Er hægt að banna klám?

Höf.:  Páll Óskar Hjálmtýsson

(Varúð – greinin inniheldur grafískar lýsingar sem gætu komið illa við suma lesendur.)

„Stóri bróðir“ í kvikmyndinni 1984 (frá 1984)

 

Ég held að það sé ekki hægt að banna klám. Klámið myndi þá bara finna sér farveg, með verri og jafnvel ljótari afleiðingum en áður, og leka í gegn um allar hugsanlegar síur eins og vatn. Það hefur gert það hingað til. Ég veit því ekki hvort þetta nýja klámfrumvarp innanríkisráðherra verði nokkurn tíma að veruleika. Tölvunördar óttast að með því að búa til síu sem heldur öllu klámi frá myndi um leið síast burt efni sem er svo sannarlega allt í lagi með. Sían er ekki manneskja með siðferðiskennd, heldur vél sem hlýðir skipunum. Margir óttast að afleiðingin yrði nokkurs konar „1984“  –  ritskoðunarheimur í anda Stóra bróður George Orwells.

Ég trúi því líka að það sé til fullt af fullorðnu fólki sem getur notið kláms, og á sama tíma gert sér fullkomna grein fyrir fantasíunni og raunveruleikanum sem þar er boðið upp á. Sama fólk getur líka notið þess að horfa á James Bond, en það reynir samt ekki að keyra bílinn sinn á götum Reykjavíkur á sama hátt og hann. Svo er skilgreiningin á klámi svo fjári erfið og snúin. Það sem mér finnst vera klám eða afsprengi klámvæðingarinnar, finnst öðrum kannski vera ljósblátt léttmeti. Það sem þér finnst vera erótík finnst mér vera klám. Það sem stuðar þig nær engan veginn að stuða mig.

Ég er almennt á móti því að banna nokkurn hlut – en það er stór munur á taumhaldi og banni. Með því að hafa taumhald á ákveðnum hlutum er samfélagið að sýna fram á að ákveðin hegðun eigi ekki að líðast. Við höfum umferðarreglur til að hafa taumhald á umferðinni, en þrátt fyrir það komum við ekki í veg fyrir umferðarslys af völdum stjórnlausra bílstjóra. Með þessu klámfrumvarpi eru stjórnvöld að segja að þau séu tilbúin til að skapa einhver viðmið eða ná taumhaldi á klámvæðingunni, sem er að þróast út í samfélagslegt mein og hefur nú þegar valdið fjölmörgum „umferðarslysum“.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að rannsóknir hafa sýnt að allt niður í 11 ára börn, strákar og stelpur, eru farin að horfa á mjög hart og nastí klám á internetinu, hvort sem þau eru að leita að því eða ekki. Klámið poppar upp í óspurðum fréttum. Vinkona mín á sex ára son. Hann er ólæs enn sem komið er. En hann kann samt að þreifa sig áfram á netinu með því að smella á ákveðna takka og foreldrarnir hafa komið að honum þar sem hann var að streyma grófum ofbeldisatriðum úr bíómyndum, þrátt fyrir netvara og síur. Börn eiga ekki að horfa á ofbeldi. Við eigum að reyna að halda ofbeldi frá börnum eftir bestu getu. Punktur.

Klám hefur svo sannarlega breyst alveg gríðarlega á síðustu árum. Ef þú berð klámmynd sem er gerð fyrir 1980 saman við klámmynd sem gerð er árið 2012 er munurinn sláandi. Stemningin er ekki sú sama. Fyrir þremur áratugum voru karlmenn góðir við konurnar í klámmyndunum. Það var söguþráður, forleikur, orðaleikir, kysst og kelað, fólk brosti og jafnvel hló, af því sumar þessar myndir voru líka fyndnar. Þótt það megi með sanni segja að klám sé fjölbreytilegt og að þar megi finna eitthvað fyrir alla er ekki hægt að líta fram hjá því að megnið af klámi sem framleitt er í heiminum í dag er vægast sagt ofbeldiskennt. Ef maður kannar betur hvaðan þessar klámmyndir koma þá eru þær oftar en ekki runnar undan rifjum skipulagðrar glæpastarfsemi. Flestar stelpurnar í þessum myndum eru í djúpum skít og eru oft flæktar í net eiturlyfja eða mansals.

