Konurnar og boltinn

– stóra sagnfræðikenningin um hópíþróttir og kynferði

Höf.: Stefán Pálsson

Einu sinni skrifaði ég bók um íþróttafélag. Það var Knattspyrnufélagið Fram og bókin kom út árið 2009, ári á eftir áætlun og þar með á 101 árs afmæli klúbbsins. Af þessu geta óinnvígðir ályktað að ég er Framari. Bækur um íþróttafélög eru nefnilega nær undantekningarlaust skrifaðar af stuðningsmönnum viðkomandi félaga (þá þarf ekki að borga þeim eins mikið) og einkum lesnar af öðrum stuðningsmönnum. Tilefnið er oftast nær stórafmæli og mælistikan á hvort vel tókst til er sú hvort verkið sé í stóru broti, með nóg af myndum og hvort gleymdist nokkuð að nafngreina helstu kempur.

Arna Steinsen, margfaldur Íslandsmeistari og landsliðsmaður með Fram í handbolta. Hún þurfti að leika fyrir KR í knattspyrnu þar sem kvennalið Fram var lagt niður.

Opinberar íþróttafélagasögur eru hetjusögur samkvæmt skilgreiningu. Mesta púðrið fer í gullaldarliðin og glæstustu bikarsigrana. Ef félagið hefur aldrei unnið rasskat má bæta það upp með hlýlegum upprifjunum á hvað stemningin hafi nú alltaf verið góð í gamla félagsheimilinu. Stóru sagnfræðilegu afhjúpanirnar ganga helst út á að upplýsa að sunddeildin hafi líklega verið stofnuð í október 1947 en ekki í janúar 1948 og til tals hafi komið á einum fundi að stuttbuxurnar í aðalbúningnum yrðu ljósgrænar en ekki mosagrænar.

Það er engin stemmning fyrir póst-strúktúralískum analýsum í íþróttafélagasögum. Lærðar kenningar um íþróttir sem félagslegt auðmagn í frumborgarsamfélagi eru dæmdar til að missa marks. Þetta vita höfundar þessara bóka mætavel, en sú vitneskja getur þó lagst þungt á sálartetur menntuðu sagnfræðinganna sem láta plata sig út í slík verkefni. Sagnfræðingarnir vita jú vel að svölu krakkarnir nota kenningar og það er ferlega lítið svalt að skrifa 400 síðna doðrant með krónólógískri upptalningu á meistaratitlum og þjálfaraskiptum.

Sjálfur fór ég nálægt því að búa til kenningu meðan ég glímdi við Fram-söguna. Lofaði sjálfum mér því að setja hana síðar á blað og koma inn í eitthvert tímaritið – Sögu eða álíka. Gerði svo aldrei neitt í því og klára varla úr þessu. En í stuttu máli gengur kenningin út á að skýra missterka stöðu kvenna innan ólíkra íþróttagreina á Íslandi, einkum hópíþrótta.

 

Upphafið

Knattspyrnufélagið Fram hefur í gegnum tíðina lagt stund á fjórar hópíþróttir, mislengi þó og með ólíkum árangri. Þær eru knattspyrna, handknattleikur, körfuknattleikur og blak. Í öllum tilvikum áttu Framarar bæði karla- og kvennaflokk, en örlög þeirra voru mismunandi.

Árið 1945 er stofnaður kvennaflokkur Fram í handbolta. Stjórnendur félagsins áttu frumkvæði að stofnuninni og sóttu hreinlega handknattleiksstúlkur í önnur lið í þessu skyni. Breyta þurfti lögum félagsins til að konur gætu gerst meðlimir.

Á skömmum tíma varð kvennahandboltaliðið ein helsta skrautfjöður félagsins. Liðið varð sigursælt og landaði Íslandsmeistaratitlum á tímabilum sem að öðru leyti einkenndust af bikaraþurrð. Sú er til dæmis raunin nú um stundir, en það segir sína sögu að frá því að byrjað var að veita heiðursnafnbótina íþróttamaður Fram árið 2008, hafa handknattleikskonur hlotið titilinn í þrjú af fimm skiptum.

Kvennahandboltinn í Fram er sterkur og hefur eiginlega alltaf verið það. Þar með er ekki sagt að konurnar hafi staðið jafnfætis körlunum – öðru nær. Karlaliðið hefur lengst af verið í aðalhlutverkinu. Karlarnir hafa fengið dýrari þjálfara, kostnaðarsamari ferðalög, betri búnað og æfingatíma, fleiri áhorfendur og meiri athygli. Á hinn bóginn gefa blöð, fundargerðir og bréfasöfn handknattleiksdeildarinnar mjög skýra tilfinningu fyrir því að kvennaflokkurinn hafi skipt máli, gott gengi hans hafi verið metnaðarmál og aldrei komið til greina að slá hann af þótt harðnaði á dalnum.

