Femen út um allt, femínismi hvergi

Höfundur: Mona Chollet, þýðandi Kristín Jónsdóttir.

Greinin birtist á vef Monde diplomatique 12. mars síðastliðinn og er þýdd með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

„Múslimar virðast finna til karlmennsku sinnar með því að vefja konum í slæður en vestrænir karlar með því að afklæða þær.“ Þetta ritaði marokkóski rithöfundurinn Fatema Mernissi í bók sinni Le Harem et l’Occident  (Kvennabúrin og Vesturlöndin) (Albin Michel 2001).

Mikill áhugi franskra fjölmiðla á fyrirbærum eins og Aliaa El-Mahdy, egypsku námsmeyjunni sem birti nektarmyndir af sér á bloggi sínu árið 2011 (1) eða aðgerðasamtökunum Femen staðfesta enn á ný sannleiksgildi þessara orða. Á sjónvarpsstöðinni France 2 var sýnd heimildamynd þann 5. mars síðastliðinn um þessi úkraínsku samtök sem bárust til Frakklands fyrir rétt rúmu ári síðan (2), og önnur mynd, sem nefnist Aliaa, nakti byltingarsinninn, var á dagskrá á sjónvarpsstöðinni Public Sénat þann 8. mars, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Skítt með þúsundir kvenna sem eru svo smekklausar að berjast fyrir rétti sínum kappklæddar og/eða uppfylla ekki kröfur um að vera unglegar, mjóar, fagrar og stæltar. „Femínisminn, það eru konurnar sem mótmæltu á götum Kaíró, ekki Femen! Og ekki sér maður neinar myndir um þær í sjónvarpinu,“ skrifaði fréttaritari France Inter í Egyptalandi, Vanessa Descouraux á Twitter þann 6. febrúar síðastliðinn. Í Frakklandi segjast femínískir hópar oftar „þurfa að tjá sig um það hvað þeim finnst um úkraínsku hreyfinguna en um hvað þær eru sjálfar að gera“ (3).

Þýskir mótmælendur sem „hótuðu“ að afklæðast fyrir fréttamenn við Brandenborgarhliðið

Viljið þið láta heyrast í ykkur, konur? Eina lausnin: Afklæðið ykkur! Í október 2012 komu flóttamenn sér fyrir við Brandenborgarhliðið í miðborg Berlínar til að vekja athygli á ömurlegum lífsskilyrðum en þeim gekk illa að ná til fjölmiðla. Ung kona sem tók þátt í mótmælunum æpti reiðilega að blaðamanni frá Bild: „Viltu að ég afklæðist?“ – „Blaðamaðurinn jánkaði og lofaði að koma aftur með ljósmyndara. Aðrir blaðamenn fréttu af þessu og allt í einu hafði hópur ljósmyndara umkringt ungu konurnar sem voru þarna til stuðnings flóttafólkinu. Þær fóru ekki úr fötunum en nýttu tækifærið til að vekja athygli á æsifréttamennsku fjölmiðla (4).

Femenkonurnar hafa verið raunsærri. Í fyrstu mótmælunum, í Úkraínu 2008, höfðu þær málað slagorðin á nakin bök sín en ljósmyndarar höfðu ekki áhuga á neinu nema að ná myndum af brjóstunum á þeim. Þær færðu því áletranirnar framan á sig (5). Þessi atburðarás kemur Innu Shevchenko, úkraínsku konunni sem flutti Femen inn til Frakklands, ekkert úr jafnvægi: „Við vitum hvað fjölmiðlar þurfa,“ sagði hún í viðtali við Rue89 í desember. „Kynlíf, hneykslismál og árásir: þetta verður að gefa þeim. Að komast í blöðin, það er að vera til (6).“ Er það virkilega?

Það er eflaust hárrétt athugað hjá femíníska aðgerðasinnanum Clémentine Autain að happenings, sviðsettar uppákomur, séu hluti af menningu okkar. „Allt frá því að súffragettan Hubertine Auclert velti um koll kjörkassanum í bæjarstjórnarkosningunum 1910 til að tryggja dagblöðum þriðja lýðveldisins nógu krassandi myndir á forsíðurnar og þar til aðgerðasinnar úr röðum kvenfrelsishreyfingarinnar MLF (Mouvement de libération des femmes)  köstuðu kálfalungum á baráttufundum gegn fóstureyðingalögum á 8. áratugnum höfum við sýnt að við kunnum þetta líka! (7)“. Svona uppákomur hafa einnig einkennt aðgerðir Act Up og baráttu þeirra gegn alnæmi. En það þarf þó að vera eitthvað á bak við þessar uppákomur, traustur pólitískur grunnur og hugsun sem gefur þeim merkingu. Hvað Femen varðar er  ljóst að engin hugsun fylgir aðgerðunum, eða þá að sú hugsun virðist vægast sagt rista afskaplega grunnt.

