Tilvist okkar er byggð á tungumálinu – getunni til þess að tjá hugsanir okkar, tilfinningar og fyrirætlanir einhverjum sem skilur okkur. Börn læra tungumál án þess að þeim sé kennt það sérstaklega og dæmin hafa sýnt að þar sem fólk í sambýli skilur ekki hvort annað býr það einfaldlega til nýtt tungumál. Tungumál gerir okkur kleift að vinna saman að flóknum verkefnum. Við getum útskýrt fyrirætlanir og meira að segja sagt frá fyrirbærum sem enn eru ekki til en við ætlum að skapa. Við getum talað um hugmyndir.
En tungumálið mótar líka hugsun okkar. Tungumál hefur áhrif á það hvernig við upplifum heiminn. Orð og hugtök eru gildishlaðin, hlaðin gildum þeirra sem bjuggu þau til og ákváðu hvernig ætti að nota þau. Og þeir sem tala tungumálið hljóta að einhverju marki að gera innbyggða gildismatið í málinu að sínu, tungumálið innrætir þeim skoðanir. Og staðreyndin er sú að kvenfyrirlitning er bókstaflega byggð inn í tungumálið. Börn læra ósjálfrátt kvenfjandsamlegt tungumál, tungumál sem er ómögulegt að tala án þess að setja hið karlmannlega ofar hinu kvenlega. Ef einhver reynir það rekst sá hinn sami í sífellu á veggi.
Sjáið til dæmis setninguna á undan þessari. Hún er um ótilgreindan einstakling en hún er samt í karlkyni. Það er vegna þess að hið ómarkaða kyn í íslensku er karlkyn. Það þýðir að karlkynið er normið, kvenkynið er frávik. Málfræðilega karlkynið er nokkurskonar samkyn og á, samkvæmt málfræðibókum, að vísa hlutlaust til karla og kvenna. En málfræðilega kvenkynið á einungis við um konur. Þó eru örfáar undantekningar á þessari reglu, t.d. orðin lögga, hjálparhella, skytta og hetja, en það er áhugavert að velta því fyrir sér að þó þessi orð séu í kvenkyni þykir í sumum tilfellum þarft að taka sérstaklega fram ef þau eiga við konu, sbr. orðið kvenhetja (því einhverra hluta vegna þykir okkur það ólíklegt að hetja sé kvenkyns). Ef við vitum ekki kyn þess(!) sem um ræðir þá ber okkur, samkvæmt málfræðireglum, að tala um hann (!) í karlkyni. Þrátt fyrir að eiga þetta fína málfræðilega hvorugkyn.
Það er því kannski engin tilviljun að það hefur löngum þótt fyrir neðan virðingu karla að vera ávarpaðir í kvenkyni. En það er einungis í undantekningartilvikum sem það þykir niðrandi að karlgera konur, það er yfirleitt frekar upphafning ef eitthvað er. Dæmin um að starfsheiti í kvenkyni sé breytt í karlkyn eftir að karlar fara að flykkjast í stéttina eru mýmörg: hjúkrunarkonur heita nú hjúkrunarfræðingar, flugfreyjur flugþjónar og skúringakonur eru ræstitæknar. En konur eiga að una vel við að kallast alþingismenn, ráðherrar, rafvirkjar, lögfræðingar og flugmenn.
