Þyngsta skrefið að taka

Höfundur: Finnur Guðmundarson Olguson

 „Femínismi er hataður vegna þess að konur eru hataðar. And-femínismi er bein birtingarmynd kvenhaturs; hann er pólitísk vörn þess.“

Svo mælti Andrea Dworkin einhvers staðar á einhverjum tíma og sannarlega er þetta beinskeytt greining. Ég hef margoft velt því fyrir mér hvers vegna karlmenn eiga almennt svona djöfulli erfitt með að viðurkenna réttmæti femínismans sem greiningu á núverandi ástandi. Þá er ég í rauninni ekki að tala um grímulausa kvenhatara; þvert á móti er ég að hugsa um mjög mæta menn sem hafa fátt unnið sér til saka. Væna menn, jafnvel indæla. Af einhverjum ástæðum virðast þessir vænu menn rekast á alveg jafnþykkan vegg þegar kemur að skoðunum þeirra á femínisma og hinn almenni Jón stóri. Femínismi er ennþá óþægilegt umræðuefni í nánast hvaða strákahópi sem er utan karlahóps Femínistafélagsins (býst ég við) og af einhverjum ástæðum er yndislegustu karlmönnum fyrirmunað að vilja kalla sig femínista. Hvað veldur þessari tregðu? Vírus?

Kannski hittir Dworkin naglann á höfuðið þegar hún lýsir and-femínisma sem einhvers konar viðbragði til varnar inngrónu kvenhatri. Kannski eru hinir ágætustu menn lítið annað en kvenhatarar í dulargervi. Sú pólitíska skýring sem blasir við er alla vega einhvern veginn á þá leið að karlar sem hagsmunahópur vilji viðhalda kúgun kvenna (og allra sem falla ekki innan heterónormsins) til þess að glata ekki eigin forréttindum og yfirburðastöðu í valdasamskiptum. Það er án nokkurs vafa rétt, að minnsta kosti upp að einhverju marki. En er það mjög ítarleg útskýring á því hvers vegna hinn indæli maður sem er að flestu öðru leyti gagnrýninn í hugsun og vænn til verka fer undan í flæmingi þegar minnst er á tilvist feðraveldisins og kýs þannig að skipa sér frekar í hóp Sverra Stormskera og annarra dusilmenna þessa heims (1)? Ég hef talað við þessa menn, þetta eru ekki hatarar. Mér finnst í þessum tilvikum líklegt að ástæðurnar séu nærtækari og persónulegri en þær sem Dworkin tiltekur.

Ef ég ætti að taka mið af minni eigin reynslu og beita mínu hnífsbeitta innsæi á hana, finnst mér hversdagslegur and-femínismi fyrst og fremst einkennast af tvennu: afneitun á ríkjandi ástandi og því að fara í persónulega vörn. Það bregst ekki að þegar umræðurnar beinast að því femíníska álitamáli sem er í brennidepli þá vikuna fórna menn ósjálfrátt höndum og ranghvolfa augunum eins og nú séu þeir alveg búnir að fá nóg: „Hefur þessi Hildur Lilliendahl EKKERT annað að gera?“ En liggur ekki eitthvað annað að baki þessu hneykslunarviðbragði? Ótti, til dæmis, eða sektarkennd?

Síðari bylgjur femínismans hafa að einhverju eða öllu leyti snúist um að færa baráttuna af opinberum vettvangi hreinna stjórnvaldsákvarðana yfir á svið hversdagsins, bendandi á hversu rótgróið feðraveldið er í ómeðvituðum ákvörðunum og hegðun okkar sem einstaklinga. Að það dugi ekki að „veita“ kosningarétt heldur ráðast á ástæður þess að karlmenn telji sig yfirhöfuð vera handhafa þess valds sem leyfir eða bannar athafnir hins kynsins, svo dæmi sé tekið. Þegar femínisminn hefur á þennan hátt verið færður af hinu pólitíska sviði yfir á hið einstaklingsbundna er ekki lengur hægt að benda á nokkra afdankaða stjórnmálamenn sem sökudólga í stóra kvennamálinu. Sökudólgarnir verða allir. Og það er mjög erfitt að taka því ekki persónulega.

