Birkihríslan og þangið

Það eru skiptar skoðanir um það hvort hausatalningar séu gagnlegar jafnréttisbaráttunni. En handhægar eru þær. Það er nefnilega fljótlegt að telja hausa og reikna út kynjahlutfall í ríkisstjórn eða á síðu í dagblaði. Hausatalningar birta auðvitað yfirborðskennda mynd af stöðu mála, enda er þeim ekki ætlað að vera mjög nákvæmt greiningartæki. En hausatalningar geta oft gefið vísbendingu um það hvað þarf að skoða nánar.

Á Íslandi búa um það bil jafn margar konur og karlar. Það að karlar fái miklu meira pláss í fjölmiðlum en konur er ekki eðlilegt. Hlutfallið virðist á flestum miðlum vera um 70/30. Kynjahlutfall í hinum ýmsu fjölmiðlum hefur margoft verið gagnrýnt og undantekningarlaust heyrist í umræðunni einhver útgáfa af þessu svari: Ástæðan er einfaldlega sú að karlar gera miklu fréttnæmari hluti en konur.

Þetta eru einu tilvikin þar sem ég sé einhvern gera því skóna að fjölmiðlar endurspegli bara heiminn einsog hann raunverulega er, að þeir séu hlutlaus batterí sem segja fréttir, að fréttnæmi sé fasti en ekki huglægt mat þeirra sem miðla upplýsingunum.

Ástæðan er nefnilega ekki sú að karlar geri miklu merkilegri og fréttnæmari hluti en konur. Ástæðan er sú að þeim sem skrifa fréttirnar finnst það sem karlar gera fréttnæmara og merkilegra en það sem konur gera.

Þann 18. mars 2011 birti Fréttatíminn aðsendu greinina „Kiljan og konurnar“. Í henni kemur fram að samkvæmt þáttafærslum á vef Ríkisútvarpsins var kynjahlutfallið í 78 Kiljuþáttum á tímabilinu nóvember 2007 til apríl 2010 eftirfarandi: Konur 23%, karlar 77%. Egill Helgason brást við gagnrýninni á bloggi sínu. Hann sagðist ekki geta breytt kynjahlutfalli aldanna, benti á að karlar gæfu út fleiri bækur en konur (sem er satt, en hlutfallið er samt ekki svona slæmt) og sagði m.a.: „Ég held að enginn geti haldi [svo] því fram að konur sem skrifa bækur séu sniðgengnar í þættinum – eða bækur eftir konur. […] Ég held ekki að hægt sé að nefna verk eftir konur sem ég hef sniðgengið á einhvern hátt. […]Því miður höfum við ekki haft mikið tóm til að fjalla um barnabækur. “

Margir bentu honum á að með því að sniðganga barnabækur sniðgangi hann einmitt stóran hluta af kvenkynsrithöfundum, en konur eru í miklum meirihluta barnabókahöfunda. Það var einnig bent á að með því að sniðganga barnabækur sniðgengi þátturinn líklega mikilvægasta lesendahópinn: framtíðarlesendur. Mig minnir að hann hafi svarað því á þann veg að börn væru farin að sofa þegar þátturinn færi í loftið.
Agli var líka bent á að mjög líklega væri Kiljan áhrifamikill þátttakandi í kvenfjandsamlegu kerfi. Það er vitað að bækur sem fá umfjöllun í Kiljunni rjúka oft út í kjölfarið. Kiljan fjallar um fleiri bækur eftir karla en konur og hunsar bókmenntagrein þar sem konur eru í meirihluta höfunda. Bækurnar eftir karlana eru því líklegri til að seljast betur því þær fá meiri umfjöllun. Útgefendur sjá því hugsanlega meiri gróðavon í því að gefa út bækur eftir karla. Stelpur sem hafa áhuga á því að skrifa sjá fáar konur í eina bókmenntaþættinum sem sýndur er í íslensku sjónvarpi og skortir því fyrirmyndir, og svo mætti áfram telja.