En það eru ekki bara málfræðireglurnar sem segja okkur hvaða sýn á kynin er innbyggð í málið. Það eru líka orðin og hvernig þau eru notuð. Það eru eiginleikarnir sem kynjunum eru ætlaðir í tungumálinu. Tökum nokkur dæmi: Drengskapur, karlmennska, bræðralag, frændsemi, föðurland. Sum þessara orða eru, þrátt fyrir að vísa beinlínis til karlmanna, notuð um konur. Þannig er stundum talað um að kona sé drengur góður eða sýni karlmennskuþor. Og rauðsokkurnar sjálfar sungu meira að segja um „jafnrétti og bræðralag“ í laginu Áfram stelpur. Ætli þeim hafi þótt orðið bræðralag fanga betur samkenndina og samstöðuna sem þær vildu breiða út á meðal kvenna en orðið systralag? Standa bræður betur saman en systur? Hefur orðavalið kannski eitthvað að gera með það að við tölum stundum um að ber sé hver að baki nema bróður eigi og fussum svo að konur séu nú bara konum verstar? Er kannski ekkert skrýtið að rauðsokkur hafi viljað hvetja konur til að hegða sér frekar eins og karlar en konur? Eða réttara sagt: Er kannski ekkert skrýtið að rauðsokkur hafi viljað hvetja konur til þess að hegða sér eins og tungumálið segir okkur að karlar hegði sér, frekar en eins og tungumálið segir okkur að konur hegði sér?
Í þessu samhengi er líka áhugavert að taka sömu hugtökin um karla annars vegar og konur hins vegar og stilla þeim upp hlið við hlið, t.d. gleðimaður og gleðikona. Gleðimaður er einhver sem finnst gaman að skemmta sér og gerir mikið af því. Hann er gaur sem er gaman að fá í partý. Gleðikona er hóra. Og það sem er ekki síður áhugavert er að í báðum tilvikum er gleðin karlmannsins. Hann er gleðimaður af því hann er alltaf svo glaður. Hún er gleðikona, ekki af því hún sé alltaf svo glöð í sínu vændi, heldur af því að hún gleður karlmanninn sem borgar fyrir að fá að ríða henni. Tungumálið hverfist um karlmanninn og upplifun hans. En oftar en ekki er kvenkyns hliðstæðan lítt merkingabær eða hreinlega ekki til. Hvernig skiljum við til að mynda orðin stúlkuskapur, kvenmennska, systralag, frænkusemi og móðurland? Ég braut lengi heilann og reyndi að finna algeng orð þar sem kvenkenndum eiginleikum er gert hærra undir höfði en hinum karlkenndu. Einu dæmin sem mér komu til hugar vísa til móðurlegra kennda kvenna: móðurmál, móðurást, móðurjörð. En svo er líka hægt að vera móðursjúkur og ekki þykir það fínt.
Og svo er það orðið maður. Það er tegundarheitið. Við eigum öll að heita menn. En samt þýðir maður yfirleitt bara karlmaður. Nema í undantekningartilvikum, eða þegar einstaklingur vísar til sjálfs sín í þriðju persónu og segir: „Maður veit náttúrulega ekki hvað maður á að taka til bragðs.“ Annars þýðir maður karlmaður nema í einstaka orðasamböndum og við hátíðleg tækifæri. Ef einhver gagnrýnir orðanotkunina er vísað til þess að konur séu nú líka menn. En ef sú er raunin, hvers vegna tölum við þá um eiginmenn og eiginkonur? Ef konur eru menn, þýðir eiginmaður þá ekki einfaldlega maki? Afhverju tala gagnkynhneigðir karlar ekki um konurnar sínar sem mennina sína? Að mennirnar þeirra séu óléttir? Hefur maður einhvern tíma fætt barn? (Og ef konur eru líka menn, ef maður þýðir kona, er gleðimaður þá líka hóra?)
Þegar það á virkilega að niðurlægja karlmann er hann kvengerður. Strákar eru sagðir „hlaupa eins og stelpur“, „kasta bolta eins og stelpur“, „grenja eins og smástelpur“ og „láta eins og kellingar“. Og það er hreint ekki sambærilegt að vera „strákastelpa“ og „stelpustrákur“.
Orðið yfir kynfæri karlmanns er hlutlaust. Typpi er bara typpi. En píka er eitthvað ljótt sem á að skammast sín fyrir. Píka er skammaryrði. Helvítis píkan þín.
