
myndin er af vefsíðu sænska sjónvarpsins, http://www.svt.se
„Kúnnarnir leggja oft þarna,“ segir lögreglumaðurinn við Joan Smith og bendir á bíl sem lagt er uppi á hæð. „Við bíðum smá stund, stökkvum svo út og hlaupum upp til þeirra.“
Það er febrúarkvöld í Stokkhólmi og Joan Smith, blaðakona hjá breska dagblaðinu The Independent er stödd í ómerktum lögreglubíl sem er í eftirlitsferð í hverfi í útjaðri Stokkhólms. Tilgangur ferðarinnar er að kynna sér hvernig sænska lögreglan framfylgir víðfrægum, og ekki óumdeildum, þarlendum lögum sem banna kaup á vændi en tryggja þeim sem selur vændið refsileysi.
„Það sem gerist næst er skólabókardæmi um það hvernig sænsku lögin sem banna vændiskaup virka í reynd,“ skrifar Smith. „Ökumaður bílsins hefur keypt vændiskonu og ekið henni á þennan afvikna stað í þeim tilgangi hafa kynmök við hana. Hann er handtekinn á staðnum og honum boðnir tveir kostir: að játa brotið umsvifalaust og greiða sekt, sem er lögð á í samræmi við tekjustofn hins brotlega, eða fara fyrir dóm og eiga á hættu opinbert umtal. Konan, sem hefur engin lög brotið, fær boð um félagslegan og faglegan stuðning við að hætta í vændi, ef hún vill notfæra sér hann. Að öðru leyti er hún laus allra mála.“
Ferðafélagi og viðmælandi blaðakonunnar þetta kvöld er sænskur lögreglumaður sem hún upplifir augljóslega ekki, við fyrstu sýn, sem dæmigerðan laganna vörð – hann er er ungur, þeldökkur, krúnurakaður og í gallabuxum („í útliti líkist hann fremur framkvæmdastjóra hjá tónlistarfyrirtæki en löggu“). En þessi lögreglumaður, Simon Haggstrom, er yfirmaður vændisdeildar Stokkhólmslögreglunnar og segir blaðakonunni með stolti að hann sé persónulega búinn að handtaka yfir 600 karla í krafti sænsku vændislaganna. „Að vera handtekinn fyrir vændiskaup er eitt það skammarlegasta sem getur komið fyrir menn,“ segir Haggstrom við Smith:
Við höfum handtekið karlmenn af öllu tagi – allt frá dópistum upp í stjórnmálamenn. Einu sinni handtók ég prest sem sagði mér að nú væri ég að eyðileggja líf hans. Ég sagði honum að það væri ekki ég sem hefði eyðilagt líf hans heldur hann sjálfur.
Þegar sænsk yfirvöld ákváðu, árið 1999, að snúa á haus ævagamalli hefð fyrir því að fyrirlíta og fordæma þá sem selja vændi og setja refsiábyrgðina og fordæminguna þess í stað á þá sem kaupa vændið vakti það gríðarlega athygli og undrun víða um heim. Flestar aðrar þjóðir voru á þeim tíma að keppast við að sannfæra sjálfar sig um að það væri heillavænlegast að lögleiða vændi með öllu og hugmyndafræðin að baki sænsku laganna kom þeim fyrir sjónir sem nánast byltingarkennd hugmynd: að vændi væri glæpur sem fæli í sér aðkomu tveggja aðila – kaupanda og seljanda – og að fram til þessa hefði verið lögð áhersla á að handtaka rangan aðila.

Kajsa Wahlberg
Kajsa Wahlberg starfar innan sænsku lögreglunnar og er auk þess sérlegur rannsóknaraðili á sviði mansals og vændis fyrir sænsk yfirvöld. Joan Smith hittir hana í þessari sömu Svíþjóðarheimsókn og spyr hana hvernig lagasetningunni hafi verið tekið í upphafi. Wahlberg segir að fyrstu viðbrögðin hafi verið æði neikvæð:
Ég man eftir lögreglumanni frá öðru landi sem gekk svo langt að saka okkur Svía um „nasistaaðferðir“. En margir innlendir aðilar voru líka mjög efins um hugmyndina. Innan lögreglunnar ríkti gremja og menn voru ráðvilltir og ringlaðir. En þetta hefur allt gerbreyst. Þegar ég lít um öxl finnst mér að veigamesta breytingin hafi orðið þegar okkur tókst að fá karlmennina í lið með okkur. Vandamálið er jú kynbundið. Karlmenn kaupa konur. Eitt af grundvallaratriðunum er að lögreglumenn fái fræðslu og þjálfun í þessum málaflokki. 1)
Wahlberg útskýrir fyrir blaðakonunni bresku hvaða ástæður geti legið að baki því að konur verða vændiskonur og nefnir fjölda rannsókna sem sýna tengsl við kynferðislega misnotkun í bernsku og misnotkun á áfengi og eiturlyfjum. Og hún telur fullyrðingar um að í einhverjum tilfellum sé það „val“ að stunda vændi í besta falli sprottnar af fáfræði:
Þessar konur hafa enga trú á eigin færni eða getu. Þær hafa lent utangarðs, þær hafa verið vanræktar, þær beita ýmsum aðferðum til að fá einhverja athygli. Þetta er ekki í neinum skilningi upplýst val fullorðinnar manneskju.