Ég veit ekki til þess að nokkur hafi uppfært tölfræðina síðan árið 2011, en ég tók stikkprufu í síðustu viku. Þriðjudaginn 29. janúar birti Egill Helgason bloggfærslu þar sem hann fjallaði um það „fjölbreytta efni“ sem yrði í Kiljunni miðvikudagskvöldið eftir. Í bloggfærslunni má finna sextán karlmannsnöfn en ekki eitt einasta kvenmannsnafn. Eina kvenkyns viðfangsefni þáttarins virðist samkvæmt færslunni vera birkihrísla ein í Hallormsstaðaskógi sem Páll Ólafsson orti um í ljóðinu „Hríslan og lækurinn“. Og þrátt fyrir að Egill hafi ekki tíma til að fjalla um barnabækur hefur honum einhvernveginn gefist tóm til að finna einmitt hana, í stærsta skógi landsins, meira en hundrað árum eftir að ljóðið var ort.

Það er einlæg von mín að í næsta þætti verði Egill búinn að finna þangpjötluna sem Jóhann Sigurjónsson orti um í „Heimþrá“ fyrir ríflega hundrað árum. Því birkihríslur og þang eru eins og alþjóð veit miklu betra sjónvarpsefni í bókmenntaþætti en konur sem skrifa barnabækur.

 

Birkihríslan og þangið birtist fyrst á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs þann 1. 3. 2013

23 athugasemdir við “Birkihríslan og þangið

 1. Gísli Ásgeirsson hvatti mig til að henda hingað inn hugleiðingu minni um greinina. Hér er hún:

  Væntingar femínista til fjölmiðla vekja oft upp áhugaverðar spurningar um hlutverk þeirra. Hér er bent á að í bókaþættinum Kiljan sé ekki fjallað nægilega mikið um verk kvenna og kynjahlutfallið sagt óeðlilegt. Því er síðan bætt við að bækur sem þátturinn fjallar um seljist betur en ella og þátturinn sé því að ýta enn frekar undir kynjahallann.

  Í greininni kemur fram að fleiri bækur eftir karla en konur koma út og það er því eðlilegt í þeim skilningi að hlutfallið í þættinum endurspegli það (sem hann gerir reyndar rúmlega), en þó virðist hálfpartinn vera gerð krafa um að þátturinn fjalli þá t.d. meira um barnabókmenntir, þar sem konur eru fleiri. Það er í sjálfu sér athygliverð krafa, en hitt að vekja athygli á því að bækur sem þátturinn fjallar um seljist betur þykir mér líka áhugavert.

  Eiga fjölmiðlar að líta á getu sína til að hafa áhrif á vinsældir sem tæki sem þeir bera ábyrgð á að sé beitt til að jafna hlut kynjanna á allskyns sviðum? Og þá kemur upp gamla spurningin: á hvaða sviðum á það við fyrst það á við um þátt um bókmenntir? Hvað með þátt um tónlist eða prjónaskap eða eldamennsku? Þarf alltaf að skoða kynjahlutfallið og fjalla mest um það kyn sem hallar á? Á að fjalla um tónlistina sem selst ekki til að hún seljist og bækurnar sem njóta aðeins hóflegra vinsælda til að reyna að jafna út vinsældir eftir kynfærum höfunda? En ef konur halda áfram árum saman að vera sterkastar í barnabókmenntum? Eiga þættir um bókmenntir þá að fara að fjalla í auknum mæli um barnabókmenntir? Hafa áhorfendur Kiljunnar áhuga á því?

