Leikaraval stórmynda – í lit

Um daginn gerði ég mér lítið  fyrir og skellti mér í bíó í eitt af stóru kvikmyndahúsunum, sem sýnir bara stórmyndir í lit. Það reyndist uppselt á myndina sem ég ætlaði mér að sjá en í staðinn fyrir að fara í fýlu og hætta við allt saman skoðaði ég í flýti hvaða aðrar myndir væru í boði og fyrir valinu varð kvikmyndin Flight, sem er einmitt nýfarið að sýna á Íslandi líka. Ég valdi hana nánast af handahófi og án þess að ég hefði nokkra glóru um hvað myndin fjallaði. Ég sá reyndar að hún var gerð af Robert Zemeckis og skartaði Denzel Washington í aðalhlutverki. Skartaði, já, afsakið. Þetta er klisjufrasi sem ég er orðin svo leið á að mig langar stundum að klípa mig þegar ég sé hann notaðan. En þar sem þessi pistill á hvorki að fjalla um alkóhólismann og hans djöfullegu áhrif á sjúklinga og aðstandendur né um flugöryggi, heldur um mun fremur um leikaraval stórmynda í lit, á hér við að nota sögnina „að skarta“.

Bruce Greenwood, Don Cheadle og Denzel Washington í Flight

Það var langt síðan ég hafði lent í því að ganga inn í kvikmyndasal til að sjá mynd sem ég vissi nákvæmlega ekkert um. Það er mjög þægileg tilfinning, þú veist að þú munt upplifa verkið laus undan eigin fordómum og algerlega án þess að annarra álit hafi áhrif á það. Ég mæli eindregið með því að fara stundum á myndir sem maður velur af handahófi. Að vísu vissi ég alveg hverjir Robert Zemeckis og Denzel Washington eru og hvað þeir hafa gert áður svo ég bjóst fastlega við einhverju spennuefni. Sá grunur reyndist rangur, myndin reyndist mér að nokkrum óvörum vera lögfræði- og persónudrama með fullt af samræðusenum. Aldrei leiðinleg, jafnvel bara þrælfín sem svona óaðfinnanlega vel unnin mynd, en ekkert rosalega spennandi.

Þegar myndin var um það bil hálfnuð fór eitthvað að gerjast í kollinum á mér. Furðulegt hugboð um að eitthvað væri alveg rosalega áhugavert við þessa mynd. Það tók mig smá tíma að festa hendur á því hvað það væri.

Í myndinni er það  sem sagt hinn góðkunni Denzel Washington sem leikur sídjammandi flugstjóra. Á móti honum er einvala lið leikara, John Goodman er meiriháttar í áberandi aukahlutverki, Kelly Reilly stórfín sem dópisti í bata, Bruce Greenwood góður sem vinur í klemmu og Don Cheadle mjög sannfærandi sem ungur og snar lögfræðingur.

Tveir úr þessum leikarahópi eru svartir á hörund. Flugstjórinn og lögfræðingurinn. En, það sem er svo fríkað og skemmtilegt, þetta „eitthvað“ sem ég áttaði mig ekki strax á, er að það skiptir aldrei nokkurn tíma neinu andskotans máli í myndinni að þeir séu svartir. Það er, held ég, meira að segja aldrei minnst einu orði á litarhátt, hvorki þeirra félaganna né annarra persóna. Aðalpersónan er „óþekkur“ sem fárveikur alkóhólisti, en þessi ófyrirleitni hans (rónahegðun) tengist engan veginn því að hann sé svartur og þar af leiðandi undirokaður, heldur einmitt frekar því að hann er fær flugstjóri, sem sagt ofarlega í goggunarröðinni, karl með góða stöðu. Karlar í góðri stöðu geta leyft sér að vera óþekkir (spyrjið bara mann að nafni Strauss-Kahn).

Ég hef sterklega á tilfinningunni að þetta sé útpælt. Hvort sem það er af handritshöfundi, leikstjóra, framleiðanda eða hverjum öðrum sem gæti hafa komið að gerð myndarinnar. Einhver fékk þessa brilljant hugmynd og náði að útfæra hana og koma henni inn í stórmynd í lit, að láta svartan karl leika venjulegan karl, burtséð frá húðlit og uppruna. Sagan fjallar um samskipti fólks sem glímir við siðferðislega spurningu frá ýmsum sjónarhornum og það eitt skiptir máli. Mér finnst þetta risastórt skref fram á við og bind miklar vonir við að fleiri taki sér þetta til fyrirmyndar. Það er löngu kominn tími á að svartir njóti eðlilegrar meðferðar handritshöfunda í Hollywood, að þeir séu sýndir sem venjulegir þegnar með venjuleg vandamál venjulegs fólks.

