Knúzið spyr – Lýðræðisvaktin svarar

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til Alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma.

Lýðræðisvaktin varð fyrst til að bregðast við og Þórhildur Þorleifsdóttir, sem leiðir listann í Reyjavík suður, svaraði spurningum okkar sem hér segir:

 

1.     Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, það er talsvert langt í land. Þessari spurningu verður ekki svarað í stuttu máli. Mesta bylting veraldarsögunnar fyrr og síðar er kvennabyltingin. Hún hefur ekki kostað styrjaldir og blóðsúthellingar heldur gerst hægt og sígandi og er langt frá að vera lokið. Allir áfangasigrar hafa unnist vegna baráttu kvenna, þær hafa alltaf þurft að sækja rétt sinn og ekki fengið neitt á silfurfati. Hugarfarsbyltingin er miklu skemmra komin en sú lagalega og formlega, en hugarfarið og hugmyndir um kynin og hlutverk þeirra er, þegar allt kemur til alls, það sem ræður úrslitum. Feðraveldið hefur reynt að leiða þessa byltingu hjá sér og samfélagið hefur lítið breyst í þá átt að aðlagast breyttum aðstæðum kvenna. Breytingar eru á yfirborði en ná ekki enn niður í ævagömul hyldýpi menningarinnar. Kvennabyltingin og hugarfarsbreytingin eru viðvarandi verkefni, en af nógu er að taka til að breyta „hinu daglega lífi og samfélagi samtímans“. Hér verða einungis nefnd örfá atriði.

Íslenskar konur búa við flest lagaleg réttindi og alltaf verið að smábæta í. En hin raunverulega hugarfarsbreyting hefur ekki átt sér stað. Sumt er svo huglægt að erfitt er að útskýra. En fyrst má nú nefna launamuninn. Hann er viðvarandi og óþolandi. Það sem verra er, það má ekki hverfa af vaktinni andartak þá tapast það sem hefur áunnist. Nýlegar launakannanir hjá t.d. Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ sýna það.

Hefðbundin kvennastörf eru miklu lægra metin en hefðbundin karlastörf. Nám kvenna í hefðbundnum greinum skilar ekki sömu launum og jafn langt nám í hefðbundnum karlagreinum. Konur raðast enn í lægstu launaflokka.  Konur annast meirihluta allrar ólaunaðrar vinnu á heimilum. Fyrr en karlmenn axla sinn hluta af uppeldi og umönnun barna og heimilisstörfum standa kynin mjög ójafnt að vígi.

Fjölmiðlum er stýrt nær eingöngu af karlmönnum og þeir stjórna öllum þáttum, bæði í útvarpi og sjónvarpi, sem varða stjórnmál eða eru skoðanamótandi. Mjög einhæf mynd af konum í fjölmiðlum.

Mikið vantar á að konur gegni stjórnunarstörfum, hvort heldur er hjá því opinbera eða í einkageiranum, til jafns við karla. Komin eru lög um jafna skiptingu kynja í stjórnun fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði. Það þurfti lagasetningu til. Það talar sínu máli.

Konur ráða ekki yfir fjármagni, hafa sáralítil áhrif í fjármálastofnunum og lífeyrissjóðum. Þær eiga ekki jafn greiðan aðgang að fjármagni og karlar.

Menntakerfið er langt frá því að vera meðvitað um nauðsyn kynjafræðslu til að vinna gegn stöðluðum kynhlutverkum og skólabækur bera þess vott.

Eignastaða kvenna er langt um verri en karla, hvort sem er í fyrirtækum eða einkaeign. Heildartekjur kvenna eru lægri en karla. Konur njóta ekki styrkja í listum og vísindum til jafns við karla. Ekki nægir að telja umsóknir og úthlutanir og halda því fram að konur beri ekki skarðan hlut frá borði. Fjöldi umsókna frá hvoru kyni, innihald og umfjöllunarefni, upphæð styrkja o.fl. leiða sannleikann í ljós.

