Höf.: Ásdís Thoroddsen
– Ræða haldin yfir borðum á árshátíð Harmsagnafélags Bjargar hinn 9. mars 2013.
Fyrir miðja síðustu öld þegar fólk hristist í langferðabílum var mikið sungið til þess að stytta leiðina. Þá sungu karlar í lok ferðar ljóð Matthíasar Joch. um fósturlandsins Freyju, hina fögru Vanadís, til heiðurs kvenfólkinu og konur svöruðu með kvæði Gríms Thomsens:
Táp og fjör og frískir menn
finnast hér á landi enn,
þéttir á velli og þéttir í lund,
þrautgóðir á raunastund.
Og svo framvegis.
Svo kom breski herinn og meint lauslæti kvenna ógnaði tilveru íslensku þjóðarinnar. Þá þagnaði í rútum landsins því að karlarnir gátu ekki lengur kreist upp úr sér sönginn sökum beiskju.
Nú hef ég verið beðin um að flytja minni karla í ræðukorni. En svo mikið hafa tímarnir breyst og mennirnir með frá því að sungið var Táp og fjör, að ég get bara ekkert séð neitt sem prýða má einn mann sem ekki má prýða jafnt kvenmann sem karlmann. Því að það er sama hvað talið er upp; sömu mannkosti eignum við báðum kynjum. Andríki, ástúð, blíðu, courage, dirfsku, einurð, fríðleika, gæsku, hugmyndaauðgi, iðjusemi, íhygli, jarðbindingu, krúttlegheit, ljúfmennsku, munúð, nostursemi… reyndar finnst sumum að nostur eigi við kvenlega iðju, en það á við allt þar sem unnið er í hinu smáa með vandvirkni og alúð. Svona má fara áfram í gegnum stafrófið, allt sem við teljum til andlegra kosta, eða ókosta, eiga kynin sameiginlegt. Það sem gefur manninum mennskuna, eða ómennskuna, er jafnt kvenna og karla.
Sleppum þá andlegheitum og snúum okkur að mannskepnunni. Skoðum karlmenn sem hina langleggjuðu, breiðaxla, handsterku loðinbarða. Þeir eru lyktarsterkir, sterkir, líkamsstyrkur þeirra er aðdáunarverður. Beinabyggingin, og það hafa þeir fram yfir okkur með sanni að kjálkar þeirra eru betur byggðir frá náttúrunnar hendi og hef ég það eftir sérfræðingi frá Alabama að færri kjálkasjúklingar finnast meðal karla en kvenna. Lofum kjálka þeirra. Í hinu dýrslega liggur munurinn á milli kynjanna, um það eitt hlýtur ræða mín að snúast: Hin dýrslegu samskipti kynjanna.
Skoðum dýrið: Af trúmönnum er það illa liðið og líkamnast það í djöflinum með hala, klaufir og hökutopp. Djöfullinn er oft álitinn erkitákn hins lostafulla og getumikla karlmanns en einnig tákn fyrir innri hvatir og krafta sem bærast með manninum, konum jafnt sem körlum.
Í Opinberunarbók Jóhannesar sést sjöhöfða tíhyrnt dýrið skríða úr djúpunum og mun táknræn tala þess vera sú sama og tala mannsins: sexhundruð sextíu og sex. Dýrið sem hann sá var líkt pardusdýri og fætur þess voru bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Og seinna sá hann skækjuna Babýlon á baki dýrinu og fer um bæði ófögrum orðum.
Kona á baki kattardýri er yfir sex þúsund ára gamalt gyðjutákn og kemur víða fyrir; í Indlandi, Babýlon, Egyptalandi, Anatólíu. Eiginkona hins hebreska drottins vors Javehs, himnagyðjan Asherah, sat einnig ljón áður en henni var útrýmt af eingyðiskörlum og bóndi hennar gerður að þeim geðstirða einlífissegg sem við öll þekkjum úr Biblíunni. Jafnvel vanadísin Freyja sem Matthías minnist á í sínu kvæði, sem tilheyrði trúarbrögðum sem ríktu í Evrópu áður en Ásatrúin kom norður eftir, stýrði vagni sem köttum var beitt fyrir. Þá þekkjum við út tarotspilunum kortið sem stendur fyrir styrk eða hughreysti, en þar er kona mjúklega að strjúka ljóni, gott ef ekki að temja það.