Femínistar hafa töluvert rætt um mikilvægi þess að gefa konum rými sem „alvöru menn“ í kvikmyndum. Nú nýlega varð einmitt uppi fótur og fit þegar kom í ljós að ekki var hægt að tilnefna nema þrjár leikkonur til Edduverðlauna, það voru einfaldlega ekki fleiri hlutverk í boði.

Denzel Washington og Kelly Reilly í Flight

Það má að vissu leyti líklega segja að kynið skipti ekki miklu máli í Flight, en það er samt staðreynd að fyrir utan konuna sem leikur nokkurs konar dómara í lokauppgjörinu eru allar kvenpersónurnar kynferðislega tengdar aðalpersónunni: fyrrverandi eiginkonan og tvær kærustur. Það er „vel farið með“ þær allar og engar agalegar klisjur sem pirra mann við þær, en aðkoma þeirra að sögunni er ekki jafn glæsilega unnin og þáttur svörtu karlmannanna sem falla gersamlega inn í hóp hvítu valdakarlanna, sem fullkomnir jafningjar. Til dæmis stenst myndin ekki Bechdel-prófið, konurnar tala aldrei hver við aðra í myndinni. Þessar þrjár konur hafa einungis það hlutverk að styðja við persónusköpun aðalpersónunnar, samskipti hans við þær eru einfaldlega hluti af því að sýna hvernig karakter hann er, hvað hann er djúpt sokkinn og hve afneitun alkóhólistans er ömurleg.

Ég er handviss um að ástæðan fyrir þessu hugrakka skrefi sem tekið er í mynd Zemeckis er fyrst og fremst sú að Barack Obama varð forseti Bandaríkjanna. Mikilvægi hans sem fyrirmynd, ekki eingöngu svartra heldur líka okkar hvíta fólksins, er óvefengjanleg. Ef tilgáta mín er rétt sjáum við í myndinni Flight svart á hvítu (í orðsins fyllstu merkingu) hve mikilvægt það er að trana fyrirmyndum sem brjóta gegn hinu hefðbundna skipulagi fram eins mikið og mögulegt er. Hvort sem það eru svartir, innflytjendur, samkynhneigðir, já, eða þá konur. Allir þessir hópar hljóta að eiga þá kröfu inni um að fá meira vægi í opinberu rými, jafnt skálduðu efni sem og í fjölmiðlum.

Ég man ekki eftir neinni mynd þar sem ég varð fyrir þessari upplifun með kvenpersónur, ef undan er skilið femínískt efni. Ef einhver getur bent á slíka mynd, er athugasemdakerfið opið!

13 athugasemdir við “Leikaraval stórmynda – í lit

 1. Ég var einmitt að horfa á sjónvarpsþættina Scandal… ekkert endilega svakalega vel skrifaðir þættir eða með ferska sýn, en ég upplifði einmitt þetta. Það var eitthvað „skrýtið“ eða eitthvað sem ég var óvön að sjá í sjónvarpsþætti. Og þar er aðalleikonan svört kona í valdamiklu hlutverki, og það er ekki umfjöllunarefnið. En alveg örugglega meðvituð ákvörðun. Auðvitað eru margar klisjur í þættinum, en mér finnst hressandi að sjá þessa tilbreytingu.

 2. Núna ætla ég að gefa mér að þessi grein sé ekki satíra.

  Það að mynd sé gerð sem „skartar“ svörtu fólki án þess að á það sé minnst er ekki framför. Að láta eins og kynþáttur sé ekki til eða skipti ekki máli er ekki framför. Að svartir karlar “ fall[i] gersamlega inn í hóp hvítu valdakarlanna, sem fullkomnir jafningjar“ er ekki eitthvað sem ég vil fagna.

  Þessi hugmyndafræði um litblindu er voða góður draumur. Aftur á móti skilar hún litlum árangri ef það á bara að afneita stöðu POC þó vissulega sé til fullt af einstaklingum of colour í valdastöðu (t.d. Obama). Algerlega hunsar strúktúrsofbeldi og undirokun. Ekki að hver einasta bíómynd þurfi að vera um það.

  Þetta er akkúrat það sem white supremacy vill að við höldum. Að svo lengi sem við látum eins og kynþáttur sé ekki til, þá verði allt gott.

  Nú hef ég ekki séð myndina en ertu alveg viss um að það séu ekki nein tengsl milli kynþáttar og neikvæðra persónulegra eiginleika – er það ekki svarti karlinn sem er alkóhólisti, og þ.a.l. „veiklyndur“ og annað sem tilheyrir stereótýpum um svarta menn? Er honum kannski „bjargað“ af hvítri manneskju? Ég bara spyr.

