Freip, hreip og mreip – og aðrar nauðganir í dagsins önn

Höf.: Arngrímur Vídalín

 

Létt vinnustaðar…nauðgun? (sótt á flickmylife.com)

 

Orð eru til alls fyrst

Það flaug ýmislegt í gegnum huga mér þegar ég sá fyrst orðið facerape: ósmekklegt, tilgangslaust, gerir lítið úr nauðgunum, hvernig dettur manneskjunni í hug að segja þetta, en fullkomlega fáránleg samlíking, ha? Það er varla nema eitt og hálft ár síðan (elsta dæmi Urban Dictionary er raunar frá 2009) en nú þegar hefur þetta fyrirbæri – sem ekki einu sinni nær því að vera fyrirbæri í sjálfu sér – öðlast sjálfstæða tilveru í krafti orðsins sem haft er yfir það svo fólk getur ekki hugsað sér annað orð til að lýsa því. Samt á orðið ekkert skylt með þeirri athöfn sem því er ætlað að lýsa.

 

Hér forðar Kristoffer Sophie fimlega frá … nauðgun?

 

Að freipa
Fyrirbærið facerape verður ekki til fyrr en orðið er haft yfir það. Án orðsins er athöfnin heldur ómerkileg og
tekur því varla að nefna hana; eftir að orðið varð til kallar það hins vegar á framkvæmd, í neikvæðum skilningi aðallega, hún öðlast vissan þunga sem hún hafði ekki áður. Þó fylgir athöfninni að freipa einhvern ákveðin léttúð. Eftir að vinur minn hafði raðað inn stöðufærslum á Facebooksíðu sinni í hálfan dag, sem flestar voru fullar af nánast hómóerótískri aðdáun á Eyþóri Eurovisionfara, birtist okkur loks tilkynning frá honum um að hann hefði verið freipaður. Það er sú óhjákvæmilega niðurstaða sem þeir sem hafa gaman af slíku bíða eftir, og henni fylgja ýmis lol, rofl og hahaha. Það þykir fyndið að nota Facebook í nafni vinar og  láta hann segja hluti sem hann aldrei segði sjálfur, breyta sambandsstöðu hans og þar fram eftir götunum. Það er kallað facerape. Og á meðan sú ómerkilega athöfn fær vigt í krafti sérstaks orðs er önnur alvarlegri athöfn sett í nánast gamansamt samhengi.

Stutt greining

Facerape er afar líkamlegt hugtak yfir nokkuð sem á sér stað á internetinu. Það merkir bókstaflega að nauðga einhverjum í andlitið, sem er full nákvæmt þegar það er orðað á íslensku; nauðgun er alltaf nauðgun sama hvaða líkamshlutar eru misnotaðir, nauðgun er alltaf hrottaleg, hún er alltaf ofbeldisverknaður. Nauðgun er aldrei fyndin. Ekki heldur þegar hún hendir aðra. Hún verður ekkert fyndnari heldur þótt vinir nauðgi hver öðrum og hlæi á meðan og eftir á. Ef eitthvað er verður nauðgun aðeins sjúkari því meira sem maður veltir henni fyrir sér.

 

Jessie er ekki að fatta … nauðgunina?

 

Hvers vegna talar fólk þá um facerape? Hvernig gerist það þá að orðið nauðgun er það sem valið er til að lýsa verknaði sem á ekkert skylt með nauðgun? Það gæti í fyrsta lagi haft með það að gera að fólk hugsar ekki endilega nákvæmlega út í merkingu þeirra orða sem það tekur sér í munn, það hefur það bara eftir sem aðrir hafa áður sagt, það verður samdauna ákveðinni miður geðslegri orðræðuhefð og hættir að átta sig á því hvað orðin merkja þegar þau hafa verið sögð nógu oft. Slík afbygging merkingar er hættuleg. Því í öðru lagi sprettur orð eins og facerape aðeins upp í samfélagi þar sem nauðganir eru hafðar í flimtingum. Það að tiltölulega saklaus verknaður sé bendlaður við nauðgun – og hlegið að því – bendir til þess að eitthvað sé að í viðkomandi þjóðfélagi. Það að þriðju hverri konu sé nauðgað rennir stoðum undir þá ályktun – ég hef ekki tölur um hlutfall karla sem er nauðgað – og það hvernig samfélagið lætur þolendur axla ábyrgðina segir sína sögu líka.

Hvaða orð á þá að nota í staðinn?

Þessari spurningu var velt upp í umræðuhóp sem ég var staddur í á dögunum. En ég spyr á móti: nota um hvað? Við höfum ekki sérstakt orð yfir öll möguleg tækifæri til glettni sem fólk notfærir sér. Við köllum það ekki mailrape ef einhver kemst í tölvupóstinn okkar, homerape ef einhver brýst inn í íbúð, creditcardrape ef einhver stelur kortinu manns eða identityrape ef einhver villir á sér heimildir. Það er fullkomlega fáránlegt að hafa sérstakt orð yfir það þegar einhver brýst inn á Facebookreikning annars, eða notfærir sér það ef reikningurinn liggur opinn fyrir framan viðkomandi. Það heitir að brjótast inn, rétt einsog ofangreind mreip og hreip eru ekki nauðganir heldur innbrot. Það að kalla það öðru nafni er óþarfi. Það að kalla það nauðgun er svívirðilegt, heimskulegt og vanvirðing við alla – ekki aðeins þá sem hefur verið nauðgað, heldur alla.