Fyrir þrjátíu árum heyrði það til undantekninga ef konum var riðið í rassgatið eða brundað framan í þær. Í dag þykir það sjálfsagður hlutur í klámmyndum. Það er talað við konur á mjög niðurlægjandi hátt, þær eru kallaðar tíkur og hórur og þær hafa ósköp lítið að segja um hvað verður gert við þær. Þær eiga að líta á það sem heiður að karlmaðurinn skuli yfirhöfuð vilja ríða þeim. Þær eiga bara að opna á sér munninn og rassgatið og taka því sem þar er troðið inn. Tittlingum er troðið djúpt ofan í kok stelpnanna og haldið þar með valdi þangað til þær kúgast eða næstum kafna. Sorrí, þetta er ekki tott. Þetta er varla kynlíf. Þetta er ofbeldi. Það er engu líkara en jafnrétti kynjanna sé að engu orðið og að kynlífið sem sýnt sé í klámmyndum sé að þróast meira út í hreint ofbeldi. Þetta er ofbeldi, dulbúið sem klám. Klámið hefur tapað sakleysi sínu.

Einu sinni var þetta svæsið klám …

Það er nóg að velta fyrir sér titlum klámmynda til að sjá þróunina. Þessar myndir heita ekki lengur „Hopla på sengekanten“ (Rúmstokksmyndirnar) eða „Confessions Of A Window Cleaner“ (Játningar gluggahreinsarans). Í dag heita þær „Sannar sögur af rassgötum“ (True Anal Stories), „Hópnauðgað af fótboltaliði“ (Gang Raped By A Football Team) eða „Jómfrúarrassgati rústað“ (Virgin‘s Anal Destruction). Ég veit ekki með ykkur, en ef ég ætti 11 ára barn myndi ég ekki vilja að fyrstu upplýsingar þess um kynlíf væri myndband af klappstýru sem er riðið í öll göt af heilu fótboltaliði. Ég vona að við séum sammála um það að börn hafi ekki gott af því að horfa á slíkt. Klám er ekki góð kynfræðsla.

Ég verð að trúa því (og ég veit að þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga) að einn góðan veðurdag muni tölvunördar framtíðar finna upp hina fullkomnu síu sem getur hindrað að klám leki inn í tölvur þeirra sem vilja ekki sjá það, eða vilja ekki að börnin sín sjái það. Sá þáttur klámfrumvarpsins mun verða að veruleika. Svona netvarnir eru nú þegar til og fólk getur notfært sér slíka þjónustu hjá flestum símafyrirtækjum. Sumir tölvunördar sem ég þekki segja reyndar að þessir netvarar séu falskt öryggi, og að ýmislegt óæskilegt efni nái að leka í gegn. En nördar framtíðarinnar munu kannski geta búið til síu með siðferðisvitund.

Að sama skapi geta þeir sem vilja sjá klám, fengið að sjá það sem þeir vilja. Þeir vafra þá um internetið og skoða bæði fegurðina og ljótleikann sem þar er í boði með eigin siðferðisvitund á vakt. Við verðum að treysta því að fólk hafi siðferðiskennd, heila og hjarta sem stoppar það frá því að vinna náunganum mein. Á sama tíma eru skemmd epli þarna á milli sem hafa ekkert gott í huga, því hjörtu þeirra eru kolsvört. Ekkert frumvarp getur hindrað skemmdu eplin frá ætlunarverkum sínum en það er svolítið annað sem getur það: ástríkir foreldrar eða forráðamenn barnanna, sem og samfélagið sjálft sem setur viðmið og sendir út skýr skilaboð til þegna sinna og forðar eplunum frá því að skemmast.

Barn sem er alið upp í ástúð og kærleika og finnst það vera velkomið í heiminn fær upplýsingar um flest sem ber að varast á lífsins leið og lærir að meta rétt frá röngu. Foreldrar kenna barninu sínu að bursta tennurnar, passa sig í umferðinni, vera gott við sjálft sig og aðra… og veita því nauðsynlegar upplýsingar um KYNLÍF (sorrí, foreldrar – þið sleppið ekki.) Þessir foreldrar kenna líka barninu sínu að klámið (sem það mun óhjákvæmilega rekast á einn góðan veðurdag) eigi ekkert skylt við raunveruleikann. Samfélagið setur svo skýr viðmið með því að reyna að ná taumhaldi á klámvæðingunni.

Foreldrarnir eru í bestu aðstöðunni til að veita allar þessar nauðsynlegu upplýsingar sem barnið þarf að fá, samhliða því að barnið fær skilaboð frá samfélaginu. Svo verða foreldrar að treysta barninu til að taka við upplýsingunum og læra svo kannski af eigin mistökum. Barnið verður sjálft að fá að leysa sín eigin verkefni í lífinu. En ekkert getur komið í staðinn fyrir gott, upplýst og kærleiksríkt foreldri – hvorki skóli, netsíur né klámfrumvörp.