Þegar staða manns sjálfs sem karlmaður hefur verið greind og sett í samhengi við kúgun kvenna er maður neyddur til að horfast í augu við forréttindi kyns síns. Ekki nóg með það, heldur verður manni smátt og smátt ljóst að manns eigin forréttindi byggjast að miklu leyti á að öðrum „þjóðfélagshópi“, í þessu tilviki helmingi mannkyns, er haldið niðri með ýmsum ráðum. Allt í einu er maður þátttakandi í alþjóðlegu samsæri af sögulegri stærð og það sem meira er þá er maður ekki í hlutverki hins þjáða smælingja, heldur í hlutverki kúgarans. Kúgarans. Ég? En ég vaska oftar upp en kjellingin!

Nú er ég enginn sálfræðingur, en ég hef hins vegar átt margar og langar einverustundir á barnum sem ég hef gjarnan notað í að hugsa um háleit málefni (og tilraunir til að snerta fólk á nágrannaborðum) og mín niðurstaða er sú að í hversdagslegum and-femínisma felist einhvers konar ótti við að vera afhjúpaður, ekki ólíkt því þegar maður hefur orðið uppvís að lögbroti, nema í þessu tilviki er brotið óljóst og maður vissi ekki að lögin væru til. Ég veit ekki með aðra, en mitt fyrsta viðbragð þegar einhver bendir mér á að ég hafi haft rangt fyrir mér, til dæmis þegar ég hélt því mjög freklega fram að Chernobyl væri í Hvíta-Rússlandi (það er í Úkraínu – algjör byrjendamistök), er að fara í vörn, afneitun og að lokum fýlu, í mínu tilviki í nokkur ár. Sem betur fer tekst flestum yfir fimm ára aldri að horfast í augu við eigin mistök og endurskoða þær upplýsingar sem þeir hafa (2). Þetta virðist þó dragast eftir því sem staðreyndirnar verða meira fljótandi. Það er mjög erfitt að bakka í vörn og halda því stöðugt fram að borgir séu í öðrum löndum en þær raunverulega eru – þá er auðveldara að afneita tilvist feðraveldisins, áhrifum hugarfars á raunstöðu kvenna í heiminum og umfangi kynbundins ofbeldis. Maður hefur yfirleitt ekki áhuga á að vera bendlaður við neitt misjafnt, sérstaklega ekki þegar manni finnst ásökunin kannski ekki eiga fullan rétt á sér (3). Menn geta ekki kallað sig femínista, vegna þess að þá væru þeir að viðurkenna greiningu femínismans og þar með eigin sekt. Ef einhverjum finnst ég of skilningsríkur gagnvart þessum vænu, and-femínísku mönnum ættu þeir hinir sömu kannski að líta á merkimiðana á fötunum sínum og athuga hvar þau eru framleidd og af hverjum. Næst ættu þeir að athuga við hvernig aðstæður kjötið sem þeir borða er framleitt. Það er ekki skemmtileg tilfinning að vita að maður er þrælahaldari og dýraníðingur.

Að viðurkenna að menning sem er að mestu hliðholl manni sjálfum nærist og viðhaldi sjálfri sér með því að halda öðrum niðri, er mjög þungt skref að taka. Það hefur verið þungt fyrir fólk sem fæddist inn í þrælahald, fólk sem fæddist inn í aðskilnaðarstefnu og það er ennþá þungt fyrir þá sem búa í samfélagi sem niðurlægir konur og nálgast þær eins og eilífðarsilfurverðlaunahafa í kynjakeppninni. Þetta vindur enn upp á sig þegar við lítum til þess að það að stíga niður af sínum háa hesti og viðurkenna vankanta sína er ekki beint talið til hinna hefðbundnu karllægu gilda. Þá er auðveldara að fara í vörn, stinga puttunum í eyrun og plana næstu veiðiferð með strákunum.

Í ljósi þessarar greiningar vil ég leggja til ákveðna umorðun á fyrrnefndri tilvitnun í Dworkin:

„Femínismi er hataður vegna þess að hann afhjúpar ógeðfellda menningu sem flestir eru að einhverju leyti þátttakendur í. And-femínismi er bein birtingarmynd ótta við eigin sekt og afhjúpun hennar (þess vegna þörfin á að afneita að ríkjandi ástand sé „rangt“); hann er persónuleg vörn gegn eigin sektarkennd.“

Þetta er sérstaklega augljóst í valdatengslum milli kynjanna, en er óneitanlega hægt að yfirfæra á hvaða óþægilega sannleika sem er, eins og til dæmis þrælahald fólks annars staðar í heiminum okkur sjálfum til hægindaauka, daglegar, ómælanlegar þjáningar verksmiðjudýra, rasisma og þá staðreynd að Vesturport geri stundum arfaslakar sýningar (af hverju þarf ALLTAF einhver að vera hangandi í loftinu??). Tökum bara gagnrýni án þess að æla á okkur.