 

Það sem er til ráða er tvennt:

1. Ekki bjóða fólki upp á svona orðalag. Gættu þess hvernig þú orðar hlutina.

2. Ekki láta bjóða þér upp á svona orðalag. Þess vegna, alls staðar þar sem orðinu bregður fyrir, límdu þar tengil á þessa grein og segðu að þú látir ekki bjóða þér upp á þetta.

 

 

 

 

 

 

40 athugasemdir við “Freip, hreip og mreip – og aðrar nauðganir í dagsins önn

 1. Ef mig minnir rétt þá var víst eitthvað orð notað yfir fyrirbærið sem við þekkjum sem „þyrlu“ í dag, áður en það orð náði útbreiðslu. Svo voru nokkur orð á kreiki yfir það sem í dag er oftast kallaður „gemsi“ eða „farsími“. Dæmin eru fjölmörg, ég þarf svosem ekkert að rifja þau upp sérstaklega.

  Ef þú ert ósáttur við eitthvað, þá er lögmálið þetta: finndu eitthvað betra. Nákvæmlega eins og ef þú ert ósáttur við að barnið þitt heimti mjólk með ólund, þá er ekki nóg að segja barninu að þetta sé óásættanlegt. Þú þarft að gefa því annan (og betri) valkost. Því hvernig annars á krakkinn að vita hvernig hann á að haga sér?

  Þetta gildir með allt. Það er ekki nóg að benda á hvernig eigi EKKI að gera hlutina, ef þú vilt sjá breytingu í hegðun verðurðu að kenna fólki hvernig Á að gera hlutina.

  Svo það er ekki nóg að nöldra yfir því hvað orðið sé hræðilegt og það eigi ekki að nota það. Það verður notað þar til fólk fær annan (og betri) valkost. Ef þú vilt leggja þitt af mörkum í umræðuna Arngrímur hvet ég þig til að leggjast í nýorðasmíði og nota þér svo að knúzið er víðlesið og fá fólk í átak til að temja sér nýja orðið.

   • Það orð hefur þó ansi rótgróna merkingu í öðru samhengi. Kannski nær það útbreiðslu í þessari merkingu en ég myndi ekki veðja á það. Kannski eitthvað millistig þarna.. ? „Fésbrot“ eða eitthvað álíka?

 2. nauðga (+þgf.); veik beyging
  [1] hafa samfarir gegn vilja sínum
  [2] neyða

  Sjá [2].

  Það er ekki aðeins ein merking á þessu orði, og því misskilningur að ætla því orði aðeins eina merkingu – og gerir lítið úr þeirri staðreynd að hægt er að nota orðið á fleiri vegu.

  • Sæll og blessaður Óðinn. Eitt það fyrsta sem kennt er í íslenskum fræðum er að orðabækur eru ekki fræðirit. Þær eru því ekki marktækar um annað en skoðanir ritstjórans. Enda kemur það á daginn að merking orðsins nauðgun í nútímamáli er aðeins ein. Hin merkingin sem þú vísar til hefur ekki verið notuð nema í Íslendingasögum á 13. öld.

   • Þú fullyrðir sumsé að orðið hafi ekki verið notað í annarri merkingu síðan á þrettándu öld? Það finnst mér merkilegt, þar sem ég hef oft orðið vitni af notkun þessa orðs í einmitt þeirri merkingu sem þú virðist afskrifa svo einfaldlega. Hér eru heimilidir sem sýna notkun orðsins á báða vegu, 500 árum að jafnaði eftir að þú telur það horfið: http://www2.lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=706131&s=413899&l=nau%F0gun

    Orðið er enn skilgreint á báða vegu í orðabókum í dag, en sökum þess að tungumál er lifandi fyrirbæri og tekur sífelldum breytingum þá hefur megináhersla orðsins færst yfir í þá sem um er rætt, þ.e. ‘samfarir gegn vilja’. Það þýðir þó ekki að hin merkingin sé fallin úr gildi, enda segir mín reynsla af orðinu annað.

    Oft er talað um ‘nauðgun réttlætiskenndar’ og ‘nauðgun þjóða’ enn þann dag í dag og skil ég ekki af hverju þú segist lærður í íslenskum fræðum ef þú hefur ekki orðið þess var að orðið er notað í annarri merkingu alveg fram til dagsins í dag.

    Eru orðabækur ekki ávísun á merkingu orða? Ef ekki er hægt að dæma út frá orðabók, eða orðsifjum, vegna þess að það sé skoðun ritstjóra – hví ætti einhver að ganga út frá þinni kenningu um að þetta orð merki þetta en ekki hitt, þar sem það er aðeins þín skoðun?

    Einhvers staðar verðum við að geta fundið merkinguna, minn skilningur er af tvennum toga – og hægt er að rekja ástæðurnar nokkuð skilvirkt aftur í tímann. Að þú skulir ekki vera meðvitaður um þá merkingu ætti ekki að útiloka tilvist þeirrar merkingar.

    Annars skil ég vel afstöðu þína ef hin merkingin er ‘dauð og ógild’ af þínum dómi, en því miður er það ekki algilt.

   • Voðalega tekurðu þessu bókstaflega. Ég nefni þrettándu öldina af því að það að nota nauðgun í hinni merkingu orðsins er lærð orðnotkun. Fæstir leggja þá merkingu í orðið. Öllum bregður þegar einhver fer allt í einu að tala um að nauðga einhverjum, áður en hann bætir við „til einhvers“. Það er ekki algengt að fólk geri það og það er ástæða fyrir því.

    Af hverju ertu annars að verja þá merkingu orðsins? Greinin fjallar um Facerape og það er vægast sagt undarlegt að fara í orðsifjafræðilegar stellingar til að verja allt annað orð. Satt að segja er vörn þín undarleg hvernig sem á hana er litið. Finnst þér mikilvægt að geta notað orðið nauðgun öðruvísi en flestir skilja það?

