NÓG

Höfundur: Eve Ensler

 

Ég hef fengið nóg af nauðgunum.

Nóg af nauðgunarmenningu, nauðgarahugarfari, nauðgunarsíðum á Facebook.

Nóg af fólki sem í þúsundatali kvittar undir þessar síður með nafni án þess að skammast sín vitundarögn.

Nóg af fólki sem berst fyrir rétti sínum til að halda úti nauðgunarsíðum og kallar það tjáningarfrelsi eða réttlætir þær með því að þetta sé grín.

Ég hef fengið nóg af því að fólk skilji ekki að nauðgun er ekki brandari og nóg af því að vera sagt að ég sé húmorslaus, þar sem flestar konur sem ég þekki (og ég þekki margar) eru bara djöfull fyndnar. Okkur finnst bara ekki óboðið typpi í rassinum á okkur eða píkunni vera neitt brjálæðislega fyndið.

Ég hef fengið nóg af því hvað það virðist alltaf taka langan tíma fyrir alla að bregðast við því að konu hafi verið nauðgað.

Nóg af því að það taki Facebook margar vikur að eyða nauðgunarsíðum.

Nóg af því að hundruð þúsunda kvenna í Kongó séu enn að bíða eftir að nauðganir hætti og nauðgarar verði látnir svara til saka.

Nóg af því að þúsundir kvenna í Bosníu, Búrma, Pakistan, Suður-Afríku, Gvatemala, Síerra Leóne, Haítí, Afganistan, Líbýu, hvar sem er, séu enn að bíða eftir því að réttlætinu verði fullnægt.

Ég hef fengið nóg af nauðgunum um hábjartan dag.

Nóg af 207 ríkisstyrktum sjúkrahúsum í Ekvador sem loka inni, nauðga og pynta lesbíur til að snúa þeim.

Nóg af því að einni af hverjum þremur konum í bandaríska hernum sé nauðgað af svokölluðum „félögum“ sínum.

Nóg af valdhöfum sem neita konum sem hefur verið nauðgað um fóstureyðingu.

Ég hef fengið nóg af því að menn eins og forsetaframbjóðandinn Herman Cain geti gefið kost á sér í embætti þó að margar konur gefi sig fram og saki þá um að káfa og þukla á sér og auðmýkja sig.

Nóg af því að sjónvarpsfréttakonur sem spyrja um slíkt séu púaðar niður. Maria Bartiromo hjá CNBC var púuð niður. Ekki Herman Cain.

Og það minnir mig á að ég hef gjörsamlega fengið nóg af háskólastrákunum sem mótmæltu réttarkerfinu en ekki meintum nauðgara að minnsta kosti átta drengja eða yfirmanni hans, Joe Paterno, sem gerði ekkert til að vernda börnin þótt honum hefði verið sagt hvað væri verið að gera þeim.

Nóg af því að þolendum nauðgana sé nauðgað aftur þegar þau segja frá því.

Ég hef fengið nóg af því að sveltandi konum frá Sómalíu sé nauðgað í Dadaab-flóttamannabúðunum í Kenýa og nóg af að konum sé nauðgað í Occupy Wall Street og að þær þegi yfir því af því að þær vilja hlífa hreyfingu sem berst fyrir því að binda enda á rányrkju og nauðgun efnahagslífsins og jarðarinnar, líkt og nauðgun á líkama þeirra sé allt annað mál.

Ég hef fengið nóg af því að konur þegi enn um nauðganir af því að þeim er talin trú um að nauðgunin sé þeim að kenna eða að þær hafi gert eitthvað sem olli henni.

Nóg af því að ofbeldi gegn konum sé ekki efst á forgangslista um allan heim þegar einni af hverri þremur konum er nauðgað eða henni misþyrmt einhvern tímann á ævinni. Þegar konum er tortímt og þaggað niður í þeim og grafið undan þeim er verið að tortíma sjálfu lífinu.

Engin kona, engin framtíð – döh.

Ég hef fengið nóg af nauðgunarmenningu þar sem forréttindafólk með pólitíska, líkamlega og efnahagslega valdsmuni getur tekið hvað og hvern sem því sýnist, þegar því sýnist, eins mikið og því sýnist og eins oft og því sýnist.

Nóg af endalausri upprisu nauðgara og kynferðisbrotamanna; kvikmyndaleikstjóra, þjóðarleiðtoga, framkvæmdastjóra stórfyrirtækja, kvikmyndastjarna, íþróttamanna, á meðan líf kvennanna sem þeir brutu á er hrunið til grunna fyrir fullt og allt, með þeim afleiðingum að margar þeirra hrekjast í félagslega og tilfinningalega útlegð.

Nóg af aðgerðaleysi góðu mannanna. Hvar í andskotanum eruð þið?

Þið búið með okkur, elskið okkur, eruð feður okkar, vinir okkar og bræður, þið njótið ástúðar, umönnunar og eilífs stuðnings okkar en af hverju standið þið þá ekki með okkur? Hvers vegna tryllist þið ekki yfir nauðgun á okkur og niðurlægingu og látið til skarar skríða?

Ég hef fengið nóg af öllum þeim árum sem hafa liðið frá því að ég fékk fyrst nóg af nauðgunum.

Og að hafa hugsað um nauðgun hvern einasta dag síðan ég var fimm ára gömul.

Og að verða flökurt af nauðgun, verða þunglynd af nauðgun og reið vegna nauðgunar.

Og að koma að innhólfinu mínu troðfullu af af hryllilegum nauðgunarsögum á hverjum degi.

Ég hef fengið nóg af því að vera kurteis varðandi nauðganir. Þetta hefur gengið svona of lengi, við höfum verið of skilningsrík.

Það þarf átakið OCCUPYNAUÐGUN í hvern einasta skóla, almenningsgarð, útvarps- og sjónvarpsstöð, á öll heimili, skrifstofur, verksmiðjur,  í allar flóttamannabúðir, herbúðir, í sérhvert bakherbergi, næturklúbba, húsasund, réttarsali, á skrifstofur Sameinuðu þjóðanna. Fólk verður að reyna af öllum mætti að ímynda sér – í eitt skipti fyrir öll – hvernig það er  að upplifa innrás í líkamann, splundrun hugans, að sálin brotni í mola. Við þurfum að tengjast í reiði okkar og hluttekningu svo við getum breytt því að fólk leiði hjá sér að konum um allan heim sé nauðgað.

Um það bil milljarður kvenna í heiminum hefur verið svívirtur.

EINN MILLJARÐUR KVENNA.

Stundin er komin. Hlýðið kallinu.

Í dag hefst það og stendur til 14. febrúar, 2013, þegar einn milljarður kvenna rís upp til að binda endi á nauðganir.

Af því að við höfum fengið nóg.

 

Eve Ensler er bandarísk listakona, leikskáld, femínisti og aðgerðasinni sem er þekktust fyrir leikritið Píkusögur. Hún er upphafsmaður V-dagsins.

Þýðingin er samvinnuverkefni: Gísli Ásgeirsson, Halla Sverrisdóttir, Hildur Lilliendahl, Kristín Jónsdóttir, Magnea J. Matthíasdóttir, Sigríður Guðmarsdóttir.

Frumtextann að Over It eftir Eve Ensler, má lesa hér.

Upplýsingar um V-daginn á Íslandi má finna á heimasíðu UNWomen á Íslandi.

Upplýsingar um alþjóðlega fjöldaviðburðinn One Billion Rising má finna hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.