hefur verið á en hafa sloppið við kæru svo dómari úrskurðaði aldrei hvort þeir væru sekir eða saklausir?

Þetta eru margar spurningar og kannski fara þær í allar áttir. Í huga mér eru þær samt allar hluti af sama forarpyttinum sem mér finnst ég stundum svamla í án þess að komast upp úr.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.