En þetta virðist vera mynd af kvenlegum styrk ekki karllegum. Hef ég villst af leið? Hef ég villst af leið eins og hún Rauðhetta litla? Í ævintýrunum sjáum við líka karldýrið á ferli. Í gömlu tilbrigði við Rauðhettu sem franski þjóðsagnasafnarinn Perrault, fæddur á 17. öld, fyrirmynd Grimms-bræðra, sendi frá sér, þar endar Rauðhetta uppi í rúmi með úlfinum og er svo étin. Og skáldið bætir stuttlega við í lokin að svona fari fyrir þeim sem tali við ókunnuga karla.
Rithöfundurinn Angela Carter ritaði annað tilbrigði við sömu sögu, en þar hittir Rauðhetta veiðimanninn sem í raun er varúlfur. Síðan drífur hann sig til ömmunnar, rífur hana í sig og bíður svo desertsins, kominn aftur í mannsgervi. En litla stúlkan sér við honum hlæjandi því hún er ekki til átu. Hún afklæðir sig og afklæðir hann og næsta morgun vakna þau í faðmlögum í rúmi ömmu; Rauðhetta og úlfurinn.
En víkjum aftur að kattardýrinu sem konan hefur svo gott lag á að undrum sætir. Hver er þáttur dýrsins í þessu óttabandalagi? Hvað tengir þau saman?
Hlustum nú á niðurlagið á endursögn Angelu Carter á ævintýrinu Fríðu og Dýrinu þar sem Fríða er komin til baka til kastala Dýrsins sem hún hafði gleymt í millitíðinni, þrátt fyrir loforð sitt:
Þjónninn hneigði sig og vísaði mér inn í herbergi Dýrsins. Fjólublái sloppurinn, gríman, hárkollan lágu á sætinu, hanski lá sinn á hvorum stólarmi. Það lyktaði af feldi og hlandi; reykelsiskerið lá í brotum á gólfinu. Hálfbrunnir raftar höfðu dreifst frá útkulnuðu eldstæðinu. Kerti, sem var fest í eigin feiti á arinhillunni, kveikti tvo mjóa loga í augum tígursins.
Hann gekk aftur og fram, aftur og fram, broddurinn á þungu skottinu rykktist til þar sem hann gekk lengd og breidd klefa síns á milli nagaðra og blóðugra beina.
„Hann á eftir graðga mig í sig.“
Barndómsótti varð að holdi og sinum, sá sem fyrst finnst og er dýpstur, óttinn við að vera étin upp til agna. Dýrið og kjötætubeður þess úr beinum og ég, hvít, skjálfandi, hrá, nálgast það, eins og til að fórna mér, lykillinn að friðsömu konungsríki þar sem græðgi hans þýðir ekki útrýming mín.
Hann varð kyrr eins og steinn. Hann var miklu hræddari við mig en ég við hann. Ég settist á hækjur mér á blautan hálminn og teygði fram hönd. Ég var komin inn á áhrifasvæði gullinna augna hans. Hann urraði aftast í kokinu, lækkaði höfuðið, seig niður á framhrammana, glefsaði, sýndi mér rautt ginið, gular tennur sínar. Ég hreyfði mig ekki. Hann þefaði, eins og til að finna lyktina af hræðslu minni, sem hann ekki fann.
Hægt, hægt, byrjaði hann að draga ljómandi þyngd sína yfir gólfið til mín.
Dynjandi sláttur, eins og af vél sem lætur jörðina snúast, fyllti litlu kytruna; hann var byrjaður að mala.
Sætleiki þrumunnar í mali hans hristi gömlu veggina og komu gluggahlerunum til að skellast, þar til að þeir brustu og hleyptu inn hvítu ljósi snjómánans. Hellur hrundu af þakinu; ég heyrði þær falla niður í bakgarðinn langt fyrir neðan. Endurkastið af mali hans skók undirstöður hússins, veggirnir tóku að dansa. Ég hugsaði: „Þetta hrynur allt, allt leysist upp.“
Hann dragnaðist nær og nær þar til að ég fann snöggt flosið á hausnum hans við höndina, þá tungu, snarpa eins og sandpappír: „Hann á eftir að sleikja af mér húðina.“
Og sérhver sleikur sleit burt eitt húðlag eftir annað, öll skinn lífsins í heiminum, og skildi eftir lágvaxna grósku af skínandi hári. Eyrnalokkar mínir breyttust aftur í vatn og drupu niður á axlir mínar; ég hristi dropana af fallega feldinum mínum.
Nú skulum við lyfta glösum og skála fyrir hughreysti gyðjunnar við að temja dýrið og skála fyrir dýrinu, sem stendur fyrir myndbreytingu gyðjunnar, þannig að þau fái að njótast og geri hvorugt hinu til miska.
„Farðu í rass og rófu, ríddu á grárri tófu, hafðu kött í keyri, og keyrðu á Akureyri.“