Pabbaknúz – Föðurhlutverkið og samband jafningja

Höf.: Héðinn Björnsson

Ég er alinn upp af tveimur rauðsokkum svo hugmyndir um kynjakerfið eru mér ekki ókunnugar. Sem ungur róttæklingur las ég mér talsvert til um femínisma. Þegar ég hóf sambúð með konunni minni var ég því nokkuð meðvitaður um hvað bar að varast til að tryggja jafnræði okkar á milli. Við því var ekki að búast að við gætum algjörlega vegið upp á móti kynjaslagsíðunni í samfélaginu sem við erum jú hluti af, en við vorum samherjar og veruleiki okkar var svipaður: Bæði jarðeðlisfræðingar, með svipuð áhugamál og gerðum meira eða minna sömu kröfur til sambands okkar. En svo varð konan mín ólétt! Mér hafði verið sagt að líf fólks gerbreyttist við að eignast barn en ég hafði samt engan veginn áttað mig á umfanginu.

Strax meðan barnið var í móðurkviði byrjaði líf okkar að skipta um gír. Konunni minni var óglatt í 3 mánuði samfleytt, tvískiptingin var hafin. Líkami hennar fór að taka miklum breytingum, hún var kraftminni og varð gífurlega meðvituð um barnið sem var á leiðinni. Hún las sér til í bókum og á netinu, fór að taka þátt í netsamfélögum ófrískra kvenna og var ekki til stórræðanna utan heimilis. Ég átti hinsvegar í erfiðleikum með að upplifa breytingarnar með henni. Ég reyndi að lesa mér til en upplýsingarnar voru mjög kvenmiðaðar og ég fann engin netsamfélög að taka þátt í. Þá er ég nokkuð viss um að jafnvel þótt ég hefði haft aðgang að karlmiðuðu efni hefði það ekki fangað mig á sama hátt. Ég vildi gjarnan taka þátt í ferlinu með konunni minni en ég var einfaldlega ekki í neinni aðstöðu til að lifa mig inn í það. Líffræðilegar staðreyndir skildu í sundur reynsluheim okkar á sviði sem var afgerandi fyrir það heimili sem við vorum að byggja saman.

Konan mín er dönsk og hún vildi eiga barnið sitt í Danmörku. Þótt það væri ekki það sem við höfðum ákveðið og félli illa að vinnu minni og félagslífi  fluttum við til Danmerkur. Þótt þetta hafi verið sameiginleg ákvörðun var undirliggjandi að konan mín var með barnið mitt í leginu. Meðan við vorum bara tvö ríkti jafnræði um það hvað við lögðum á okkur þegar við vorum sitt í hvoru landinu og því gátum við tekið ákvörðun um hvar við ætluðum að búa á jafningjagrundvelli, en nú varð ekki undan því komist að ef ég vildi vera hluti af lífi barnsins míns varð ég að fylgja henni.

Í viku 13 kom að svokallaðri hnakkaþykktarmælingu. Niðurstaðan var að líkurnar á því að það væri litningargalli í fóstrinu væru 1 á móti 117. Okkur boðið að fá tekna legvatnsprufu til að athuga það. Þó við ræddum hlutina saman og værum frekar sammála um hvað bæri að gera, var engin leið að líta framhjá því að þetta var á endanum hennar ákvörðun. Enn einu sinni var mér gert ljóst að jafnvel þó við ættum að heita jafningjar í þessu sambandi væru stærstu ákvarðanirnar á endanum hennar einnar.

Á þessum tímpunkti þurftum við að finna út úr því hvernig við ætluðum að skipta fæðingarorlofi. Konan mín var í danska kerfinu og fékk 9 mánuði. Þar með átti ég aðeins rétt á 3 mánuðum í íslenska kerfinu. Aftur var þetta niðurstaða sameiginlegrar ákvörðunar enda þótt ég hefði viljað stærri hluta þess, en staða mín var of veik til að ná því fram í sambandinu. Þrátt fyrir að hafa alist upp við kenningar um feðraveldi fannst mér ég aldrei hafa verið jafnvanmáttugur og sem verðandi faðir.