   • Að sjálfsögðu tek ég grein um orðanotkun bókstaflega – ég hef annars gefið til kynna að ég skilji afstöðuna svo lengi sem að það sé altækt að enga aðra merkingu er að ræða út frá orðinu, sem er rangt. Þú segir nú berum orðum að í nútímamáli sé merkingin aðeins ein, sem er líka rangt, og geri ég ráð fyrir því að greinin sé afsprengi þeirrar fullyrðingar.

    Það eru tvær skilgreiningar á orðinu ‘nauðgun’ eins og mín reynsla og gögn hafa sýnt mér, þegar merking [1] er túlkuð út frá orðinu þegar samhengi sýnir fram á að um merkingu [2] sé að ræða, þá er það eitthvað sem ber að benda á, og það er það sem ég er hér með að gera.

    Mér finnst mikilvægt að fólk viti að merkingin er ekki ein, og leggi ‘nauðgun’ og ‘nauðgun’ saman – það er það sem lítillækkar glæpinn, mun frekar en að nota hana í annarri merkingu sem á sér stoðir í tungumálanotkun samfélagsins. Því ert það þú sem ert að leggja orðinu sem lýsir glæpnum saman við það sem gefur til kynni nauðbeygingu, ekki hinir.

    Þú þarft ekki að taka því persónulega að til sé merking á orði sem þú hafir ekki vitað af, en óþarft er að segja mig óþarflega anal yfir því þegar ég bendi þér á það, þar sem undirstaða greinarinnar er að aðeins ein merking sé til. En ég skil vel af hverju þú ert það.

   • Merking sem ég vissi ekki af? Þú ert hrokafullur. Auðvitað vissi ég af þessari merkingu, en hún er almennt ekki í notkun sama hvað þú annars kannt að halda. Þú hefur tæpast önnur gögn en orðabók, sem eru óáreiðanlegar heimildir, og fólk notar ekki orðið nauðgun í þessari merkingu nema það beinlínis geri í því, af þrjósku jafnvel, samskonar og þeirri sem þú ert bersýnilega haldinn. Ég hef alveg komist í tæri við slíkt fólk ef sú reynsla á að vera næg til að sýna fram á að sú merking orðsins sé útbreidd, en um það verðum við greinilega ekki sammála.

    Við verðum heldur ekki sammála um mikilvægi þessarar merkingar. Telurðu að vanþekking á þessu orði hafi valdið þeim óhugnanlega útbreidda misskilningi að orðið hafi aldrei merkt annars konar þvingun? Það held ég varla að sé. Hvaða máli skiptir það annars í þessu samhengi? Engu. Sú merking sem hugsuð er með þessu orði er bersýnilega sú sem lagt er upp með í þessari grein: rape, að nauðga. Og þannig skilur fólk þetta orð.

   • Við verðum þá að vera sammála um að vera ósammála í þessu máli.

    Ég hef ekki aðeins vísað í orðabók, ég hef líka vísað til Ritmálssafns Háskólans, svo og mína reynslu. Ég veit ekki hvernig útbreiðsla á orðum er mæld, og þykir leitt að sjá að vísun í þessa hluti skuli ekki í það minnsta gefa í skyn að það sé ekki aðeins ‘þrjóska’ sem viðheldur þessari merkingu. Ef þú hefur aðrar aðferðir þá væri gott að fá að vita af þeim.

    Ég hef tjáð af hverju mér finnst þetta mikilvægt, þó þú teljir það skipta engu máli. Þar sem þú segir að sú merking sem hugsuð er með þessu orði sé sú sem liggur að baki þessarar greinar, þá vildi ég einfaldlega benda á að til er fólk sem hugsar ekki nauðsynlega um ofbeldisglæpinn, heldur ‘merkinguna sem ekki má nefna’. Ég er einn þeirra, tengdi þessi orð aldrei við ofbeldisglæpinn.

    Til þess að undirstrika undarlegheitin í þessu þá er einnig gott að vísa til enska orðsins sem um ræðir, eins og hefur áður verið gert, en þar liggur fyrir merking á þessu orði sem hægt er að nota í aragrúa tilfella annarra en þeirra er varða ofbeldisglæpinn ‘nauðgun’.

    Þar er ‘hin’ merkingin alls ekki fallin úr tísku eins og í tilfelli okkar íslendinga, og þar sem þú ert aðallega að ræða enska orðið og þýðir það svo, þá er kannski best að kynna sér í hvaða tilfellum enskumælandi þjóðir nota þetta orð. Þar er það langt í frá bundið ofbeldisglæpnum, það er líkara orðinu ‘misnotkun’ (e. samheiti: violation) en ‘nauðgun’ okkar íslendinga.

    Gott væri í það minnsta að þýða orðið rétt, því ‘e. rape’ er ekki alltaf ‘nauðgun’ á íslensku, og ef þýtt í nauðgun, þá að ganga úr skugga um að svo sé.

    „Hvers vegna talar fólk þá um facerape? Hvernig gerist það þá að orðið nauðgun er það sem valið er til að lýsa verknaði sem á ekkert skylt með nauðgun?“

    Vegna þess að það er ekki verið að tala um ofbeldisverknaðinn nauðgun.

   • Gáum þá í orðabók:

    1. the unlawful compelling of a person through physical force or duress to have sexual intercourse.
    2. any act of sexual intercourse that is forced upon a person.
    3. statutory rape.
    4. an act of plunder, violent seizure, or abuse; despoliation; violation: the rape of the countryside.
    5. Archaic. the act of seizing and carrying off by force.