 

 

23 athugasemdir við “Er hægt að banna klám?

 1. Hér gætir ákveðins misskilnings, sem hefur verið mjög áberandi síðan fyrstu fréttir af nýju klámfrumvarpi bárust innan úr ráðuneytinu, og hann er sá að téð frumvarp eigi að banna klám eitthvað meira en nú þegar er raunin. Hið rétta er að með fyrirhuguðu frumvarpi á í fyrsta sinn að skilgreina í lögum hvað klám er („þrengja og skerpa á skilgreiningu kláms“) en klám er og hefur verið ólöglegt á Íslandi um árabil þrátt fyrir að eftirfylgni lögreglu í þessum málaflokki virðist lítil.

  Auk þess að skilgreina í fyrsta sinn í lögum hvað það er, þetta klám sem er ólöglegt, ætlar ráðherra að setja á laggirnar starfshóp „sem fær það hlutverk að kortleggja úrræði lögreglu vegna dreifingar kláms á netinu og gera tillögur að breytingum“*. Ég get ekki séð að seinni liðurinn, þessi sem snýr að starfshópnum, feli í sér lagabreytingu. Öllu heldur lítur út fyrir að lögreglan eigi að fara að fylgja eftir í ríkari mæli lögum sem eru nú þegar í gildi, hvað svo sem fólki finnst um réttmæti þessara laga.

  Að því sögðu fagna ég því að hér er efnt til umræðu um mikilvæga hluti en persónulega veit ég ekki hvar ég á að byrja í að kommentera á þennan pistil, hér eru svo margir áhugaverðir punktar á ferðinni….

  *Sjá nánar á: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28401

 2. Þeir sem vilja hefta klám og ofbeldi geta sett upp netsíu hjá sér. Mig grunar aftur á móti að tilgangur margra sé að hefta klám hjá öðrum.

  • Takk, Palli, fyrir fína grein.

   Þeir sem vilja hefta klám og ofbeldi heima geta vissulega sett upp mislekar netsíur heima hjá sér, eins og Kalli segir hér að ofan. Ég lít hins vegar ekki á það sem mitt einkamál hvort barnið mitt getur horft á gróft ofbeldisklám heima hjá mér, né heldur einkamál annars fólks hvort börnin þeirra – nú eða barnið mitt, ef það er í heimsókn hjá þeirra börnum – hefur aðgang að slíku. Ég lít eiginlega frekar á það sem barnaverndarmál.

   Í þessu liggur vandinn að miklu leyti. Ég er stórkostlega innilega og hjartanlega sammála Páli Óskari um að það eru foreldrarnir sem eiga fyrsta tilkall og frumskylduna til að fræða börnin sín og gera þeim ljóst hvað er hugsanlegt að þau rekist á, hvers eðlis það er, hvað er skaðlegt við það og hvers vegna þau eigi ekki að sækjast eftir því. Hins vegar eru hagsmunir barna – allra barna, alls staðar – sameiginlegt hagsmunamál okkar allra.

   Svo geta netsíur, eins og Páll Óskar bendir á hér í greininni og ég hef sannreynt í tölvunni minni hér heima, sem börnin mín fá oft að nota til að fara í leiki og inn á YouTube, verið bæði afar misáreiðanlegar og veitt manni falskt öryggi. Netvari Símans er hriplekur, svo dæmi sé tekið og stilling 2, sem er eiginlega eina stillingin sem hægt er að nota án þess að blokkera mjög mikið af síðum sem ekki eru baun skaðlegar, hleypir stundum í gegn efni sem er mjög gróft ofbeldisklám sem gengur út á að niðurlægja konur og meiða. Það er óþolandi að búa við að geta ekki verið öruggur um að börnin manns verði útsett fyrir slíku efni. Ég er ekki að tala um Ole Soltöft hérna, ég er að tala um efni sem gengur út á meiðingar, niðurlægingu, þvingun og ofbeldi, ekki hvað síst á ungum stúlkum eða konum sem eru klæddar og stílíseraðar til að láta þær líta út fyrir að vera á unglingsaldri.

   Ég skal hins vegar vera síðust til að fullyrða að þetta sé einfalt mál. Það er það ekki, hvorki tæknilega né samfélagslega. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt að vandinn verði í fyrsta lagi viðurkenndur sem slíkur og í öðru lagi að við gefum okkur ekki fyrirfram að hann sé óleysanlegur nema hjá hverju okkar fyrir sig, án samhengis við það samfélag sem við viljum.