Það sem Smith þykir einna merkilegast að fregna er hversu mjög afstaða almennings til laganna hefur breyst. Viðmót almennings var í upphafi mjög neikvætt en hefur smátt og smátt orðið jákvæðara og í dag styðja 70% landsmanna lögin.
„Okkur hefur tekist að breyta hugarfari sænsku þjóðarinnar,“ segir Simon Haggstrom, „og við höfum einnig upplifað hugarfarsbreytingu meðal lögreglumanna af eldri kynslóðinni.“
Joan Smith ræðir einnig við fleiri lögreglumenn í Svíþjóðarheimsókninni, þar á meðal einn lögreglumann sem starfar „undercover“ og hefur verið í lögreglunni í 37 ár. Sá man vel hvað það kom honum mikið á óvart þegar hann upplifði áhrif lagasetningarinnar. „Þegar lögin tóku gildi tæmdust göturnar í sex mánuði,“ segir hann.**
Í dag er þessi þrautreyndi lögreglumaður einn af áköfustu stuðningsmönnum laganna, enda hefur hann séð með eigin augum að á stöðum þar sem 70 til 80 konur seldu sig úti á götu má nú sjá fimm til tíu að vetri til og um það bil 25 yfir sumarið. Í Malmö og Gautaborg er nokkur hópur kvenna sem stundar vændi á götum úti en sænsku tölurnar komast hvergi nærri fjöldanum í Danmörku, þar sem vændi hefur verið lögleitt með öllu. Íbúar í Danmörku eru helmingi færri en í Svíþjóð en rannsóknir benda til þess að rúmlega 1.400 konur stundi götuvændi í Danmörku.
Simon Haggstrom segir The Independent einnig að lagasetningin hafi haft fleiri breytingar í för með sér. Fyrir árið 1999 voru flestar götuvændiskonurnar í Stokkhólmi sænskar, að hans sögn. Nú séu þær sem stunda götuvændi aðallega frá Eystrarsaltslöndunum eða Afríku og hafi flestar stundað vændi í fleiri löndum áður en til Svíþjóðar var komið. Þessar konur segja starfsmönnunum í deild Haggstrom að þær eigi mun fremur á hættu að vera beittar ofbeldi í öðrum löndum, til að mynda þeim löndum sem hafa lögleitt vændi, en í Svíþjóð.
Eins og margir minnast var ein helsta röksemdin sem haldið var á lofti gegn lagasetningunni sú að með lögunum yrði vændi hættulegra, sem og að vændið myndi einfaldlega verða ósýnilegra og vændiskonurnar berskjaldaðri. Joan Smith ræðir þetta við nokkra sænska lögreglumenn, sem allir fullyrða að hvort tveggja séu goðsagnir sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.
Melludólgar verða nú að auglýsa vöruna og hvar hana er að finna. Við höfum sérþjálfaða starfsmenn sem fylgjast með netinu og lögreglan hefur heimild til að hlera símtöl ef ástæða þykir til og hefur þannig komist á snoðir um að melludólgar telja Svíþjóð ekki lengur arðbært markaðssvæði. Jafnvel þótt þeir sleppi sjálfir getum við handtekið viðskiptavinina. Þessir menn eru að sækjast eftir gróða. Reikningsdæmið reiknar sig í rauninni sjálft.
– Simon Haggstrom
Þessi orð sænska lögreglumannsins eru í raun endurómur af því sem kemur fram í yfirlýsingu Femínistafélags Íslands frá 16. 8. 2012, þar sem fjallað er um þær fullyrðingar að sænska leiðin hafi orðið til að ýta vændi enn lengra undir yfirborðið er svarað. Í yfirlýsingunni segir m.a.:
Vert er að benda á að það er á ábyrgð lögreglunnar að taka á undirheimastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi með vændi og mansal. Klám- og vændisiðnaður blómstrar þegar vændiskaupendur geta gengið út frá því að ekki komist upp um þá. Vændismarkaðurinn veltir gífurlegum fjármunum en svo salan geti átt sér stað getur vændi aldrei verið svo hulið að kaupandinn finni það ekki. Ef það er nógu sýnilegt fyrir hann, þá er það nógu sýnilegt fyrir lögregluna. Þetta hafa Stígamót og aðrir fagaðilar ítrekað bent á og gagnrýnt lögregluyfirvöld fyrir að taka ekki á þessum lögbrotum sem viðgangast, og sýna málaflokknum áhugaleysi [ … ] Sænska leiðin var skref í rétta átt og íslenskt samfélag má vera stolt af því. En lagabókstafurinn er lítils virði einn og sér ef lögum er ekki framfylgt, og enn er langt í land. Femínistafélagið harmar hversu lítið hefur reynt á þessi lög hér á landi en það er ljóst að þeim hefur ekki verið framfylgt. Eftirfylgni lögreglunnar er verulega ábótavant og brýn þörf er á auknum mannskap og sérstakri deild sem sérhæfir sig í þessum málum innan hennar.