Klám og ofbeldi gegnsýra samfélagið og er ein versta og alvarlegasta birtingarmynd feðraveldisins og alvarlegustu mannréttindabrot í samfélaginu.

Gæti haldið áfram og skrifað heila langloku, en læt þetta nægja í bili.

2.      Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Við þessu er ekkert einfalt svar. Helst það að þetta er óþrjótandi verkefni kvenna. Þær verða að sækja fram á öllum sviðum og leita sífellt nýrra leiða til að bæta stöðu sína, heima og heiman. Mest áríðandi er að taka til hendinni í menntakerfinu og gera markvisst jafnréttisuppeldi,  kynjafræði, mannréttindi og lýðræði að miðlægu viðfangsefni á öllum skólastigum. Mikilvægt er að reyna að hafa áhrif á fjölmiðla með ýmsum ráðum. Auka þátt kvenna í stjórnun fjölmiðla og vinna gegn einhæfum og stöðluðum kynjaímyndum.

3.      Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já, það er full ástæða til þess. Staðreyndir tala sínu máli. Einungis fá kynferðisbrot eru kærð, af þeim leiða enn færri til dómsúrskurðar og dómar eru þar að auki oft umdeildir og sæta gagnrýni. Auk þess bendir flest til þess að meirihluti kynferðisbrota komi aldrei fram í dagsljósið. Meðferð fyrir dómstólum gengur alltof hægt og m.a. þess vegna leggur Lýðræðisvaktin áherslu á að stofna sérstakan kynferðisbrotadómstól. Auk þess þarf að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar og sjá til þess að sérhæft starfsfólk mæti fórnarlömbum á öllum stigum ferilsins.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Já, kynjakvóti  á rétt á sér á flestum sviðum þar sem þarf að jafna hlutföll kynja. Þó þarf alltaf að gæta þess að menntun og reynsla sé fyrsta viðmið þar sem það á við og síðan að beita kynjakvóta. Rétt er að minna á lög um kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja og í nefndum og ráðum.  Auk þess styð ég allar ráðstafanir á öllum sviðum samfélagsins sem stuðla að jöfnum hlut kynjanna hvar og hvenær sem er.

5.      Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Já, ekki bara rétt heldur nauðsynlegt. Klámið er einn versti óvinur kvenna á Vesturlöndum. Það brenglar hugmyndir og ýtir undir hugmyndir um að ofbeldi gegn konum og börnum sé „eðlilegt“. Fræðsla um kynlíf og kynjafræði í grunnskóla og framhaldsskóla er grundvallaratriði. Sérstaklega þarf að huga að mikilli klámneyslu ungra íslenskra karla. Fá fyrirmyndir unglinga með í baráttuna. Upplýsa þarf foreldra og aðra um leiðir til að loka fyrir klámrásir í tölvum svo börn og unglingar komist ekki á þær.

6.      Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Ég er þeirrar skoðunar að ástæða launamunar sé  í raun ekki mat á störfum kvenna heldur mat samfélagsins á konum. Það breytist hægt og hægt með hugarfarsbreytingu, en auðvitað þarf að leita leiða og ekki bíða eftir að hún verði staðreynd. Endurmat á störfum, endurmat á hverju  menntun í hefðbundnum kvenna- og karlagreinum  í launum, jafnlaunastöðull getur reynst sterkt tæki, viðurkenningar til fyrirtækja og stofnana sem eru til fyrirmyndar. Styrkja konur í að krefjast hærri launa, bæði sem einstaklingar og hópur. Krefjast þess að launþegasamtök setji kjarajöfnun kynjanna á oddinn.

7.      Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Þetta er ekki spurning um skoðun heldur að viðurkenna staðreyndir. Rannsóknir sýna að þriðja hver íslensk kona má búast við að vera beitt einhvers konar ofbeldi á sinni ævi. Þetta eru verstu og algengustu mannréttindabrot  í íslensku samfélagi. Enn verður að vísa til forvarna og fræðslu á öllum skólastigum, líkt og gert hefur verið í svörum hér að ofan.

———

Knúzið þakkar Lýðræðisvaktinni kærlega fyrir svörin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.