 

Gegn gömlum konum sem lesa bækur

Að smætta konur eilíflega niður í líkama og kyn, að afneita getu þeirra á vitsmunalegu sviði, að viðhalda félagslegum ósýnileika þeirra sem ekki ganga í augun á körlum; þetta eru hornsteinar feðraveldisins. Að „hreyfing“ (Femen mun ekki telja nema um tuttugu félaga í Frakklandi) sem segist vera femínísk skuli afneita þessum staðreyndum gerir mann orðlausan. „Við lifum við kúgun karlsins og þetta (nektin) er eina leiðin til að ögra þeim, ná athygli þeirra,“ lýsir Inna Shevchenko yfir í viðtali við The Guardian (8). Femínismi sem beygir sig fyrir kúgun karlsins: Einmitt það sem við þurftum.

Það er ekki nóg með að Shevchenko samþykki þetta kerfi, heldur leggur hún blessun sína yfir það (enn úr viðtalinu í The Guardian): „Klassískur femínismi er gömul, veik og ógöngufær kona. Hann er fastur í heimi funda og bóka.“ Það er rétt hjá henni: niður með gamlar, veikar konur, það er ekki einu sinni ánægjulegt að horfa á þær. Og bækur, þær eru bara fullar af stöfum sem valda manni höfuðverk, oj! Claude Guillon, höfundur frábærrar bókar um notkun líkama í pólitík (9), segir: „Velmeinandi manneskja gæti túlkað þessa yfirlýsingu sem merki um grimmd æskunnar. Því miður verður að bæta við: og heimsku hennar! Því í reynd, og kannski hefði Inna getað lesið um það í einhverri bók, er hugmyndin um femínista sem gamlar konur komnar út úr heiminum (les: og út af kjötmarkaðnum) afar gömul andfemínísk klisja. Mér þykir óskaplega leitt að sjá hana tekna upp af aðgerðasinna sem þykist vilja endurnýja femínismann (10).“ Síðan þetta var hafa franskir meðlimir hreyfingarinnar neyðst til að sættast á að gefa út viðtalsbók(11): „Í Frakklandi er nauðsynlegt að birta texta til að öðlast viðurkenningu,“ andvarpar ein þeirra í viðtali við Libération 7. mars 2013. Ó, hvað lífið er erfitt…

Á vefritinu Rue89 dró Shevchenko saman það sem ungar, franskar konur sem vildu komast í Femen höfðu um það að segja: „Þær sögðu: „Femínískar hreyfingar sem nú þegar eru til í Frakklandi eru ekki gerðar fyrir ungar konur, heldur fyrir gáfukonur sem líkjast körlum, sem afneita kynferðinu, þeirri staðreynd að kona geti verið kvenleg.““ Það verður að játast að með þessu boða Femen óneitanlega framfarir. Hvað varðar formóður eins og Simone de Beauvoir þurfti að bíða hundrað ára fæðingarafmælis hennar, árið 2008, til að fá loksins að sjá hana nakta. Biðin var löng. En þolinmæðin borgaði sig, Le Nouvel Observateur birti með ánægju á forsíðu sinni ljósmynd af höfundi Síðara kynsins nöktum, myndin er tekin aftan frá inni á baðherbergi (12). Hvað Femen varðar, eru þetta góðar stelpur: þær vinna verkið sjálfar (femen þýðir meira að segja læri á latínu, en það kemur málinu ekki við, þær völdu nafnið „því það hljómaði svo vel“). Hættum þessum tepruskap: Þótt við séum femínistar þýðir það ekki að við séum ekki með líkama, séum ekki munúðarfullar, stundum ekki kynlíf. Við getum bara harmað að allar þær (og þeir) sem láta sig dreyma um að njóta sæta rassins hans Jean-Paul Sartre þurfi enn að bíða. Hvað er Le Nouvel Observateur að hugsa? Eru gáfukarlar ekki líka með líkama, munúðarfullir og stunda kynlíf? Hvers vegna megum við ekki njóta þeirra? Af hverju eru þeir ekki líka neysluvara sem má sýna og markaðssetja algerlega burtséð frá þeirra eigin vilja?

