Að gera málkerfið að karlrembusvíni

Höf.: Iris Edda Nowenstein

9. apríl birtist greinin Þegar tungumálið talar okkur á knuz.is. Þar fjallar Hildur Knútsdóttir um ýmsar birtingarmyndir kvenfyrirlitningar og kúgunar kvenna í ríkjandi orðræðu og orðaforða íslenskunnar. En það er ekki bara orðaforðinn og orðræðan sem hún telur karllæga, málkerfið allt á að vera einhvers konar kúgandi afl sem konur festast í. Slík yfirfærsla er í raun misskilningur á eðli málkerfisins og óréttmæt karlgerving þess.

Færslurnar á knuz.is minna okkur reglulega, og réttilega, á þá staðreynd að kúgun kvenna er að finna alls staðar. Velferðar- og jafnréttisríkið Ísland er þar engin undantekning. Þó við stærum okkur af ýmsum ávinningum í jafnréttismálum er margt eftir. Lagalegt jafnrétti hefur ekki gert okkur stikkfrí frá kynbundnu launamisrétti, nauðganamenningu og almennri hlutgervingu kvenlíkamans, svo eitthvað sé nefnt. Kvenfyrirlitning er hluti af íslenskum veruleika og þetta endurspeglast í orðræðunni. Í orðaforðanum finnum við síðan leifar af ennþá verri kjörum kvenna. Í þessum efnum erum við Hildur sammála.

Orðræðan er meðal annars þannig að karlar eru kvengerðir í niðurlægingarskyni (vælir/keyrir/sparkar eins og kelling). Að gera eitthvað eins og kona er að gera eitthvað illa. Orð á borð við ráðherra minna okkur á að konum hefur ekki alltaf verið ætlað að gegna slíku stjórnunarstarfi. Starfsheiti eins og ljósmóðir sýna okkur síðan að hversu litlu leyti körlum hefur verið ætlað að skipta sér af fæðingum og almennu barnauppeldi. Í dæmum eins og kvenlögfræðingur (sem Hildur nefndi í Morgunútvarpi Rásar 2 þann 16. apríl) birtist okkur sú sorglega staðreynd að við hugsum ennþá fyrst og fremst um karlmenn þegar lögfræðingar eru nefndir. Öfugt er farið með orð eins og hjúkrunarfræðingur eða leikskólakennari, þar sem stundum er sérstaklega tekið fram að um karlkyns hjúkrunarfræðing eða leikskólakennara sé að ræða. Þannig endurspeglast samfélagsgerð og menning í orðaforða okkar.

Í áðurnefndri grein Hildar er þó farið töluvert lengra í ályktunum um tengsl tungumáls og kúgunar kvenna. Hún lítur svo á að undirskipun kvenna sé „innbyggð í málkerfið“, börn læri „ósjálfrátt kvenfjandsamlegt tungumál“, að staðreyndin sé sú að kvenfyrirlitning sé „bókstaflega byggð inn í tungumálið“ og að ekki sé hægt að nota tungumálið án þess að „beygja sig undir kúgunina“. Þetta eru hins vegar fjarri því að vera staðreyndir. Þó kvenfyrirlitning komi fram í orðræðu og orðaforða er fjarstæða, og algjör óþarfi, að yfirfæra það yfir á málkerfið. Í því felst ekki aðeins persónugerving á málkerfinu, því er breytt í kúgandi afl, það karlgert og úr því sköpuð svæsin karlremba. Þær eru nógu margar fyrir, hvers vegna þurfum við að ímynda okkur eina í viðbót?

Þessi yfirfærsla kvenfyrirlitningarinnar á málkerfið, sem margir femínistar um allan heim hafa stundað, er afleiðing þess forneskjulega viðhorfs að tungumálið sem við tölum móti hugsun okkar. Grein Hildar er gegnsýrð af þessu viðhorfi, hún segir: „En tungumálið mótar líka hugsun okkar. Tungumál hefur áhrif á það hvernig við upplifum heiminn“. Í málvísindum eru slíkar hugmyndir um tengsl tungumáls og hugsunar flokkaðar sem málfræðileg nauðhyggja (e. linguistic determinism) í sinni öfgafyllstu mynd, en málfræðilegt afstæði (e. linguistic relativity) í vægari útgáfum. Algengt er að rekja þessar hugmyndir til málfræðinganna Sapir og Whorf og rannsókna þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Hugmyndirnar gera í raun ráð fyrir því að fólk sem talar ólík tungumál hafi í kjölfarið ólíka heimsmynd. Þær nutu ákveðinnar hylli fram að sjöunda áratugnum en eru nú taldar úreltar. Þrátt fyrir fjölda rannsókna hefur engum tekist að sýna fram á tengsl tungumáls og hugsunar nema að verulega litlu leyti og þá aðallega í lita- og rýmisskynjun (sjá t.d. umfjöllun Pinker í The Language Instinct). Að tala ólík tungumál hefur ekki í för með sér ólíka skynjun eða heimsmynd. Í rauninni virðumst við ekki hugsa eins mikið í orðum og við höldum, málstol hefur til að mynda ekki endilega í för með sér skerta hæfni til hugsunar.

