Satt og skáldað í Höllinni

Leiknu sjónvarpsþættirnir „Höllin“ eru skáldskapur. Þó leitast handritshöfundar við að gera atburðarásina sem allra raunverulegasta. Ætti þá ekki að vera hægt að ætlast til að sem allra flestar, ef ekki allar, staðreyndir sem unnið er með séu réttar? Jú.

Sú er hins vegar ekki raunin í 5. þætti syrpunnar sem nú er í sýningu á RÚV, en þar er fjallað sérstaklega um vændi í Danmörku.

Dönsku samtökin 8. marts-initiativet (8. mars-aðgerðahópurinn, innsk. þýð.) hefur gert stutta samantekt á því hvað er „satt“ og hvað „skáldað“ að því er varðar þá mynd sem framleiðendur „Hallarinnar“ draga upp af vændi í Danmörku.

 

Erik fullyrðir að götuvændi sé afar sjaldgæft. SATT?

SKÁLDAÐ. Um það bil 20%, eða fimmtungur, af öllu vændi í Danmörku er götuvændi, samkvæmt tölum frá SFI, sem er stofnun sambærileg við Félagsvísindastofnun hér á landi [i]. Samkvæmt skýrslu frá Reden International (dönsk samtök sem m.a. aðstoða fólk við að komast úr vændi) jókst götuvændi á árunum 2011-2012. Christians Safe House hefur einnig tilkynnt um talsverða aukningu á komum erlendra kvenna í miðstöðina þeirra. Þetta eru konur sem þurfa vernd fyrir melludólgum og þeim sem stunda mansal og þær koma bæði af götunni og úr vændishúsum.

Erik fullyrðir að fjöldi mansalsmála sé ekki í neinu samræmi við umræðuna um vandamálið. SATT?

Já, mansalsmál í Danmörku eru allt of fá. Það er þó ekki til marks um að verslun með manneskjur sé umsvifalítil. Lögreglan á Mið- og Vestur-Jótlandi sagði við dagblaðið MetroExpress þann 15. maí 2012: „Í dag eru um það bil 80% kvenna í vændishúsum fórnarlömb mansals. Síðustu tvö árin hefur nokkur fjöldi transkvenna frá Brasilíu bæst í hópinn en annars eru þetta einkum rúmenskar og nígerískar konur.“ [ii] Lögreglan setur rannsókn á mansalsmálum ekki í forgang, bæði vegna skorts á mannafla og vegna þess að stjórnmálamenn knýja ekki á um það. Mál eru sjaldan rannsökuð með forvirkum hætti, heldur eru gerðar rassíur þegar kvartanir almennra borgara eru óvenju áberandi og þá eru framkvæmdar fjöldahandtökur á erlendum vændiskonum, þær handteknar í stórum hópum og flestum þeirra vísað samstundis úr landi. Þá er ráðist gegn konunum sem geta síst varið sig, en mansalsmenn, dólgar og vændiskaupendur sleppa iðulega án eftirmála. Mansalsmál eru tímafrek og kostnaðarsöm, t.d. vegna túlkaþjónustu. Í máli sem varðaði rúmenska milliliði um mansal þurfti að hlera síma vændiskvennanna mánuðum saman áður en látið var til skarar skríða í september 2009 og meintir skipuleggjendur hringsins í Danmörku og Rúmeníu handteknir. Símtölin veittu lögreglunni innsýn í einstaklega miskunnarlausan heim, þar sem götuvændiskonur þurfa að borga verndartoll fyrir umráðasvæði sitt á götunni og sæta grófum hótunum frá „yfirmönnunum“ ef þær þéna ekki nóg.[iii]

Helene frá samtökunum „Sexarbejdere i Danmark fullyrðir að 80% af öllu vændi í Danmörku fari fram í vændishúsum eða einkastofum. SATT?