Eftir að dóttir mín fæddist endurheimtum við að miklu leyti valdajafnvægið á heimilinu. Við vorum fyrstu vikurnar saman heima, konan mín sá um input og ég um output og við höfðum nóg að gera. Það kom mér á vissan hátt í opna skjöldu að elska manneskju jafnmikið og ég elskaði þennan litla gullmola. Það var þó að vissu leyti meiri breyting að vera allt í einu giftur móður en að verða faðir barns. Við konan mín elskum hvort annað innilega en við þurftum ekki að velkjast í vafa um að við vorum nú orðin númer 2 í lífi hvort annars. Meðan við stóðum í þessu saman var þó visst jafnvægi í hlutunum. Þá kom að því að ég færi aftur að vinna. 

Það var vægast sagt mjög einkennilegt að halda aftur til vinnu. Aftur var raunveruleiki okkar algjörlega tvískiptur. Við fluttum fljótlega í nýja íbúð með meira plássi og þegar við vorum að koma okkur fyrir voru hagsmunir dóttur okkar eðlilega hafðir í fyrirrúmi. Þar sem það var konan mín sem þá orðið þekkti þarfir dóttur okkar best urðu hennar hugmyndir ofan á við innréttingu heimilisins. Ekki að munurinn væri ógurlegur en okkar sameiginlega heimili á vissulega meira sameiginlegt með íbúðinni sem hún átti áður en við fluttum saman en heimilið sem ég hafði búið mér einn. Í slíku umhverfi var auðvelt að finnast maður vera gestur á eigin heimili.

Við ákváðum að skipta fæðingarorlofinu þannig að við tækjum 2 vikur saman. Þá væri konan mín ein heima í 5 og hálfan mánuð og að lokum værum við 5 mánuði til skiptis heima. Spilaði þar inn í ósk konunnar minnar um að vilja gefa dóttur okkar á brjóst í a.m.k. 6 mánuði til fulls og svo að hluta í 6 mánuði í viðbót, en líka sú staðreynd að helmingaskiptin féllu vel að vinnu okkar beggja. Þegar kom að því að vera til jafns í fæðingarorlofi lagaðist ójafnvægið talsvert. Dóttir okkar fór reyndar að sofa ansi illa á þessu tímabili vegna magaverkja en við tókum á því saman og fyrir vikið fengum við hvíld til jafns og urðum jafnvíg á heimilinu.

Sumt varð þó ekki aftur tekið. Dóttir okkar var orðin áberandi meira hænd að móður sinni. Það varð svo aftur til þess að það var almennt auðveldara að konan mín væri með hana en ég sæi um önnur heimilisverk. Jafnvel þótt ég reyndi að vinna gegn því var orðið langt síðan að við höfðum sofið vel og við höfðum því takmarkað svigrúm til að huga að slíku. Þetta misvægi vatt þess vegna upp á sig.

Á þessum tíma gekk misvel að halda uppi góðu sambandi milli mín og konunnar minnar og var ég um tíma talsvert hræddur um að sambandið okkar myndi ekki lifa af. Þá fann ég hvað ég stóð í raun veikt. Útlendingur í öðru landi, þekkti ekki reglurnar og hafði lítið sem ekkert bakland, vitandi að konurnar fá nánast alltaf stöðuna sem lögheimilisforeldrar og þorra umgengnisréttarins og að dómstólar hafa tilhneigingu til að dæma heimabúum í vil. Veik staða í fjölskyldunni endurspeglaðist fullkomlega í veikri réttarstöðu utan heimilis.

Þegar dóttir okkar var eins árs fór hún í leikskóla. Hún var fljót til máls og var fljótlega farin að tala talsvert mikla dönsku. Íslenskan var mun styttra á veg komin. Ég fann að þótt fjölskylda okkar ætti að heita að vera til jafns íslensk og dönsk að ef ég gætti ekki að mér myndi þjóðerni mitt fá hverfandi pláss á okkar heimili. Ég hafði tekið hana talsvert með mér til Íslands til að hún gæti tengst fjölskyldunni minni betur, en nú fór ég að reyna að vera reglulega með dóttur mína eina á Íslandi til að styðja við bæði okkar samband og við íslenskuna hennar. Það hefur skilað sér í talsvert bættu sambandi og mun betri þjálfun fyrir dóttur mína í íslensku. Þó á hún enn langt í land að vinna upp forskotið.