    Sú merking sem þú ert svo skotinn í er greinilega talin úreld í ensku líka samkvæmt að minnsta kosti einni orðabók. Orðið skírskotar fyrst og fremst í ofbeldisverknaðinn nauðgun, líka þegar talað er um facerape. Það er sú merking sem höfð er í huga og það er ekkert flóknara en það. Þetta eru bara hártoganir hjá þér. Þetta er einsog ef þú þráskallaðist við að halda því fram að símafyrirtæki hlytu að framleiða þræði. Merking orðsins breytist ekki þótt þú skiljir það öðruvísi.

   • Þú ert augljóslega á dictionary.com, hér er Merriam-Webster:

    Definition of RAPE
    1: an act or instance of robbing or despoiling or carrying away a person by force
    2: unlawful sexual activity and usually sexual intercourse carried out forcibly or under threat of injury against the will usually of a female or with a person who is beneath a certain age or incapable of valid consent — compare sexual assault, statutory rape
    3: an outrageous violation

    Það er ekki minnst á að neitt sé forn-enska og úr sér gengið, en fjórar færslur eru út frá þessu orði, þetta er ein þeirra. Þarna er bæði skilgreining 1 og 3 sem útlista því sem ég er að halda fram.

    Því miður þá er þetta bara eitt dæmi þar sem hvorugur okkar hefur tæknilega rangt fyrir sér, við erum að deila um gráa svæðið sem hvorugur vill játa að sé til. Það fer allt eftir því hvar við stöndum, og það er augljóst að við erum á sitt hvorum endanum í þessu máli. Þú ræður hvort þú sért svartur eða hvítur. Leitt að þú lítir á það sem mælskubragð að benda á þetta.

    Ég ætla samt ekki að vera í einhverju stríði hérna hvað þetta varðar. Og þegar ég segi stríð, þá meina ég ekki eiginlegt stríð, né útbreiddustu merkingu enska orðsins ‘war’.

    Ég vona að ég lítillækki ekki þann hrylling sem stríð er með þessu innskoti.

   • Burtséð frá því hvað stendur í orðabókum þá fullyrði ég að engin enskumælandi manneskja noti orðið í þessari merkingu. Orðabækur eru nefnilega, einsog áður sagði, afar gallaðar heimildir um hvernig tungumál eru töluð. Ef þú getur fundið fyrir mig eitt dæmi úr enskum texta frá 20. öld eða síðar um þessa notkun – dæmi þar sem orðið er haft sem myndlíking einsog t.d. „nauðgun landsins“ teljast þar að sjálfsögðu ekki með – þá verð ég verulega hissa. Ástæðan er einföld: það talar enginn svona. Það er ekki svarthvít afstaða heldur staðreynd. Meira hef ég ekki að ræða um þetta nema þú finnir raunverulegt dæmi um hið gagnstæða.

   • „Ef þú getur fundið fyrir mig eitt dæmi úr enskum texta frá 20. öld eða síðar um þessa notkun […] þá verð ég verulega hissa.“

    Þú ert líka svo góður að segja þetta bara staðreynd, en ekki afstaða, og kallar mig hrokafullann? Vel gert.

    Hér er ‘despoiling’; ‘an outrageous violation’:
    „Amanda Knox, ‘Raped and Crucified by the Media’
    Perugia : Italy | Sep 29, 2011 at 6:55 AM PDT“

    „As God made her, but raped by media“
    Published on Wed Sep 16 2009

    „THE ECONOMIC RAPE OF AMERICA
    What You Can Do About It“ © Copyright 1992

    „Geraldo Rivera: I Was “Raped” By The TSA“ May 11, 2012

    „Kim Novak says she feels raped by The Artist“ January 9, 2012

    „Courtney Love says Kurt Cobain was raped by The Muppets“ March 13, 2012

    Svo hér að neðan eru ummæli sem hafa verið dregin til baka vegna viðbragað sem þinna, en það undirstrikar að fólk er meðvitað um hina fjölbreyttu merkingu orðsins og að vanþekking á þeirri staðreynd er gríðarlegt mein og óþörf mál gerð úr því að ætla þeim sem talar einhverja afskræmda afstöðu út frá eigin rangtúlkun:

    „Kristen Stewart draws controversy again with rape remark“ June 2, 2010

    „Johnny Depp sorry he said being photographed is like getting raped“ October 5, 2011

    Nei, það talar enginn svona. Þín afstaða er staðreynd málsins. Allt sem ég segi eru hártoganir. Þú hefur alltaf rétt fyrir þér, enginn á neitt í þig.

    En hvað get ég sagt, ég er víst svo hrokafullur.

   • Öll dæmin sem þú tekur vísa til nauðgunar eða eru líkingar við nauðgun af því tagi sem ég nefndi að kæmu ekki til greina. Ef það er hroki að benda þér á að þú hefur rangt fyrir þér, þá þarf ég bara að sætta mig við það. Staðreyndin er sú að orðið rape kallar aðeins fram hugrenningatengsl við nauðgun í nútímaensku og ekki þvingun af neinu öðru tagi, og jafnvel þótt hin merkingin væri í notkun – sem hún er ekki – þá er nauðgunarmerkingin samt sem áður sú sem flestir legðu í orðið. Það er staðreynd sömuleiðis og það þýðir ekkert fyrir þig að þræta fyrir það.