SKÁLDAÐ. Samkvæmt áðurnefndri skýrslu frá SFI er aðeins 52%, eða rúmur helmingur alls vændis, stundaður innan veggja vændishúsa. Og yfir helmingur þeirra kvenna sem stundar vændi í vændishúsum er erlendar konur og því í mun viðkvæmari stöðu en þær dönsku, sem raunar fer jafnt og þétt fækkandi í kynlífssölugeiranum. Skipulagðir glæpahringir sem versla með erlendar konur eru smám saman að taka markaðinn yfir, því það er á því sviði sem tekjurnar eru mestar. Þess vegna er svona nauðsynlegt að halda í greinina um milligöngumenn. Á alþjóðlegum vettvangi hefur þróunin einnig verið sú að skipulögð glæpasamtök hafa tekið yfir vændismarkaðinn og selja að mestu erlendar vændiskonur, sem oft eru fórnarlömb mansals.

Helene frá SD kallar sig „starfsmann í kynlífsþjónustu“, og staðsetur þannig vændi við hlið löggiltra starfsgreina. SATT?

SKÁLDAÐ. Vændi er ekki „starfsgrein“ heldur félagslegt vandamál. Um þetta voru allir flokkar á danska þinginu sammála þar til föstudaginn 1. febrúar 2013, en þá tilkynnti Mai Henriksen, talsmaður danska Íhaldsflokksins  í jafnréttismálum, að flokkurinn hygðist leggja fram frumvarp sem gerði vændismiðlun (að hagnast á vændi annarra, danska orðið er „rufferi“) að löglegri starfsgrein og vændi að venjulegu starfi (starfi í kynlífsþjónustu) með rétti til aðildar að stéttarfélagi og svo framvegis. Að lögleiða vændismiðlun (da. rufferi) og gera þannig vændi að starfsgrein er brot á Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna [iv], sem Danmörk á bæði aðild að og hefur fullgilt. Vændi er skilgreint sem kynferðisleg misnotkun og kveður sáttmálinn á um að ríkjum beri að vernda konur gegn því að aðrir nýti sér (í hagnaðarskyni) vændi þeirra.

Frá mótmælum á vegum SIO í Kaupmannahöfn, 7. maí 2011

Hugtakið „starfsmaður í kynlífsþjónustu“ er hins vegar gjarnan notað af hagsmunaaðilum í kynlífsiðnaðinum og ekki aðeins um vændisfólk, heldur einnig um eigendur vændishúsa og fylgdarþjónustufyrirtækja, starfsfólk í símakynlífssölu, nektardansara, leikara og fyrirsætur í klámi og svo framvegis. Í Danmörku hafa þessir hagsmunaaðilar fylkt liði í Sexarbejdernes Interesseorganisation, sem samsvarar samtökunum sem í „Höllinni“ eru nefnd „Sexarbejdere i Danmark“. SIO hefur þrýst á um að það verði löglegt að hagnast á vændi annarra.

Hugtakið „starfsfólk í kynlífsþjónustu“ er þannig bæði pólitísks eðlis, þ.e. felur í sér að það teljist eðlilegt að líta á vændi sem hverja aðra atvinnugrein, og um leið afar teygjanlegt hugtak sem nær yfir fjölda fólks sem stundar ekki endilega sjálft vændi. Það er í það minnsta ljóst að fjöldi danskra vændiskvenna og -karla fær sjaldan eða aldrei að lýsa reynslu sinni í umræðunni í samfélaginu. Þetta á einkum við um konur og karla sem andmæla málflutningi SIO, þar sem þau eru hætt í vændi og telja að vændið hafi falið í sér misnotkun á þeim. Það er þeirra reynsla sem löggjöfinni ber að byggja á. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hvernig konur sem eru hættar í vændi lýsa reynslu sinni geta gert það hér eða á þessari bloggsíðu.

Helene frá SD fullyrðir að það séu aðeins 200 meðlimir í samtökunum vegna þess að það sé svo mikið feimnismál að gerast opinberlega virkur meðlimur. SATT?