 

„Poppfemínismi“

Femen-konur nutu mikillar samúðar þegar öfgakaþólikkar úr Civitas (sjá meira um þau samtök hér) réðust á þær í mótmælagöngu gegn nýjum hjónabandslögum í nóvember 2012, en síðan þá hafa æ fleiri haft uppi efasemdir og þeim verið hafnað – til dæmis af femínistahreyfingunni Les TumulTueuses (nafnið þýðir „hinar ofsafengnu“ en T í hástöfum í miðju orði gerir að verkum að seinni hluti orðsins er „morðingjar“ í ft. kvk.) og af leikkonunni og leikstjóranum Ovidie. Þær hafa verið gagnrýndar fyrir að samþykkja sýn auglýsingaiðnaðarins á kvenlíkamann en hafa svarað með því að birta myndir af meðlimum sem samræmast síður staðalímyndinni. Vandamálið er að við sjáum þær myndir aldrei á forsíðu popptímaritsins Les Inrockuptibles, tepokabrjóst passa svo illa við poppfemínismann sem tímaritið segist standa fyrir – né í Obsession, tísku- og lífsstílsblaðinu sem fylgir Nouvel Observateur og birti myndir af Femen í september síðastliðnum. Ekki segja mér að það sé ekki þeim að kenna, þær geta alveg krafist þess að þessar konur séu hafðar með í myndatökum ef þær hafa áhuga á að vera teknar alvarlega. Laurence Guillon spyr: „Hvaða áhrif hefur þessi hópmynd (í Les Inrockuptibles) á eldri konur eða ungar konur sem eru ekki eins vel skapaðar frá náttúrunnar hendi? Hún hefur sömu áhrif og karllægni auglýsingahryðjuverkanna sem femínisminn er alltaf að benda á. Þessi ljósmynd er verri en klaufagangur, hún er pólitísk þversögn.“

Endurteknar neitanir meðlima hreyfingarinnar duga þar að auki ekki til að drepa á dreif sögusögnum um meðvitaða stefnu um að sýna konur sem myndast vel. Í bókinni Femen staðhæfir ein af úkraínskum stofnendum samtakanna: „Stelpurnar okkar verða að vera í góðu formi til að geta þolað mikla áreynslu og erfiði, og fallegar til að geta nýtt líkama sinn til góðs. Í stuttu máli sagt er Femen holdgervingur nýju konunnar: falleg, virk og algerlega frjáls.“ Femínismi, betri en jógúrt með bífidóbakteríum. Franskur félagi í samtökunum segir að þetta sé „þýðingarvilla“ (13) …

Hvernig sem á málin er litið, eins og staðan er í dag, er ekki víst að fjölmiðlar og almenningur geri greinarmun á Femen og til dæmis Cicciolinu – forveranum með blómakórónu í ljósu hári – eða á pin-up fyrirsætunni á blaðsíðu 3 í The Sun. Svo vitnað sé aftur í Claude Guillon: „Ung kona sagði við mig nýlega að „síðan þær klæddu sig úr fötunum væri í það minnsta hlustað á þær!“ Síður en svo. Það er í mesta lagi horft á þær. Og þegar ritstjórar fá nóg af því að hafa brjóst á forsíðunni (getur orðið leiðigjarnt, gullið mitt!) horfir enginn lengur  á þær heldur.“ Blaðamenn Rue89 hafa sjálfir verið ráðvilltir gagnvart vinsældum samtakanna: „Fyrsta umfjöllun okkar um Femen var myndbirting. Það var einfaldlega mynd af einni úr Femen, berbrjósta fyrir framan heimili Dominque Strauss-Kahn. Þrjár setningar fylgdu með. Greinin fékk 69.500 heimsóknir. Það er mikið.“ Í hinum þokukennda „sextremisma“ sem hópurinn boðar má vera nokkuð ljóst að það er sex-hlutinn sem kemur fjölmiðlamaskínunni í gang.

 

Eru allir fjölmiðlar orðnir femínískir?

Er femínisminn þá orðinn svo samþykkt stefna að öll blöð birta hann á forsíðum og hann heiðraður með heimildamynd í sjónvarpinu sem kynnt er rækilega í öllum dagblöðum? Það þarf nú að vera ansi einföld sál sem trúir því. Áhugann á Femen er fullkomlega hægt að leggja að jöfnu við ruddalegustu tegund andfemínisma. Í Libération 7. mars síðastliðinn er til dæmis heil opna helguð þeim en það kom þó ekki í veg fyrir að daginn eftir, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, má segja að forsíðan hafi slegið flest út. Undir fyrirsögninni „Kynlíf fyrir alla!“ var hún helguð hugmyndum um „kynlífsþjónustu“ fyrir fatlaða. Ljósmyndin sem fylgdi greininni sýndi fatlaðan karl í rúminu með kvenkyns „þjónustufulltrúa“ (ljóshærð, brosmild, holdgervingur mýktar og undirgefni sem er köllun allra alvöru kvenna), en ekki öfugt. Jújú, greinin heitir „Kynlíf fyrir alla“, ekki „fyrir allar“.

