100 prósent karlakvóti

„Ég bið að heilsa Steinunni,“ sagði Ines Pohl, aðalritstýra þýska dagblaðsins Tageszeitung, við mig fyrir nokkrum misserum, þegar ég starfaði við blaðið, en þær höfðu þá nýverið hist á alþjóðlegri ráðstefnu áhrifakvenna í fjölmiðlum. Pohl er ein örfárra kvenna í Þýskalandi sem gegna stöðu aðalritstjóra dagblaða þar í landi. Á þessu verða vonandi breytingar á næstu árum, eins og rakið verður hér á eftir.  Mikilvægt er að konur jafnt sem karlar stýri fréttamiðlum, enda eru það stjórnendur sem taka ákvarðanir um hvað er birt og móta þá stefnu sem unnið er eftir og þá dagskrá sem okkur er boðið upp á.

Það er raunar svo merkilegt að bæði ritstýra og aðstoðarritstýra Tageszeitung eru konur. Ég man ekki eftir slíku hér. Er tilefni til bjartsýni í þessum efnum á Íslandi? Nýjustu tíðindi bera ekki með sér mikla von um það.

Stolt yfir hlut kvenna

Steinunn Stefánsdóttr var aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins þegar ég skilaði kveðjunni frá þýsku ritstýrunni. Í þá stöðu var hún ráðin sumarið 2006 og þegar hún tók við var eftirfarandi haft eftir henni í frétt:  „Ég er afar stolt af hlut kvenna hjá Fréttablaðinu og vona að þetta sé til marks um breytta tíma hjá fjölmiðlum.“ Fram kom í fréttinni þar sem tilkynnt var um ráðningu Steinunnar að fyrir gegndu tvær konur stöðu fréttastjóra á blaðinu. Vera má að eitthvað vor hafi verið í lofti í þessum efnum árið 2006, en er ástæða til þess nú að fyllast stolti yfir stöðu kvenna á fjölmiðlunum?

Á fundi Félags fjölmiðlakvenna í vikunni ræddi Steinunn brotthvarf sitt og stöðu kvenna á fjölmiðlum. Fram kom í máli hennar að fréttamat fjölmiðla væri mótað af gömlum karllægum gildum. Boðað var til fundar fjölmiðlakvenna eftir sviptingar í íslenskum fréttamiðlum vikuna á undan. Flétta sem fór af stað í kjölfar þess að fréttamaður 365 kvartaði yfir afskiptum eiganda af blaða- og fréttamönnum fyrirtækisins hafði þær afleiðingar að Steinunn, hæf og reynd kona í stjórnunarstöðu var hrakin úr starfi sínu á Fréttablaðinu. Yfir verkefni hennar var settur karlmaður, sem reyndar fékk fínni titil, var gerður að ritstjóra, og sem fréttir hermdu að hefði hátt í þreföld laun hennar.

Sama flétta leiddi svo raunar til þess að blaðakonan Sigríður Dögg Auðunsdóttir tók við stöðu annars tveggja ritstjóra á vikublaðinu Fréttatímanum.

Það var ærin ástæða fyrir konur á fréttamiðlum landsins að koma saman og ræða sín mál í ljósi þess sem gerst hafði. Þótt það sem kveikti umræðuna hafi ekki beinlínis haft með stöðu kvenna að gera, heldur frekar vald eigenda á fjölmiðlum, vakti brotthvarf Steinunnar hörð viðbrögð.

Veldi karla

Viðbrögðin koma ekki á óvart sé hlutur kvenna á fréttamiðlum skoðaður. Allt fram á þennan dag eru konur minnihluti þeirra sem móta og skrifa fréttirnar sem við fáum daglega af gangverki samfélagsins. Konur hafa verið sérstaklega fáar þegar kemur að stjórnunarstöðum. Flestum íslenskum fréttamiðlum er stýrt af körlum. Þeim miðlum sem hafa daglega snertingu við fólkið í landinu, á blaða- eða ljósvakaformi, er eingöngu stýrt af körlum. Tveir karlar stýra Morgunblaðinu, tveir karlar stýra Fréttablaðinu, karl stýrir fréttastofu RÚV og karl stýrir fréttastofu Stöðvar 2.

Og svo við skoðum annað sem er alvarlegt í ljósi þess að þar er um að ræða fjölmiðil í eigu almennings sem þar að auki hefur sett sér jafnréttisstefnu: Á RÚV eru karlar í miklum meirihluta þeirra sem stýra fréttatengdu efni. Karl stýrir Kastljósi og karlar eru sýnilegri þegar kemur að því að fjalla um helstu fréttamál, karl stýrir Speglinum (og aðrir umsjónarmenn eru eingöngu karlar, ef marka má vefsíðu RÚV), umsjónarmaður fréttaumræðuþáttarins Vikulokanna er karl. Egill Helgason er karl. Þá má ennfremur benda á að umsjónarmaður Landans er karl og í hópi pistlahöfunda stofnunarinnar, þar sem m.a. gefast tækifæri til að ræða fréttatengt efni eru þrettán karlar og ein kona. Þetta síðasta var gagnrýnt ekki alls fyrir löngu en hvorki gagnrýni né sú staðreynd að þessi ójafna skipting blasir við á forsíðu vefjar RÚV dag hvern, hefur orðið hvatning til bragarbótar af hálfu stjórnenda stofnunarinnar.

