Strákar gera en stelpur eru: Kynjaskipting og markaðssetning eftir kyni í útgáfu barnabóka

Höf.: Ester Ósk Hilmarsdóttir

Ester Ósk Hilmarsdóttir lauk mastersgráðu frá Edinburgh Napier University í útgáfu (e. MSc Publishing) í október 2012. Mastersritgerð hennar fjallaði um kynbundna markaðssetningu barnabókmennta og hlaut nafnið Separate Shelves: Sexism and Gendered Marketing Trends in Children’s Publishing. Notast var við blöndu af eigindlegum rannsóknaraðferðum, lagður spurningalisti fyrir 100 foreldra og viðtöl tekin við útgefendur, bókasala og rithöfunda barnabóka á Íslandi og Bretlandi. Markmiðið var að skilgreina stöðu kynjaskiptingar og kynbundinnar markaðssetningar í barnabókmenntum með því að rannsaka viðhorf fagaðila innan útgáfugeirans, svo sem útgefendur, bókasala og rithöfunda. Hversvegna gefa útgefendur út barnabækur sem markaðssettar eru sérstaklega eftir kyni?

 

Hlutverk karla og kvenna í barnabókum

Á sjötta áratug síðustu aldar og fram á þann sjöunda fékk barátta kvenna fyrir jafnrétti byr undir báða vængi. Margir bókaútgefendur gáfu þá út sérstakar verklagsreglur til að fara eftir varðandi framsetningu kvenna í barnabókum, sem varð til þess að kvenpersónum fór fjölgandi. Þetta bendir til þess að rithöfundar og útgefendur hafi orðið meðvitaðir um breytingu á hlutverkum kvenna og viljað leggja baráttu þeirra fyrir jafnrétti lið (Kortenhaus og fél. 1993). Staðalímyndir og skortur á kvenpersónum eru þó enn áberandi. Raunin er sú að karlpersónur eru mun frekar sýndar í hlutverkum sem fela í sér völd á meðan kvenpersónur eru oftar en ekki sýndar sem óhæfar og bjargarlausar. Jafnvel þegar kvenpersónur eru í aðalhlutverki þurfa þær yfirleitt aðstoð við að leysa verkefni eða vandamál og þá helst frá karlpersónu. Mæður eru einnig oft sýndar sem óvirkar og þurfa þá gjarnan að reiða sig á eiginmenn eða syni til að leysa þau vandamál sem þær eiga við að etja. Þá birtast feðurnir sem virkir og úrræðagóðir og þeir ráðfæra sig sjaldan eða aldrei við eiginkonurnar um ákvarðanir sínar (Paynter, 2011. Kortenhaus og fél. 1993).

Í rannsókn sinni greindu Kortenhaus og fél. (1993) yfir 150 barnabækur og í ljós kom að jafnvel þótt konur hafi orðið jafnsýnilegar í barnabókum og karlmenn á síðustu 50 árum hefur hlutverk þeirra lítið sem ekkert breyst. Persónusköpun karla og kvenna í barnabókum færir lesendum sterk skilaboð um viðeigandi hlutverk fyrir hvort kynið fyrir sig: virk hlutverk eru fyrir karlmenn og óvirk hlutverk fyrir konur. Sú framþróun sem átti sér stað á sínum tíma virðist hafa staðnað (Turner-Bowker, 1996). Rannsóknir Kramer (2011) sýna fram á að teikningar og myndir í barnabókum sýna kvenpersónur í undirskipuðu hlutverki á meðan lögð er áhersla á ævintýralegt og virkt hlutverk karlpersóna. Kvenpersónur eru gjarnan uppteknar af útlitinu á meðan karlpersónur eru oft látnir nota gáfurnar til að leysa vandamál. Strákar gera en stelpur eru.

Turner Bowker (1996) rannsakaði 30 barnabækur sem hlutu verðlaun frá árunum 1984 til 1994. Í þeim 30 bókum sem rannsakaðar voru, komst hún að þeirri niðurstöðu að algengustu lýsingarorðin sem notuð voru um kvenpersónur eru: falleg, hrædd, óttaslegin, sæt, veiklunda og lítils virði. Á hinn bóginn eru algengustu lýsingarorð yfir karlpersónur eftirfarandi: stór, hræðilegur, hugrakkur, stoltur og áræðinn. Hamilton og félagar (2006) rannsökuðu 170 söluhæstu barnabækur áranna 1995­–2001 í Bandaríkjunum. Niðurstaðan var sú að karlmenn voru í fleiri hlutverkum en konur, bæði í titlum bóka, sem aðalsögupersónur og á myndum og teikningum. Paynter (2011) rannsakaði þrjár Caldecott Medal verðlaunabækur og 48 söluhæstu barnabækur New York Times frá árinu 2010. Niðurstaða hennar var sú að staðalímyndum hefði fækkað dálítið og umfjöllun um kvenpersónur batnað lítillega síðan 2006, en þó væru karlpersónur í aðalhlutverki fleiri, sem og myndir sem sýndu karlpersónur. Kvenpersónum í sögum fyrir börn eru yfirleitt ekki með afgerandi persónueinkenni eða gegna hlutverkum sem eru talin eftirsótt og virt í nútímasamfélagi, þrátt fyrir að slík hlutverk og persónueinkenni séu raunveruleiki meirihluta kvenna í nútímasamfélagi.