   Ég nenni ekki að ræða um það einhver „mannréttindi“ að hafa alltaf og ævinlega óheftan aðgang að lítt eða ekkert sviðsettu nauðgunar- og ofbeldisklámi. Fólk sem vill horfa á slíkt efni er í einhvers konar vanda sem það verður að leysa prívat og persónulega, vandinn sem snýr að mér og öðrum foreldrum er sá hvernig er hægt að hlífa börnum við slíku efni og gera þeim rækilega ljóst að þetta efni sé ekki samfélagslega samþykkt, hvorki sem e.k. afþreying né sem neins konar birtingarmynd af kynlífi.

   Fyrst og fremst þurfum við að ræða og ræða og ræða um þetta. Við börnin okkar, við hvert annað, við samfélagið. Þá gæti eitthvað farið að gerast.

   • Það er semsagt ekki nóg fyrir þig Halla að netsían sé heima hjá þér. Þú vilt að hún sé heima hjá öðrum líka? Á síðan klám- og ofbeldisnefnd ríkisins að skilgreina hvað á að sía?

   • Lastu það sem Halla skrifaði, Kalli? Þetta innlegg þitt ber þess ekki merki, þú ert bara að endurtaka sjálfan þig og svarar í engu því sem hún segir. Sem er góð leið til að gera þarfa umræðu ógeðslega leiðinlega -og þetta er þörf umræða, hvort sem maður styður löggjöfina eða ekki.

    Ef þú (eða einhver annar sem sér meinbugi á klámlöggjöfinni) ert til í að deila því þá þætti mér áhugavert að vita hvort þú ert mótfallinn lagasetningum almennt eða bara þegar kemur að klámi? Finnst þér það hafa rétt á sér að gera ákveðna hluti eða hegðun ólöglega? Ef já (við seinni spurningunni) hver á að ákveða hvað er löglegt og hvað ekki, og hvernig á hann að gera það, út frá hvaða gildum?

   • Mér sýnist hann bara einmitt hafa lesið það sem hún skrifaði. Hún skrifaði:

    „Ég lít hins vegar ekki á það sem mitt einkamál hvort barnið mitt getur horft á gróft ofbeldisklám heima hjá mér, né heldur einkamál annars fólks hvort börnin þeirra – nú eða barnið mitt, ef það er í heimsókn hjá þeirra börnum – hefur aðgang að slíku. Ég lít eiginlega frekar á það sem barnaverndarmál.“

    Það er greinilega ekki nóg fyrir Höllu að hafa netsíuna heima hjá sér, Halla vill líka hafa netsíuna heima hjá öllum öðrum. Halla vill að ríkið hafi vit fyrir fólki og Halla vill að ríkið hafi vit fyrir fólki á þann hátt sem henni sjálfri líkar.

    Vertu svo ekki sjálf svona ógeðslega mikið leiðin-leg þó það safnist ekki klappstýrur í kringum þig öllum stundum.

   • Hvaða klappstýrutal er þetta? Ég hef ekki einu sinni gefið upp mína afstöðu til þessa frumvarps, en það virðist ekki stoppa þig í að gera mér upp hugmyndir. Hættu því.

    Ólíkt þér og Kalla, sem hóf okkar kynni með því að spyrða saman klámi og ofbeldi og verja rétt fólks til aðgengi að slíku, þá færir Halla rök fyrir sínu máli. Hún útskýrir hvers vegna henni finnst það koma sér við hvað annað fólk er að aðhafast. Kalli sér ekki ástæðu til að útskýra hvers vegna hann telur nokkurn hafa óskorðaðan rétt til að horfa á klám og ofbeldi, og það var það sem ég gerði athugasemd við.

   • Jú, jú, þar erum við sammála, Helgi.

    Rök margra gegn óheftu aðgengi að kynferðislega opinskáu efni eru einmitt að það gangi á rétt fólks. Mikið af þessu efni er t.d. framleitt við aðstæður sem brjóta á réttindum leikaranna.

    Þannig að krafan gengur líka í hina áttina; fólk sem vill óheftan aðgang og flæði á klámi þarf að geta fært rök fyrir sínu máli rétt eins og þau sem vilja takmarka það.

   • Við erum semsagt sammála um það að veita skuli þeim sem það vilja, óheftan aðgang að klámefni sem framleitt er af samþykku, fullorðnu fólki?

    Það er góð niðurstaða og einmitt mín eigin skoðun.

   • Stórkostleg rökleysa sem þú býður upp á hér, Halla.