Ef við hins vegar göngum út frá þessum úreltu hugmyndum, eins og Hildur gerir, er tiltölulega lítið mál að ímynda sér að tungumálið hafi áhrif á viðhorf okkar til kynjanna (með slæmum hætti að sjálfsögðu). Hildur lítur svo á að karllæg sýn á kynin sé innbyggð í málið og að málfræðireglurnar segi okkur í rauninni hvaða sýn það er. Og þá vill svo heppilega til að íslenska málkerfið hefur eitt eða tvö einkenni sem eru sérstaklega auðveld skotmörk slíkrar túlkunar. Eitt þeirra er hið ómarkaða karlkyn. Við notum margfalt fleiri karlkynsorð um konur en kvenkynsorð um karla. Íbúi, áhorfandi, kjósandi, sundlaugargestur, KR-ingur, Reykvíkingur, farþegi. Þegar við getum ekki líffræðilegs kyns notum við síðan karlkyn en ekki hvorugkyn. Allir eru komnir (en ekki öll eru komin). Þeir (en ekki þau) sem kjósa Framsóknarflokkinn eru fífl. Er einhver mættur (en ekki eitthvað mætt) í veisluna? Aldraðir (en ekki öldruð) búa við fátækt. Íslenska varðveitir þetta einkenni germanska kynjakerfisins sem ekki hefur breyst af ráði í rúmlega 2000 ár (sjá greinina Hvað mælir gegn máli beggja kynja? eftir Guðrúnu Þórhalls í Skímu 2005). Við vitum ekki hvort þetta víðara notkunarsvið karlkynsins tengist eitthvað samfélagsgerðinni sem var við lýði á þeim tíma sem það varð til og ættum heldur ekki að þykjast vita það. Við vitum hins vegar að málkerfið breytist hægt (sama hvað okkur finnst um það) og að þetta er það málkerfi sem við eigum. Það þróaði með sér annað einkenni sem er karllægt í túlkun Hildar, óákveðna fornafnið maður. Óákveðin fornöfn sem byggja á orði sem merkir „manneskja“ eða „hlutur“ finnast í fjölda tungumála (85 af 326 málum í þessari rannsókn: http://wals.info/chapter/46) og í því samhengi er fullkomlega skiljanlegt að í íslensku hafi notkun orðsins maður þróast með þessum hætti. Þetta er ekki eitthvað sem Íslendingar tóku upp á sisvona af tilviljun. Ef við skoðum þetta í samhengi annarra tungumála og erum tilbúin til þess að samþykkja að orðið maður merki alls ekki bara karl, er þetta í raun mjög skiljanleg þróun.

Í raun getur verið mjög fróðlegt að skoða samanburð margra tungumála í akkúrat því samhengi sem um ræðir hér. Þannig er mál með vexti að fjöldinn allur af tungumálum hefur ekkert kynjakerfi (145 af 257 málum í þessari rannsókn: http://wals.info/chapter/32). Dæmi um tungumál sem hafa ekkert kynjakerfi eru kínverska, persneska, grænlenska, finnska, ungverska og baskneska. Ef málkerfið mótar hugsun okkar, eins og Hildur staðhæfir að það geri, og hefur neikvæð áhrif á viðhorf okkar til kynjanna, eins og hún staðhæfir einnig – hvernig stendur þá á því að það sama er uppi á teningnum á þeim svæðum sem þessi tungumál eru töluð? Á öllum þessum stöðum eru karlmenn kvengerðir í niðurlægingarskyni og það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera að sjaldan sé talað um þá í kvenkyni, enda eru engin málfræðileg kyn í þessum tungumálum. Þetta er þó fyrst og fremst vegna þess að málkerfið mótar ekki hugsun okkar og viðhorf. Málkerfið er einfaldlega ekki enn eitt karlrembusvínið sem við ráðum ekki við.