  Í greininni er vitaskuld ekki verið að fullyrða neitt um hlutverk miðla, heldur að benda á þau áhrif sem þeir hafa. En upplifunin (mín í.þ.m.) er sú að Egill Helgason þyki eiga að gera eitthvað í málinu og þá t.d. setja einfaldlega þá reglu að fjallað sé til jafns um kynin. Það myndi vitaskuld þýða að verið væri að fjalla hlutfallslega meira um bækur kvenna, sem væri þá álitið nauðsynlegt á meðan ástandið væri að jafnast út. Þá væri miðillinn búinn að taka sér á herðar siðferðilega skyldu til að móta bókaútgáfu á Íslandi, en ekki bara fjalla um hana í sæmilega flötu samhengi við hlutfall útgáfu og vinsælda.

  Ég held að það sé ekki „slippery slope“ rökvilla að velta fyrir sér hvort að það fari í framhaldi að þykja nauðsynlegt að fréttaþættir verði skikkaður til að taka að sér viðlíka mótandi hlutverk, og þá ýmist í jákvæðum eða neikvæðum skilningi. Það gæti t.d. þótt ýta undir ímynd stráka sem ofbeldisfullir glæpamenn að oftar sé fjallað um ofbeldisglæpi karla en kvenna, burt séð frá raunverulegu kynjahlutfalli í afbrotum. Það þætti þá mögulega eðlilegt að gera þá kröfu að fréttir fjalli ekki meira um að karlar geri eitthvað neikvætt en að konur geri það, því það móti samfélagsmyndina. Eða öfugt, t.d. að burt séð frá stærð íþróttamóta eða gerð eigi að fjalla til jafns um að kynin vinni til verðlauna. Því annars sé annað kynið en ekki hitt hvatt til afreka í íþróttum.

  Krafan um að fréttaþættir, en ekki aðeins dægurmálaþáttur eins og Kiljan, fjalli til jafns um kynin er löngu komin fram (t.d. hefur Fréttablaðið verið gagnrýnt), svo það er ekki langsótt hugmynd. En hversu langt nær krafan og er hún yfirhöfuð eðlileg eða heilsteypt?

 2. Mér finnst greinin mjög góð en langar að bregðast við replæinu.
  Kiljan er eini bókmenntaþátturinn á Íslandi og ef væru fleiri þættir þá gæti ég verið sammála Kristni. En það sem mér finnst athyglisverðast af öllu í kynjaumræðu nútímans á Íslandi er að í svona málum eru flestar konur sammála um að rétta þurfi af kynjahallann en flestir karlar eru sammála um að hafa óbreytt ástand.

  Ég lendi í umræðum um daginn um kynjahalla og kynjakvóta við yngri karlmenn og þá finnst mér ég lent í umræðu sem ég tók þátt í fyrir 30-40 árum síðan. Í dag finnst mér miðaldra karlar og þaðan af eldri miklu umburðarlyndari við leiðréttingum kynjahalla. Ég held þetta helgist af því að frjálshyggjan eyðilagði alla umræðu um jafnréttismál sem var komin vel á veg. Svo nú þarf að byrja upp á nýtt og greyið strákarnir eru eins og forneskja og ungar konur, menntaðar með sjálfsmyndina í lagi, finna ekki menn við sitt hæfi.

  • Sæl Rósa

   Ef það væri annar viðlíka þáttur á Stöð 2 sem líka fjallaði meira um bækur karla, t.d. ca. í samræmi við hlutfall útgáfu, þá myndir þú sem sagt geta verið sammála mér?

 3. Kristinn, ég skil hvað þú ert að fara en það er mikilvægt að snúa spurningum þínum á hvolf: Ber Agli Helgasyni, og fjölmiðlum almennt, siðferðisleg skylda til að hjálpa karlmönnum að halda í yfirburðastöðu sína?

  • Það þykir mér örlítið skrýtin framsetning, Herdís. Ef Egill fjallar um tíundu hverja bók (fullorðins) sem kemur út verður meirihluti þeirra eftir karla. Tilgangurinn með því er ekki að hjálpa karlmönnum, heldur að fjalla um flóruna sem kemur út eins og hún er, en ekki eins og honum finnst að hún eigi að vera (þótt auðvitað sé enginn 100% hlutlaus). Auðvitað má segja að það hjálpi samt karlmönnum, en það er ekki gert af skyldu til að hjálpa karlmönnum, heldur í tilraun til að fjalla um bækur sem koma út óháð kyni höfundar.