Svo eru það orðin sem virka kannski hlutlaus en eru það ekki. Er brúðurin til að mynda gerandi í brúðkaupi? Er hún ekki málfræðilegur þolandi? Einhver sem er keypt hlýtur að vera seld. Brúðir á Íslandi eru sem betur fer sjaldnast seldar í hjónabönd nú til dags heldur ganga þær í þau af fúsum og frjálsum vilja. Samfélagsleg merking orðsins hefur breyst, en það hefur bókstaflega merkingin ekki gert. En þýðir það þá að orðið sé orðið hlutlaust? Er upprunalega merkingin ekki þarna ennþá einhversstaðar á bakvið og mótar hún á einhvern hátt skynjun okkar? Ætli það sé tilviljun að það sé bæði hægt að kvænast og kvongast en ekki hægt að karlast?
Hvaða áhrif hefur þetta svo á okkur sem tölum tungumálið? Hvaða viðhorf til kynjanna er okkur innrætt á máltökuskeiðinu? Hvað finnst okkur sem notum þessi orð, þetta orðalag, um meint eðli kynjanna? Hvaða áhrif hefur tungumálið á sjálfsmynd stúlkna sem geta ekki gert að því að „hlaupa eins og stelpur“, „grenja eins og smástelpur“ og „kasta eins og stelpur“ einfaldlega vegna þess að þær eru stelpur? Hvaða viðhorf hafa þær til eigin líkama og kynlífs ef píkan á þeim er eitthvað ógeðslegt sem má helst ekki tala um? Og ætli það breyti einhverju um viðhorf stráka til eigin líkama og kynlífs að fremsti hlutinn á typpinu á þeim heitir kóngur? Er það ekki yfirleitt kóngurinn sem ræður?
Tungumálið er karlmiðað. Það er sniðið að körlum, það hverfist um karla. Tungumálið er tungumál karla. Undirskipun kvenna er innbyggð í málkerfið, í orðaforðann og í orðtök og það er ekki hægt að nota tungumálið án þess að beygja sig undir kúgunina. Konur tala tungumál kúgara sinna. Við höldum áfram að kúga konur, kúga sjálfar okkur, þegar við tölum. Við tölum niður til okkar sjálfra þegar við tölum. Við brjótum niður sjálfsmynd okkar þegar við tölum. Við kennum sonum okkar að þeir séu betri en dætur okkar þegar við tölum við þá. Við kennum dætrum okkar að þær séu verri en synir okkar þegar við tölum við þær.
Ekki af því að okkur langi endilega til þess. Það er bara innbyggt í kerfið, innbyggt í okkur. Við erum ekki að tala tungumálið. Tungumálið er að tala okkur.
Eitt enn með brúðkaupin: Karlinn kvænist. Kvongast. Konan giftist. Gifting tengist giftu – því að vera lánsamur, heppinn. Og líka gjöf: Konan giftist – hún er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera gefin manninum. Og hann gengur að eiga hana.
„Tungumálið er mannmiðað. Það er sniðið að mönnum, það hverfist um menn. Tungumálið er tungumál manna.“ Samkvæmt minni máltilfinningu hefur þessi setning ekki sömu merkingu og sú sem höfundur raunverulega skrifaði, af því að í mínum huga þá er maður ekki samheiti við karl. Ég tala t.d. ekki um þingkonur af því að ég tala ekki um þingkarla. Það er mín skoðun, þó ég sé mikill femínisti. Og já, ég tala um orðið femínisti í karlkyni, og þar af leiðandi tala ég oft um sjálfa mig í karlkyni, þó ég sé kona. Málfræðilegt kyn og líffræðilegt kyn er í mínum huga alls ekki það sama.