   • Óðinn Löve: Í fyrsta lagi þá vantar linka á þessar heimildir þínar. Í öðru lagi þá var Amanda Knox ranglega sakfelld fyrir morð og verjendur hennar voru stóryrtir og töluðu um nauðgun og krossfestingu í málsvörn hennar. Þetta er samt ekki almennt samþykkt notkun á orðinu rape. Þess má geta að Amanda segist hafa orðið fyrir nauðgun í fangelsinu og þá á hún við kynferðislega áras.

    Geraldo Rivera upplifði brotið á kynfrelsi sýnu þegar öryggisverðir þreifuðu á kynfærum hans utan klæða. Hann fer frjálslega með orðið rape en tengir það þó við kynferðislega árás. Svo vinnur hann hjá Fox News en þar er reglulega talað um að í Ameríku ríki „war on christmas“ og kollegi hans skammaðist líka yfir að konur sem væru í hernum ættu ekki að kvarta yfir að vera „raped to much“. Geraldo er svo ómerkileg heimild í umræðu um eðlilega orðræðu að það tekur sig varla að svara þessu. Þú gætir eins notað Todd Akin sem heimild um líkur á þungun í kjölfar nauðgunar.

    „The economic rape of America“: rilí? þessi heimild er frá árinu 1992. ‘Nuff said.

    Kim Novak fékk svo sannarlega að heyra það fyrir að nota orðið rape á óviðeigandi hátt.

    Ég honestly nennti ekki að kynna mér þetta með Courtney Love af því það er bara of heimskulegt til að eyða tíma í það.

    Tungumál þróast og í dag er nauðgun/rape almennt samþykkt sem orð sem á einungis að nota yfir kynferðislega árás. Hefur þú í alvöru ekki einhvern mikilvægari málstað að berjast fyrir Óðinn, en að stressa þig yfir því að aðrar merkingar orðsins séu orðnar úreltar og séu óviðeigandi í nútíma orðræðu? Er þér nauðsynlegt að geta skreytt mál þitt með því að nota þetta orð kæruleysislega þrátt fyrir að það triggeri þolendur og gengisfelli hugtakið nauðgun? Mér virðist sem að aðallega sé tvær ástæður fyrir að fólk noti þetta orð á óviðeigandi hátt: annars vegar til að ljá máli sínu dramatískan blæ (og þetta drama er fengið að láni með því að mynda hugrenninga tengsl við kynferðislega árás) og hins vegar af því að það fær útrás fyrir kvenfyrirlitiningu og þeir sem nota orðið „kelling“ um karl til að gera lítið úr honum (s.s. það er niðurlægjandi að vera líkt við konur af því þær eru verri enn karlar). Vinsældir þess að nota orðið nauðgun á óviðeigandi hátt má rekja til þess að það veldur dramatískum hughrifum sem eru fengin vegna hugrenningatengsla við kynferðisárásir, en um leið draga þau úr því hversu alvarlegum augum fólk lítur á alvöru nauðgun er þeim er tamt að nota orðið á kæruleysislegan hátt.

    Ef þér er svona annt um að tungumálið okkar þá hvet ég þig eindregið til að finna þér verðugri verkefni í þeim geira. Af nógu er að taka t.d. vantar nýyrði fyrir orðið „trigger warning“, þágufallssýki er mjög útbreidd og svo gætirðu boðist til að lesa yfir fréttir hjá Mogganum, Vísi eða DV, þeim veitir ekki af hjálp.

    Góðar stundir.

   • Arngrímur, það er ódýr afgreiðsla að stroka út þann möguleika að fólk sé að eiga við merkingu ‘an outrageous violation’ / ‘despoiling’ í þeim tilfellum sem ég tilgreini hér að ofan. Þú ert enn fastur í því að aðeins ein merking sé til og við lýði og litast allur lestur þinn af því og ert þú því ekki móttækilegur þeim möguleika að annað liggi að baki þeim sem notar orðið. Þar liggur í raun vandinn, þú skilur bara textann allt öðruvísi en sumir aðrir.

    Guðný, ég var beðinn um tilvísanir frá 20. öld og síðar, 1992 er einmitt á 20. öld.

    Það hefur ekkert að segja að fólk hafi verið tekið rækilega í gegn fyrir ónærgætna notkun á orðinu ‘rape’ – það er misskilningur þeirra sem taka því orði illa – og þeirra sem halda uppi einhverjum kenningum um að það gengsifelli nauðgunarverknaðinn ofbeldisfulla. Svona eins og þegar við segjum ‘stríð’, er það ekki? Það er merkingarleysa í dag, ekki satt, þegar talað er um stríð? Þó svo að orðið sé notað í öðrum tilgangi en að lýsa vopnuðum áttökum stríðandi fylkinga. Eða ‘ofbeldi’, er það gengisfellt?

    Að auki er það óþarft að fara að tala um að ég þurfi að finna mér eitthvað merkilegra að gera, ég gæti sagt slíkt hið sama, við gætum öll farið að gera eitthvað merkilegra.

    Geraldo Riviera var enginn ‘Foxari’ þó hann hafi starfað þar, og það er fáranlegt að þú farir að tala um stöðina til að leggja hann í vafa. Þess má svo geta að hann er dáinn.

    Ég persónulega nota ekki orðið ‘nauðgun’ til þess að kalla fram drama eða viðbrögð, enda þarf ég ekkert á því að halda, en mér finnst ómaklegt að bera óhróður á þá sem nota orðið í annarri merkingu en þeirri sem virðist vera ykkur svo hugleikin. Þó ég sé fylgjandi því að huga skuli að því hvenær slíkt er viðeigandi.

    Að auki ákvað ég að fylla komment mitt ekki linkum og er hægt að setja hverja fyrirsögn fyrir sig í leitarvél og mun efsta niðurstaða vera sú grein sem um ræðir.