   Skylda Egils til að hjálpa körlum kemur því aldrei við sögu, svo ég sjái. Sú skylda sem hinsvegar hefur þótt koma við sögu í miðlum hingað til hefur verið tilraun til hlutleysis. Það hlutleysi ætti því að vilja fjalla um markaðinn eins og hann er, en ekki á þann hátt að það móti hann að einhverjum vilja.

   En það má vel vera að gott sé að bylta þessum hugmyndum. Ég er bara að spá í forsendurnar.

   • En núna kemur fram í greininni að margir kvenrithöfundar skrifi barnabækur. Af hverju sleppir Egill því að hafa þær með? Það er nefnilega ekki rétt að hann sé hlutlaus. Hann velur inn í þáttinn og hans val ákvarðast af hans skoðunum og upplifunum. Það er ekkert að því að benda á að hans upplifanir og skoðanir þurfi ekki að endurspegla raunveruleikann og að hann geti gert margt til að fjalla meira um konur og kvenrithöfunda (t.d með því að fjalla um barnabækur).

   • Málið er að Egill er ekki að fjalla um markaðinn „eins og hann er“. Það kemur fram í pistlinum að það séu færri konur hlutfallslega í Kiljunni en sem eiga fullorðinsbækur á markaði.

    Spurningin um hvort fjölmiðlum beri siðferðisleg skylda til að hjálpa karlmönnum til að viðhalda yfirburðastöðu sinni var sett fram til að benda á afleiðingar núverandi kerfis – það að fjölmiðlar fjalli fyrst og fremst um karlmenn viðheldur auðvitað status quo. Ég veit ekki hvort ég vil kalla það hlutleysi, ég vil frekar kalla það þjónkun við valdamesta hagsmunahópinn.

   • Ég veit ekki hversu nærri lagi kynjahlutfallið hjá Agli er. Í einni grein frá 2004 sá ég að útgáfan var talin vera 1/2. Væri hann að fjalla handahófskennt um markaðinn væri í það minnsta eðlilegt að því leytinu til að karlar væru fleiri – í anda þess að fjalla markaðinn hann eins og hann er.

    En mér finnst þú vera að leika þér mjög pólitískt með orðin skylda og þjónkun, Herdís.. Það hefur hingað til þótt nokkuð eðlilegt að fólk í allskyns úrtaki endurspegli að einhverju marki hlutföllin í hópnum sem um ræðir – hvort sem það er um einhvern ójöfnuð að ræða í hópnum eða ekki. Oft er þó reynt að tryggja að a.m.k. einn af hverju tag sé með. T.d. væri kannski reynt að tala við nemendur af öllum helstu sviðum ef rætt væri við nemendur í HÍ, þótt meirihlutinn væri konur (eru víst 62% nemenda).

    Það að fjalla um fleiri karla í Kiljunni er því hvorki gert af skyldu við karla, né er það þjónkun við þá, svo ég sjái. Það að fjölmiðlar geri það almennt er þó e.t.v. önnur saga þar sem ekki er um svona skýrar forsendur að ræða á öllum sviðum.

    Það að bjóða fleiri konum en körlum í HÍ stöðu/umfjöllun af einhverju tagi væri heldur ekki gert að skyldu við konur eða þjónkun við þær. Þær eru bara einfaldlega fleiri og það hefur þessi áhrif, nema sérstaklega sé unnið gegn þeim áhrifum.

    Ef Egill fer að fjalla til jafns um kynin væri það gert af skyldu við ný sjónarmið, þvert á þau gömlu. Sem kannski er gott og blessað. Þrjóskist hann við að gera það ekki væri það væntanlega gert af skyldurækni við hlutleysisjónarmiðið sem fjallar um markaðinn óháð kynjahlutföllum, eða af þrjósku til að viðhalda ástandinu, sem væri þá kannski þjónkun.