    Þú vilt „ræða og ræða“, en vilt samt ekki ræða mannréttindi sem ekki falla að þinni skilgreiningu. Þar liggur hættan. Til dæmis sást það vel þegar borgað var undir akademíska letihauginn, fúskarann, og heimsendaspámanninn hana Gail Dines og henni hampað sem sérfræðingi um félagsvísindi kláms. Það á að fá fólk til að taka þátt í umræðunni sem er á öndverðum meiði. Klámráðstefnan í haust sýndi svo ekki var um villst að það átti bara að vera ein niðurstaða af henni = klám er vont, mannskemmandi og hvetur til nauðgana. Listi frummælenda þar var skýr vitnisburður um það. Engum var boðið sem hefði getað boðið upp á eihhvað reality check í þeim umræðum. Því tek ég með fyrirvara tilboði þínu og feminista almennt um að „ræða og ræða“.

    Engum hefur tekist á að sýna fram á að aukið aðgengi að klámi leiði til aukinnar tíðni kynferðisofbeldis. Það hefur einhverjum tekist að sýna fram á að fólk svari spurningum í könnunum aðeins öðruvísi eftir að hafa horft á klám. Það er samt langur vegur frá því að þeir svarendur hafi rokið upp til handa og fóta og byrjað hamslaust að nauðga eftir klámáhorf. Ef eitthvað er, þá fjölgar nauðgunum ALLS EKKI á landsvísu þegar klámbönnum er aflétt í einstökum löndum. Það sýna einu gögnin sem eitthvað mark er takandi á í þessari umræðu. Til dæmis sýndu rannsóknir Kutchinsky í Danmörku, BNA og Þýskalandi fram á þetta svart á hvítu: http://en.wikipedia.org/wiki/Berl_Kutchinsky

    Ef fólk vill horfa á eitthvað, og skaðinn af því er ósannaður, þá á að leyfa fólki að horfa á það. Það eru mannréttindi, Halla mín, sama hvort þér líkar það betur eða verr. Hvort börn geti skaðast af því er allt önnur spurning, og á ekki að rugla henni saman við aðgengi fullorðinna.

 3. Mín skoðun er að það á að framfylgja núgildandi lögum um bann við dreifingu á klámfengnuefni, en það er ekki gert, og því spyr ég:
  Afhverju er það þannig að þeir aðilar sem vilja takmarka aðgang að klámi og ofbeldi á sínu heimili þurfa að hafa fyrir því að fá slíkar varnir? (nú veit ég vel að það er ekki mikil fyrirhöfn miðað við það sem er í húfi, börnin okkar)
  En afhverju ekki að snúa dæminu við, lokað fyrir klám hjá öllum, en þú þurfir að hafa fyrir því að láta opna hjá þér, hafa samband við síma/netfyrirtækið og sanna aldur þinn og yfirráð þín yfir viðkomandi heimaneti. Svo væri lykilorð sem stimpla þyrfti inn í hvert sinn sem klám og annað ofbeldisfullt efni væri skoðað. Þannig væru líkurnar á því að börn og unglingar detti óvart inná þessar síður minkaðar verulega. Og klámhundarnir gætu fengið sitt fix, með fyrirhöfn þó.
  Hvað segið þið um það, þið sem eruð svona mikið á móti klámbanni, er þetta lausn sem ykkur gæti hugnast??

 4. Aðalheiður: Já, þetta er skemmtilega útópísk hugmynd. En því miður er netið ekki sjónvarpsstöð sem hægt er að rugla. Netfyrirtækin bjóða nú þegar upp á þessa þjónustu sem þú ert að tala um og er þá á ábyrgð foreldra (eins og allt annað sem við kemur barninu) að virkja þessa vörn. Þrátt fyrir netsíur forritaðar af heimins klárustu sérfræðingum virðist óæskilegt efni samt sleppa í gegn.
  Hverjum ætlum við að treysta til að ritskoða netið fyrir fullorðið fólk? Ætlum við að endurtaka mistökin frá 9. áratugnum þegar kvikmyndir voru ritskoðaðar og bannaðar. Myndir sem taldar eru í dag til sígildra kvikmynda.
  Kannski ættu stjórnvöld að setja meiri þrýsting á netveiturnar um að efla netvarnir eða skylda foreldra til að setja upp síu.