——

Höfundur er femínisti og MA-nemi í almennum málvísindum

Ein athugasemd við “Að gera málkerfið að karlrembusvíni

  1. Vel er mælt. Það er allt of algengt í feminískri umræðu að fullyrða þetta og hitt án þess að hafa fót fyrir því. Það að hlutirnir gætu verið sannir eða hægt sé að ímynda sér að þeir séu sannir er tekið sem næg sönnun vegna þess að það hentar málstaðnum, en oft eru engin gögn eða tölfræðilegar rannsóknir sem styðja þann málflutning. Slík framsetning dregur mátt úr jafnréttisbaráttunni vegna þess að þannig gefum við feministar færi á okkur. Ein fullyrðing sem er út í hött vinnur meiri skaða en 10 réttar vinna gagn þegar þú reynir að sannfæra náungann um að breyta háttalagi og hugsunarhætti sínum.

  2. Það er mjög gaman að sjá grein sem þessa skrifaða af þekkingu á faginu. Takk fyrir áhugaverðar pælingar 🙂

    Hins vegar eru nokkur atriði sem ég set spurningamerki við. Ég vinn út frá fræðum heimspekinnar sem að veltir fyrir sér nauðhyggju og afstæði endalaust án þess að hægt sé að flokka slíkar hugmyndir sem úreltar. Þess að auki veltir heimspekin fyrir sér sambandi hugsunar og hugtaka; raunar mætti segja að frumforsenda heimspekinnar sé að velta því sambandi fyrir sér. Sambandi merkingar og orða eða hugtaka.

    Þess vegna þykir mér nokkuð tæpt að það afsanni afstöðu Hildar sé að hún aðhyllist „úrelta hugmynd“ og myndi segja að slíkt viðhorf nokkuð undir áhrifum framfarargoðsagnar og pósitívisma.

    Þess að auki velti ég fyrir mér af hverju þú tekur ekki dæmi af tungumálum sem hefur kvenkyn sem hið ráðandi hlutlausa kyn. Vinkona mín á facebook benti mér á þetta: http://etd.ohiolink.edu/view.cgi?acc_num=ucin1123162261
    Rannsókn sem segir að meirihluti tungumála með málfræðilegt kyn taki karlkyn eða hvorukyn sem ráðandi hlutlaust kyn. Af hverju er það? Er ekki mögulegt að það mótist ólík tengsl við hið almenna þegar maður talar ávallt um sig í öðru kyni en því sem maður er ávarpaður með, að maður sjái sig sjálfa sig hina, samanborið við hið mikla verk Simone de Beauvoir, Hitt kynið?

    Og sú staðreynd að kúgun finnist á svæðum kynlausra tungumála afsannar hún að karlkyn í tungumáli hafi áhrif á hugsun okkar? Þýðir það ekki einmitt að þú ert að gera ráð fyrir sams konar kúgun á þeim svæðum sem og okkar, þegar að kúgun og fordómar geta verið jafnmargbreytileg og skýin á himninum? Er ekki kvengerving karla í niðurlægingaskyni einmitt afar tengt því hvernig við tjáum okkur í einstaka tungumáli?

    Hvað sem fræðum líður þá er mín persónulega upplifun sú að það sé ólíkt að hugsa á ólíkum tungumálum. Ég hef þurft að læra heimspeki á ensku og þar var einmitt erfiðasta skrefið að gera sér grein fyrir því að ég gæti ekki fílósóferað á íslensku og þýtt svo yfir á ensku, það gekk ekki, ég varð að hugsa á ensku.

    Ég held að málvísindi standi, sem og flest önnur fræði, á heimspekilegum forsendum sem að gerir manni erfitt fyrir að finna endanlega niðurstöðu, er málkerfið karlægt og kúgandi eða er það ekki? En er ekki bara gaman að fokka pínu upp í þessu íhaldssama málkerfi eins og þegar maður brýtur málfræðireglu með að hafa í sömu setningunni karlkyn og lýsingarorð í kvenkyni?

    Þó svo að þekking okkar á fagi sem málvísindum vaxi auðvitað og að þannig sé í raun hægt að tala um einhvers konar framfarir og að á einhverju tíma sé sögulega úrelt að halda einhverju fram…eða einfaldlega þreytt, þá þarf að passa með þessi fræði sem og öll önnur að þau verði ekki að valdatæki sem boði ákveðin Sannleik. Það hafa málvísindin sameiginlegt með heimspekinni og femínískum fræðum.

  3. Mér finnst þetta góð grein og góð áminning um að við eigum ekki að hugsa um öll tungumál (né samfélög) út frá því hvernig okkar eigið tungumál (og samfélag) virkar.