SKÁLDAÐ. Samfélagsleg fordæming er ekki nægileg skýring á fáum meðlimum. Þegar fólk skráir sig í SIO – sem er fyrirmyndin að „SD“ – er hægt að njóta nafnleyndar og í lögum samtakanna segir að allir meðlimir eigi rétt á nafnleynd til að vernda sig sjálfa og ekki síður fjölskyldur sínar og nærsamfélag fyrir fjandsamlegum viðhorfum og rótgrónum fordómum. Þá segir í lögum samtakanna: „Meðlimum ber skilyrðislaust skylda til að halda trúnaði hver við annan. Brot á þagnarskyldu varðar brottrekstur.“ Ástæðurnar fyrir fæð meðlima SIO gætu verið aðrar, til dæmis að meira en  helmingur þeirra sem stundar vændi í Danmörku eru af erlendum uppruna; það ríkir lítil samstaða meðal vændisfólks í Danmörku um það baráttumál SIO að lögleiða vændismiðlun [v] og margir sem stunda vændi vilja ekki vera í stéttarfélagi eða borga skatt og virðisaukaskatt, eins og reynsla Þjóðverja og Hollendinga sýnir. Fámenni í stéttarfélögum vændisfólks í þeim löndum sýnir greinilega að röksemdin um að lögleiðing vændismiðlunar leiði til „bætts skipulags“ og „stéttarfélagsaðildar“ stenst ekki.  Aðeins vændismiðlarar (hórmangarar, melludólgar) – bissnessmennirnir, löglegir sem ólöglegir – græða á þessu „bætta“ skipulagi.

Erik staðhæfir að rannsókn sýni að götuvændi í Svíþjóð hafi aukist eftir að Svíar gerðu vændiskaup ólögleg, að tilkynningum um ofbeldi hafi fjölgað gífurlega og að lögin skapi gróðrarstíu fyrir milliliði og dólga. SATT?

SKÁLDAÐ. Raunar er þessu þveröfugt farið. Samkvæmt mati embættis ríkissaksóknara í Svíþjóð á sænsku vændislögunum frá 2010, hefur götuvændi í Svíþjóð minnkað um helming og fjöldi vændiskvenna hefur staðið í stað, hugsanlega fækkað örlítið. Ofbeldið hefur ekki aukist með tilkomu vændislaganna og mansal er miklu minna en í sambærilegum löndum [vi]. Ríkissaksóknari telur að bann við kaupum á kynlífsþjónustu hafi haft tilætluð áhrif og sé mikilvægt verkfæri í forvörnum og baráttu gegn vændi.

Skjáskot af fréttasíðunni newser.com, nóvember 2007

Í nóvember 2012 ályktaði hegningarlagaráð danska dómsmálaráðuneytisins um kynferðisafbrot og áttu stjórnmálamenn að hafa ályktunina að leiðarljósi í sambandi við væntanlegar breytingar á kynferðisafbrotakafla hegningarlaganna, en undir hann heyrir einnig vændi. Í ályktun ráðsins  koma fram sömu fullyrðingar um sænsku lögin og Erik setur fram í „Höllinni“. En þær eru rangar. Það er neyðarlegt þar sem ráðið er talið skipað helstu lögspekingum landsins. Í stað staðreynda úr mati Svía á kynlífskaupalögunum, hefur það sett inn viðbót með ótal röngum upplýsingum.

Stjórnvöld hafa ákveðið að fara eftir tillögum ráðsins og gera vændiskaup lögleg á grunni misvísandi upplýsinga. Helstu sérfræðingar Svía um vændi og mansal vísuðu á bug röksemdum stjórnvalda fyrir því að setja ekki þessi lög í Danmörku, þegar dómsmálaráðherra kynnti ákvörðun ríkisstjórnarinnar 21. nóvember 2011 [vii].

Í þættinum Mormors Bordel  („Hóruhúsið hennar ömmu“, DR TV2) [viii] fóru Karen Thisted og Suzanne Bjerrehus til Svíþjóðar og fylgdu lögreglu eftir á eftirlitsferð í leit að götuvændiskonum. Þegar þær fundu loks, eftir langa leit, tvær erlendar götuvændiskonur reyndust þær hvorki vera í felum inni í porti eða óttast lögregluna, heldur sögðust líta á lögregluna sem lífverði sína. Þetta traust á lögreglunni stafar af því að sænska lögreglan starfar á þeim forsendum að vændi sé ofbeldi gagnvart konum og að sænsku vændislögin byggist á því að kaupendurnir séu brotlegir en  ekki vændiskonurnar. Því eru vændiskonur í Svíþjóð ósmeykar við lögregluna og lögreglan sýnir þeim virðingu. Í Danmörku er hins vegar iðulega farið illa með útlendar vændiskonur. Þær eru handteknar, yfirheyrðar og mörgum er vísað úr landi. Sænsku vændislögin hafa haft margs konar jákvæð áhrif, til dæmis  hefur vændiskaupendum fækkað um rúman þriðjung og lögin hafa auðveldað konum að hætta í vændi, svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem vilja kynna sér sænsku löggjöfina og áhrif hennar betur geta aflað sér upplýsinga hér: http://kortlink.dk/bzsk.