Þýðir þetta að við ættum að slaka á og sýna and-femínisma ríkari skilning? Alls ekki. Þessari grein er í raun ekki beint til femínista, heldur hins væna manns sem getur ekki brotið odd af oflæti sínu og rætt um stöðu kynjanna án þess að láta eins og fimm ára. Ég legg í fyrsta lagi til að hann sættist við eigið hlutskipti sem kúgari. Kannski ætti að vera lögð ríkari áhersla á það strax í leikskóla að manneskjur þurfi ekki að glata sjálfsmynd sinni þótt þær viðurkenni að þær hafi rangt fyrir sér eða að aðrir líði fyrir stöðu þeirra. Þvert á móti geri hógværð og lítillæti fólk yfirleitt aðeins minna óþolandi. Ég held líka að það frelsi hinn væna mann töluvert að gangast við óþægilegu hlutskipti sínu; þá finnur hann sennilega ekki lengur þörf til að réttlæta hvert einasta atriði hegðunar sinnar og kynbræðra sinna heldur lítur á þau sem afsprengi breyskleika mannsins, er opinn fyrir gagnrýni og umræðu. Finnst ykkur það ekki SPENNANDI???

Í öðru lagi legg ég til að þeir karlmenn sem hafa enga löngun til að taka þátt í jafnréttisþróuninni geri það næstbesta, sem er að mínu mati að gera ekki neitt. Ef allir þeir indælismenn sem sjá sig knúna til að rakka niður kvennabaráttuna í daglegu lífi með kaldhæðni og niðrandi athugasemdum gætu ákveðið að vera jafnalmennilegar manneskjur og þeim tekst að vera á öðrum sviðum og hreinlega sleppa því, gera ekkert í stað þess að leggja stein í götu annarra, væri mikill sigur unninn.

 


1    Að ráðum lögfræðinga skal tekið fram að ekki er átt við Sverri Stormsker, skáld og mannvin, heldur Sverri Stormsker, dusilmenni.
2    Nema vinur minn sem, vegna misskilnings í æsku, lifði fyrstu þrettán ár ævi sinnar í þeirri trú að kettlingar fæddust ekki heldur „yrðu bara til“. Hann neyddist þó til að endurskoða það að lokum.
3    Ég var einu sinni kallaður lesbía af móður minni. Ég vissi satt að segja ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í málinu.

10 athugasemdir við “Þyngsta skrefið að taka

 1. Ef þú kallar þig ekki femínista, þá hatar þú konur en villt bara ekki viðurkenna það.
  Ef þú ert ekki sammála, haltu þá kjafti.

  Gott knús.

 2. Var Andrea Dworkin ekki sú sem sagði að allt gagnkynhneigt kynlíf væri kvenhatur og að hjónaband væri nauðgun? Var hún ekki líka á móti barnsburði og þá sér í lagi barnsburði með hjálp keisaraskurðs? Það sem ég er að reyna að segja er að Andrea Dworkin var rugludallur með fáránlegar öfgaskoðanir.

