Stríðið gegn konum

****TW****

Lýsingar í þessari grein geta verið erfiðar aflestrar fyrir þolendur.

 

Höf.: Steinunn Rögnvaldsdóttir

 

Nýlegur dómur Hæstaréttar nr. 521/2012 hefur vakið hörð viðbrögð. Í dómnum sýkna fjórir hæstaréttardómarar sakborninga af ákæru um kynferðisbrot. Málsatvik eru þau að auk þess að beita margvíslegum barsmíðum og ofbeldi, tróð ofbeldismaður fingrum upp í endaþarm og leggöng þolanda. Meirihluti Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að athæfið teljist ekki kynferðisbrot þar sem ásetningur geranda hafi verið að meiða þolanda, en ekki af kynferðislegum toga.

Í kjölfar dómsins var mikið rætt um skilning eða skilningsleysi þessara dómara á því hvað teljist vera kynferðisbrot. Vísað hefur verið í skilning alþjóðasamfélagsins á nauðgunum í stríði sem kynferðisofbeldi, þar sem ætlunin er sannarlega að meiða, en ekki fá útrás fyrir greddu. Þegar Alþjóðaglæpadómstólinn í málefnum fyrrum Júgóslavíu – hvar geisaði stríð fyrir fáeinum árum í öllum sínum ljótleika og með þeim mannréttindabrotum sem stríð eru í sjálfu sér – kvað upp þann dóm að nauðganir í stríði séu gróf mannréttindabrot, stríðsglæpur og glæpur gegn mannkyni, var tekið stórt skref til að binda endi á það refsileysi sem einkennt hefur þessa glæpi í gegnum ár og aldir.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að þolandi í málinu er bæði undrandi og ósátt við árásarmenn hennar séu sýknaðir af ákæru um kynferðisbrot. Þolandinn lét ennfremur hafa eftir sér: „Ég upplifði þetta sem kynferðisbrot, að það væri brotið gegn mér kynferðislega. Þegar þetta er gert þá var það miklu verra en allt hitt, miklu meiri niðurlæging.“[1].

Bent hefur verið á í dómi Hæstaréttar er ekki dæmt eftir og í anda laga sem varða brot á kynfrelsi fólks, og að skilgreining á kynferðisofbeldi getur ekki grundvallast á því hvort að gerandi hafi kynferðislega nautn af verknaðinum. Hér var brotið á kynfrelsi þolanda, en kynfrelsi er frelsi hverrar manneskju til að ákveða hvort hún vill taka þátt í kynferðislegum athöfnum.

Brot á kynfrelsi skilgreinir kynferðisafbrot og dómur Hæstaréttar er á skjön við þann skilning sem almenningur hefur tileinkað sér á kynferðisbrotum, og á skjön við lagasetningu sem miðar að því að vernda kynfrelsi fólks. Víða hefur dómurinn verið skeggræddur og krufinn. Í fræðasamfélaginu er það almennt mat manna að hér hafi einfaldlega verið rangt dæmt og ekki eftir lögum. En hvað þá?

Þegar fólk gerir mistök er venjulega bent á það. Þegar allt bendir til að mistök hafi vissulega átt sér stað, gerist eitthvað af eftirfarandi: 1) Viðkomandi biðst afsökunar. 2) Mistökin eru leiðrétt og ef skaði hefur hlotist af þá er reynt að bæta hann.

Í þessu umrædda máli hefur hvorugt gerst. Þegar spurt er hví, verður fátt um almennileg svör. Ekki er hægt að breyta dómum Hæstaréttar afturvirkt, greinilega jafnvel ekki þó þeir séu á svig við lög! Hæstiréttur útskýrir ekki dóma sína – enda hafa dómararnir engu svarað um gagnrýni á mistök þeirra. Hæstiréttur biðst ekki afsökunar, og það er mörgum sem finnst að hann eigi ekki að gera það. En veltum fyrir okkur af hverju.

Sú sýn sem hér afhjúpast á æðsta dómstól á Íslandi, er sýn sem trúir því að nokkrir menn, og fáar konur – sem skila svo bara sératkvæðum þegar ekki er hlustað á þær – , eigi að taka sér hlutverk hins óskeikula ákvörðunarvalds. Það vald sem þeim er þar með fært er vald yfir okkur öllum, vald sem þegar vel gengur getur hjálpað góðu samfélagi að fúnkera, en þegar verr gengur þá sér þetta vald til þess að við fáum ekki rétta og sanngjarna málsmeðferð. Enginn er óskeikull, þar með talið Hæstiréttur. Þetta vitum við en samt veitum við þessari stofnun þá sérmeðferð að þurfa ekki að taka ábyrgð á mistökum sínum.

Ég óska ekki eftir atkvæði til að greiða með eða gegn Hæstarétti, ég kæri mig ekki um að mannréttindi sveiflist eftir pólitísku landslagi í mannréttindamálum. Eins og það gerir nú þegar. Það er pólitísk ákvörðum fjögurra karla í Hæstarétti Íslands að viðurkenna ekki lög um kynfrelsi heldur dæma eftir eigin sameiginlegu skoðunum sínum um hvernig konur upplifa grófar árásir inn í líkama sinn, og ekkert sérákvæði kvenkyns dómara í Hæstarétti stöðvar þá.