 5. Vandamálið við klámumræðuna alla er að það er sífellt verið að hræra öllum sköpuðum hlutum saman í einn klámgraut þangað til hugtakið „klám“ missir alla merkingu. Páll Óskar talar um að klámið hafi orðið grófara og grófara með árunum og að í því sé að finna allskonar ógeð sem sé hreint og beint ofbeldi en ekki kynlíf. Vandamálið er semsagt ofbeldi en ekki klám í sjálfu sér. Gott og vel, tölum þá um það en ekki um Hagkaupsboli eða Kylie Minogue eða einu sinni Pál Óskar, sem gekk svo fram af húsmæðrum í Bretlandi með Eurovision atriðinu sínu 1997 að það var fréttaefni á sínum tíma. Talað var um að keppnin yrði aldrei söm eftir þetta byltingarkennda atriði. Ætli einhverjum hafi ekki þótt Eurovision vera orðið „klámvætt“? Eigum við að rifja upp þegar einhver siðgæðislöggan fékk Rúv til að hætta að sýna myndband með lagi Páls Óskars af því að það þótti klámfengið þar sem karlmenn voru að kyssast í því? Sjálfsagt hefur hugmyndin með því að kippa því vídeói úr sýningu verið að vernda börnin. Það eru nefnilega hlutir á borð við þetta í listum og poppmenningunni sem verið er að tala um þegar „klámvæðingin“ ber á góma, en ekki gonzomyndir eftir einhverja hrotta í San Fernando. Það er verið að tala um hluti sem eiga ekkert skylt við ofbeldið sem sést í hryllingsmyndunum sem fólk á borð við Gail Dines sýnir okkur í sömu andrá og hún talar um konur í ballkjólum sem „fuck objects“. Þessi klámlögguleikur Ögmundar hefur þann yfirlýsta tilgang að „sporna gegn klámvæðingunni“. Og fyrirgefið, en mér finnst það bara alveg hryllileg hugmynd að fólk sem sér poppvídeóin hans Páls Óskars og Kylie Minogue og ákveður að þau séu vandamál af sama meiði og gonzonauðganir, fái að ákveða fyrir aðra hvað eigi að vera aðgengilegt fullorðnum almenningi á internetinu eða annarsstaðar. Ef meiningin væri virkilega bara að sporna við ógeðinu og ofbeldinu, þá væri ekki sífellt verið að tengja alla mögulega hluti sem bara hafa einhvern snefil af kynferðislegri skírskotun saman við það og þess vegna er þetta klámvæðingartal allt saman er í raun ritskoðun og siðgæðiseftirlit en ekki barátta gegn ofbeldi og misnotkun.

 6. Smá athugasemd við „… nördar framtíðarinnar munu kannski geta búið til síu með siðferðisvitund.“

  Nei, það er því miður ekki hægt. Einfaldlega vegna þess að fólk hefur mismundandi siðferðisvitund. Það sem fer fyrir brjóstið á einum finnst öðrum ekkert tiltökumál. Spurningin er þá hvort sé hægt að búa til einhvers konar ofbeldissíu fyrir börn — þá má spyrja „hversu gömul?“

  Það er einfaldlega ekkert sem getur komið í staðinn fyrir uppeldi foreldra í þessum málum og því er EINA leiðin til þess að fullkomlega sía (venjulegar síur geta komið í veg fyrir flest óhöpp nú þegar) allt óæskilegt efni er að fara á þennan „leikvöll“ sem interenetið er MEÐ börnunum.

  Internetið er einfaldlega annað samfélag. Myndir þú senda barnið þitt eitt út að leika í hættulegustu borgum heimsins? Vandamálið er að internetið er samansafn bestu og verstu staða heimsins á einum stað. Maður verður að læra að þekkja „hverfin“ og hvernig á að forðast slæmu hverfin. Eina leiðin til þess er fyrir foreldra að hjálpa til með það.

  Endurtek, það er ekki hægt að sía netið sjálfkrafa þannig að það verði „óhult“ fyrir börn. Eina fullkomna leiðin er að loka fyrir allt … það vita nú allir hversu vel það virkar ha ….

 7. Ég hef aldrei og veit ekki um neinn sem hefur fundið klám án þess að vera að leita að því. Þannig ég held að það sem Ögmundur er að reyna gera sé lausn við vanda sem er ekki til. Ennig er ég ekki viss um að klám (eða ofbeldi) sé eins „skemmandi“ og okkur er sagt. Krakkar eru ekki það heimskir að kunna ekki mun á gervi og alvöru, og þeir sem eru en skeptískir á hvað er gervi og hvað er alvöru þá eru þeir oftast of ungir til að detta í hug að leita að klámi.
  Ég tala auðvitað út frá minni eigin reynslu.