 3. Ég er í hópi með Jón stóra en ekki yndislegu gaurunum í feministafélaginu. Ég er spurður þeirrar spurningar hvort ég sé með vírus, hvort það sé ástæðan. Ég er að verja inngróið kvenhatur. Kannski er ég kvenhatari í dulargervi. Sú skýring blasir við að ég er partur af hópi sem vill viðhalda kúgun kvenna. Ég er ekki sammála hugtakinu feðraveldi þannig ég er í hópi með Sverri Stormsker ásamt öðrum „dusilmönnum“. Ég afneiti ríkjandi ástandi og ég fer í persónulega vörn. Ég er fullur ótta eða sektarkennd ef ég tjái mínar skoðanir opinberlega. Ég og mínir kynbræður erum handhafar valds og getum leyft eða bannað athafnir hins kynsins. Þegar staða mín sem karlmaður hefur verið greind og sett í samhengi við kúgun kvenna er ég neyddur til að horfast í augu við forréttindi kyns míns. Ég er þátttakandi í alþjóðlegu samsæri af sögulegri stærð og það sem meira er þá er ég ekki í hlutverki hins þjáða smælingja, heldur í hlutverki kúgarans. Sem betur fer tekst flestum yfir fimm ára aldri að horfast í augu við eigin mistök og endurskoða þær upplýsingar sem þeir hafa , ég geri það aftur á móti ekki. Ég niðurlægi konur og nálgast þær eins og eilífðarsilfurverðlaunahafa í kynjakeppninni.
  Ég vill ei stíga niður af mínum háa hesti og viðurkenna vankanta mína enda er það ekki beint talið til hinna hefðbundnu karllægu gilda. Þá er auðveldara að fara í vörn og stinga puttunum í eyrun. Það á ekki að sýna and-femínisma ríkari skilning. Ég get ekki brotið odd af oflæti mínu og rætt um stöðu kynjanna án þess að láta eins og fimm ára.
  Ég þarf að sættast við eigið hlutskipti sem kúgari.
  ————————————

  Þetta er semsagt pistilinn ef stikk orð/setningar eru teknar út ég les hann með opnum huga til að þroska mig og gera að betri manni (karlmanni ?). Tökum það fram að ég tel mig mjög jafnréttissinnaðan og hef áhuga á þessu málefni, en mundi ekki vilja tengja mig við Feminista, þó ég sé ekki heldur 100% sammála „andfeminista“

  Sem einstaklingur sem hefur kosið VG til kosninga, vinstrisinnaður, sterka siðferðiskennd (að ég tel), jafnréttissinnaður, á bæði móður, föður bróðir og systir, þá vill ég taka það fram að VG tapaði mínu atkvæði við lestur þessa bloggs.

  Mér hefur fundist feminisminn á villigötum á Íslandi, það land sem er klappað upp út um allan heim fyrir að vera hvað næst jafnrétti. (Held þið getið þakkað öðrum feministum en þeirri kynslóð sem heldur á fánanum í dag fyrir það.) Feminisminn er orðin hatursáróður, ég sé enga færa leið en að dæma þennan pistil sem hatursáróður og þessi „cöltist“ hugsunarminnstur fólks sem aðhyllist feministanum er orðin djöfulli „spooky“….

  Ég eigilega verð bara að segja eins og er, sá pistill sem ég las núna hræddi mig.

  Ekki því ég tel mínum forréttindum vaggað (og ekki veit ég hvaða forréttindi það eru, var að tapa minni íbúð og er ekki á háum launum eftir hrunið) heldur vegna þess að þetta var farið að minna á skrif einhvers sem mætir næst í einhvern skóla með hríðskotabyssu…..

  Ég held að þið áttið ykkur ekki á því en að með slíkum skrifum, viðhorfi og öðrum öfgum sem feministar hafa farið út í, þá kúplið þið ykkur út úr því að eiga séns á lagabreytingum, taka þátt í vitrænum rökræðum milli fólks og fara almennar leiðir siðmenntaðs samfélags til að þroskast, þróast og dafna.

  Þið hættið að vera marktæk í augum flestra og þeir sem gætu málefnalega fært góð rök fyrir einhverju sem þarfnaðist frekari skoðunar eða breytinga (og eru ykkur sammála), kúpla sig út úr umræðunni vegna þess stimpils sem er fljótt að færast yfir þetta orð „feministi“, ef þeir kjósta að lýsa sér sem slíkum.

  Ég hef verið á báðum áttum en ég er farinn að aðhyllast því að þetta gríðarlega fylgistap VG sé feministum að kenna, frekar en einhverju öðru.

  Lifið heil.

  *Krefst þess að fólk virði höfundarrétt af mínum skrifum og afriti né noti ekki með neinum hætti*

 4. Bad luck Finnur. Reynir að gera vinalegan pistil – er bendlaður við skólamorð.

  Ég ætla samt að bíða aðeins lengur eftir fleiri kommentum og svara svo.

  Bless í bili, nýju vinir!

