Kosningar – Opið bréf til fjölmiðlafólks

Höf.: Vignir Hafsteinsson

 

Kæra fjölmiðlafólk,

Nú er kosningavor að nálgast og því býst ég við því að þið munuð brátt fara að skrifa alls kyns umfjallanir um helstu frambjóðendur, fara í heimsókn til þeirra í kaffibolla og þess háttar. Þetta gerið þið ekki bara til þess að leyfa þeim að kynna skoðanir sínar og áform heldur einnig til þess að við fáum hugmynd um þeirra persónu og hvað drífur þá áfram. Þetta er mjög góð og þörf vinna en hana má þó bæta.

Mér finnst halla á okkur karlmennina í þessum umfjöllunum og fullt af verðugum málefnum verða útundan. Ég ákvað því að skrifa niður nokkra punkta sem eru mér sem karlmanni mjög mikilvægir:

 

Guðmundur Steingrímsson er rosalega flottur í tauinu alltaf og þá sérstaklega upp á síðkastið. Gætuð þið spurt hann hvar hann kaupir fötin sín helst, hver hans tískufyrirmynd sé, og sérstaklega fyrir mig, hvernig hann leysir vandann að finna góð jakkaföt og skyrtur þegar hann er svona hávaxinn?

Steingrímur Joð er orðinn 57 ára en lítur út fyrir að vera í fáránlega góðu formi. Hvað gerir hann í ræktinni? Er hann í partý-spinning, eða kannski Rope Yoga? Hvernig klæðir hann sig í ræktinni? Og hvernig heldur hann húðinni svona unglegri?

 

Árni Páll er með ógeðslega flott skegg. Hvað var hann lengi að safna því? Hvað gerir hann við það? Er hann að bera einhverjar olíur í það? Hvað gerði hann við kláðanum? Er konan hans sátt við skeggið?

Illugi Gunnarsson eignaðist dóttur seinasta vor. Viljið þið spyrja hann hvort það var ekki erfitt að fara út á vinnumarkaðinn svona fljótt eftir að hann eignaðist barn? Og nennið þið líka að tékka á því hvort honum hafi fundist hann hafa náð að sinna starfi sínu almennilega meðan barnið hans var á brjósti?

 

Bjarni Ben á fjögur börn og er þingmaður og flokksformaður. Getið þið spurt hann hvernig honum gengur að halda öllum þessum hlutverkum til haga? Hvernig tekst honum að koma kvöldmatnum á borðið eftir langan og strangan vinnudag? Hvernig nær hann að sinna börnunum og eiginkonunni undir allri þessari pressu?

 

Pælið í þessu og takk fyrir mig.

P.S. Nennið þið að spyrja Sigmund Davíð hvað hann er alltaf með í töskunni sinni?

7 athugasemdir við “Kosningar – Opið bréf til fjölmiðlafólks

 1. Sæll Vignir

  Fyrir örfáum vikum opnaði Guðmundur Steingrímsson fataskápinn sinn fyrir lesendum Sunnudagsmoggans. Það ætti ekki að taka langan tíma að finna það, Þar kemur m.a. fram að Guðmundur aðhyllist einfaldan og klassískan fatastíl. Þá hefur verið nokkuð fjallað um að Guðmundur sé byrjaður í ræktinni, nánar tiltekið í Víkingaþreki hjá Mjölni.

  Sjá. t.d. hér: http://www.visir.is/gudmundur-i-vikingathrek/article/2012121009658

  Það hefur oft verið fjallað um líkamlegt atgervi Steingríms J. Sigfússonar, blakið og þrammið yfir Ísland um árið. Fyrir nokkrum árum lenti Steingrímur. Fjölmiðlamenn gerðu því skil og lögðu mikla áherslu á líkamlegt atvgervi Steingríms, hvað hann væri í góðu formi og stæltur, hvað hann gerði til að halda sér við og þess háttar.Úlfhildur Dagsdóttir skrifaði grein um þetta á Kistuna, þar sem meðal annars stóð: „Já vörpulegur skrokkur flokksforingjans varð nokkrum stjórnmálamönnum að umtalsefni; þetta hefði getað farið miklu verr, en hann Steingrímur er svo vel á sig kominn líkamlega. Aðdáunin hreinlega glampar í orðunum og skyndilega tekur þetta allt á sig afskaplega fallega hómóerótíska mynd; aðdáun stjórnmálamanna og fréttamanna (sem flestir eru karlmenn eins og alþjóð veit), sem hamra stöðugt á þessum orðum, “svo vel á sig kominn líkamlega”. Það var jú verið að frumsýna kvikmynd Ang Lee um kúrekana tvo, Brokeback Mountain.“