    Varðandi það sem Nanna segir: „Rannsókn sem segir að meirihluti tungumála með málfræðilegt kyn taki karlkyn eða hvorukyn sem ráðandi hlutlaust kyn. Af hverju er það? Er ekki mögulegt að það mótist ólík tengsl við hið almenna þegar maður talar ávallt um sig í öðru kyni en því sem maður er ávarpaður með, að maður sjái sig sjálfa sig hina, samanborið við hið mikla verk Simone de Beauvoir, Hitt kynið?“ þá snýr þessi rannsókn sem ég benti á ekki að því að rannsaka hvort fólk tali um sjálft sig í örðu kyni en það „tilheyrir“ heldur er í þessum tungumálum talað um óþekkta hluti sem kvenkyns. Ef ég skil þetta rétt er því ekki verið að tala um persónufornöfnin hún/hann/það, heldur er „default“ kynið, sé kynið ekki þekkt, kvenkyns í þeim tungumálum sem rannsökuð voru, ólíkt mörgum öðrum þar sem „default“ málfræðilega kynið er annað hvort karlkyns eða hvorugkyns.

    Ég held að í þessari umræðu séum við aðeins að rugla saman málfræðilegu kyni orða og hins vegar persónufornafnakyni. Þess vegna er t.d. munur á málfræðilegu kyni á Íslandi, þar sem öll orð eru kynjuð, og Danmörku, þar sem orð eru annað hvort samkyns (en) eða hvorugkyns (et), og svo ensku þar sem „it“ er notað fyrir allt annað en kvenkyns og karlkynspersónur. Er munur á stöðu kynjanna eða því hvernig Íslendingar, Danir og enskumælandi fólk hugsar um sjálft sig sem kyn?

    Svo er hins vegar munur á kynbundnum persónufornöfnum, t.d. er eintala og fleirtala í íslensku kynjuð en bara eintala í ensku og ft (they) á við um bæði kyn. Í sænsku hafa femínistar og hinsegin aktívistar gert tilraunir með að nota hon í stað han og hun, til þess að stuðla að jafnrétti og minnka vægi kyns í umræðu. En ef ég skil þetta rétt notar farsí sameiginlegt persónufornafn yfir konur og karla (einhvers konar: „hitt“) – og ekki er staða jafnréttismála sérlega beysin í farsí-talandi löndum…

    Varðandi gagnrýni Nönnu um fullyrðingar Irisar um að Hildur aðhyllist „úrelta hugmyndafræði“, og hvort það sé ekki undir áhrifum „framfaragoðsagnar og pósitívisma“, þá langar mig að benda á að fullt af kenningum í mannfræði (og málvísindum þá vafalaust líka) geta talist „úreltar“, sökum þess einfaldlega að yfirgnæfandi gögn benda til annars. Nú ætla ég ekkert að fullyrða um þessa tilteknu kenningu en ég álít það alls ekki vera endilega merki um pósítívisma að gagnrýna kenningar á þeim forsendum. Sem dæmi má nefna að innan mannfræðinnar voru ýmsar þróunarkenningar um samfélög og kenningar um tengsl gáfnafars og heilastærðar álitnar fullgildar á sínum tíma en þær teljast nú vera úreltar vegna þess einfaldlega að aðrar, og mun betri, rannsóknir hafa sýnt fram á að þær byggist á alhæfingum og ófullnægjandi gögnum. Hættan við þá hugmynd sem Iris gagnrýnir, sem gerir „í raun ráð fyrir því að fólk sem talar ólík tungumál hafi í kjölfarið ólíka heimsmynd“ er sú að hún gæti ýtt undir fordóma, t.d. með því að segja að heimsmynd fólks sé svo ólík að það geti ekki skilið hvert annað og þar fram eftir götunum. Þess vegna held ég a.m.k. að það sé rétt að fara varlega í kenningar þar sem alhæft eru um þessi tengsl, og ef til vill er það það sem hún meinar með því að segja að þessar hugmyndir séu „úreltar“, eða að taka þær upp gagnrýnislaust sé að minnsta kosti úrelt. Auðvitað þarf að passa upp á að fræðin boði ekki einn Sannleik, en sannleiksboðunin finnst mér einmitt fremur vera einkenni á greininni hennar Hildar heldur en þessari.