Umfjöllun um þennan málaflokk er hluti af harðri baráttu dagblaðsins fyrir vændi. Í janúar síðastliðnum birtist frásögn af fjölfötluðum karli sem berst fyrir því að eiga rétt á „kynlífsþjónustu“. Líkt og kvikmyndagerðarmaðurinn Patric Jean (14) benti á, á bloggsíðu sinni, hafði þessi einstaklingur verið í föstu sambandi með tveimur konum og á meira að segja börn, sem setur staðhæfingar um vangetu fatlaðra til að lifa kynlífi í nýtt samhengi. Og svona til að bæta enn við umfjöllun um ímynd konunnar í anda Libération, var baksíðuumfjöllunin þennan dag um nýkjörna Ungfrú Frakkland.

Ég hef sömu efasemdir um Charlie Hebdo, varnarvirki grínsins, sem minnir á það viku eftir viku með grínteikningum sínum að hið versta sem geti komið fyrir nokkurn mann sé að láta taka sig aftan frá, það er að segja að vera afhjúpaður í „kvenlegri“ stellingu (15), og samvinnu þess blaðs við Femen um útgáfu sérblaðs (6. mars 2013). Á forsíðunni er teikning eftir Luz sem sýnir meðlimi samtakanna sveifla eistum. Klisjan um móðursjúka femínista sem „skera undan körlum“, samtvinnuð við fagurfræði auglýsingabransans: ágætis lýsing á vörunni Femen. Í viðtali við háðsádeiluritið lýsir Shevchenko því yfir að hún vilji samfélag „þar sem konur hafi meiri völd en karlar“. Jahá.

Gervi-femínismi sem vekur afar dularfulla en almenna hrifningu. Þetta minnir á fjölmiðlafárið í Frakklandi í kringum Ni putes ni soumises (Ekki hórur, ekki undirgefnar), sem uppskáru mikla aðdáun fyrir að leyfa sér að fordæma íslamstrú og „arabastráka“(16). Tveir fyrrum félagar í þeim félagasamtökum, Loubna Méliane – aðstoðarmaður þingmanns sósíalista Malek Boutih – og Safia Lebdi voru einmitt meðal fyrstu félaganna í Femen í Frakklandi, en hafa nú dregið sig út. Franski hluti samtakanna hefur aðalstöðvar sínar í Goutte d’Or hverfinu í París þar sem múslimar og aðrir innflytjendur eru fjölmennir og þær kynntu húsnæði sitt með plakati í fánalitunum sem minnti á „pylsur-og-vín-boðin“ sem öfga-hægri aðgerðasinnar reyndu að standa fyrir í þessu sama hverfi árið 2010.

 

„Arabaviðhorf“ í Úkraínu

Það er ekki erfitt að skilja róttæka andstöðu Femen við klerkaveldið, þegar haft er í huga hve mikil áhrif rétttrúnaðarkirkjan hefur á daglegt líf fólks í Úkraínu, en talsmenn hafa átt það til að fara yfir mörkin þegar fjallað er um íslamstrú. Ein af stofnendum samtakanna, Anna Hutsol, daðrar við kynþáttafordóma þegar hún segist harma að úkraínskt þjóðfélag hafi ekki enn náð að „útrýma arabaviðhorfi gagnvart konum“(17).

Í mars 2012 skipulögðu Femen í Frakklandi aðgerðir gegn búrkunni við Eiffelturninn, undir slagorðinu „Frekar nakin en í búrku“. Félagar samtakanna hafa einnig hrópað að „Nekt sé frelsi“ eða kyrjað „Frakkland, klæddu þig úr!“ Þannig viðhalda þær forsendu sem er vel greypt í vestræna menningu og segir að frelsunin geti ekki komið nema með hámarksafhjúpun, en afneita um leið ofbeldinu sem getur fylgt slíkri afhjúpun (18).