   • Óðinn: vissulega telst 1992 til 20.aldar og er þar með frá því tímabili sem Arngrímur talaði um. Mér finnst hins vegar að miðað við umræðuefnið þá sé þetta úrelt dæmi. Fram til ársins 1992 taldist það lögum samkvæmt einungis nauðgun ef karl hafði samræði við konu og var samræði ekki fullframið fyrr en getnaðarlimur karlmanns var kominn inn í fæðingarveg konu og samræðishreyfingar hafnar. Þú þarft ekki annað en að skoða viðbröðin við dómi (lesist mistök) Hæstaréttar í máli nr. 521/2012 til að sjá að margt hefur breyst (þó ekki nógu mikið) í viðhorfi til nauðganna síðan þá.

    Mér finnst ekki sambærilegt að nota orðið stríð í óhefðbundnu samhengi og að nota orðið naugðun. Almennt viðurkennir fólk að eiginlegt stríð sé alvarlegt mál og hafi miklar afleiðingar. Sama gildir ekki um nauðgun, margir gera sér enga grein fyrir hversu alvarlegur afleiðingar nauðganir hafa og eru með ýmsar ranghugmyndir um eðli verknaðarins og um þolendur og gerendur. Og já mér finnst orðið ofbeldi oft notað á hátt sem að gengisfellir merkingu þess.

    Blessuð sé minning Geraldo’s. Hann er samt vond heimild og þú getur t.d. googlað hvaða skoðanir hann hefur á hettupeysum til að sjá dæmi um afhverju mér finnst hann ekki merkilegur pappír. Mér finnst líka það að hafa unnið fyrir Fox stöðina í það minnsta ekki meðmæli.

    Þú segist ekki persónulega nota orðið nauðgun til að kalla fram drama. Hvernig notar þú þetta orð persónulega? Í hvaða tilgangi? Velurðu það oft fram yfir önnur orð sem myndu duga til að koma máli þínu á framfæri þegar þú ert að tala um eitthvað annað en kynferðisbrot?

    En þér er svo sem frjálst að tjá þig um mikilvægi þess að nota orðið nauðgun í „fjölbreyttri“ merkingu. Mér finnst það bara persónulega afskaplega lélegur málstaður að berjast fyrir.

   • Á sama hátt og það er klárlega misskilningur þeirra sem móðgast þegar þeir eru kallaðir „nigger“ af því það var jú einu sinni viðurkennt orð yfir ákveðið litarhaft?

    Það að þú, Óðinn Löve, hafir misskilið eitthvað í áraraðir gefur þér engan rétt á því að bera á borð eitthvert bull. Það að þú haldir að orðið nauðgun þýði eitthvað allt annað en nauðgun í ýmsum tungumálum er aðeins á þína ábyrgð. Það að þú þrástagist við að færa rök fyrir þeirri heimskulegu skoðun – fyrirgefðu hrokann – fær fólk eðlilega til að velta því fyrir sér hvaða ástæður þú hefur fyrir því. Af hverju viltu verja þá fáránlegu túlkun á orðinu nauðgun að það þýði eitthvað allt annað en nauðgun?

    Það eina sem þú hefur fyrir þér í þessu er einhver tilfinning sem þú hefur rangt fyrir þér um. Mér þykir það afskaplega leitt, en þú hefur misskilið þetta orð. Ég vona að þegar þú sérð fréttir um nauðgun farir þú ekki að velta því fyrir þér hverslags nauðgun um sé að ræða; gæti verið að „pilti nauðgað í miðborg Reykjavíkur“ merki að hann hafi verið neyddur til að fá sér sopa af landa?

    Þetta er ekkert annað en helvítis þvættingur, og flóknara er það ekki. Láttu það því eiga sig að svara þessu. Þú hefur ekkert vitrænt svar við því.

 3. Mér finnst svo margar samlíkingar í svarinu hjá þér Lilja gera lítið úr orðinu nauðgun og þar með nauðguninni sjálfri. Það eru td ekki lítil börn sem heimta mjólk að nota nauðgun í þessu samhengi. Það eru unglingar og fullorðið fólk sem ætti að vita betur. Þetta sama fólk veit margt hvernig það ætti að haga sér „betur“ en tekur ákvörðum um að gera það ekki.
  Ég myndi gjarnan vilja fá vita hvaða önnur orð voru notuð um „þyrlu“ „gemsa“ og „farsíma“ sem eru sambærileg þessu máli. Ég efast um að einhver af þeim orðum hafi verið orð sem annars eru notuð um hræðilega glæpi eða td kynþáttaníð. Það er eitt að lýsa nauðsyn þess að fara í nýorðasmíð þegar tækninýjungar koma fram og engin orð til um það áður en allt annað að búa til orð í hvert sinn sem fólk nennir ekki að lýsa hlutum eins og þeir eru með orðum sem til þess eru ætluð. Hið síðarnefnda tel ég eiga við hér og algjör óþarfi að uppfylla þá kröfu.

  Sú eðlilega krafa að við upprætum hér hræðilegt samfélagsmein sem styður við nauðgunarmenningu með því að gæta orða okkar myndi ég seint kalla „nöldur“. Ef við getum ekki gert þá kröfu um að samfélagsþegnar sýni lágmarks ábyrgð í daglegum gjörðum og orðavali þá getum við seint talið okkur yfir dýrin hafin hvað þá ætlast til að nokkur framþróun geti almennt átt sér stað. Breytingum til hins betra ber að fagna en við þurfum jafnframt að bera persónulega ábyrgð á okkur sjálfum með því að taka virkan þátt í þeim þótt það sé „vesen“. Við getum ekki setið á hliðarlínunni og beðið eftir að allir hinir reddi málunum því þá erum við hluti af vandamálinu en ekki lausninni.