    • Það var kannski fulldjúpt í árina tekið hjá mér að tala um framfaragoðsögn og pósitívisma. Ég vona að þið fyrirgefið mér það. Ég er ekki að boða algert afstæði og mér er umhugað um „universala“ þótt svo að mér finnist þurfa að nálgast þá á krítískan hátt. Um annað í þessu er ég of þreytt núna til að tjá mig 🙂

      • Það væri nú gaman að ræða þetta betur við þig yfir kaffibolla. Fyrir mér er það í raun alveg jafn mikill „universall“, eða alhæfing að segja að tungumál móti hugsunina eins og Sapir og Worf halda fram (og Hildur líka), og að halda því fram að þau geri það ekki. Mér finnst að það þurfi að nálgast báðar kenningarnar á krítískan hátt. Framan af síðustu öld þótti mannfræðingum (og vafalaust öðrum félagsfræðingum) allt í lagi að álykta um heiminn út frá rannsóknum á einstökum samfélögum og settu mjög gjarnan fram stórar alheimskenningar. Þetta var einmitt gagnrýnt harðlega af afstæðishyggjusinnum og póstmódernistum. Það er eiginlega á þeim grunni (út frá afstæðishyggjunni) sem ég tek undir með Irisi í því að fullyrða að kenning Sapir og Worf sé „úrelt“, það er að segja út af alhæfingunni sem í henni felst og einmitt því að það er ekki hægt að „sanna“ hana eða (eftir því sem ég best veit) styðja með empírískum gögnum.

      • Mikið er ég ánægð með að punkturinn um mismun á grundvelli tungumála hafi komið hérna fram, takk fyrir það (og almennt mjög áhugaverðar athugasemdir). 🙂 Það er einmitt meðal þeirrar gagnrýni sem vegið hefur hvað mest gegn málfræðilegri nauðhyggju!

  4. Ég held alls ekki að Hildur hafi átt við að málkerfið væri gerandi í málinu. Eins og ég sé þetta virkar tungumálið (málkerfið) sem tæki (e. tool). Í þeim löndum sem þú telur upp þar sem töluð eru tungumál sem hafa ekkert kynjakerfi eru áreiðanlega aðrar leiðir og önnur tæki notuð (meðvitað og/eða ómeðvitað) í stað tungumálsins og leiða til sömu niðurstöðu. Hjá okkur er tungumálið ekki eini samfélagslegi þátturinn heldur einn af mörgum þáttum sem leiða til kúgunar og undirskipunar kvenna. Með öðrum orðum, tungumálið (málkerfið) er hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt (e. necessary or sufficient) skilyrði fyrir kúgun eða undirskipun kvenna í samfélaginu en það virkar engu að síður oft lítilsvirðandi í garð kvenna.

    Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur hafði heldur ekkert út á þessa túlkun Hildar að setja í viðtali í Morgunþætti Rásar 2 í gær, þann 16. apríl:

    http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunutvarpid/16042013/konur-tala-tungumal-kugara-sinna-0

  5. Sælar.

    Ég vinn út frá enn einum fræðunum, fræði sálfræðinnar. Sálfræðin á margt sameiginlegt með bæði heimspeki og málvísindum, enda mikið til verið að vinna með sömu viðfangsefnin, en þó á annan hátt. Innan sálfræðinnar er mikil áhersla lögð á empirískar rannsóknir á viðfangsefninu, það er því ekki nóg að velta fyrir sér heimspekilegum forsendum einhvers til að þar með sé það sannleikur eða raunveruleiki (með fullri virðingu fyrir heimspekilegum forsendum því þær eiga svo sannarlega sitt pláss í heiminum). En Íris Edda tekur fram að búið sé að margrannsaka þessa tilgátu og að lítið hafi reynst hæft í henni. Það, að mínu viti, er megin punkturinn.

    Þú spyrð Nanna, af hverju Íris Edda taki ekki dæmi af tungumálum sem hefur kvenkyn sem hið ráðandi hlutlausa kyn. Aftur komum við að því að búið er að rannsaka samband tungumáls og hugsunarhátts, og tengslin hafa verið dæmd léttvæg. Því ætti ekki að þurfa að taka dæmi af því (frekar heldur en það ætti að þurfa að taka dæmi af þeim kynjakerfum sem Íris þó gerir, til skýringarauka fyrir okkur og gerir greinina skemmtilegri og innihaldsríkari fyrir vikið).

    Þú veltir líka upp Nanna þeirri spurningu hvort sú staðreynd að kúgun finnist á svæðum kynlausra tungumála afsanni það að karlkyn í tungumáli hafi áhrif á hugsun okkar. Það er líka óþörf spurning, því, aftur, búið er að rannsaka tengsl hugsunarháttar og tungumáls, og tengslin eru ekki til staðar nema að óverulegu leyti. Það er það sem afsannar það að karlkyn í tungumáli hafi áhrif á hugsun okkar: rannsóknirnar sem búið er að gera til að komast að því hvort tungumál hafi áhrif á heimssýn okkar.