Birgitte Nyborg staðhæfir að rannsóknir sýni að það sé hættulegra nú en áður að stunda vændi í Noregi og Svíþjóð. SATT?

SKÁLDAÐ. Ekkert bendir til þess. Pro Sentret í Osló gaf út skýrsluna „Farlige forbindelser“ (2012) [ix], sem átti að sýna að ofbeldi hefði aukist, einkum gagnvart götuvændiskonum, síðan vændiskaup voru bönnuð með lögum í Noregi 2009. Í viðtali við danska ríkisútvarpið viðurkenndi höfundur skýrslunnar að niðurstöðurnar væru rangar, skýrslan uppfyllti ekki vísindalegar kröfur, meðal annars vegna fárra svarenda, og að einnig vantaði marktækan samanburðarhóp.

Pro Sentret  hefur einnig þurft að draga í land með fullyrðingar sínar innan Noregs. Því miður hafa röngu niðurstöðurnar farið víða um heim og orðið að eins konar „sannleik“ sem talsmenn þrýstihópa um kynlífsþjónustu á alþjóðlegum vettvangi  nota til að sannfæra stjórnmálamenn og aðra um að vændislöggöf auki ofbeldi gagnvart vændiskonum. Engu að síður er þetta beinlínis rangt.

Tölurnar fóru víða. En hvað fólst svo í þeim? Jú, ofbeldið hefði aukist úr 52% í 59%. Merkilegt má þó telja að dregið hefur úr næstum öllu grófu ofbeldi frá því að vændislögin voru sett. Nauðgunum hefur fækkað úr 29% í 15%, eða um næstum helming, barsmíðum með krepptum hnefa úr 29% í 18% en örlítil aukning hefur orðið á óvelkomnu þukli, hrákum og skammaryrðum.

Skýrslan segir ekki annað en það sem vitað var fyrir. Kynlífskaupendur beita vændiskonur ofbeldi og þess vegna er bannað með lögum að kaupa kynlíf í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi. Viðurkennt er að vændi sé kynferðisofbeldi. Eitt það hættulegasta sem kona getur tekið sér fyrir hendur er að stunda vændi. Einnig kemur fram í skýrslunni að frá setningu laganna hefur kynlífskaupendum fækkað, enda var það tilgangurinn. Því er athyglisvert að margir stjórnmálamenn, hegningarlagaráðið, SIO og fleiri halda öðru fram.

En hvers vegna er Pro Sentret svona mikið í mun að gera norsku vændislögin tortryggileg? Jú, Pro Sentret hefur í rúm 20 ár barist fyrir vændi sem kynlífsvinnu og lagðist mjög gegn norsku vændislögunum. Pro Sentret er fræðslumiðstöð á vegum ríkis og bæjar en vinnur þrátt fyrir það opinskátt í bága við landslög. Miðstöðin býður þeim sem vilja hætta í vændi engin úrræði. Slíkrar hjálpar þarf að leita annars staðar.

Kærasti Birgitte Nyborg, Englendingurinn Jeremy, segir: „Maður kaupir þjónustu. Maður kaupir ekki manneskju.“ SATT?

Birgitte og Jeremy – að ræða muninn á ást og kynlífi?

SKÁLDAÐ – EÐA Í SKÁSTA FALLI ÓSKHYGGJA. Við lestur umsagna kynlífskaupenda um vændiskonur, því til eru vefsíður [x] þar sem karlmenn miðla reynslu sinni af konum sem þeir hafa keypt, má sjá að ef vændiskonan er of fagmannleg, viðheldur fjarlægð og gerir aðeins það sem kaupandinn biður um, án þess að hann fái full afnot af líkama hennar, fær hún neikvæðar umsagnir.