Ég skil pistilinn ekki þannig að því sé haldið fram að orðin ‘karl’ og ‘maður’ séu nákvæm samheiti. Ef Hildur héldi að svo væri þá lenti hún væntanlega iðulega í því að misskilja íslenskt mál, enda er orðið ‘maður’ vissulega oft notað þannig að á því megi skilja að átt sé við bæði kynin. En það að slík dæmi séu til og jafnvel mörg breytir því ekki að í mörgu samhengi er orðið ‘maður’ notað þannig að á því megi skilja að aðeins sé átt við karla. Til dæmis held ég flestum þyki eitthvað ankannalegt við þessar setningar: „Maðurinn minn er með svo stór brjóst að hann á í vandræðum með að finna á sig brjóstahaldara“ og „Það hringdi í mig maður og sagðist heita Elsa“. Þó að orðið ‘maður’ gangi ekki alltaf sem staðgengill fyrir ‘karl’ þá gerir það það stundum og nógu oft til að margar konur sem hafa alveg prýðilegan málskilning upplifi stundum útilokun við notkun þess í ýmsu samhengi.
Þó orðið maður geti ekki í öllum tilvikum staðið fyrir konur jafnt og karla þá man ég í svipinn ekki eftir því að hafa upplifað útilokon vegna notkunar á orðinu, eða málfræðilegu karlkyni yfirleitt. Ég myndi t.d. ekki líta á spurninguna: „Hversu margir hér inni eru útskrifaðir lögfræðingar?“ sem útilokandi fyrir konur í herberginu. Mörg evrópsk tungumál hafa ekki þennan tvíræða notkunarmöguleika fyrir þennan germanska orðstofn (sambærileg orð við maður), né sömu málfræðikyn og íslenskan. Ég á hins vegar erfitt með að trúa því að konur í þeim löndum upplifi minni mismun kynjanna en á Íslandi. Ég er fullkomlega sammála því að neikvæð merking orða eins og stelpulegt, kelling og tussa hafa áhrif á upplifun okkar af því kvenlega, ég vil breyta því og það sem meira er, ég tel það fullkomlega mögulegt. Að ætla sér að breyta málfræði tungumálsins er hins vegar að mínu mati ekki bara óanuðsynlegt, heldur hefur sýnt sig að það er ekki gerlegt.
Er einhver að leggja til að málfræðinni sé breytt? Ég held að flestum hljóti að vera ljóst að við tökum okkur ekki til si svona og umbyltum því hvernig við tölum. Það sem Hildur var að benda á, hafi ég skilið hana rétt, er að tungumál er ekki eitthvert hlutlaust fyrirbæri sem verður til í tómarúmi heldur er það eins og svo margt annað í mannlegu samfélagi eitthvað sem bæði mótast af samfélaginu og sem hefur svo áfram áhrif á það hvernig við hugsum og upplifum heiminn. Mér finnst allt í lagi að við séum meðvituð um það, hvað svo sem við ákveðum að gera við þá vitneskju. Í mínum draumaheimi værum við ekki svona upptekin af því að flokka fólk eftir kyni en það virðist nú vera nokkuð niðurnjörvað í hugsunarhátt okkar að gera það. Og í íslensku virðist málfræðilegt kyn svo sannarlega í ýmsu samhengi hafa sterka tengingu við líffræðilegt/félagslegt kyn. Af hverju skiptir það máli hvort ég segi að ég sé svöng, svangur eða svangt? Ef ég segði að ég væri svangur þá væri ég leiðrétt, af hverju er það?