    Það að það sé ólíkt að hugsa á ólíkum tugumálum er svo annað mál en heimssýn og hugsunarháttur yfir höfuð. Það skýrist af því að þótt þú sért að nota sama svæðið í heilanum ertu að nota aðrar taugabrautir. Þær taugabrautir sem mest eru notaðar verða meira ríkjandi, eins og með annað í líkamanum, og því getur verið svolítið átak að ætla sér að fara að nota nýjar taugabrautir við viðfangsefnið en þú ert vön að nota. Það er svolítið svipað því að þótt ég sé vel fær að hekla með vinstri hendi þá er ég frekar ömurleg að hekla með hægri hendi. Mismunandi taugabrautir, þótt viðfangsefnið sé það sama 🙂

  6. Það er vissulega rétt hjá Nönnu að fólk sem menntað er í málvísindum er ekki jafnframt boðberar endanlegs sannleika í þessum efnum. Það sem málvísindamenn hafa kannski helst fram að færa er viðleitni (og ef til vill þekkingu) til þess að greina á milli ákveðinna þátta í þessari umræðu.

    Það þarf held ég ekki að efast um að menning með sínum valdastrúktúrum og gildum hefur mikil áhrif á tungumál. Og ég held að undirskipun og kúgun kvenna og kvenfyrirlitning endurspeglist í ýmsu í tungumálum. Hildur nefndi mörg dæmi um þetta í sinni grein. Það má bæta við þau dæmi. Hér neðst er tilvitnun í vel þekkta inngangsbók í sögulegum málvísindum (Historical Linguistics: An Introduction e. Lyle Campbell). Þar fjallar höfundurinn um algengar tilhneigingar í merkingarbreytingum og þá vel þekktu staðreynd að merking orða sem notuð eru yfir konur og stúlkur hafa tilhneigingu til að breytast á neikvæðan hátt (sjá neðst). Hins vegar eru vel þekkt dæmi um að orð sem vísa til karla „hækki í tign“. Til dæmis þýddu ensku orðin „lord“ og „knight“ áður „brauðvörður“ og „drengur“, tilsvarslega.

    Eitt af því sem þessi dæmi sýna okkur er að tungumálið eins og það er á hverjum tíma er uppsöfnuð arfleifð sem hefur mótast á afar löngum tíma. Í sumu er enn hægt að greina undirskipun kvenna en í öðru er þessi uppruni gleymdur. Orðin „lord“ og „knight“, sem slík, gefa enskumælandi drengjum og brauðvörðum (eru þeir ekki enn til?) ekki sérstakt tilefni til að horfa til bjartari framtíðar. En aftur á móti er ekki ólíklegt að orð eins og „bræðralag“ og „drengskapur“ gefi konum tilefni til vangaveltna um stöðu sína. (Hér stenst ég ekki freistinguna að vitna í lag eftir Súkkat: „Við systur erum innan vallar því enginn er annars bróðir í leik“).

    Stóra spurningin virðist einmitt vera sú hvort sú staðreynd, að í íslensku er karlkyn hlutlaust og ómarkað en kvenkyn vísar til „hins“ kynsins (sbr. Simone de Beauvoir sem Nanna bendir á), hafi áhrif á það hvernig konur og karlar hugsa.

    Kannski er afar erfitt að fullyrða nokkuð um þetta. Eins og Iris bendir á er það þekkt hugmynd að gera ráð fyrir því að málkerfið hafi áhrif á það hvernig við hugsum. Whorf tók Hopi-indjána sem dæmi. Í máli þeirra er tími ekki innbyggður í kerfið í formi sagntíða. Þess vegna velti Whorf því fyrir sér hvort þeir hugsuðu minna um tíma. T.d. segir hann að þeir vísi ekki til tíma eins og hún sé vídd sambærileg við rími. Þeir tala því ekki um að eitthvað gerist „fyrir hádegi“ (sambærilegt við „hann er fyrir mér“, eða „í kvöld“ sambærilegt við „hann er í kassanum“). Það kom honum því ekki á óvart að Hopi málið hefði ekki sérstakt orð fyrir lo. „hraður“ því hraði er jú skilgreindur út frá tíma og rúmi. En það er skemmst frá því að segja að þetta stenst allt frekar illa skoðun. Það er ágætis kafli um þessar kenningar í ritinu Schools of Linguistics e. Geoffrey Sampson (sem er aðgengilegt á rafbókasafninu libgen.info).

    Sampson þessi tekur sem dæmi (ekki mjög p.c. reyndar) að hann hafi heyrt það sagt um frumbyggja í Ameríku að það sé erfitt að hafa þá í vinnu því þeir eigi erfitt með að koma til vinnu á réttum tíma. Ef þetta á líka við um Hopi-indjána gætum við þá sagt að það sé vegna þess að þeir hugsi ekki um tíma og að tungumálið þeirra sé til marks um það? En hvað þá með fólk sem talar tungumál með tíðum og á erfitt með að mæta í vinnu. Er málkerfið þeirra þá kannski eitthvað öðruvísi, tíðakerfið í einhverju rugli?