Ef þetta snerist bara um að kaupa kynlífsþjónustu ætti litlu að skipta hver vændiskonan er, aldur hennar, stærð, kynþáttur, rass eða brjóstastærð. Svo er ekki. Kynlífskaupandinn kaupir miklu meira en tiltekna þjónustu. Hann kaupir tálmynd og hún á að vera nákvæmlega eins og hann ímyndaði sér hana. Margir kynlífskaupendur standa ekki við samkomulagið sem þeir gerðu við konuna, taka kannski af sér smokkinn í miðjum samförum, hárreita konuna eða bíta hana í brjóstin.

Kynlífskaupendur kaupa aðgang að öllum líkama manneskjunnar og andlegrar getu hennar til að skapa tálmyndina sem borgað er fyrir. Ef vændiskonan getur ekki uppfyllt þessar kröfur, á hún á hættu slæmar umsagnir á netinu og/eða að missa viðskiptavini.

Katrine telur að „Værestedet“, athvarf og hjálparmiðstöð fyrir fólk í vændi, fari rangt með tölur til að fá meiri fjárveitingu. SATT?

SKÁLDAÐ. Enginn vafi er á því að hér er vísað til „Hreiðursins“ á Vesterbro. Hreiðrið hefur ítrekað útskýrt villandi tölur sem voru leiðréttar þegar árið 2008 [xi], eða fyrir fimm árum. Þær stöfuðu af ómarkvissri talningaraðferð en ekki svikum eins og ýjað er að í „Höllinni“. Þessi málflutningur er hluti af virkri og kappsfullri árásarherferð andstæðinga Hreiðursins og gerir lítið úr áralangri reynslu þess af konum í vændi og skaðanum sem þær konur hafa beðið af því að stunda vændi. Í rauninni snýst þetta ekki um tölur, heldur er það tilraun til að koma höggi á stofnun sem í mörg ár hefur talað máli þeirra vændiskvenna sem verst stendur hjá og telur m.a. að bann við vændiskaupum sé ein af mörgum leiðum til að draga úr misnotkun kvenna í vændi.

Helene segir: Það er munur á kynlífi og ást. Getur sú fullyrðing talist SÖNN?

BÆÐI OG. Já, milli tveggja jafnrétthárra einstaklinga er eflaust til kynlíf án ástar og öfugt. En sú er ekki raunin í vændi. Vændi er verslun þar sem annar aðilinn fær kynlíf en hinn aðilinn er til ráðstöfunar og ber að veita kynlíf gegn gjaldi. Valdahlutföllin eru ójöfn og sá sem borgar ræður ferðinni. Sumar virkar vændiskonur, þær sem kalla sig kynlífsþjóna eða kynlífsstarfsmenn, vilja telja fólki trú um að svona sé þetta ekki og halda því fram að vændi sé meinlaust, sexí og skaðlaust. Fjölmargar frásagnir kvenna sem hafa hætt vændi eru á aðra lund.  Þeim gengur meðal annars illa að greina á milli „vinnukynlífs“ og kynlífs með maka í einkalífinu. Af sömu ástæðum eiga margar vændiskonur ekki maka, eða geta ekki notið kynlífs með maka sínum.

Það er kallað „coping“ þegar vændiskonan aðskilur sig líkamanum á meðan hún stundar kynlíf með kaupandanum og það er algeng og nauðsynleg sjálfsbjargarviðleitni vændiskvenna til að geta afborið vændið. Þessi aðferð getur valdið vandamálum í einkalífinu því sífellt erfiðara verður að kveikja og slökkva á tilfinningum sínum og líkamskenndum.

Um „coping“ og andlega kulnun má lesa í SFI-skýrslunni „Vejen ud“ [xii] og sálfræðingur hjá Svanegrupperne  hefur skrifað um vandamál kvenna sem reyna að hætta í vændi. Við gerð skýrslunnar „Prostitution: beskrivning, analys, förslag till åtgärder“ [xiii] frá 1981 byggðu Svíar á fjölmörgum frásögnum kvenna sem hættar voru í vændi, eða u.þ.b. 140 bls. af 650. Sænski vísindamaðurinn sem mætir á málþingið í „Höllinni“ veit því sínu viti – þrátt fyrir að handritshöfundarnir kjósi að sýna hann í skoplegu ljósi, eins og Danir reyndar hafa gaman af að gera þegar Svíar eru annars vegar.