Hvort þú upplifir útilokun vegna notkunar á orðinu maður eða vegna notkunar á óákveðnum fornöfnum í karlkyni segir kannski ekki allt. Það gætu samt einhverjar aðrar konur upplifað það. Við upplifum jú ekki allt eins. Sjálf myndi ég sennilega ekki kippa mér upp við þetta tiltekna dæmi sem þú nefnir. Hins vegar hef ég pirrað mig á tilkynningum og auglýsingatextum sem virðast stílaðir á karla, eins og „Velkominn til Seyðisfjarðar“ (Seyðisfjörður er random dæmi, ég held ég hafi aldrei komið þangað) eða „Ertu búinn að skila inn skattframtalinu?“. Þegar talað er um að „menn segi að…“ þá sé ég mun frekar fyrir mér skeggræðandi karla en konur. Eins fannst mér skrýtið fyrir talsvert löngu þegar ég hafði skrifað svar á Vísindavefinn ásamt dóttur minni sem þá var 9 ára og vitnað var í svarið í útvarpi og sagt „Fróðir menn á Vísindavefnum segja…“. Ég held t.d. að fá börn sjái fyrir sér fróðar konur þegar þau heyra talað um fróða menn. Sem sagt, þó að karlkyn eða „maður“ í sumu samhengi komi út sem kynhlutlaust þá þarf það ekki að vera svo í öllu samhengi. Sumu af þessu er mjög erfitt að breyta, kannski vonlaust, kannski eitthvað sem er aðeins hægt að breyta mjög hægt, kannski er lausnin frekar að aftengja enn frekar málfræðilegt og líffræðilegt/félagslegt kyn og leyfa sér að segja um konur að þær séu svangir og um karla að þeir séu svangar. Sumu er auðveldara að breyta.
Ég er nytjaþýðandi, þýði skjöl sem eiga við um flest sem „mannlegt“ er.Ólíkt þér finnst mér t.d. þetta síðasta orð „mannlegt“ ekki alveg tilheyra mér. Þetta fsk er ansi sterkt því það á við margt af því sem stendur okkur næst eins og „mannamál“, „mannabein“, mannablóð“, „mannréttindi“, „mannleg reisn“ og „mannleg mistök“. Víst sjá tungumál mest um að breyta sér sjálf en það er alveg hægt að gera það með handafli og er t.d. gert með upptöku nýrra og tilbúinna heita á fyrirbærum sem eru nýfarin að tilheyra „menningunni“. Oft eru þau ansi skrítin í munni í byrjun en svo venjast þau og fyrr en varir notum við þau öll. Hvernig væri að breyta? Við eigum t.d. „fólk“ og „vera“.
Það gleður mig að sjá þetta Ragnhildur því ég held að sé afar mikilvægt að við höldum því til haga að konur eru menn og ef einhver vilja nota orð eins og þingkona eða fréttakona noti þá jafnframt orðin þingkarl og fréttakarl. Finnst hins vegar kyn fólks ekki koma starfsheitum við og mæli því eindregið með að við höfum þingmenn áfram o.s.frv.
Þetta er hárrétt athugað RH. Hugtakið „maður“ í íslenskri tungu er samheiti fyrir karla og konur.(homo sapiens). Það er afskaplega dapurt að standa íslenskar konur í áhrifastöðum, t.d. fyrrverandi forseta Íslands og núverandi biskup, að því að tala um „menn og konur“. Við erum öll menn og kynjafræði 101 ætti auðvitað að leggja áherslu á þá staðreynd.
Frábær pistill
Frábær grein Hildur! Málfræðingarnir segja að karlkynsorð í hlutleysishlutverki séu ekki merki um valdastöðu heldur hafi upphaflega aðeins verið til samkyn og hvorugkyn. Kvenkynið hafi komið eftir á og þróast út frá hvorugkyni, þ.e. beygingarkerfið sé dregið út frá því. Þar sem samkynið var á undan, þá sé eðlilegt að það sé notað í hlutleysishlutverkinu, eins og t.d. í setningum á borð við „Allir eru velkomnir“ eða „Sá sem trúir á mig mun lifa þó hann deyji“ o.s.frv. Það kann að vera rétt að upphaflega hafi ekki verið um sérstakan valdastrúktur að ræða, en það á ekki lengur við, eins og kemur fram í greininni varðandi starfsheitabreytingar sem ganga aðeins í eina átt. Mér finnst persónulega alltaf leiðinlegt þegar ég þarf að nota karlkynsorð fyrir starfsheiti þegar um konu er að ræða. Ég ólst upp í Frakklandi og þar er rík hefð fyrir því að kvenvæða starfsheiti til aðgreiningar milli kynja. Þegar talað er t.d. um kvenkyns kennara þá er talað um „institutrice“ (kk: „instituteur“). Jafnmikil virðing er borin fyrir heitunum og ég held að börn af báðum kynjum fái þá ímynd að þessi störf séu sjálfsögð fyrir bæði kynin.