    En sé hlutleysissjónarmiðið mikilvægt – til að miðlar geti fjallað um hlutina (ca.) eins og þeir eru – en ekki eins og skyldurækni við mótandi hutverk sín, þá er um áhugaverðan árekstur að ræða sem verður kannski illa lýst með tali um þjónkun og skyldur við karla.

   • Kristinn, þú ert að misskilja mig. Ég sagði ekki að Egill ætti að hafa jafna kynjaskiptingu (þ.e. helming og helming) í Kiljunni, ég sagði/ætlaði að segja að hann ætti að hafa sömu kynjahlutföll í Kiljunni og eru hjá höfundum útgefinna verka, væntanlega fyrir fullorðna þar sem hann svo kyrfilega neitar að fjalla um barnabækur. Og já, ég tel það vera þjónkun við status quo þegar fréttafólk fjallar mun meira um annan helming mannkyns en hinn. Sú þjónkun er sennilega ekki meðvituð en hún endurspeglar gildismat fréttafólksins og það gildismat virðist vera, svona heilt yfir, á þann veg að það sem karlar geri sé almennt meira spennandi og athyglisvert en það sem konur gera. Það er ekkert náttúrulögmál sem gerir athafnir karla meira fréttnæmar en athafnir kvenna (hér gæti einhver freistast að fara út í hártoganir: já en karlar eru í meirihluta á valdastóli etc., en það er ekki til umræðu). Það er gildismat samfélagsins sem segir að karlar séu fréttnæmari en konur.

   • Já, ók. Mér sýndist það vera niðurstaðan í greininni og í umræðunni hér að Egill þyki eiga að ganga lengra en að fjalla um kynin í sama hlutfalli og útgáfan er, t.d. með því að kafa meira í barnabækur og rétta þannig myndina. Var að spá í hvort það væri þjónkun að gera það ekki.

 4. Finnst ykkur körlum ekki leiðinlegt að lifa í svona einsleitu samfélagi, hvar lítið er af verkum um og eftir konur? Í samfélagi sem helst vill sýna brjóst og rassa? Eigið þið ekki dætur?

 5. Egill er búinn að svara þessu með barnabækurnar. Þátturinn er sýndur svo seint á kvöldin.

  • ..sem væri allt í lagi afsökun ef börnin sjálf kaupi megin part af bókum sínum. Foreldrar og aðrir ættingjar eru þeir sem gefa börnum langflestar bækur sem þau fá til eignar, aðrar bækur ná þau sér líklega í á bókasöfnum og það er ekki mjög gróðavænlegt fyrir útgáfurnar. Þess vegna skil ég ekki afhverju ekki er meira ýtt á alvarlega umfjöllun um barnabækur, beint að fullorðnum, í þessum eina bókmenntaþætti Íslands. Allstaðar annarstaðar er yfirgengileg markaðssetning á öllu sem tengist börnum afþví fyrirtækin vita að öll viljum við gera vel við börnin okkar. Egill, komdu með einhverja betri skýringu á barnabókarleysinu hjá þér. Td að þú hefur engan áhuga á þessari bókmenntagrein (sem ég held að sé líklegasta skýringin) „and take the heat“ eins og er sagt upp á enskuna.

   • Er þetta ekki dálítll snobb-þáttur kenndur við nóbelsverðlaunaskáldið okkar. Ber honum einhver skylda til að fjalla um barnabækur?