Kennslubókardæmi um „rúnk“ á fréttastofunni

Það var hugur í konum á fundi Félags fjölmiðlakvenna í vikunni og þar kom ýmislegt fróðlegt fram. Margt af því þekkja eflaust margar konur á vinnumarkaði. Þar má t.d. nefna hvernig konum er haldið utan við ákvarðanatöku á vinnustöðum þar sem bæði konur og karlar starfa. Steinunn Stefánsdóttir greindi frá því á fundinum að hún hefði í sinni tíð sem aðstoðarritstjóri upplifað það að ákvarðanir væru teknar utan fastra og formlegra funda. Karlanir hittust við önnur tækifæri, ræddu saman í síma og tækju ákvarðanir sem konurnar fréttu af eftirá.

Rakin voru dæmi af orðfæri karla á ritstjórnum. Ein fundargesta sagði að þegar hún byrjaði að vinna við blaðamennsku hefði hún tekið eftir því hvernig karlarnir töluðu á ritstjórnarfundum. Þar voru sum fréttamálin svo heit að karlanir „rúnkuðu“ sér yfir þeim meðan þeir „fengu úr honum“ við að fjalla um önnur mál. Á einum fundanna ákvað konan að vera með innlegg í þessa umræðu, sagðist ætla að taka að sér að fjalla um ákveðið fréttamál og lét fylgja með að hún sæi heldur betur fyrir sér að „putta sig“ yfir þessari frétt. Samstarfskarlarnir urðu orðlausir!

Önnur fundarkona lýsti hneykslun gamals fréttastjóra þegar hún hafði fundið að verkum ungs karlmanns sem klúðrað hafði tiltekinni frétt á hennar vakt. Hún mætti jú ekki skamma drenginn enda væri hann „svo góður í fótbolta“. Enn önnur sagði sögu af því að hafa stýrt fréttavakt með eintómum körlum þar sem einum þeirra var gert að skrifa frétt um brjóstagjöf. Það þótti honum og samstarfsfélögum frekar niðurlægjandi og tilefni til að nöldra yfir lengi á eftir, að hafa verið fengið að skrifa um annað eins „kerlingamál“.

Þessar litlu sögur varpa allar ljósi á þá menningu sem ríkt hefur á fréttastofum þessa lands. Staðan hér á landi er líklega ekki ólík því sem annars staðar gerist.

Ef marka má niðurstöður áströlsku fræðikonunnar og fyrrum blaðakonunnar Louise North eru þessar frásagnir frá Íslandi eins og kennslubókardæmi um stemmningu á ritstjórnum. Doktorsritgerð hennar fjallaði um kynjaðar fréttastofur í Ástralíu og tók hún m.a. ítarleg viðtöl við starfsfólk prentmiðla um upplifun af starfinu.

Allir sem tóku þátt í rannsókninni voru sammála um að karlmenn væru ráðandi í valdastöðum inni á miðlunum. Það hefði þá afleiðingu að hugmyndir um að karlar séu á einhvern hátt æðri festist í sessi. Litið sé á konur sem utanaðkomandi verur. Þær upplifi það líka sjálfar og jafnvel að þær séu óæðri.

Ein kona hefur takmörkuð áhrif

En aftur að meginástæðu þess að íslenskar fjölmiðlakonur sáu ástæðu til að koma saman. Brotthvarf Steinunnar Stefánsdóttur af Fréttablaðinu eru alvarleg tíðindi fyrir konur í blaða- og fréttamennsku. Það er afskaplega mikilvægt að hafa konur í stjórnunarstöðum. Steinunn hefur eftir megni reynt að hafa áhrif og bæta stöðu kvenna og auka umfjöllun um þeirra hagsmunamál. En ein kona hefur takmörkuð áhrif, þær þurfa að vera fleiri, enda kom fram í máli Steinunnar að þótt Fréttablaðið hafi haft það markmið að fjölga konum á fréttaritstjórninni hafi það farið svo að þegar hæfir og flottir strákar birtust, þá voru þeir ráðnir.

Fyrir um þremur árum gerði ég litla samantekt á stöðu kynjanna á íslenskum fréttamiðlum og kynnti á fundi hjá Félagi fjölmiðlakvenna. Hún leiddi m.a. í ljós að konur virðast endast mun skemur en karlar í fjölmiðlastéttinni. Þegar ég taldi fyrir þremur árum voru þær konur sem komist höfðu um og yfir miðjan aldur í fréttamiðlum teljandi á fingrum annarrar handar, meðan tugir karla voru í þessari stöðu. Spyrja þarf hvers vegna þetta gerist en það er alveg ljóst að brottfall kvenna með reynslu er slæmt, því aldri og reynslu fylgja aukin þekking og þar með aukið vald.