 5. Ég hugsa að það sér rétt hjá þér að hluti af ástæðu þeirra karla sem ekki eru samþykkir femínisma sé að þeir ídentiferi með hópnum „karlmaður“ og fari því í vörn fyrir hönd „síns hóps“. Ég held samt að hér komi ýmislegt inn í – það er ekki beinlínis hægt að segja að þjóðfélagsgreiningar sem geri ráð fyrir kúgun eins hóps á öðrum eigi almennt upp á pallborðið í meginstraumi samfélagsumræðu sem reynir að selja okkur þá hugmynd að við séum frjálsir einstaklingar á markaði eigin verðleika. Þannig að neikvæðni í garð helstu kenninga femínismans skýrist líka á almennri hugmyndafræði.

  En ég skil ekki ráðleggingu þína um að menn „sættist við eigið hlutskipti sem kúgari“. Karlar kúga konur. Þessi setning er sönn, í skilningnum félagslega skilgreindi hópurinn karlar kúgar félagslega konur. Og þó að þessi félagslegi raunveruleiki birtist okkur stanslaust í hversdagslífinu í persónulegum samskiptum (semsagt, einsklingar sem eru karlar kúga konur), skil ég ekki hvernig (og enn síður af hverju) þú vilt snúa þessu upp í spurningu um persónulega siðferðislega ábyrgð einstaklinga sem eru (ekki af eigin ákvörðun!) skilgreindir í þessum hópi.

  Það er rétt að karlar kúga konur. En það er ekki endilega rétt að kenískur karlmaður sem selur evrópskri konu líkama sinn sé að kúga hana. Fyrsti heimurinn kúgar þann þriðja. En þegar við færum okkur á svið einstaklinganna, væri absúrt að segja að evrópskur starfsmaður stórfyrirtækisins Tata kúgi indverska eigendur þess fyrirtækis.

  Mikilvægast er að berjast gegn kúgun eins hóp yfir öðrum. En ég er ekki plagaður af sektarkennd yfir því að vera karlmaður, Íslendingur, eða hvítur. Þetta er hlutskipti sem samfélagið valdi mér, og þó ég fái sjálfsagt litlu um það breytt einn og sér, geri ég í því að reyna að losna undan þessum hlutskiptum.

 6. Fantafín grein. Ég er dáldið að spekúlera þessa dagana í „þriðja hópnum“. Semsagt ekki bona fide kvenhöturunum og heldur ekki strákunum sem eru mögulega að byrja að horfast í augu við eigin forréttindi og pakka því stundum í vörn vegna hræðslu, heldur þeirra sem einfaldlega hafa engan áhuga á neinu sem viðkemur femínisma. Þessir sem væru ólíklegir til þess að staðhæfa eitthvað andfemínískt af því að þeir eru einfaldlega ekki að eiga í umræðum um femínisma. Þeir eru ekki að lesa knúzið. Væri til í að sjá grein um þetta áhugaleysi, hvað er það nákvæmlega?

  • Já, ég veit ekki hvað veldur. Maður hefur náttúrulega ekki áhuga á öllu og þessi femmaumræða getur verið sjúklega alltumlykjandi og leiðinleg svosem. Kannski liggur styrkur Íslands í því að ákveðin efni fá tiltölulega víða umfjöllun auðveldlega og ég held ég hafi hitt mjög fáa sem hafa ekki neitt að segja um femínisma, jákvætt eða neikvætt. Mér finnst þetta alla vega roooosalega mikið í umræðunni.

 7. Sæl öll,
  Mér finnst fyrstu tveir kommentarar ekki skilja mig alveg; ég vil einmitt meina að þeir sem ekki vilja kvitta upp á femínisma þurfi alls ekki að vera „kvenhatarar“. Svo er ég ekki Andrea Dworkin.
  Rantið í þriðja kommentinu færir rök fyrir því sem mig langar að segja, en hef kannski ekki sett nógu skýrt fram; að maður þurfi ekki að taka því persónulega að vera í valdastöðu gagnvart öðrum hópi heldur er það, eins og Arnar segir, hlutskipti sem maður valdi ekki sjálfur. Það batnar samt ekkert með því að afneita því. Það er náttúrulega hápunkturinn á því að taka hlutum persónulega að taka greinina og setja „ég“ í staðinn fyrir öll persónufornöfn og ber þess kannski vott um að Palli Valli eigi svolítið erfitt með að hugsa út fyrir sjálfan sig. Það er alla vega frekar sjálfhverft að snúa umræðu um femínisma upp í vangaveltur um hvað maður ætli að kjósa næst. Og ef þú sérð ekki þín eigin forréttindi þá veit ég ekki alveg hvað er hægt að gera fyrir þig…