Aðstæður vændisfólks batna ef vændismiðlun verður lögleidd.  SATT?

SKÁLDAÐ. Stjórnmálamennirnir í „Borgen“ ákváðu að berjast fyrir „bættum aðstæðum“ vændisfólks og „réttindum kynlífsþjóna“.  En lögleiðing vændismiðlunar bætir ekki aðstæður vændisfólks.  Hún myndi þvert á móti leiða til þess að það verði auðveldara fyrir dólga og aðra sem standa að vændisstarfsemi að græða á vændissölu annarra.  Eins yrði mun auðveldara fyrir þá sem stunda mansal að nota lögleg vændishús sem yfirvarp fyrir ólöglegum kynlífsiðnaði.

Mótmælaganga í Kaupmannahöfn á vegum 8. marts-initiativet, 8. mars 2011

Þegar hagsmunaaðilar í kynlífsiðnaði nota hugtakið „réttindi fyrir starfsfólk í kynlífsþjónustu” er í raun átt við réttinn til að reka vændishús.  „Réttindin“ ná yfir þá baráttu hagsmunaaðila kynlífsiðnaðarins að afnema bann við milligöngu um vændissölu þannig að það verði löglegt að hafa tekjur af vændissölu annarra. Það myndi gera vændisfólki kleift að ráða öryggisverði og annað starfsfólk, s.s. bílstjóra, rekstrarstjóra o.fl. í vændishúsin.  Með þessu viðskiptalíkani mælir danska hegningarlagaráðið einnig, en það er algerlega óskiljanlegt í ljósi þess að þessi tilhögun hefur ekki reynst bæta aðstæður vændisfólks heldur þvert á móti leitt af sér aukið mansal í þeim löndum þar sem hún er við lýði.

Verðir, bílstjórar og annað „aðstoðarfólk“ hefur nú þegar tekjur af vændissölu annarra, gjarnan í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi.  Kasper Vetter, fyrrum meðlimur í Vítisenglunum (Hells Angels) í Danmörku, hefur meðal annars skýrt ítarlega frá starfsemi  „Red Light Crew“ Vítisengla og lýst því hvernig rekstur vændishúsa er í raun hornsteinninn að skipulagðri glæpastarfsemi [xiv].

Ef bann við vændismiðlun verður afnumið verða aðilar úr skipulagðri glæpastarfsemi löglegir þátttakendur í viðskiptalífinu.  Þannig yrði opnað upp á gátt fyrir þeim sem standa að vændisstarfsemi og mansali, þeir myndu festa enn betur rætur í Danmörku og gætu stækkað markaðinn fyrir vændisfólk, þar á meðal þolendur mansals.

Nú þegar er yfir helmingur vændisfólks í Danmörku af erlendum uppruna.  Verði vændishúsarekstur lögleiddur og vændi gert að almennri atvinnustarfsemi liggur vændisfólk enn betur við höggi en nú er. Lögin um milligöngu um vændi eru hugsuð sem vernd gegn misnotkun af dólgum og öðrum milligöngumönnum, ekki sem hindrun.

Meirihluti þess fjár sem aflað er í vændi er ekki gefinn upp til skatts.  Menn borga ekki með bankakorti á vændishúsum.  Það mun ekki breytast þótt vændismiðlun verði lögleidd. Leyfi til vændisfólks leysa ekki þetta vandamál og ekki heldur eftirlit stjórnvalda, nema lögreglan héldi uppi sérstöku eftirliti með vændishúsum til að telja fjölda vændiskaupenda á tilteknu tímabili til að meta viðskiptaumsvifin.  Kynlífsiðnaðurinn er og hefur alltaf verið nátengdur glæpastarfsemi.  Það verður hann líka framvegis, einkum ef vændismiðlun verður lögleidd, því þá mun normalísering vændiskaupa aukast, sem svo aftur leiðir til aukinnar eftirspurnar. Það er fjöldi vændiskaupenda sem ræður því hve mikið er hægt að þéna á vændi, bæði sem vændiskona/-karl og milligöngumaður.  Þess vegna  hefur umsvifafólk í vændisstarfsemi mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að  því að aflétta banni við milligöngu.