Diekman og fél. (2004) hafa hins vegar komist að því að karlmenn eru sjaldan eða aldrei sýndir í óhefðbundnum kynhlutverkum, t.d. sem ritari eða í umönnunarstarfi. Diekman og félagar telja að það sé samþykkt að kvenpersónur barnabóka sýni af sér „karlmannlega“ hegðun en ekki að karlpersónur sýni „kvenlega“ hegðun. Paynter (2011) tekur undir þetta með því að færa rök fyrir því að karlpersónur fái aðeins viðurkenningu fyrir karlmannlega hegðun en kvenpersónur geti fengið viðurkenningu fyrir bæði karlmannlega og kvenlega hegðun.

 

Hafa bækur áhrif á börn?

Fjölmargar rannsóknir í sálfræði hafa sýnt fram á að börn þróa með sér vitneskju og hugmyndir um kyn á unga aldri. Um þriggja ára aldur geta börn greint á milli eigin kyns og annarra. Við fimm ára aldur hafa mörg börn myndað með sér sterkar skoðanir, byggðar á staðalímyndum. Smám saman læra þau að skilja að tiltekin hegðun og hlutverk tengist kyni. Börn geta því lært að tengja ákveðin persónuleikaeinkenni við stelpur eða stráka. Þróun kynjamótunar (e. gender role identity) mótast af skoðunum samfélagsins og af einfölduðum staðalímyndum. Í flestum menningarheimum eru sögur og bækur fyrir börn áhrifaríkasta leiðin til þess að miðla gildum og viðmiðum samfélagsins (Louie, 2001. Turner-Bowker, 1996. Kortenhaus og fél., 1993. Taylor, 2003). Barnabækur endurspegla menningarleg gildi og kenna börnum að taka þeim gildum sem sjálfsögðum. Kortenhaus og fél. (1993) hafa sýnt fram á að bækur hafa áhrif á börn til lengri tíma, rannsókn sem gerð var  meðal unglinga sýndi fram á að þau sem lásu og hlustuðu á sögur á unga aldri gátu enn þann dag í dag nefnt titil uppáhalds barnabókanna sinna, munað söguþráð þeirra og notið þess að minnast bókanna. Börn sem sjá aðeins staðalímyndir í bókum sem þau lesa, halda ómeðvitað að þannig eigi þau að haga sér eða bregðast við vissum aðstæðum. Fjölmörg Disney-ævintýri fjalla um unga, fallega stúlku sem er
beitt misrétti. Hún sér um að þrífa húsið eða annast vonda eldri konu og á ekkert frumkvæði að því að bæta aðstæður sínar. Allt breytist þó til hins betra þegar karlmaður, myndarlegur prins, mætir til leiks og bjargar málunum. Ung, ómótuð börn, og þá sérstaklega stúlkur sem lesa slík ævintýri, trúa því að draumurinn um að „lifa hamingjusöm til æviloka“ geti aðeins ræst með aðkomu karlmanns. Stúlkur draga þá ályktun að svona sé veruleikinn og gera sér þá oftar en ekki litla grein fyrir eigin getu og drifkrafti.

 

Hvers vegna eru kynbundnar barnabækur gefnar út? 

Síðan á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar hafa rannsóknir sýnt fram á að bókmenntir barna innihalda bæði falin og skýr skilaboð um valdafyrirkomulag samfélagsins eftir kyni (Crabb og fél., 1994. Kortenhaus og
fél., 1993). Ævintýri skrifuð á 18. og 19. öld voru til þess ætluð að kenna stúlkum hvernig skal sinna húsverkum og laða að sér vænlega eiginmenn, sem og að kenna bæði stúlkum og drengjum viðeigandi gildi og viðhorf (Zipes, 1998). Bókaútgefendur vita að gömul ævintýri njóta enn þann dag í dag vinsælda almennings, sem hefur óneitanlega áhrif á það hvaða barnabækur eru valdar til útgáfu. Líklegast er að þeir sem velja bók til útgáfu geri sér ekki grein fyrir eða hugsi út í að efni sem byggir á gömlum ævintýrum viðheldur hættulegum staðalímyndum og úreltum hugmyndum um hlutverk kynjanna. (Taxel, 2002). Líkt og hjá flestum fyrirtækjum er gróðasjónar-miðið ríkjandi við útgáfu bóka, og því miður helst það ekki alltaf í hönd við metnaðarfullar hugsjónir um jafnrétti kynjanna.