Kvennakirkjan hefur markvisst breytt orðalagi í starfi sínu og notað svokallað „mál beggja kynja“ og breytt orðum í hvorugkyni fleirtölu eða notað önnur hvorugkynsorð í predíkunum og öðru trúarlegu starfi. Þær vilja meina að það hafi áhrif. Ég sé ekkert að því að þróa þetta áfram og reyna að breyta tungumálinu þannig að það höfði til beggja kynja. Orðið „maður“ er eitt af því sem ég myndi vilja aðgreina; annað hvort notað það sem tegundaheiti og nota svo aðeins orðið karl fyrir karlkynið eða nota „maður“ fyrir karlkyn og nota eitthvert annað orð fyrir tegundina – það væri að vísu erfiðara þar sem til eru samsett orð með orðinu „maður“ sem vísa til líffræðilegs kvenkyns, eins og orðið „kvenmaður“.
Þetta eru skemmtilegar pælingar.
Fyrir þýðendur nytjatexta er þetta ekkert nema vesenið – dæmið sem Eyja nefnir um „Velkominn til Seyðisfjarðar“ er klassískt – þegar verið er að þýða leiðbeiningar og annað slíkt. Þetta þekki ég jafnvel og aðrir þýðendur. „Þegar þú ert búin(n) að hlaða símann í fyrsta sinn skaltu… “ er ekkert sérlega snoturt á blaði en hvað á til bragðs að taka? Íslenskan er kynjuð út í gegn. Valkostirnir eru þrír: að ávarpa alla í fleirtölu – „þegar þið eruð búin að …“, sem er óneitanlega frekar asnalegt, alla vega finnst mér það, ávarpa alla í karlkyni, hinu ómarkaða „hlutleysiskyni“, sem mér persónulega (og velflestum kollegum mínum) finnst ekki boðlegt vegna þess að þótt það kunni að vera einhverjar málfræðilegar forsendur fyrir hlutleysinu virka þær forsendur einfaldlega ekki í raun, og að nota n/nn eða n(n)- aðferðina. Sem er alltaf stirðbusaleg og á til að lengja setningar úr hófi, sem getur verið heilmikið vandamál þegar verið er að þýða texta sem eiga að komast fyrir í knöppu formi. En annað er að mínu viti ekki í stöðunni. Því ekki gengi nú upp að ávarpa lýðinn í … kvenkyni! 🙂
Tja, er ekki alltaf verið að hamra á því að málfræðilegt kyn sé alveg frjálst og óháð og ótengt kyni í öðrum skilningi? Og líka alltaf verið að segja okkur konunum að þetta skipti nú engu máli og að við getum látið okkur það í léttu rúmi liggja að vera ávarpaðar í karlkyni? Með þeim rökum hlýtur það að gilda að það megi allt eins ávarpa lýðinn í kvenkyni. Sé spurt út í það má minna á að við erum jú öll lífverur og að ‘lífvera’ er kvenkynsorð.
En svona í fúlustu, þykir það ekki hvort eð er betri íslenska, alla vega í mörgum tilvikum, að sneiða hjá svona persónulegu ávarpi í leiðbeiningum? Þ.e.a.s. betra að segja „Þegar búið er að hlaða símann í fyrsta sinn skal…“ heldur en að vera að tengja þetta einhverri sérstakri persónu?
Rétt til að tipla á nokkrum atriðum sém finnst þurfi að ræða frekar og ég er ekki alls kostar sáttur við. Þessi skrif eru athyglisverð en mér finnst vanta uppá að rétt sé með farið og sumt ósanngjarnt.