  • Einnig vil ég benda á þetta skjal:

   Click to access crime_stats_oecdjan2012.pdf

   Nauðgunar tíðnin á íslandi er 24,7 per 100.000 íbúar á meðan í Japan er það 1,1 per 100.000 íbúa. Ég átta mig á því að það er ákveðin sterýótýpa gagnvart Japan að þar er allt „Skrýtnasta“ klámið, og þetta gæti verið alger tilvijun. En það (á góðri íslensku) meikar sense fyrir mér að í þjóðfélagi sem er opnara hvað varðar „kynferðislega útrás“ skuli hafa minni nauðgunar tíðni.

   Hvað finnst ykkur?

   • Þú talar út frá þinni reynslu, hún er á engan hátt sú sama og mín. Í gær gúglaði ég orðið „nude“ fyrir verkefni sem ég er að vinna að og var ekki búin að skrolla langt niður áður en við blasti fyrsta myndin af þremur typpum yfir andlitinu á liggjandi konu. Seinna um kvöldið horfði ég á vídjó á youtube þar sem bóla var kreist. Þegar því myndskeiði lauk bauð youtube mér að horfa á vídjó sem hét „stórbrotin bóla“ og innihélt typpi að brunda. Þetta eru nú bara tvö frekar hversdagsleg dæmi, og ufbuðu mér á engan hátt, en sýna hvernig alls konar efni er in your face á netinu hvort sem maður sækist eftir því eða ekki. Ég á tölvuna mína ein og hef kannski svona tíu sinnum leitað að kynferðislega opinskáu efni í henni af ásetningi þannig að þessi leitarniðurstaða google og uppástunga youtube skýrist ekki af fyrri sögu.

    Þessi fullyrðing um að börn komist ekki í kynferðislega opinskátt efni fyrr en þau sækjast sjálf eftir því stenst þess vegna ekki, hvað þá að þau geti ekki sóst í slíkt efni áður en þau hafi þroska til að greina á milli „gervi og alvöru“. En jafnvel þó við gæfum okkur að þetta með að þekkja muninn á gervi og alvöru ætti við rök að styðjast með öll börn á öllum aldri, þá gerir það kynferðislega opinskátt efni ekki endilega eftirsóknarvert eða ásættanlegt fyrir þau. Þvert á móti jafnvel. Barn sem gerir sér grein fyrir að klámmyndin sem það horfir á er leikin af alvöru fólki, sem hefur alvöru líkama og alvöru tilfinningar rétt eins og barnið sjálft, fær ákveðnar upplýsingar sem það kannski hafði ekki áður um hvað (sumt) fólk gerir við hvort annað, hvernig framkoma þekkist og hvaða áður óþekktu fúnksjón endaþarmur getur haft. Þetta barn fær hugmyndir um hvað það gæti sjálft gert við annað fólk, eða hvernig öðru fólki gæti dottið í hug að koma fram við það sjálft, og það er alls ekki víst að það hafi þroska til að meðtaka þessar hugmyndir eða vinna úr þeim.

    Sjálf er ég ekki mótfallin öllu kynferðislega opinskáu efni, alls ekki, en það blasir við að þar sem svo mikið af því efni sem er auðveldlega aðgengilegt er gróft og jafvel ofbeldisfullt þá er full ástæða til að stíga varlega til jarðar í þessum málum.

    Að lokum: Varðandi þitt seinna innlegg þá kann að vera að í samfélögum þar sem kynlíf er minna tabú sé minna um kynferðislegt ofbeldi, ég þekki það ekki. Reyndar lít ég svo á að kynferðislegt ofbeldi sé fyrst og fremst ofbeldi, ekki kynlíf, og þjónar sem slíkt þeim tilgangi að svala öðrum hvötum en kynferðislegum. Svo er ekkert sem segir að þó einhvers staðar sé framleitt mikið af kinkí kynferðislega opinskáu efni þá sé kynlíf ekki tabú í því samfélagi. Ég þekki ekki til í Japan og treysti mér ekki til að segja hvort kynlíf sé mikið tabú þar en mér finnst þetta áhugavert til umhugsunar.

    Hvað viðkemur tölfræðinni sem þú vísar í þá tekur hún eingöngu til nauðgana sem tilkynntar eru til lögreglu og segir ekkert til um raunverulega tíðni nauðgana. Hún getur samt gefið einhverjar hugmyndir um samfélögin sem þarna eru til skoðunar, t.d. hversu mikið tabú það er að segjast hafa orðið fyrir nauðgun eða hversu mikils trausts lögreglan á hverjum stað nýtur.