    Vandamálið við svona kenningar er að það er afar erfitt að sanna þær. Eins og Iris bendir á hefur mönnum ekki tekist að sýna fram á mikil tengsl milli málkerfis og hugsunar. Hin hliðin á þessu er þó sú að það er ekki auðveldara að afsanna þessar kenningar.

    Eitt konkret dæmi sem komið hefur upp í þessari umræðu. Hildur sagði í útvarpsviðtali (http://www.ruv.is/islenskt-mal/konur-tala-tungumal-kugara-sinna):

    „Það þykir niðrandi fyrir karla að vera kvengerðir og getur það ekki haft einhverjar rætur í því að það er aldrei talað um karla í kvenkyni, að karlkynið hafi einhvers konar hlutleysishlutverk.“

    Ef ég skil þetta rétt er tilgátan hér sú að hlutleysishlutverk karlkynsins sem er innbyggt í málkerfið geri það að verkum að körlum þyki niðurlægjandi að láta kvenkenna sig.

    Ég sé ekki það sé hægt að afsanna slíka tilgátu með öllu en mér sýnist þó að aðrir þættir, sem ég geri ráð fyrir að Hildur telji að hafi líka áhrif, gætu skýrt þetta nægilega vel. Undirskipun kvenna og fyrirlitning á konum í menningunni mundi ég telja að væri miklu líklegri skýring.

    Og ég held að það séu ákveðnir hlutir sem mæla gegn hinni tilgátunni. Ég er ekki viss um að við séum svo mjög meðvituð um það að orð eins og farþegi, íbúi, Reykvíkingur og fleiri séu karlkyns. Það sama held ég að eigi við um það þegar við notum frasa eins og ‘sá sem’, ‘allir sem’ o.s.frv. til þess að vísa til kvenna eða þegar konur segja „maður er“. Lýsandi dæmi um þetta held ég að séu einmitt orðin „hetja“ og „lögga“.

    Þessi dæmi er erfitt að skýra ef tilgátan um áhrif sjálfs málkerfisins á það hvernig við hugsum um kyn er rétt.

    En orðið „hetja“ er líka lýsandi fyrir menningarlegu viðhorfin því þegar orðið er notað um konur er talað um „kvenhetjur“ eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu.

    Nú er ég reyndar ekki fróður um tilurð kvenkynsins í indóevrópsku. En mér skilst að það hafi þróast út úr samkyni sem áður vísaði til bæði karla og kvenna (til marks um þetta er það að skyldleikaorðin í íslensku hafa sambærileg form og beygjast eins sbr. bróðir, systir, móðir, faðir). Þó að við gefum okkur það að kvenkynið hafi þróast sem „hitt kynið“ vegna þess að konur voru undirskipaðar (sem er varla ósennilegt) þá leiðir ekki af því að þúsundum ára seinna (sem er gífurlega langur tími í málþróun) hafi það bein eða óbein áhrif á hugsun.

    ——

    Í lokin má svo benda á það íslensku til framdráttar að í takmörkuðum tilvikum er hvorugkyn fleirtölu notað til að vísa til karla og kvenna. Sbr. Ég hitti Jón og Gunnu. Þau voru á kaffihúsi. Í slavneskum og rómönskum málum sem greina á milli ólíkra kynja í fleirtölumyndum af fornöfnum er notkun karlkyns til að vísa til kvenna og karla víðtækari. Þessi notkun á hvorugkyninu er germönsk nýbreytni en ég held þó að öll önnur lifandi germönsk mál greini ekki á milli kynja þarna.

    ——–

    Úr Historical Linguistics: An Introduction (e. Lyle Campbell, 1999:261–2)

    In degeneration (often called pejoration), the sense of a word takes on a less positive, more negative evaluation in the minds of the users of the language – an increasingly negative value judgement. A famous, oftcited example is English knave ‘a rogue’, from Old English cnafa ‘a youth, child’, which was extended to mean ‘servant’ and then ultimately to the modern sense of knave ‘rogue, disreputable fellow’ (compare the German cognate Knabe ‘boy, lad’). Examples of the degeneration of terms for women are well known and are often cited as examples in works dealing with social issues. For example, in colloquial German, Weib means ‘ill-tempered woman’ though in Standard German it just means ‘woman’ (contrast the English cognate wife, which formerly meant ‘woman’). A great many of the terms for women which initially were neutral (or at least not so negative) degenerated so that today they are quite negative in connotation:

    spinster ‘unmarried older woman’ < 'one who spins'.

    mistress <originally from a borrowing from Old French maistresse 'a woman who rules or has control'; earlier in English it meant 'a woman who employs others in her service, a woman who has the care of or authority over servants or attendants'.

    madam 'the female head of a house of prostitution' < 'a polite form of address to women'.