Í viðtölum við starfsmenn útgáfufyrirtækisins Harper Collins í Bretlandi kom fram að þeir telja ríka ástæðu fyrir kynbundinni útgáfu og markaðssetningu barnabóka. Markaðsrannsóknir fyrirtækisins hafi sýnt fram á að börn hafi mismunandi áhuga og smekk á lesefni. Í viðtölum við stjórnendur útgáfu-fyrirtækisins Childs Play Int. kom í ljós að þeirra skoðun er sú að kynbundin markaðssetning sé takmarkandi fyrir áhuga barna og að það geti haft alvarlegar afleiðingar ef börnum er ýtt í átt að kynbundnum bókum. Childs Play Int. hefur gefið út ítarlegar viðmiðunarreglur um framsetningu kynja í þeim barnabókum sem gefnar eru út af fyrirtækinu og er strangt eftirlit með að þeim sé fylgt eftir. Óháð, smærri bókaforlög, svo sem Childs Play Int., virðast láta sig frekar varða um menningarvanda á borð við kynja-skiptingu og framfylgja reglum sem þau hafa sjálf sett sér til að koma í veg fyrir slíkt. Stærri forlög, sem oftar en ekki eru hluti af keðjum í Bretlandi, virðast frekar eyða tíma og athygli í sölutölur og gróða en málefni kynjanna. Útgefendur eru ýmist sammála eða ósammála þeirri staðhæfingu að með því að gefa út slíkar bækur sé verið að troða öllum í sama formið. Stærri útgefendur virðast almennt hafa minni áhuga á  þessu vandamáli og vísa gjarnan í gömlu tugguna um mismunandi áhugasvið stráka og stelpna.

 

Viðhorf foreldra og fagaðila

Foreldrar virðast almennt ekki vera sammála því að dætur þeirra og synir verði óhjákvæmilega að lesa sitt hvora bókina. Það rennir stoðum undir þann grun að útgefendur viðhaldi kynskiptingu í útgáfu barnabóka með því að gefa út og markaðssetja bækur sérstaklega eftir kyni. Bóksalar tóku hins vegar fram í viðtölum að bækur sem eru sérstaklega til sölu fyrir annað kynið séu vanalega ekki vænlegar til sölu þar sem þær útiloki um helming mögulegra lesenda.

Enginn þeirra rithöfunda sem rætt var við fannst þeir á neinum tímapunkti hafa verið beittir þrýstingi af útgefendum til að skrifa barnabækur sem miðuðu sérstaklega að öðru kyninu. Rithöfundar virðast gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir axla – að búa til jákvæðar fyrirmyndir í verkum sínum fyrir börn og að gæta þurfi jafnvægis í kynjamálum – og finnst það ekki hefta sköpunarflæði sitt eða skrif. Rithöfundar eru sammála því að vanda verði til verka við skrif bóka fyrir unga og áhrifagjarna lesendur og að ganga verði úr skugga um að þau fái jákvæð og raunsæ skilaboð sem séu laus við staðalímyndir.

Þeir foreldrar sem hugsa lítið út í hvaða lesefni þeir velja fyrir börn sín eru almennt illa upplýstir um málefni kynja í barnabókmenntum, og er nokkuð sama um áhrif kynbundinnar markaðssetningar barnabóka og staðalímynda á börn þeirra. Um 16% foreldra kynna börn sín ekki fyrir bókmenntum sem bjóða upp á jafnvægi í framsetningu kven- og karlpersóna og um 24% foreldra hafa aldrei leitt hugann að slíkum málefnum. Hins vegar er meirihluti foreldra, eða 78%, óánægður með að bækur fyrir börn þeirra séu markaðssettar eftir kyni og finnst það takmarka valkosti barna sinna. Að fá ekki að velja sér bækur eftir sínu áhugasviði, óháð kyni, stuðli að neikvæðri félagsmótun og breikki bilið á milli kynjanna enn frekar. Meirihluti foreldra vill sjá fleiri bækur með sterkum kvenpersónum í aðalhlutverki sem fyrirmyndir fyrir dætur sínar og til þess að geta sýnt sonum sínum að stelpur og konur séu ekki síður virkar, mikilvægar og áhugaverðar en strákar og karlmenn.

