Hvers vegna Óskarinn var ekki fyndinn

Höfundur: Ari Gunnar Þorsteinsson

Ég horfði ekki á Óskarsverðlaunin í ár. Það er svo sem engin hefð hjá mér að fylgjast með verðlaunaafhendingunni, en fyrir hverja hátíð veg ég og met stöðuna og tek ákvörðun um hvort ég nenni að leggja það á mig að að missa svefn eina nótt. Þegar tilkynnt var að Seth MacFarlane yrði kynnir í ár var sú ákvörðun í raun tekin fyrir mig. Ég hef ekki haft mjög gaman af því efni sem MacFarlane hefur fært heiminum og gat ekki beint séð fram á það að ég myndi skemmta mér yfir útsendingunni.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir blöstu við mér tveir Óskarsskandalar. Annars vegar hafði MacFarlane staðið undir þeim væntingum sem ég hafði, það er að hans húmor væri uppfullur af því kvenhatri sem hefur einkennt verk hans alla tíð, og hins vegar að mitt heittelskaða vefrit The Onion hefði á Twitter-straumi sínum kallað hina níu ára gömlu Quvenzhané Wallis kuntu. Fyrra dæmið kom mér ekki á óvart, á meðan hið seinna sló mig aðeins. Nú neyddist ég til að sjá upphafsatriði verðlaunanna og lesa þetta Tweet frá The Onion.

Grín er eitt kraftmesta tól sem til er í mannlegum samskiptum. Það getur verið notað til þess að upphefja, gagnrýna, niðurlægja, sameina og splundra. Grín MacFarlane, þá sérstaklega hið margumrædda „We Saw Your Boobs“ lag snérist um að hlutgera konur. Það er athyglisvert að líta aðeins á þau tilvik sem MacFarlane tekur fyrir í lagi sínu, því eins og annars staðar hefur komið fram vitnar hann í fjórar kvikmyndir þar sem brjóst leikkvennanna sjást í atriðum ÞAR SEM ÞEIM ER NAUÐGAÐ. Þannig að atriði þar sem kona er beitt ofbeldi, og leikkonan vogar sér að koma fram algerlega berskjölduð í listrænum tilgangi, er gert að viðfangsefni lags sem fjallar um hversu frábært það sé að geta loksins séð á henni brjóstin.

Gríni MacFarlanes var beint sérstaklega að leikkonum og það sem virtist liggja að baki var að „sama hversu mikið þið leikkonurnar reynið, þá munið þið ávallt vera lítið annað en brjóst“. Þetta verður ennþá verra þegar litið er til þeirra staðalímynda sem til eru um hvað leikkonur þurfa að gera til þess að hljóta verðlaunin eftirsóttu. Mörgum virðist eina leiðin fyrir fallega leikkonu til að vera tekin alvarlega vera sú að bregða sér í gervi þar sem hún er gerð óaðlaðandi. Nicole Kidman þurfti að vera með stórt gervinef, Charlize Theron þurfti að fitna og Anne Hathaway þurfti að láta klippa af sér hárið og láta fjarlægja úr sér tennur. „Ef þú ert of sæt þarft þú að gera þig ljóta og ekki voga þér að gleyma að þú ert ekkert nema brjóst“ eru þau skilaboð sem verðlaunin senda frá sér.

Hafa ber í huga að MacFarlane reynir að búa til samhengi í kringum atriðið. William Shatner kemur úr framtíðinni í persónu Kapteins Kirks úr Star Trek til þess að koma í veg fyrir að MacFarlane flytji lagið og segir að lagið sé eitt dæmi um það skelfilegasta sem McFarlane gæti gert á verðlaunaafhendingunni. Þetta samhengi gæti virkað og hefði getað núllstillt hversu ósmekklegt grínið er í raun og veru; þá hefði gríninu verið beint að ímynd MacFarlanes í stað leikkvennanna sem gerðust svo djarfar að koma fram berbrjósta. Það hefði í raun krafist þess að flytja ekki lagið en láta sér nægja að nefna það sem dæmi um eitthvað einstaklega ósmekklegt og ófyndið. Í ennþá stærra samhengi hefði grínið verið beittara með tilliti til þess húmors sem MacFarlane er þekktur fyrir. Hver sem hefur séð einhvern af þáttum hans, hvort sem það er Family Guy, American Dad eða The Cleveland Show), eða kvikmyndina hans, Ted, gerir sér ljóslega grein fyrir því að grínið er svo til alltaf á kostnað minnihlutahópa.