Þá má einnig spyrja sig að því hvort við getum sætt okkur við vinnustaði í Danmörku þar sem starfsfólk þarfnast verndar lífvarða og eftirlitsmyndavéla og mikil hætta er á líkamlegum og andlegum áverkum sem eru skaðlegir kynverund starfsfólks og hæfni til náinna tengsla við annað fólk.

Sú staðreynd að lögleiðing og bættar aðstæður fjarlægja ekki ofbeldishneigða kynlífskaupendur eða gera vændi öruggara blasir við þegar flett er í „Tips and advice for women who offer sex service“, eins konar handbók fyrir vændisfólk í Austurríki, þar sem milliganga er lögleg og vændi er stundað við svokallaðar „stýrðar aðstæður“ [xv]:

Til að tryggja öryggi þitt skaltu sjá til þess að eftirfarandi útbúnaður sé innanhúss: myndavélar við innganginn, fastráðnir dyraverðir; ólæstur neyðarútgangur með hurð sem opnast innan frá; herbergi og gangar án hindrana, svo auðvelt sé að fá yfirsýn; engir þungir eða oddhvassir hlutir ættu að vera í herberginu, af því að slíku er hægt að beita sem vopni gegn þér; öryggishnappar á dyrum og rúmum hússins; og láttu manneskju sem þú treystir fá nákvæmar upplýsingar um vinnutímann og heimilisfang á barnum eða klúbbnum, skriflega (til dæmis með textaskilaboðum).

Jafnframt er tekið fram að við sjálf vændisviðskiptin eigi að:

… gæta þess að dyrnar séu ekki læstar; læstum dyrum að herbergjum fylgir mikil áhætta. Hópur kynlífsstarfsfólks ætti ennfremur að koma sér saman um að opna einungis dyr sem aðrir hafa lokað þegar neyðartilvik koma upp, svo að ekki þurfi að læsa dyrum; farðu inn á baðherbergið með viðskiptavininum, fylgstu með honum allan tímann: aldrei þræta sjálf(ur) við óánægðan viðskiptavin heldur opnaðu herbergið og kallaði á starfsfélaga til að þið getið í sameiningu talað hann niður.

Þetta er einungis sýnishorn af ráðleggingum fyrir vændisfólk í Austurríki.  Til eru svipuð ráð fyrir vændisfólk í Ástralíu og öðrum löndum sem hafa lögleitt vændismiðlun.  Þetta sýnir að vændi er ekki bara venjuleg vinna.  Í Danmörku er sem betur fer ekki hefð fyrir því að félagsmenn stéttarfélaga þurfi að vinna við skilyrði sem þessi.  Auk þess myndu slíkar vinnuaðstæður varla hljóta viðurkenningu innan ramma núverandi vinnustaðalöggjafar og henni yrði því að breyta, svo að allt starfsfólk yrði framvegis að sætta sig við ofangreindar aðstæður og líta á þær sem eðlilegan hluta af vinnudeginum án þess að hafa kost á að leggja fram kæru [xvi].

En hver er reynslan í þeim löndum þar sem vændismiðlun hefur verið lögleidd? Inge Schnepers, opinber saksóknari í Rotterdam sagði árið 2011: „Með lögleiðingu vændishúsa árið 2000 átti að gera vændi að „eðlilegri“ atvinnugrein og fá skýrari mynd af skuggahliðum þess. Við, sem samfélag, gerðum gluggavændi að leyfisskyldu starfi sem við héldum að við gætum stjórnað. En það var einmitt í gluggavændinu sem allt fór á versta veg, eins og sást með skýrum hætti í SNEEP-aðgerðinni. Í leyfisskyldu gluggavændi tíðkaðist mansal, þvinganir, fjárkúganir, misnotkun og gróft ofbeldi.“ [xvii] Frekari upplýsingar um aðstæður í Hollandi má t.d. finna í samantekt vísindakonunnar Karin Werkman eða á þessari bloggsíðu.