Dóttir mín er að verða þriggja ára. Eftir því sem okkur konunni minni hefur betur gengið að ræða þessa hluti saman hefur okkur tekist að komast talsvert áleiðis í að byggja jafningjasamband upp að nýju. Ég hugsa að það verði sjálfsagt aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir að barneignir ýti við jafningjasambandi foreldra, enda byggir margt af þessum hlutum á líffræðilegum mun. Þó getur samfélagið veitt betri stuðning. Með því að afnema eða draga úr frjálsri skiptingu hluta fæðingarorlofsins væri staða feðra bætt gífurlega. Þá myndi bætt réttarstaða feðra við sambúðarslit hafa mikið að segja, líka fyrir þá feður sem búa alla ævi með barnsmóður sinni. Svo mætti fólk athuga hvernig það talar við foreldra, en það hefur verið mín upplifun að þegar að ég og konan mín hittum vini eða fjölskyldu að þá er ég fyrst og fremst spurður út í vinnu og samfélagsmál, en konan mín út í dóttur okkar.

Jafningjasamband er þó fyrst og fremst eitthvað sem maður byggir upp með þeim sem maður ætlar að eiga það með. Þegar ég horfi aftur til baka á fyrstu árin mín í föðurhlutverkinu sé ég að ég hikaði of lengi við að að ræða málin við konuna mína. Eftir á að hyggja er svo augljóst að jafningjasamskipti eru samvinnuverkefni. Ég er þó nokkuð viss um að ég er ekki einn um að hafa ekki áttað mig á þessu.

Fjöldinn allur af feðrum tekur sér fyrirvinnuhlutverkið í tilraun til að finna sér nýjan stað í fjölskyldunni. Það er líklega að stórum hluta ástæðan fyrir því að karlar vinna 10 klukkustundum lengur utan heimilis í hverri viku. Margir þeirra vakna upp við vondan draum ef til sambúðarslita kemur. Eftir að hafa árum saman gert það sem þeir töldu að væri vænst af þeim, sitja þeir einmana eftir með umgengni við börn sín aðra hverja helgi og tvær vikur á sumrin. Það sem kannski er verst er að fyrir marga þeirra er það raunverulega meiri samvera með börnunum en þeir áttu meðan á sambandinu við barnsmóðurina stóð. Það er hinsvegar lengi hægt að snúa við á rangri leið. Ég á vini sem gengu mun lengra í fyrirvinnuhlutverkinu en ég en sem hefur tekist að endurheimta foreldrahlutverk sitt bæði innan og utan sambands við barnsmóðurina. Það er því lengi von fyrir þá sem eru tilbúnir að ganga á móti straumnum.

8 athugasemdir við “Pabbaknúz – Föðurhlutverkið og samband jafningja

  1. Takk fyrir þessa frábæru grein. Ég er að ganga í gegnum nákvæmlega sömu hluti og upplifi mig nákvæmlega eins og þú. Er ekki frá því að það styrkti mig að lesa þetta og mun ég nú fara ræða þessi mál 🙂

    • Mér fannst þetta frábær grein, mjög áhugaverð fyrir konur að spá í. Kannski hefði ég átt að setja það komment hingað inn í staðinn fyrir að láta duga að segja það með deilingunni á feisbúkk á sínum tíma 🙂
      Takk, Héðinn! Þarft að koma þessum punktum að.

  2. Mjög góð grein, en ég vil bara benda á að sem stendur er „frjáls skipting“ hluta fæðingarorlofsins nauðsynleg fyrir sumar mæður, t.d. þær sem eiga barnsfeður búsetta erlendis. Þeir hafa margir hverjir takmörkuð réttindi í sínu landi og/eða möguleika á að taka sér langt frí frá vinnu til að sinna afkvæmi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.