   • Ber fjölmiðlum almennt einhver skylda til að flytja fréttir af einhverju tagi? Vísir og mbl eru ekki að skrifa mörg þúsund orð á dag afþví þetta er eitthvað hobbý hjá þeim heldur afþví þeir fá tekjur og áhorf og/eða lesningu útá það. Sama gildir um Egil og bókmenntaþáttinn hans. Hann vill laða að áhorfendur og það er ekki mjög góð pæling að útiloka stóra lesendahópa úr umfjöllun í bókmenntaþáttum. Og því er eðlileg spurning til hans afhverju hann geri það. Það er hæpið að segja að umfjöllun um barnabækur sé tilgangslaus seint á kvöldin því þá séu börnin farin að sofa þegar horft er til þess að fullorðnir aðstandendur barna sjá í flestum tilfellum um innkaup á lesefni fyrir þau. Og sem foreldri þá vil ég gjarnan heyra af bókum sem eru skemmtilegar fyrir bæði börn og fullorðna til að lesa saman. Þannig að afhverju má ekki krefja hann frekari svara ef fyrra svar hans er eitthvað sem stenst ekki skoðun? Jafnvel ef þetta er BARA einhver snobb þáttur (EINI bókmenntaþátturinn í sjónvarpi á Íslandi).

   • Tjah, þessi þáttur er bara ekki um bækur fyrir foreldra og börn að lesa saman, heldur mest um bækur fyrir fullorðna og sagnfræði, ljóð og fleira. Rétt eins og t.d. Top Gear er ekki um leikfangabíla eða reiðhjól, heldur um alvöru bíla. Þættirnir marka sér stefnu og markaðssetja sig þannig að þeir nái til ákeðins markhóps – sem í þessu tilfelli á væntanlega að vera fullorðið fólk sem er að spá í bækur fullorðinna.

    Umfjöllun um barnabækur er ekki tilgangslaus, en er ekki sú tegund bóka sem þátturinn fjallar um og áhorfendur hans þekkja þáttinn af. Færi hann að fjalla um barnabækur er ekki útilokað að vinsældir hans færu dalandi frekar en hitt, en það veit auðvitað enginn fyrirfram.

    Þannig að ég held að svar hans standist vel skoðun ef hugmyndin með þættinum er að fjalla um bækur sem höfða efnislega til áhorfenda en ekki bækur sem þeir gætu hugsað sér að kaupa fyrir börnin sín til að lesa með þeim.

    Það má þó auðvitað krefjast þess að Kiljan fjalli um barnabækur burt séð frá hugmyndum þáttarstjórnanda um hvernig þátt hann sá fyrir sér að koma að og starfa við. Ríkismiðill verður vitaskuld að reyna að koma til móts við vilja áhorfenda.

   • En af hverju ætti þátturinn bara að takmarka sig við fullorðna lesendur? Fullorðið fólk kaupir bækur fyrir börn þannig að það væri alveg eðlilegt að fjalla um barnabækur í þættinum. Ég hef ekki hugmynd um hvaða ímynd Egill er búinn að búa sér til af þættinum en ég get ekki séð að barnabækur séu eitthvað allt annað og ólíkt því sem hann er að fjalla um hvort eð er.

   • „Rétt eins og t.d. Top Gear er ekki um leikfangabíla eða reiðhjól, heldur um alvöru bíla.“ Þarna hittirðu á punktinn. Það er litið á barnabækur sem leikfangabílar vs fullorðins bækur/alvöru bílar. Það er fáránlegur misskilningur. Barnabækur eru alvörubækur, allt eins og fullorðinsbækur.

   • Ég skil ekki hvað það kemur málinu við að barnabækur séu alvöru bækur. Ef gerður er þáttur um bækur fyrir fullorðna og hann sýndur á kvöldin er ekkert óeðlilegt að þar sé ekki fjallað um barnabækur. Það snýst um val á efnistökum en ekki vanmat á barnabókum – og þannig eru margir þættir. Þátturinn Kontrapunktur fjallaði t.d. ekki um diskó eða rokk, samt er það alvöru tónlist.