  Hvítu valdakarlarnir eru nefnilega toppurinn á mjög ógeðfelldum ísjaka. Ég vil ekki passa inn í þann heim.

  • Sko, mér finnst pínu erfitt að svara þér, því ég veit ekki alveg í hvorn fótinn ég á að stíga. Ég hef átt í samræðum við samkynhneigða um svipaða togstreitu, svo ég skil hvað þú ert að fara og er að vissu leyti sammála þér. Við erum alla vega sammála um hvítu valdakarlana.
   Kannski er þetta með litblinduna í Flight útsmogin leið til að „dópa“ okkur, oh, hvað ég er þá svekkt. Ég bara varð alveg svakalega glöð þegar ég fann þetta kitla mig þarna í bíóinu. Kannski er ég bara naíf og hef algerlega rangt fyrir mér með að gleðjast. En þegar ég sagði hárgreiðslukonunni minni frá þessu gladdist hún og langaði að fara að sjá myndina, hún er orðin ferlega pirruð á black attitude og vill bara fá að vera venjuleg. Aðrir svartir vilja alls ekki missa „svartið“.

   Ég hef aldrei séð Scandal og treysti mér ekki til að tjá mig um það, en bloggið sem þú linkaðir á er frábært, þarf að skoða það nánar, takk.

   • p.s. mörg okkar vilja frekar hugtakið hinsegin frekar en samkynhneigð, þar sem það lýsir einungis hluta af hinsegin flórunni.
    Kveðja, hinsegin kona sem vill alls ekki missa „hinsegið“.

   • ég var búin að skrifa langt svar sem mér sýnist ekki hafa skilað sér … ætla að reyna aftur.

    Ég er alls enginn sérfræðingur í anti-rasisma (enda er ég hvít) og vil alls ekki tala yfir annað fólk sem er ekki hvítt, sem auðvitað er fjölbreyttur hópur og með mismunandi skoðanir og lífsviðhorf. Ég skil að hárgreiðslukonan þín sé orðin þreytt á „black attitude“ sem er einmitt hluti af stereótýpunum um svart fólk, allavega í Bandaríkjunum. Sem er jú vegna þess að þau upplifa rasisma á hverjum degi! Og svo er gert grín að þeim fyrir það. Svona eins og stereótýpan um reiða femínistann. Það er ekki að birta þau eins og manneskjur.

    Ég er ekki að segja að það eigi ekki að gera svona myndir, þar sem kynþáttur skiptir ekki máli (þó auðvitað geri hann það – nema það er hvíti menningarheimurinn sem gegnsýrir allt, það bara þarf ekki að nefna það! miðjan er ósýnileg) og örugglega er til fullt af fólki sem hefur gaman af því, bæði sem afþreyingu og sem hluta í baráttunni fyrir félagslegu réttlæti. Og fyrir nokkrum árum hefði ég örugglega verið sammála þér. En ég verð að segja að mér (núna) fannst mjög undarlegt að lesa grein um bara það, án þess að minnast einu orði á alla þá kúgun og þá baráttu sem svartir upplifa (og akta) í Bandaríkjunum. Að láta eins og aðlögun að kúgunarkerfi hvíta fólksins sé það besta sem minnihlutar geta vonast eftir. Þó auðvitað sé til fólk sem vill frekar falla inn í ríkjandi valdastrúktúr frekar en grafa undan honum (og þá oftast fólk sem hefur forréttindi á öðrum sviðum – ríkt, cis, karlkyns, ófatlað, gagnkynhneigt). Mér finnst það samt vera skylda okkar sem hvíts fólks sem vill berjast gegn rasisma að ekki endilega velja að styðja þá tegund anti-rasisma sem ógnar okkar stöðu sem minnst – stöðuna þar sem svart fólk og aðrir passa vel inn í okkar heim, án þess að við þurfum að endurskoða nokkuð okkar forréttindi og gjörðir, og fáum í þokkabót vellíðanina yfir að vera svo góð að búa til svona réttlátan og góðan heim, þar sem meira að segja svart fólk (allavega svartir ófatlaðir gagnkynhneigðir karlar) geta verið flugstjórar.

    Og já, mér finnst þetta mjög gott blogg. Hefur hjálpað mér mikið að gera mér grein fyrir mínum forréttindum (þó auðvitað sé það lífslangt vefkefni). Ég mæli líka með http://crunkfeministcollective.tumblr.com/ fyrir þau sem hafa áhuga á að heyra frá fleiri svipuðum röddum (þetta er mjög aktívt blogg með linka á marga hluti).