Ef litið er á stöðu íslenska kvennahandboltans almennt kemur svipuð staða í ljós. Að sönnu er saga kvennahandboltans á löngum tímum saga mismununar, einkum þegar kemur að landsliðsmálum. En allt frá fyrsta Íslandsmótinu árið 1940 (þegar bæði kynin kepptu) hefur handbolti þó verið sú hópíþrótt þar sem staða kvenna hefur verið sterkust. Það sést best á íþróttaumfjöllun dagblaðanna í áranna rás. Til marks um þetta var athyglisvert að á dögunum var tekið upp nýtt keppnisfyrirkomulag í bikarkeppninni í handbolta. Bikarúrslitaleikir beggja kynja fara fram á sama sunnudeginum og varð úr að kvennaleikurinn var seinni viðureignin í ár (sem almennt er talinn betri leiktími) og mun ætlunin að láta kvenna- og karlaflokkana skiptast á betri og lakari tímanum næstu árin.

 

Slegist um velli

Upphaf nútímakvennaknattspyrnu á Íslandi má rekja til útiæfinga handknattleikskvenna úr Fram og fleiri liðum á höfuðborgarsvæðinu í lok sjöunda áratugarins. Fyrsta Íslandsmótið í kvennaflokki var haldið árið 1972, þar sem Fram sendi lið til keppni. Sú þátttaka naut þó engrar sérstakrar velvildar þeirra sem stýrðu knattspyrnudeild félagsins, heldur kom frumkvæðið frekar frá stúlkunum sjálfum og félagsmönnum sem stóðu utan knattspyrnudeildarinnar.

Næstu árin er nær lagi að segja að kvennaflokkurinn hafi verið umborinn en að hann hafi notið stuðnings. Loks var sú makalausa ákvörðun tekin um 1980 að leggja liðið niður í óþökk leikmanna, einkum til að fjölga æfingatímum fyrir karlaflokka félagsins. Stjórnendur Fram iðruðust ákvörðunarinnar nánast samstundis en skaðinn var skeður og við tók aldarfjórðungs streð við að endurreisa kvennafótboltann, þótt vissulega hafi mismikill hugur fylgt máli.

Unglingaflokkur Frammara í blaki veturinn 1986-7.

Þessi hrakfallasaga endurspeglar sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu fyrstu áratugina þar sem knattspyrnukonur mættu rótgrónu stofnanabundnu misrétti. Það er fyrst á allra síðustu árum að leikurinn hefur farið að jafnast og hafa þær framfarir verið bundnar við landsliðin og fáein íþróttafélög.

Körfubolti og blak voru um skeið á dagskrá Frammara, uns báðar deildirnar lognuðust út af þegar stofnendur þeirra hættu að keppa sjálfir og sneru sér að öðrum viðfangsefnum. Körfuboltadeildin átti nokkur góð ár í meistaraflokki karla en kollkeyrði sig á launagreiðslum til erlendra leikmanna. Allt púðrið fór í karlaflokkinn og segja má að stjórnin hafi átt allnokkurn þátt í því að leggja kvennaliðið niður. Allt snerist jú um að tryggja sér fáa og dýrmæta æfingatíma.
Kvennakarfan íslenska hefur ætíð verið í skugga karlakörfunnar. Félög með sterk karlalið hafa ekki haft metnað til að halda úti kvennaliðum og lengi vel var körfuknattleikur kvenna algjör jaðaríþrótt í umfjöllun fjölmiðla.

Aðra sögu er að segja af blakinu. Hin skammlífa blakdeild Fram reyndi talsvert til að halda kvennaflokknum lifandi, þótt fámennur væri og rekstur deildarinnar sífellt basl. Það var í sjálfu sér í samræmi við hefðir greinarinnar því blak er vafalítið sú hópíþrótt þar sem mest jafnræði hefur ríkt milli kynjanna hvað varðar umgjörð og umfjöllun.

 

Hvað veldur?

Niðurstaða þessarar samantektar er sú að almennt einkenni á íslenskum handbolta og blaki sé tiltölulega jöfn staða kynjanna (þótt eflaust reyti einhverjar handboltakonur hár sitt yfir þessari staðhæfingu) en aðstöðumunurinn sé meiri í körfuboltanum og knattspyrnunni.

Handknattleikslið Fram 1952.

Freistandi er að skýra þennan mun með vísunum í söguna. Sem fyrr segir var keppt bæði í kvenna- og karlaflokki á fyrsta Íslandsmótinu í handbolta árið 1940. Fyrsti opinberi handboltaleikurinn hér á landi var meira að segja á milli tveggja kvennaliða. Þannig hefur keppni í kvenna- og karlaflokki þróast samhliða frá fyrstu tíð. Sömu sögu má segja um blakið, sem kemur fram sem stúdentaíþrótt á Laugarvatni, Akureyri og víðar. Konur hefja þar keppni nánast um leið og karlar og fyrsta Íslandsmót kvenna er haldið fáeinum árum á eftir fyrsta karlamótinu.

Í knattspyrnu og körfuknattleik er annað upp á teningnum. Þar hefja karlarnir keppni og einoka greinina um langt skeið – raunar í meira en hálfa öld í tilviki fótboltans. Afleiðingin verður sú að þegar kvennaliðin koma fram, eru þau að ryðjast inn á þekkt karlasvið og því álitin aðskotahlutur, hálfgerð vitleysa sem unnt er að umbera meðan nægur peningur er til í kassanum eða æfingavellir fyrir strákana sem hljóti þó alltaf að vera númer eitt. Mjög erfitt reynist svo að vinda ofan af þessum viðhorfum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.