    Ef einhver vill að Egill fjalli um barnabækur, þá er það bara þannig. Ekkert að því. En það er ekki þar með sagt að það sé eitthvað óeðlilegt að hann geri það ekki og beri fyrir sig að þátturinn sé hannaður fyrir fullorðna að spá í fullorðinsbækur. Ef nógu margir krefjast þess að þátturinn verði lagaður að barnabókum verður það þó eflaust gert. En þá mun mögulega þykja koma til greina að færa sýningartímann og breyta yfirbragði hans – eða þá að annar þáttur verði settur í gang fyrir barna og unglingabækur.

    Fólk má vonandi hafa smekk fyrir fullorðinsbókum án þess að teljast vera að vanmeta barnabækur eða reyna að forðast að gefa konum pláss í bókmenntasögunni.

   • Æ, kommon. Þú líkir muninum við leikfangabílar vs alvöru bílar. Það er léleg samlíking. Burtséð frá því hvort það sé fásinna að biðja um barnabókaumfjöllun í Kiljunni. Og þá að því enn og aftur (djísess hvað mér finnst leiðinlegt að tyggja svona hluti sem aðrir hafa sagt miklu betur):

    Kiljan er bókmenntaþáttur. Það er hvergi tekið fram í kynningu á þættinum að hann einskorði sig við fullorðinsbækur. Egill Helgason heldur því hins vegar aðspurður fram að hann sjái ekki ástæðu til að fjalla um barnabækur því þá séu lesendur þeirra farnir að sofa. Það er einfaldlega léleg afsökun. Allir foreldrar vita að fullorðnir lesa líka barnabækurnar og þar að auki eru kaupendur barnabóka fullorðnir.

   • Ha? „Æ, kommon“? Ef þú værir ekki að lesa svona selektíft í þetta, þá sæirðu að ég talaði um leikfangabíla og reiðhjól. Síðan hefði ég alveg eins geta sagt fullorðins bíla í stað alvöru bíla og meint það sama. Líkingin er alveg þolanleg, sem og líkingin við Kontrapunkt, sem þú hoppar yfir.

    Það sjá það allir sem sjá vilja að Kiljan er hugsuð sem dálítill menningarvitaþáttur og því ætti það ekki að koma nokkrum manni á óvart að Egill dragi lappirnar með að fara að fjalla um barnabækur í honum – þótt auðvitað sé það vel hægt.

    Ef Egill telur sig vera að fjalla um bækur efnislega fyrir lesendur þeirra er ósköp eðlilegt að benda á að lesendur barnabókanna séu farnir að sofa – hverjir sem það svo eru sem kaupa bækurnar. Hann sem þáttarstjórnandi hlýtur að mega hafa skoðun á því hver tilgangur þáttarins er – þótt annað fólk hafi á því aðrar skoðanir og vilji að hann miði efnið við hverjir það eru sem leggja út peninga í verslunum fyrir bókum eða lesa bækurnar með börnunum.

    En ég er ekkert að verja þáttinn fyrir því að hann verði að einhverju marki að barnabókaþætti. Það yrði eflaust fínn þáttur. Mér finnst bara merkilegt hvað það þykir sjálfsagt að brugðist sé við ábendingu um að konur skrifi fleiri barnabækur með því að fara að fjalla um þær í einhverjum menningarvitaþætti á kvöldin. Af hverju ætti það að vera sjálfsagt? Á ábending um kynjahalla að trompa allar aðrar hugmyndir um hlutverk og eðli hlutanna?

    Hvað sem því líður þarf karlinn að reyna að fjalla ekki um færri konur en útgáfuhlutfallið gefur tilefni til og kannski ætti hann að þvinga fram 50/50 hlutfall. Það virðist vera krafan í dag í ljósi þess að annars tekur hann þátt í að viðhalda mismun.

  • … sem eru einmitt fáránleg rök vegna þess að barnabækur eru alvöru bókmenntir sem fullorðnir lesa líka gjarna. Ég er sammála þeim sem sagði að Egill ætti bara að koma hreint fram og segja að hann hafi engan áhuga á þessari bókmenntagrein og svo bara face the music.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.