  • Sæl Berglind.

   Það má ekki rugla saman rökræðum og tilfinningalegu gildismati. Lögmál hegðunar eru eitt, gildismat á orðinu nauðgun er annað. Nákvæmlega eins og ég get vel líkt saman amöbu og börnum þegar kemur að ákveðnum lögmálum, get ég líkt saman börnum með ólund og fólki sem notar orðið facerape.

   Það er bara svoleiðis að lögmál hegðunar eru alltaf þau sömu. Ég fann þau ekki upp, en ég bendi í kommenti mínu á þau. Ef þú vilt að hegðun hætti, þá þarftu að koma með betri valkost. Ef þú kýst að taka það óstinnt upp þá verður þú að eiga það við þig.

   • Hver dæmir það hvað sé „betri valkostur“? Ég tel nýorðasmíð alls ekki vera betri valkost í þessu tilfelli. Rótin að þessum vanda, að nauðgun sé notuð í léttvægu samhengi, er ekki, að mínu mati, sú að fólki skorti nýyrði. Rótin er heldur sú að kvenfyrirlitning hefur verið greypt djúpt í huga fólks og hún birtist í mörgu í okkar daglega lífi, orðum sem við notun ofl. Betri valkosturinn í þessu tilfelli er að fólk noti það sem til er, hugsi sig um áður en það lætur bull og vitleysu útúr sér.

   • Ég vil í fyrsta lagi benda þér á svarið mitt hér fyrir neðan fyrir sundurliðaða útskýringu á af hverju skoðun þín er óraunsæ. Og í öðru lagi vil ég svara til um hver dæmir um hvað sé betri valkostur: svarið er: þjóðin gerir það, með því að temja sér það sem þjálast er.

 4. Orðsifjafræðileg furðulegheit sem hægt er að bæta við: Orðið „rape“ á ensku kemur af latneskri rót (rapire) sem þýðir einmitt að „ræna“; að „nauðga“ er aukamerking sem kemur síðar. Ég efast þó um að nákvæm orðsifjafræði liggi að baki þessari furðulegu nýju notkun á orðinu „rape“.

 5. Það að hafa sérstakt orð yfir þessa athöfn(sem í hugum flestra er saklaust grín), að stela facebook-aðgangi annarra mannsekju tímabundið, gefur krökkum líka mjög slæm skilaboð. Skilaboðin eru það er allt í lagi að hrekkja aðra á facebook, fullorðnafókið gerir það í fullkomnu gamni(oftast) en hjá krökkunum er þetta mjög oft hluti af einelti. Mér finnst því hugmyndin um að taka út orðið Facerape og ekki setja neitt í staðin vera mjög góð!

 6. Kannski vantar í mig einhverja Morfís menntun en ég sé í raun ekki nauðsyn þess að koma með markhópssamþykktan og fínpússaðan valkost á móti til þess að geta hafnað einhverju fyrirbæri sem mér finnst ógeðfellt. Góður pistill Arngrímur! 🙂

  • Enda geturðu hafnað hverjum þeim valkost sem þér finnst ógeðfelldur alveg eins og þig lystir. Hver ein og einasta manneskja getur það. Breytir því ekki að ef þú ætlar að ná þessari breytingu á stærri grundvelli en eigin persónu, þá þarftu að koma með annan og betri valkost. Dæmi:

   Veiði Maasai veiðimanna á ljónum í Afríku: Ótrúlegt en satt þá var EKKI nóg að það væri ákveðið að það væri ekki sniðugt að Maasai veiðimenn væri endalaust að veiða þessi blessuðu ljón, sem er orðið leiðinlega lítið af. JAFNVEL þótt að búið væri að ákveða að þeir ættu ekki að gera þetta, þá bara gerðu þeir þetta samt! Svo var byrjað að bjóða upp á annan (og betri) valkost, og átak var gert í því að breyta viðhorfi þeirra til ljónanna, nú er á mörgum svæðum menningin farin að breytast frá því að þú verðir „alvöru karlmaður“ með því að drepa ljón, út í það að þú fáir þitt ljón til verndar. Þessi aðferð hefur líka mikið verið notuð gegn veiðiþjófnaði.

   Útbreiðsla HIV í Thailandi: Útbreiðsla HIV var mjög hröð, og þrátt fyrir að margt gott fólk væri búið að ákveða það að það væri nú ekki sniðugt að stunda óvarið kynlíf, þá gerði fólk það bara samt (!). Svo hvað var gert? Sett var af stað herferð þar sem smokkum var dreift frítt og ímynd þeirra var snúið við, svo að í stað þess að vera til óþurftar, var hann gerður kúl, hversdagslegur og nauðsynlegur. Herferðin sló í gegn og smokkurinn var gerður að raunverulegum valkosti. Og já, tíðni HIV smita hrundi.

   Notkun orðsins „facerape“ í íslenskri tungu: Horfum aðeins á staðreyndirnar.
   1) Facebook er notað (og notað mikið) af næstum því hverju einasta mannsbarni á Íslandi.
   2) Fólk stríðir hvert öðru. Í góðu eða illu.
   3) Sú hegðun að stríða hvert öðru með að pósta einhverju í annars nafni á facebook mun ekki hætta á meðan staðreynd 1) og 2) eru sannar.