   • Google er með Safe Search sem er ótrúlega vel implemented leið til þess að filtera út klám- og ofbeldisefni. Ég mæli til þess að þú kveikir á því.

    Svo vildi ég benda á að skv. skilmálum YouTube er klám og þessháttar efni bannað. Efni sem inniheldur mikið af húð þarf að vera þannig skráð svo hægt sé að stoppa fólk undir 18 ára aldri frá því að sjá það. YouTube er í eigu Google og er fyrirtækið bæði með kerfi til að reyna að sjálfvirkt flagga þetta efni auk þess sem notendur geta flaggað sjálfir. YouTube er þriðja vinsælasta síða internetsins (skv. Alexa) svo nóg er af notendum til að taka þátt í þessari leit að óæskilegu efni.

    Ég ætla að skjóta því fram að ef að Google getur ekki stoppað klámefni inni á YouTube geta það fá önnur hugbúnaðarfyrirtæki enda fá sem hafa jafn mikið af hæfileikaríkum forriturum á sínum snærum. Íslenska ríkið hefur ekki aðgang að því sem þarf til að leysa þetta vandamál á jafn „targeted“ máta og sumir virðast halda.

    Eina leiðin til að koma í veg fyrir að þú getir séð svona myndbönd á YouTube hlýtur því að vera að loka á YouTube.

 8. „Við verðum að treysta því að fólk hafi siðferðiskennd, heila og hjarta sem stoppar það frá því að vinna náunganum mein. Á sama tíma eru skemmd epli þarna á milli sem hafa ekkert gott í huga, því hjörtu þeirra eru kolsvört. Ekkert frumvarp getur hindrað skemmdu eplin frá ætlunarverkum sínum en það er svolítið annað sem getur það: ástríkir foreldrar eða forráðamenn barnanna..“

  Þarna finnst mér greinarhöfundur komast að kjarna málsins. Lög koma sjaldnast í veg fyrir glæpi og geta jafnvel gert illt verra. Því ef menn trúa því að lögin muni vernda þá, þá eru minni líkur á að menn passi sig sjálfir og sína nánustu, sem í þessu tilfelli er það eina sem virkar. En þess fyrir utan þá er ekki allt klám vont og ekki hægt að banna allt, ekki frekar en áfengisneyslu sem er ekki alltaf vond. Það er einfaldlega siðferðilega rangt að banna eitthvað sem í sjálfu sér er ekki rangt, eins og það að gera myndband af kynlífi.

  En mig langaði líka að staldra við þetta með skemmdu eplin. Því ég finn til með þeim sem gera illvirki. Það ætlar sér enginn að verða vondur. Og menn verða það yfirleitt vegna þess að samfélagið hefur hafnað þeim, eða þeir upplifa það amk. þannig. Að einhverju leiti eru þeir sem bera svart hjarta afleiðing af því hvernig samfélagið er. Spegilmynd samfélagsins og okkar innra eðlis. Okkar sem þykjumst vera eðlileg, en erum í raun öll sek um fordóma gagnvart þeim sem eru öðruvísi. Þetta er kallað ‘félagslegt taumhald’ í fræðunum. Það þjónar sínum tilgangi, en getur líka verið illgjarnt. Þetta er ein helsta orsök eineltis. Svo þeir sem verða fyrir höfnun, hvort sem það er vegna þess að þeir misstigu sig eða annað, þeir verða sífellt fyrir meiri höfnun og fara meira út á jaðarinn. Það er því miður ekki ríkt í okkar samfélagi að gefa fólki annað tækifæri. Það er í fræðunum kallað ‘cumulative disadvantage’.

  Eina lausnin á þessum samfélagsvandamálum er einmitt að sýna hvort öðru meiri virðingu. Vera tilbúin að fyrirgefa. Fordæma ekki. Bera virðingu fyrir því að aðrir eru ekki eins og við. Sýna fólki hlýju sem virðist ekki eiga hana skilið eða vilja hana.

 9. Fyrir þá sem ekki kunna vel á tölvur þá er þetta ekki bara spurning um réttmæti þessara aðgerða heldur eru líka tæknilegar ástæður sem standa í vegi fyrir þessu. Það er eitt að loka á síður sem heita porn___.com en það er bara brotabrot af klámi á netinu. Það eina sem krakkar þyrftu að kunna til að komast framhjá þessu er að nota proxy þjóna, torrent, og önnur skráaskiptiforrit.

  Burtséð frá pólitísku hliðinni einkennist þessi umræða gríðarlega af tæknilegri vanþekkingu.

 10. Bakvísun: Klám er spegill | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.