Um ástandið í Þýskalandi, þar sem meira en 400.000 einstaklingar vinna við vændi og þar sem mansal er farið úr böndunum, sagði talsmaður stjórnarflokks Angelu Merkel, Hans-Peter Uhl, þann 4. janúar 2013 m.a. að lögleiðingin hafi leitt til aukins mansals og þvingunar til vændis.  Ríkisstjórn hans vill því auka eftirlit með kynlífsiðnaðinum með hertri löggjöf. [xviii]

Árið 2010 sagði Jörg Zierke forseti BKA (embætti svipað ríkislögreglustjóra í Danmörku og hér á landi) nákvæmlega það sama. Hann sagði þar að auki að fimmti hver þolandi mansals í Þýskalandi væri nú undir sjálfræðisaldri og að þeir sem stæðu að baki starfseminni væru mjög kaldrifjaðir og beittu ofbeldi og líflátshótunum til þess að þvinga fólk til vændis [xix]. John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði í nóvember 2012 að honum fyndist ekki að nýsjálensku vændisumbæturnar frá 2003 hefðu virkað. Þær hefðu ekki dregið úr götuvændi eða vændi einstaklinga undir sjálfræðisaldri, sem þó var markmiðið með lagasetningunni.  Key segir um nýsjálenska módelið: „Árangurinn af því hefur verið afar takmarkaður, ef einhver.“ [xx]

Í Danmörku stendur þrýstihópurinn Seksualpolitisk Forum fyrir kraftmikilli markaðssetningu á nýsjálenska líkaninu sem fyrirmyndarlíkani sem við ættum einnig að innleiða með þeim rökum að það leiði til „ordnede forhold“ – eða stýrðra aðstæðna. Margir fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa tekið þeirri fullyrðingu gagnrýnislaust.  Reyndin er sú að nýsjálenska líkanið er  útfært þannig að yfirvöld hafa enga yfirsýn yfir staðsetningu vændishúsa, lögreglan getur ekki haft eftirlit með vændishúsum án dómsúrskurðar, vændishús með færri en fjóra starfsmenn þurfa ekki starfsleyfi, lítið eftirlit er með leyfum stærri vændishúsa og heimsóknir heilbrigðisstarfsfólks eiga sér aðeins stað ef læknar sveitarfélaganna komast sjálfir að því hvar vændishúsin er að finna og ákveða að eigin frumkvæði að heimsækja þau. Það gerist nánast aldrei.

Það er þess háttar lagasetning sem Íhaldsflokkurinn vill nú að verði tekin upp í Danmörku.  8.mars-initiativet tekur þá afstöðu að vændi sé ofbeldi á fólki.  Við lítum svo á að vændi sé kynferðisleg misnotkun og að kaupendur vændis beri ábyrgð á þeirri misnotkun. Þess vegna á að gera það ólöglegt að kaupa vændi, samhliða því sem samfélagið beitir aðgerðum til þess að hjálpa fólki að komast úr vændi.

 

Með kærri kveðju, 8. marts-initiativet, 3. febrúar 2012

 

PS: Þeir sem vilja kynna sér  frekar afstöðu okkar, skoða niðurstöður rannsókna, lesa greinar og margt fleira um málefnið geta farið á heimasíðu okkar, www.8marts.dk.

 

Þýðendur: Gísli Ásgeirsson, Guðríður Erna Magnúsdóttir, Halla Sverrisdóttir. Með góðfúslegu leyfi 8. marts-initiativet. Frumtextann má nálgast hér.

[vi] Förbud mot köp av sexuell tjänst. En utvärdering 1999-2008. http://regeringen.se/content/1/c6/14/91/42/ed1c91ad.pdf

[x] Dæmi um slíkar síður er t.d. www.hedomax.com

[xiii] https://biblioteket.stockholm.se/titel/126590. Ekki aðgengileg á rafrænu formi.

[xvii] Ibid.

 

3 athugasemdir við “Satt og skáldað í Höllinni

  1. Bakvísun: Sænska leiðin – virkar hún í framkvæmd? | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.