   4) Eðli tungumálsins er að það er til þess fallið að auðvelda samskipti fólks í milli. Tungumál er síbreytilegt, og leitast alltaf við að vera sem markvissast.
   5) Það að segja „oh hann stríddi mér með að pósta einhverju í mínu nafni á facebook reikninginn minn“ er frekar óþjált, og til þess fallið (sem er jú eðli tungumála) að fólk finni styttingu. Stytti orðfærið eða finni eitthvað nýyrði yfir þetta.
   6) Á meðan staðhæfing 4) og 5) eru sannar, þá mun þurfa orð yfir þetta fyrirbæri.

   Ergo: Það að benda á að valkosturinn „facerape“ er fínt. Alveg eins og það er fínt að benda á að veiðiþjófnaður er ekki sniðugur. En það kemur engu til leiðar, nema kannski að smám saman auka meðvitund afmarkaðs hóps – sem er bara ekki nóg. Til þess þarftu annan og betri valkost.

   • Þetta átti að sjálfsögðu að vera: „Það að benda á að valkosturinn „facerape“ er ekki sniðugur er fínt.“

   • Þú virðist ekki ná inntakinu Lilja, hér er verið að benda á hversu léttúðlega fólk notar orðið nauðgun og hversu leiður siður það er og þetta vísar til þess nauðgunarkúltúrs sem hér virðist ríkja, þar sem nauðganir eru hafðar í flimtingum. Arngrímur bendir svo að lokum á að við þurfum að vanda orðaval okkar og ekki biðja aðra um að gera slíkt hið sama. Það að koma með einhverjar félags/mannfræðirannsóknir á bara ekki við í þessu samhengi.

   • Ég skil hvað þú átt við og að sjálfsögðu er það góðra gjalda vert að gæta orðtaks síns og biðja aðra um að gera slíkt hið sama. En það er samt ekki nóg að benda á vandamálið og vona að lausnin birtist bara uppúr þurru. Eins og í þessu tilviki er verið að tala um ákveðið orðtak, sem langflestir eru sammála um að sé óásættanlegt. Og hvað svo? Næsta skref hlýtur alltaf að vera að leitast við að beina hegðun fólks í annan og uppbyggilegri farveg, ekki satt? Það er ÞAR sem við getum breytt einhverju. Ergo: notfæra sér það að knúzið er víðlesinn vettvangur, finna lausn, taka höndum saman og gera tilraun til að koma lausninni á, sem var minn punktur í fyrsta kommentinu.

   • Lilja, practice what you preach. Nú ert þú að kommenta á hinn víðlesna vettvang knúzsins – viltu ekki hjálpa til með að finna betra orð (svona fyrst þér finnst þurfa annað orð en það sem Arngrímur leggur til – innbrot). Fyrsta skrefið er að benda á vandann og þú ert búin að gera það ansi kyrfilega. Er ekki næsta skref að benda á lausn? Þú gætir nýtt krafta þína þar í stað þess að eyða þeim í að benda knúzurum trekk í trekk á hvað þau séu að gera vitlaust. Just sayin’…

   • Góð hugmynd og ég tek hana til mín 🙂 Það er alveg satt hjá þér, það er ekkert mikið uppbyggilegra að nöldra yfir nöldri (eins og ég hef gert í dag).

    Lagði til hér að ofan orðið „fésbrot“ – sem millistig við orðið „innbrot“ sem hefur ekkert síður en nauðgun ákveðna merkingu í huga fólks og orðið „fésnauðgun“ – sem umræðan er um að sé ekki sniðugt. Það eru eflaust til hugmyndaríkari manneskjur þarna úti en ég.

    Ég lýsi hér með eftir hugmyndasamkeppni – sem Knúzið gæti tekið að sér að skipuleggja, þar sem fólk gæti sent inn orð og síðan væri hægt að kjósa um þau. Eftirleikurinn væri svo að fá samfélagið með sér í herferð.

    Hverjum lýst á þá hugmynd?

 7. Enn sem komið er hefur þetta orð verið notað eingöngu á ensku hér á Ísland – a.m.k. svo ég hefi séð. Er því ekki kjörið tækifæri að finna annað orð á meðan það hefur ekki skotið rótum? Ég hugsa nefnilega að á meðan fólk tali af léttúð um „facerape“ vefjist „fésnauðgun“ fyrir máltilfinningu felstra. Orðin hafa sömu merkingu á ensku og íslensku – en ekki sama vægi í hugum fólks.

 8. Merkilegt, akkúrat þegar ég var að lesa þessa grein var ég að tala um lag við vinkonu mína sem ég var komin með leið á og hún sagði, „Þú nauðgaðir því líka“.

 9. Vinur minn lagði til orðið „fabb“ (þ.e. „Facebook-gabb“) um þetta fyrirbæri. Það virkar bæði sem sagnorð, „að fabba e-n“, og nafnorð, „fabb“ – alveg eins og orðin „gabba“ og „gabb“. Mér finnst það bæði snoturt og þjált, og ákjósanlegur kostur til útrýmingar hinu ógeðfellda „freipi“.

 10. Umræðurnar hér eru svo kostulegar. Greinin fjallar um það að ekki megi gildisrýra orðið „rape“. Eftir að höfundi hefur verið bent á, að bæði í ensku sem og íslensku hafi rape/nauðgun upphaflega mun breiðari merkingu en þá kynferðislegu, þá verður hans nýja haldreipi að tungumál breytist, og að ein merking yfirtaki aðra. Og er þá kominn í hring, því að greinin fjallar einmitt um það, hvernig ný merking megi ekki yfirtaka aðra, tungumálið og hugtakanotkun skuli haldast óbreytt.

  Vænn skammtur af tvöfeldni, er að vísu ekkert nýtt á þessum vef frekar en mörgum öðrum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.