Ég óska ekki eftir atkvæði. Ég krefst þess hins vegar að Hæstiréttur Íslands sé tekinn niður af stalli sem óskeikull. Ég krefst þess að þegar Hæstiréttur dæmir á svig við lög, þá hafi það þær afleiðingar fyrir viðkomandi dómara að þeir viðurkenni mistök sín. Ég krefst þess að Hæstiréttur virði lög um kynfrelsi og ég krefst þess að þeir dómarar sem ekki eru starfi sínu svo vaxnir að þeir geti farið eftir þeim lögum sem löggjafarvaldið hefur sett – en andi laganna er skýr og tilurð þeirra má rekja beint til áratugalangrar baráttu kvennahreyfingarinnar fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna – ég krefst þess að þeir dómarar sem hunsa þau lög sem vernda konur, dæmi ekki í kynferðisafbrotamálum.

Í dag ræðum við nýjar leiðir á gömlum grunni. Þegar ég var yngri trúði ég því staðfastlega að fræðsla, rökræður og samtal væru rétta leiðin að jafnrétti og kvenfrelsi. Ég átti eftir að hitta fólkið sem ekki hlustar, sem ekki tekur rökum, sem ekki hlýðir lögum, sem ekki vill fræðast því það telur sig sjálft vita það sem það þarf að vita, fólkið sem er sama, fólkið sem vill ekki heyra það sem er óþægilegt. Við bjuggum til lög sem eiga að tryggja jafnrétti en samt þrífst kynbundið ofbeldi og kynbundinn launamunur og mismunun. Við setjum lög til að vernda okkur, en það hefur reynst ónógt. Austurrísku leiðinni, sem heimilar að ofbeldismaður sé fjarlægður af heimili, sem átti að vera mikil réttarbót, er beitt alltof sjaldan miðað við að á síðasta ári komu 113 konur til dvalar í Kvennaathvarfið, með 87 börn með sér, og þriðjungur þeira sneri aftur í ofbeldissambandið sem þær höfðu flúið úr, af því þeim fannst þær ekki eiga aðra leið færa.

Þegar austurrísku leiðinni hefur verið beitt, hefur komið fyrir að það sé vitlaust gert og málið ónýtist. Þegar femínistar fá líflátshótanir fyrir að beita sér í mannréttindabaráttu, og hringja í lögregluna á laugardagskvöldi er þeim sagt að hringja á næsta virka degi. Og dómarar í Hæstarétti dæma ekki eftir lögum um kynfrelsi, nauðgun er ekki nauðgun ef bara á að meiða, samkvæmt þeim. Eins og nauðgun snúist um eitthvað annað en að meiða, hvað er verið að segja okkur? Að ofbeldi og nauðgun séu ekki nátengd?

Á svona tímum finnst mér eins og ég sé stödd í stríði, stríðinu gegn konum. Ég upplifi atlögu eftur atlögu, ofbeldisógn, skynja ótta, finn fyrir vanmætti. Ég er friðarsinni og veit ekki hvað ég geri í slíku stríði, hef hræðst að hugsa um það. Ég trúði á fræðslu en það fjarar undan þeirri trú og nú vil ég bara aðgerðir. Ég vil lög og viðurlög og beinskeytta baráttu, ég vil fjöldahreyfingu, ég vil sókn ekki vörn, ég vil tala um að lögin vernda okkur ekki sem skyldi og hvað við ætlum að gera í því.

Mitt eina svar er að leggja áherslu á femínismann og standa með feminískri baráttu í samfélaginu. Þar sem er femínismi þar er líka andfemínismi og þegar við erum sterkust þurfum við líka að vera sterkust því þá er andstaðan líka hræddust og hamast mest. Það er raunveruleg hætta á því að áfram verði það svo í samfélaginu að hér veljist fólk til hæstu ábyrgðar á okkar öryggi og velferð sem er skítsama um jafnrétti og hefur ekki skilning á kvenfrelsi. Það kemur enginn í veg fyrir, nema við sjálf með þátttöku í jafnréttispólitískri baráttu. Hin nýja baráttuaðferð er í raun ekki flókin, heldur hin sama og fyrr: Við tökum þátt, við tölum, við gerum og við erum.

Til hamingju með daginn og sjáumst í baráttunni.

 

Ávarp Steinunnar Rögnvaldsdóttur sem flutt var árlegum fundi kvenna- og friðarhreyfingarinnar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Ávarpið er birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

4 athugasemdir við “Stríðið gegn konum

  1. Hvort sem ofbeldismaðurinn ætlaði að fá eitthvað kynferðislegt útúr meiðingunum eða ekki þá er það að snerta eða meiða kynfæri kynferðislegt ofbeldi. Það er svo mismunandi hvað örvar fólk kynferðislega þannig að ef það ætti að ákvarða hvort um kynferðislegt ofbeldi er að ræða eða ekki yrðu málin ansi flókin. Tek undir það að hæstiréttur er klárlega véfengjanlegur og styð eftirfarandi: „Ég krefst þess að þegar Hæstiréttur dæmir á svig við lög, þá hafi það þær afleiðingar fyrir viðkomandi dómara að þeir viðurkenni mistök sín. Ég krefst þess að Hæstiréttur virði lög um kynfrelsi og ég krefst þess að þeir dómarar sem ekki eru starfi sínu svo vaxnir að þeir geti farið eftir þeim lögum sem löggjafarvaldið hefur sett – en andi laganna er skýr og tilurð þeirra má rekja beint til áratugalangrar baráttu kvennahreyfingarinnar fyrir jafnrétti kynjanna og frelsi kvenna – ég krefst þess að þeir dómarar sem hunsa þau lög sem vernda konur, dæmi ekki í kynferðisafbrotamálum.“

  2. Frábært og svo fullkomlega þarft erindi og líka svo ótrúlega vel flutt hjá Steinunni. Ég fékk gæsahúð ofan í tær.

  3. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.