Margir femínistar hafa mótmælt þeim og bent á að í staðinn fyrir að halda því fram að nekt sé æðri ætti fremur að verja rétt kvenna til að klæða sig eins og þær vilja. En Femen eru sannfærðar um að þær hafi rétt fyrir sér. „Við förum ekki að aðlaga orðræðu okkar að þeim tíu löndum þar sem við störfum. Skilaboð okkar eru altæk,“ sagði Shevchenko í samtali við dagblaðið 20 minutes. Þessari blöndu af hugsanaleti og hroka, að þykjast geta sagt konum um gervallan heim hvernig þær eigi að hegða sér, hefur verið tekið kuldalega af ýmsum. Vísindakonan Sara Salem álasar til dæmis egypsku námsmeyjunni Aliaa El-Mahdy fyrir tengsl sín við Femen: „Þótt það að afklæða sig á bloggsíðu geti verið til að ögra feðraveldi samfélags hennar er það vandamál að hún skuli tengjast hópi sem hægt væri að skilgreina sem nýlendustefnusinnaðan (19).“ En hvers vegna að efast þegar það er nóg að sýna brjóstin til að fá meiriháttar athygli?

—-

(1) Í ljósi athugasemdar Mernissi, er aðgerð El-Mahcy óumdeilanlega brot á reglum í egypsku samhengi. Hún hefur einmitt fengið alvarlegar hótanir vegna hennar. Vandamálið er að aðgerðin er algerlega einstaklingsbundin og hefur ekki áhrif á ríkjandi viðhorf almennings í landinu. Hún hefur jafnvel gagnstæð áhrif: Á Vesturlöndum hefur unga konan verið hyllt á athugasemdakerfum fjölmiðla af fólki sem hefur ljóst – eða leynt – lýst andúð sinni á upprunalandi hennar.

(2) Nos seins, nos armes [Brjóstin, okkar vopn] eftir Caroline Fourest og Nadia El-Fani.

(3) Femen, la guerre des „sextrémistes [Femen, stríð sextremista], Libération, 7. mars 2013.

(4) Si tu montres tes nichons, je reviens avec mon photographe [Ef þú sýnir brjóstin kem ég aftur með ljósmyndara], Seenthis, október 2012.

(5) Ukraine : le féminisme seins nus tisse sa toile dans le monde   [Úkraína: berbrjósta femínismi spinnur vef sinn um allan heim], AFP, 7. mars 2013.

(6) Seins nus : les Femen, phénomène médiatique ou féministe? [Berbrjósta: Femen, fjölmiðlafyrirbæri eða femínismi?], Rue89, 23. desember 2012.

(7) Le féminisme à l’épreuve du sextrémisme [Sextremisminn lætur reyna á femínismann], M – Le magazine du Monde, 9. mars 2013.

(8) Femen’s topless warriors start boot camp for global feminism, The Guardian, 22. september 2012.

(9) Claude Guillon: Je chante le corps critique, H&O, París, 2008.

(10) Quel usage politique de la nudité?  [Notagildi nektar í  pólitískum tilgangi], Claude Guillon, 7. febrúar 2013. Viðbót 13. mars: lesið einnig „Sauvées par le gong”? Femen, suite et fin“ [Bjargað þegar bjallan hringir? Femen, framhald og endir], 12. mars 2013.

(11) Femen, entretiens avec Galia Ackerman, Calmann-Lévy, Paris, 2013.

(12) Lire Sylvie Tissot, “Une midinette aux ongles laqués” [Tildurrófa með lakkaðar neglur], Le Monde diplomatique, febrúar 2008.

(13) Femen : “Notre message est universel” [Femen: skilaboð okkar eru altæk], 20minutes.fr, 5. mars 2013.

(14) «  Prostitution : Libération remet le couvert  », Le blog de Patric Jean, 7. janúas 2013.

(15) Cf. Maïa Mazaurette, Une remarque au sujet des caricatures “humiliantes” dans Charlie Hebdo [Athugasemd varðandi „niðurlægjandi teikningar í Charlie Hebdo], Sexactu, 20. september 2012.

(16) Nacira Guénif-Souilamas et Eric Macé, Les féministes et le garçon arabe, L’Aube, La Tour d’Aigues, 2004.

(17) „Femen, Ukraine’s Topless Warriors“, TheAtlantic.com, 28. nóvember 2012.

(18)  „Femen ou le fétichisme du dévoilement“ [Femen eða blæti slæðuleysisins], Seenthis, octobre 2012, et Alain Gresh, «  Jupe et string obligatoires  », Nouvelles d’Orient, Les blogs du Diplo, 20. mars 2011.

(19) Sara Salem, „Femen’s Neocolonial Feminism : When Nudity Becomes a Uniform“, Al-Akhbar English, 26. desember 2012.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.