  En Arnar, ég meinti ekki að maður ætti að gangast við hlutskipti sínu og fá massíft samviskubit yfir því heldur bara gera það sem þú gerir; vera meðvitaður um það og bregðast við því á þann hátt sem manni virðist bestur. Hins vegar held ég, án þess að gera lítið úr annarri kúgun, að kúgun kvenna í heiminum í dag, sem og ætíð, sé langútbreiddasta og samþykktasta kúgun eins hóps yfir öðrum og þar með í sérflokki. Þá er ég að tala almennt og ég held að karlmenn verði að gera sér grein fyrir því að einstaklingar geti kannski ekki alveg stimplað sig út úr hópi sem þeim líkar illa ef forréttindi þess hóps eru svo rótgróin að við gerum okkur yfirleitt ekki grein fyrir nema broti af þeim. Til dæmis eru almennt minni líkur að það sé ráðist á þig kynferðislega ef þú ert karlmaður. Það er líklegra að þú fáir styrki, umfjöllun, breiðari aðgang að vinnu og þar fram eftir götunum, án þess að hafa neitt um það að segja sem einstaklingur. Ég er alveg á móti sektarkennd, en það er fáránlegt að afneita þessum staðreyndum og mér finnst við verðum að vera meðvitaðir um þær.

 8. Semsagt svar mitt er rant en ekki pistillinn ? Ertu ekki aðeins að Mansplaina núna félagi, þótt það sé yfir öðrum gaur ?

  Þú ert að útskýra hvernig þeir sem hafa ekki sömu sjón á hlutunum og þú eru, þú ert ekki að gera neitt annað.
  Maður er annað hvort sammála þér eða vond persóna, það er ekkert annað hægt að lesa út úr þessu.

  Ég hef eina spurningu fyrir þig Finnur, núna eru feministar í miklum minnihluta, mikið af því fólki sem er hvað háværast hefur lent í skelfilegri lífsreynslu, misnotkun, nauðgun og þar fram eftir götunum.

  Heldur þú að þetta fólk sé það fólk sem sé hvað best búið í að taka með þroskuðum og vitrænum hætti á jafnrétti þjóðfélagsins ?

  Þegar slíkur ofsa feminismi er farinn að fá hljómgrunn hjá vinstri hreyfingu sem ég hef stutt og er byrjaður að hafa áhrif á löggjöf og reglur samfélagsins, þá auðvitað hefur maður áhyggjur.

  Vinstri grænir er orðin eini flokkurinn sem hefur ekki jafnréttisstefnu heldur feminíska stefnu hvað varðar þingsæti, mig grunar að þú vitir hvernig hún virkar enda áhugamaður um málefnið.

  Jafnréttisstofa er 80% kvennfólk, er það ekki algjörlega rugluð staða meðan það er verið að ýta á eftir kynjajafnrétti hjá öðrum stofnunum ? Er ekki kominn tími til að skoða hvort að það séu einstaklingar sem eru að berjast fyrir einhverju öðru en jafnrétti þegar slík staða er á stofnun sem að ætti að hafa eðlileg kynjaskipti ef einhver stofnun ætti að vera með jöfn hlutskipti….

  Ef við gefum okkur það að það séu til karlrembur sem eru með skakka sjón á hlutskiptum kynjana og að karlrembur séu til að báðum kynjum, þá verðum við að sýna sanngirni og gefa okkur það að það séu til kvennrembur, eitthvað sem feministar virðast ekki viðurkenna…

  Þið sem talið fyrir jafn öfgakenndum breytingum og sýn á hlutum verðið að geta tekið því þegar fólk er ykkur ósammála, án þess að mála það upp sem „nauðgaravini“ „forréttinda verndara“ „kúgara“ „stuðnigsmenn ofbeldi gegn konum“ og þar eftir götunum.

  Þetta er mjög ódýr leið til þess að reyna að jarða alla þá sem eru ósammála þessari stefnu ykkar.

  Annars finnst mér nokkuð fyndið að þú virtist ekki ætla að svara (ég kíkti við nokkrum sinnum) og beiðst í mánuð þangað til að eitthvað jákvætt væri komið ?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.