Það sem gerir þetta grín MacFarlanes ennþá verra er sú staðreynd að Óskarsverðlaunin eiga einstaklega slæma sögu hvað varðar jafnrétti kynjanna. Í áttatíu og fimm ára sögu hátíðarinnar hafa einungis fjórar konur verið tilnefndar til verðlauna fyrir bestu leikstjórn. Sigur Kathryn Bigelow árið 2010 virðist ekki hafa breytt neinu hvað þetta varðar, því á síðastliðnum tveimur hátíðum hafa engar konur verið tilnefndar í þessum flokki. Af þeim tólf einstaklingum sem tilnefndir voru fyrir handritaskrif í ár var aðeins ein kona.

Burtséð frá allri umræðu um kvenhatur er staðreyndin sú að MacFarlane er hæfileikaríkur. Það skapar enginn þrjár sjónvarpsseríur, leikstýrir og skrifar handrit að vinsælustu gamanmynd síðasta árs og er boðið að kynna Óskarsverðlaunin án þess að búa yfir hæfileikum. Það er einfaldlega sorglegt að sjá hvernig hann nýtir hæfileika sína.

Snúum okkur aðeins að Tweeti The Onion, og aðeins meira um samhengi. Vefritið snýst um það að bjóða upp á skrumskælingu og ýkingu á því hvernig fjölmiðlar haga sér. Hver sá sem les ritið sér að grínið snýst í raun og veru aldrei um „efni“ fréttarinnar, heldur hvernig fréttir eru birtar og hvernig fjölmiðlar matreiða þær. Hins vegar er oft erfitt að sjá í gegnum grínið ef maður þekkir ekki samhengi ritsins. Tumblr-bloggið Literally unbelieveable safnar saman skjáskotum hjá fólki sem deilir fréttum frá The Onion, og heldur að hér sé um að ræða alvörufréttir og  sjálfur hef ég deilt Onion-fréttum á Facebook og þurft að útskýra fyrir vinum að hér sé um brandara að ræða.

Það er því oft snúið mál að reyna að skilja hvar grín The Onion liggur. Það er sérstaklega erfitt á Twitter, sem er auðvitað allt annar miðill en vefritið sjálft. Á Twitter er samhengið svo til ekkert, og hver sem er, sem fylgir straumi The Onion, getur framsent tweetið til annarra. Það sem þá stendur eftir er ekkert nema ósmekklegt djók, fullt af hatursfullu orðbragði. Hægt er að færa rök fyrir gildi grínsins. Með því að beina spjótum að níu ára barni, sem er í engri aðstöðu til þess að verja sig, tengja það við orðið „kunta“ og nota þannig kyn hennar sem ógeðfellt skammaryrði, er The Onion að ráðast gegn hinni kvenhatursfullu orðræðu sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum. Að hér sé verið að sýna ýktustu mynd þess hvernig leikkonur og aðrar konur í sviðsljósinu eru niðurlægðar í fréttum daglega.  Án hins afar sérstaka samhengis, sem ritið gefur sig út fyrir, mistekst þetta algerlega. Grínið endar því sem ótrúlega misheppnaður og ósmekklegur brandari. En ólíkt flestum þeim sem mistekst þegar kemur að gríni bauð The Onion ekki upp á hina klassísku og þaulreyndu „hafðu húmor“ afsökun. Þess í stað baðst ritstjórnin einlæglega afsökunar á ummælunum. Engin slík afsökun hefur borist frá MacFarlane, þrátt fyrir enn misheppnaðra djók.

Samhengi í gríni skiptir svo miklu máli. Grín getur auðveldlega orðið beitt og verið á mörkum þess sem er í lagi og þess sem er bannað, en án samhengis sem réttlætir grínið og ef því er ekki beitt gegn þeim sem eru í valdastöðu mun það alltaf mistakast. Einnig þarf fólk að vera auðmjúkt og tilbúið að biðjast afsökunar þegar grín misheppnast.

Við búum við málfrelsi, sem þýðir að við fáum að segja það sem okkur finnst, en málfrelsi gerir manni ekki kleift að komast hjá afleiðingum þess sem maður segir. Ef maður móðgar einhvern með gríni er mikilvægt að reyna að komast að því hvað það var í brandaranum sem móðgaði. Það er líka fátt jafn niðrandi og þegar einhver reynir að útskýra brandara fyrir þeim móðgaða. Ég hef mikinn áhuga á gríni og trúi því í raun og veru að hægt sé að grínast með hvað sem er. Mér finnst það hins vegar vera stór mistök að trúa því að enginn eiga að móðgast þegar fólk er „bara að grínast“. Grín er aldrei „bara“ grín. Að halda því fram gerir lítið úr krafti gríns.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.