Margir foreldrar eru sammála um að stór hluti þeirra bóka sem í boði er dragi upp mynd af ójafnrétti kynjanna sem endurspegli ekki vel það nútímasamfélag sem við flest búum við í dag. Það sem sé markaðssett fyrir annað kynið útiloki hitt, sem gefi börnum þau skilaboð að tiltekin afþreying eða félagshópur sé aðeins fyrir annað kynið. Börn eigi að fá að velja sjálf hvað þau vilja lesa án aðkomu markaðsherferða. Áhugasvið fari ekki endilega eftir kyni, strákar eigi að geta valið sér bók um hannyrðir eða dans og stelpur bók um fótbolta eða risaeðlur, ef svo ber undir. Barninu eigi ekki að finnast það fordæmt eða öðruvísi fyrir að láta eftir þeirri löngun. Meirihluti foreldra er búinn að fá sig fullsaddan af markaðsherferðum sem flokka börn þeirra í hópa aðgengilegra neytenda eftir kyni.

Sumir foreldrar virðast telja réttlætanlegt að barnabækur séu skrifaðar eftir kyni vegna þess að það geti hjálpað til að efla lestraráhuga barna, og þá sérstaklega stráka, sem margir hafa áhyggjur af að lesi minna en stúlkur. Samkvæmt Louie (2001) ætti slík hvatning ekki að vera á kostnað sanngjarnrar framsetningar beggja kynja. Hægt sé að veita bæði stelpum og strákum sterkar og jákvæðar fyrirmyndir, styrkja kvenkyns lesendur og örva karlkyns lesendur til lesturs á sama tíma. Með því að velja bækur sem bæði stelpur og strákar hafa gaman af að lesa með virkum, sjálfstæðum kvenpersónum og spennandi atburðarrás sé báðum markmiðunum náð.

Það er mikilvægt að foreldrar séu vel vakandi fyrir málefnum kynja í barnabókum og að kennarar, starfsmenn bókasafna og bókasalar taki meðvitaðar ákvarðanir þegar bækur eru valdar til upplestrar eða útlána fyrir börn. Að rithöfundar barnabóka vinni að því markmiði að sýna bæði kynin á jafnan og réttlátan hátt í verkum sínum. Að útgefendur barnabóka geri sér grein fyrir áhrifum kynbundinnar markaðssetningar og að hægt sé að koma í veg fyrir þau áhrif, án gróðataps.

Með því að færa börnum bækur sem sýna sterkar aðalpersónur og jákvæðar fyrirmyndir fyrir bæði kyn án allra staðalímynda eru meiri líkur á að börnin verði sterkir einstaklingar seinna meir. Þar sem börn hafa ekki alltaf þroska eða getu til að taka slíkar ákvarðanir verða jafnt foreldrar sem fagaðilar innan bókageirans og í menntakerfinu að axla ábyrgð og leggja sig fram um að færa börnum bækur sem gefa raunsanna mynd af hlutverkum karla og kvenna í nútímasamfélagi, jákvæðar fyrirmyndir fyrir bæði kyn og svigrúm fyrir fjölbreyttu áhugasviði og margbreytileika barna.

 

Ester Ósk Hilmarsdóttir (MSc Publishing)

 

 

 

Fyrir þau sem vilja lesa sér frekar til um kynjaskiptingu og kynbundna markaðssetningu barnabóka er bent á eftirfarandi lesefni:

 • Diekman, A. B., & Murnen, S. K. (2004) Learning to be little women and little men: The inequitable gender equality of nonsexist children’s literature. Sex Roles, 50(5, 6).
 • Hamilton, M., Anderson, D., Broaddus, M., and Young, K. (2006) Gender stereotyping and under-representation of female characters in 200 popular children‘s picture books: A twenty-first century update. Sex Roles. 55 (11-12).
 • Kortenhaus, C. M., and Demarest, J. (1993) Gender Role Stereotyping in Children’s Literature: An Update. Sex Roles. 28.
 • Taxel, J. (2002). Children’s Literature at the Turn of the Century: Toward a Political Economy of the Publishing Industry. Research in the Teaching of English. 37.
 • Tetenbaum, T. J. (1989) The Voices of Children’s Literature: The Impact of Gender on Moral Decisions of Storybook Characters. Sex Roles. 20, pp.381.
 • Turner-Bowker, D. M. (1996) Gender Stereotyped Descriptors in Children’s Picture Books: Does “Curious Jane” exist in the Literature? Sex Roles: 35 (7-8).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

5 athugasemdir við “Strákar gera en stelpur eru: Kynjaskipting og markaðssetning eftir kyni í útgáfu barnabóka

 1. Bakvísun: bleikar bækur bláar bækur |

  • Sæll Einar, því miður er ekki hægt að sjá ritgerðina á netinu. Hún er eign Edinburgh Napier University og hafa þeir allan dreifingarrétt.

   • Og bannar þessi háskóli virkilega að akademískir starfsmenn hans birti verk sín á netinu? Og lætur fólk það yfir sig ganga?

 2. Bakvísun: Strákar gera en stelpur eru ‹ Veftorg

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.