Smith spyr sig hvort „sænska leiðin“ geti virkað í öðrum löndum og nefnir að Noregur og Íslandi hafi þegar sett lög um bann við vændiskaupum og að í Bretlandi sé löggjafinn byrjaður að feta sig út á leiðina að því að glæpavæða vændiskaupandann; þar í landi er nú þegar bannað með lögum að kaupa kynlíf af einhverjum sem er yngri en 18 ára eða af manneskju sem sætir þvingun af melludólgi eða mansalsmönnum. Enn sem komið er hefur þó aðeins verið sakfellt í örfáum slíkum málum, sem bendir til þess að lögreglumenn í Bretlandi hafi ekki framfylgt lögunum af sama þrótti og kollegar þeirra í Svíþjóð. Haggstrom tekur undir þá skoðun Wahlberg að það sé alls ekki nóg að setja bara lög: „Það verður að tryggja löggæsluaðilum fjármagn og mannafla. Það verður að sjá til þess að það séu lögreglumenn til staðar sem geta mætt á vettvang og framfylgt lögunum með því að handtaka þá brotlegu.“ 2)
Í Danmörku var horfið frá lagasetningu um bann við vændiskaupum eftir miklar deilur og umræður, enda er óhætt að fullyrða að hvergi á Norðurlöndunum sé normalísering vændis jafn rík og í Danmörku (eins og hefur raunar verið fjallað um hér á knuz.is, nú síðast hér). Tvær konur sem báðar starfa með ungum stúlkum sem standa höllum fæti félagslega og efnahagslega rituðu að því tilefni opið bréf í dagblaðið Politiken þar sem þær hvöttu yfirvöld til að hafa í huga að ábyrgð þeirra væri mikil þegar kæmi að þeim félagslegu skilaboðum sem ungt fólk í dag fengi í samfélagi þar sem litið væri á vændi sem „valkost“. Í þeirra augum er spurningin um bann við vændiskaupum fyrst og fremst spurning um samfélagslegt siðferði – um þau skilaboð sem yfirvöld senda, ekki hvað síst ungu fólki.
Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála í Danmörku og ekki síður í Bretlandi, þar sem yfirvöld sæta síauknum þrýstingi um að feta í fótspor Svía, Norðmanna og Íslendinga og gera kaup á vændi refsiverð, en söluna refsilausa. Gavin Shuker, þingmaður fyrir Verkamannaflokkinn og formaður þingnefndar sem fjallar um vændi og mansal á alþjóðlegum grundvelli, lýsti því nýlega yfir í frétt í breska dagblaðinu The Guardian að núgildandi lög þjónuðu ekki tilgangi sínum, sem hlyti m.a. að vera að auka öryggi þeirra sem stunda vændi:
Það er alveg ljóst að löggjöfin eins og hún er í dag hefur brugðist konum og brugðist samfélaginu og að ríkisstjórnin verður að íhuga af alvöru hvort það að gera vændiskaup að glæpsamlegu athæfi gæti orðið til þess að draga úr eftirspurninni.
Efni í greininni úr umfjöllun Joan Smith sem birtist í dagblaðinu The Independent, 26. mars s.l. er þýtt og endursagt af Höllu Sverrisdóttur. Grein Smith í heild sinni er að finna hér.
1) Erindi sem Kajsa Wahlberg flutti á ráðstefnu um forvarnir og baráttu gegn mansali og vændi í Tékklandi árið 2009 má nálgast hér.
2) Ýmsar rannsóknir og greinargerðir um sænsku leiðina og framkvæmdaþátt löggæsluyfirvalda er t.d.að finna hér.
http://feministire.wordpress.com/2013/03/28/dont-ask-dont-tell-dont-listen-joan-smith-on-the-swedish-sex-trade-law/
Bakvísun: Ályktun Kvenréttindafélags Íslands um nýja ályktun Evrópuþingsins að kaup á vændi skuli bönnuð | Kvenréttindafélag Íslands