   • Ókei, þessi pistill átti ekki að fjalla um það sem þú hefðir viljað að hann fjallaði um, heldur bara það sem hann fjallar um: Hugleiðing í afar léttum dúr um Flight og litblinduna þar og smá tenging yfir í að konur gætu kannski fengið að verða venjulegir menn í bíó.

    Ég get ekki lofað því að einhvern tímann skrifi ég um rasismann og réttindabaráttu svartra, en ég get lofað þér að það er mér sérlega hugleikið efni, líkt og femínisminn og fleiri mannréttindamál.

    Og point taken með að tala heldur um hinsegin en um samkynhneigða, ég á líka að vita það.

    Ég get athugað hvort athugasemdin þín lenti í síunni okkar, það gerist stundum að þær festast og bíða samþykkis.

   • Þetta er merkileg nálgun hjá Sól. Eftir að hafa lesið skrifin veit maður ekki hvort að kvikmyndir sem falla í kramið hjá henni eiga sína svarta sem svarta eða svarta sem „glæra“.

    En hvernig í ósköpunum á hvíta feðraveldið að aðlaga sig að svörtum karlmönnum úr því að svartir karlmenn mega ekki aðlagst því hvíta? Að ganga með meira bling, Ali G style?

    Er ómögulegt að í vissum kreðsum meðal menntaðra og upplýstra Bandaríkjamanna séu menn ákaflega lítið uppteknir af húðlit þó svo að hið gagnstæða megi finna á fenjasvæðum Alabama? Eða eru menntaðir upplýstir Bandaríkjamenn bara í þykistuleik þar sem þeir þykjast umgangst meðbræður sína sem jafningja óháð húðlit?

    Hvernig í ósköpunum lítur hinn fullkomni heimur út hjá Sól?

   • Í fyrsta lagi þarf að gera sér grein fyrir að rasismi snýst ekki um hvernig einstaklingar koma fram við aðra einstaklinga. Það er mikil einföldun á málinu og akkúrat sá rasismi sem white supremacy vill að við höldum sé rasismi – því þá er hægt að einangra hann niður í aðgerðir einstaklinga sem er hægt að segja um „oj, vondi rasisti“ og láta þar við sitja. Það horfir algerlega fram hjá því að rasismi er kerfi sem hyglir ákveðnum tegundum af fólki á kostnað annarra.

    Og hinn fullkomni heimur Sólar lítur þannig út að svart fólk og fólk af öðrum húðlit en hvítum ráði sjálf hvernig þeirra frelsisbarátta fer fram og hvernig þeirra heimur á að líta út. Það er allavega ekki mitt að ákveða.

  • Hvað varðar tengsl milli kynþáttar og neikvæðra persónulegra eiginleika, er ég nokkuð viss í minni sök (ég sá myndina náttúrulega bara einu sinni). Honum er ekki bjargað af neinum, síður en svo, allir annað hvort kóa með honum eða yfirgefa hann.

 3. Flott grein og merkilegar pælingar. Ég hef sjálfur svolítið pælt í bæði kynþátta- og kyngervishlutverkum í bíómyndum, og það sem þú nefnir með kvenpersónurnar er þekkt element í atburðadrifnum bíómyndum, þar sem karllæga hlutverkið er það sem „drífur“ myndina/söguna áfram og kvenlægar persónur þjóna aðallega þeim tilgangi að styðja við vegferð og persónuþróun karllægu persónunnar.
  Ein nýleg afþreyingarmynd sem ég hef séð snúa upp á þetta mynstur er The Brave One, þar sem Jodie Foster leikur hefndarmorðingja í New York, og beint er athygli að því í myndinni að lögreglan gerir mjög seint ráð fyrir möguleikanum að kvenmaður gæti verið að verki; að sá sem drífi atburðina áfram sé kvenlæg persóna.
  Hvað varðar kynþættina er þetta mjög áhugaverður punktur með Flight, enda eru ekki nema rétt um 20 ár síðan Hollywood sá fyrstu svörtu kvikmyndapersónuna í valdastöðu án þess að það væri gert að umræðuefni innan sögunnar, þegar James Earl Jones lék yfirmann hjá CIA í The Hunt For Red October árið 1990. Það er ekki lengra síðan.

  • Ég ætla að reyna að sjá The Brave One. Ég mundi alls ekki eftir því að þetta hefði verið gert í The Hunt for Red October, enda var ég þá bara ung og vitlaus og ónæm fyrir hinum undirokuðu. Var hins vegar annars staðar minnt á svartan leikara í hlutverki Othellos, Laurence Fishburne, var líka stein búin að gleyma því.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.