  Það hefur þónokkuð verið fjallað um skeggvöxt Árna Páls, Komið hefur fram að hann safnaði því fyrir hlutverk sem hann tók að sér í hestamynd eftir Benedikt Erlingsson. Það klæjaði fyrst en svo komst hann yfir það.

  http://www.dv.is/folk/2013/2/12/skeggid-til-komid-vegna-kvikmyndahlutverks/

  Viðskiptablaðið hefur líka velt þeirri spurningu upp hvort skeggið muni auka trúverðugleika Árna Páls í stjórnmálum.
  http://www.vb.is/frettir/77290/

  Bjarni Benediktsson er víst latur við heimilisstörfin. http://www.visir.is/bjarni-ben-er-latur-vid-heimilisstorfin/article/2009218188780

  Hann talaði líka um fjölskyldu sína og ástina í forsíðuviðtali við „kvennablaðið“ Nýtt líf á dögunum. Það vakti mikla athygli; það var dálítið grín gert að Bjarna,sérstaklega fyrir forsíðumyndina sem sumum þótti kvenleg – og þar með honum til háðungar. Elva Björk Sverrisdóttir skrifaði góða grein um það: http://knuz.is/2012/09/03/konan-i-karlinum/

  Ég veit svo sem ekki hvað Sigmundur Davíð er með í töskunni, en hitt er öruggt að ekki hefur verið fjallað meira um megrunarátak nokkurs stjórnmálamanns en Sigmundar Davíðs.
  http://www.dv.is/frettir/2011/8/22/sigmundur-david-er-108-kilo/

  Ég held að það sé engum vafa undirorpið að konur í stjórnmálum hafi í gegnum tíðina – og fá enn – öðruvísi og léttúðagri meðferð í fjölmiðlum en karlarnir. Um það eru til mörg dæmi. En öll dæmin í þessum pistli eru frekar vond.

  Með kveðju
  Bergsteinn Sigurðsson

  • Ef ég væri ekki þeim mun hræddari við að særa þig, elsku Bergsteinn, þá myndi ég kannski segja að það væri annað hvort til marks um móðgunargirni, dræman lesskilning eða slappt skynbragð á stíl að halda að þessum dæmum bæri að taka sérstaklega bókstaflega.

   • Elsku Hildur, áhyggjur af sárindum af minni hálfu eru ástæðulausar. Hvort viðbrögð mín séu til marks um móðgunargirni, dræman lesskilning eða slappt skynbragð skal ég ekki segja – kannski snertur af öllu saman.

    Eins og ég skil pistilinn er hann útlistun á einhverjum absúrd-aðstæðum þar sem fjölmiðlar færu að spyrja karla í stjórnmálum út í snyrtivörur og fegrunarráð sem konur væru. Af viðbrögðum margra vina minna á Facebook virðast þeir vera sama sinnis. Gallinn á pistlinum er að mínu mati sá að dæmin er að dæmin – sem ekki á að taka bókstaflega – er mjög auðvelt að taka bókstaflega, því þau eru öll til og frekar nýleg.

  • Fallegt hvernig Hildi tókst að koma með móðganir og skítkast en vefja það inn í svona fallegan pakka.

   Tel svar Bergsteins benda til þess að það halli ekkert sérstaklega á kvennmenn að þessu leiti og þó ég hafi ekkert sérstaklega athugað málið þá kæmi mér ekki á óvart að það skipti meira máli hvort fréttamaður eða spyrill sé kona, hvort spurningarnar séu á þennan hátt, frekar en hvort sá sem spurður sé, sé kona eða karl.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.