Milljónakarlarnir

Fjölmiðlakonur óskuðu í ályktun sem þær samþykktu á fundi sínum eftir skýringum frá 365 miðlum á því hvers vegna Steinunn hefði verið látin víkja og „enn einn karlinn“ ráðinn. Fróðlegt væri að heyra þessar skýringar. Eitt er hins vegar víst. Meðan karlar halda áfram að makka með helstu fréttamiðla landsins og ráða til sín aðra karla í yfirmannastöður á milljónalaunum, sem þeir skipta svo út eftir hentugleikum, mun fátt breytast. Meðan karlar halda áfram að taka mikilvægar ákvarðanir um fréttamál í samtölum sín á milli, þar sem konur eru ekki hafðar með, mun fátt breytast.  Við þurfum fleiri konur og rúm fyrir nýja menningu á fréttastofum og nýja sýn á fréttir. Þá fyrst er mögulegt að þær veiti það aðhald og þá gagnrýni sem þær eiga að gera í samfélaginu.

Stolt kvótakona

Í Þýskalandi fengu konur á fréttamiðlum fyrir nokkru nóg af karlræði á fjölmiðlunum þar. Þær stofnuðu samtök sem krefjast þess að fyrir árið 2017 verði konur orðnar 30% yfirmanna á þýskum fréttamiðlum. Þetta kann að hljóma helst til hóflegt markmið. Kannski gæti krafa um kvennakvóta orðið næsta skref fjölmiðlakvenna hér á landi? Fjölmiðlum eru veitt ýmis forréttindi í samfélaginu, þeir hafa t.d. aðgang og áhrif í krafti stöðu sinnar sem aðrir hafa ekki. Við verðum að gera kröfu um að þeir taki líka ábyrgð. Það verður meðal annars gert með jöfnum hlut karla og kvenna við stjórnun þeirra. Þýsku fjölmiðlakonurnar hafa ekki áhyggjur af því að komast í stjórnunarstöður út á kvennakvóta. Þvert á móti segist Ines Pohl ritstýra Tageszeitung vera stolt af því að að vera kvótakona.

Hið sama ætti að gilda hér og höfum í huga að 100% karlakvóti er ekkert grín.

4 athugasemdir við “100 prósent karlakvóti

 1. Ég held að eignarhaldið skipti meira máli heldur en hvort fleiri eða færri konur eru ritstjórar. Þó ég sé femínisti þá tel ég að menn eins og Davíð Oddsson og Jón Ásgeir leyfi ekki róttækum konum að vinna hjá sér við fréttaflutning og þess vegna sé ekki málið að fleiri (þægar) konur vinni hjá þeim.

  Ég vann á ritstjórn taz á síðustu öld. Blaðið var róttækt og á hverjum degi fór fram umræða um fréttaflutninginn.

  Kvennablaðið Emma hefur gert góða hluti í Þýskalandi. Kannski þurfa íslenskar konur að taka sig saman og búa til sérstakt blað eins og Alice Swartcer gerði þegar hún hóf útgáfu Emmu árið 1977. Og Alice hefur tekið þetta alla leið með fréttaflutning þar sem hún t.d. sendi fréttakonur og ljósmyndara til Tailands og birtir svo myndir heima í Þýskalandi þar sem sjást þýskir ferðamenn hálfnaktir með lendarklæði, dauðadrukknir búnir að kaupa sér vændisbörn og sjást vera að fitla við ungar stúlkur og drengi. Og ekkert verið að fela andlitin á þeim. Svo þegar blaðið er komið í allar sjoppur heima þá fer einhver að krefjast lögbanns en það er bara of seint! Þegar almenningur fær að sjá svona fréttamennsku þá er ekki lengur hægt að ljúga eins mikið að fólki með „hefðbundinni“ (lyga) fjölmiðlun. Þetta höfum við aldrei haft á Íslandi og erum fljót að brjálast þegar einhver perrinn er afhjúpaður áður en búið er að ákæra og dæma, jafnvel þó allir viti sannleikann.

  Það er ekki nóg að hafa konur og fleiri konur í ritstjórnum. Það þarf róttækni, femínisma, frjálsan, óttalausan og öðruvísi fréttaflutning.

 2. Finnst frekar siðlaust að skrifa einhverjar gróusögur um hegðun einstaklinga á vinnustöðum og fylgja því eftir með könnunum gerðar á vinnustöðum hinu meginn á hnettinum, til þess að leggja þunga á bakvið þá skoðun rithöfundar að karlmenn í þessari starfsgrein séu ruddar og karlrembur….

  Áhugaverður lestur samt.

 3. 1 Æskilegt er að ritstjórar séu reynslumiklir úr blaðamenn
  2 Fáar konur endast lengi í blaðamannastétt
  3 Flestir ritstjórar eru karlar
  Saman mynda þessar fullyrðingar rökræna heild.
  Spurningin sem vert er að spyrja er hins vegar: Af hverju endast konur svona stutt í blaðamennsku?
  Þegar því hefur verið svarað, og ráðið bót á, sé slíkt hægt, þá má spyrja af hverju eru ekki fleiri konur ritstjórar.

  ES Svar sem hljómar eins og „konur endast stutt því þær fá ekki að vera ritstjórar“ er ekki gott því að fæstir karlar sem endast lengi fá að verða ritstjórar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.