Fyrst þetta. Það er afar algengt að fólk skrifi eða tali í kynbundnu málið þegar það er algerlega óþarft og auðvelt að komast hjá því án þess að lenda í kynbundnum ógöngum. Dæmið sem kom frað í útvarpinu í morgun „Sá sem er 18 ára má taka bílpróf“ má svo aðveldlega unrita í „Bílpróf fæst við 18 ára aldur“ eða „Þegar 18 ára aldri er náð má þreyta bílpróf“ og svo framvegis. Ég hef enn ekki heyrt setningu sem ekki mátti umorða þannig að hún verði ekki kynbundin. Það er ekkert að því að málið sé kynbundið að ýmsu leyti. Öll tungumál örfa einhverja afstöðu, hugsun eða andlega getu en slæva aðra. Við því er ekkert að gera og við því á ekkert að gera. Það er slæm tilhugsun að það þurfi að gelda málið og okkar málvitund af því karl vill ekki vera fóstra eða flugfreyja og að kona þarf að vera _stýra. Það þarf að vara sig þegar farið er út í kröfur um svona kyngreiningar hlutverka. Kvenkyns undantekningarnar sem taldar eru til er meðal annara lögga, hjálparhella, skytta og hetja. Hvað er við ætlum að gæta einhvers jafnréttis eða andlauss hlutleysis þurfum við að finna upp orð eins og „kúga“ (kvk f. kúgari) „kvala“ (kvk f. kvalari) „dóna“, „fanta“ og svo mætti lengi telja. Það má vera að sem stendur sé einhver slagsíða á tungumálinu en hvað með það? Málið er lifandi og mun í rólegheitunum aðlagast nýjum hugmyndum (hmmm, er ekki til kk. fyrir hugmynd?) Að lokum. Þetta varðandi að orðanotkun á borð við „þú hleypur eins og stelpa“ þá er þar dálítið annað á ferðinni. Almennt er það staðreynd, ef allt er í lagi, hlaupa konur hægar, lyfta minna, kasta styttra og svo framvegis. Það að segja að karl hlaupi eins og stelpa merkir ekki annað en viðkomandi sé að standa sig lakar en eðlilegt má telja. Ég hef reyndar aldrei skilið afhverju það er kvennaflokkur í Skák.
Grein Hildar er ágæt sem slík og rétt að orðfæri er oft „karllægt“. Málskilningur minn er kanski öðruvísi en Hildar og á ég erfitt með að sjá að það sé eitthvað kvennfjandsamlegt við orð eins og „læknir“ eða „mannkyn“ eða jafnvel „Ráðherra“. Fyrir mér amk eru þetta orð með enga sérstaka tilvísum í kyn viðkomandi.
Einnig má skoða nafnorðin í greininni svo svipuð í öðru kyni eða tengt öðru kyni.
Menn / Þjóð
Föðurland / Móðurland
Helvítis píkan þín / Helvítis púngurinn þinn
Kerlingarræfill / Karlugla
Eru orðin ‘dickhead’, ‘karlpungur’ og ‘skaufi’ s.s. ekki notuð sem skammaryrði?
Bakvísun: Að gera málkerfið að karlrembusvíni | *knùz*
Það er fínt að grufla í heitinu brúður, en það breytir því ekki að athöfnin sem flestar brúðir ganga í gegn um er ekkert skárri en orðanokunin. Orðið sjálft endurspeglar bara hversu forneskjulegur siður giftingar eru. Að faðir brúðarinnar gangi með hana inn að altarinu og afhendi hana tilvonandi eiginmanni sínum býr að sjálfsögðu til þá táknmynd að konur eigi sig ekki sjálfar heldur séu þær eign karlmanns, hvort sem er föður eða eiginmanni. Auðvitað eru ekki allir/ar sem fara þessa leið þegar þeir/þau gifta sig (hvoru öðru) en mér finnst ekki hægt að slíta orðið algjörlega frá athöfninni.
Bakvísun: Orðsending til íslenskrar umræðuhefðar | *knúz*