    Italian putta and Spanish puta 'whore' earlier meant just 'girl' (compare Old Italian putta 'girl', putto 'boy'; Latin putus 'boy', puta 'girl').

    Spanish ramera 'prostitute' earlier meant 'innkeeper's wife, female innkeeper'.

    • Vá, það er ótrúlega mikið af djúsí stöffi í þessari umræðu (já ég er ekki málanörd né hreinmálanörd). Mér finnst ótrúlega gaman að heyra þessar málfræðilegu forsendur tungumálanna. En eitt Aðalsteinn, ég skildi ekki alveg hvað þú varst að segja með meðvitund okkar um að Reykvíkingur, íbúi osfrv. væri karlkyn…eða hvaða tilgátu þú værir að tengja það við…en það sem er svo merkilegt við þessa „flokka“ sem eru karlkynsorð er einmitt að við sjáum alltaf fyrir okkur karlmann, og margir brandarar byggja á því að punchlænið er að við gerum ráð fyrir karli í slíku orði en um konu er að ræða.

  7. Okei frábært að heyra að það sé búið að rannsaka að öllu leyti tengsl hugsunar og tungumáls og að það sé kominn dómur í málinu og að þetta sé léttvægt. Eigum við ekki bara hringja í alla í heiminum sem er að pæla í þessum málum og segja að dómur sé fallin?

    Okei, þetta er kannski fáránlegt og kaldhæðið sem ég er að segja en þetta er kjarninn í gagnrýni minni á hugsun ykkar um að sanna, afsanna og úreltar hugmyndir. Þetta er komið út í vísindagagnrýni sem þarf meiri tíma að minni hálfu…kannski legg ég í það seinna.

  8. Kæra Nanna Hlín. Ég hjó eftir því að þú sagðir „þá þarf að passa með þessi fræði sem og öll önnur að þau verði ekki að valdatæki sem boði ákveðin Sannleik. Það hafa málvísindin sameiginlegt með heimspekinni og femínískum fræðum.“

    Mér finnst mjög áhugavert að þú nefnir feminísk fræði þarna með, því eftir að hafa kynnt mér þau fræði, og rannsóknaraðferðir sem þar eru nýttar, þá sé ég ekki betur en að rannsóknaraðferðirnar séu beinlínis hannaðar til að finna alltaf út að konur séu alltaf og í öllum kringumstæðum fórnarlömb. Til dæmis er „institutional ethnography“ skýrt dæmi um þetta. Þar beinist aðferðin að því finna stuðning við skoðanir rannsakanda, og allar upplýsingar túlkaðar til að komast að einni niðurstöðu.

    Í alvöru rannsóknum eru núll-tilgátur settar fram. Þannig er ákveðið í upphafi að það geti komið fram upplýsingar sem séu andstæðar hugmyndum rannsakenda. og ekkert rými gefið fyrir túlkun. Annað hvort sýnir rannsóknin einhver tengsl, eða ekki. Í kvennafræðum eru engar núlltilgátur, og allt beinist að því að koma fram með hinn mikla Sannleik: „konur eru alltaf og í öllum tilvikum fórnarlömb“.

    Ég skora á þig, Nanna, að finna svo mikið sem eina rannsókn, BA eða MA ritgerð í kynjafræðum sem sýnir fram á að konur séu EKKI fórnarlömb. Ef þú getur það ekki, kemur úr hörðustu átt að gagnrýna alvöru rannsóknir fyrir að snúast um að halda fram einhverjum Sannleik.

  9. Mig langaði rétt að skjóta að smá hrútskýringu til ritstjórnar: Það er ekki hlutverk ritstjórnar að bæta villum í góðan texta sem hefur e.t.v. verið yfirlesinn áður en hann var sendur frá höfundi. Ég segi þetta því ég var búinn að lesa upprunalegan texta greinarinnar (sem má sjá hér: http://www.facebook.com/notes/iris-edda-nowenstein/a%C3%B0-gera-m%C3%A1lkerfi%C3%B0-a%C3%B0-karlrembusv%C3%ADni/545481715504210) og hjó hér strax í þriðja orði eftir villu. Þar er búið að bæta inn í „s.l.“ sem ekki var að finna í upphaflegu greininni. „Síðastliðinn“ er skammstafað „sl.“, ekki „s.l.“.
    Einnig þykir mér óþarfi að breyta „femínisti og MA-nemi í almennum málvísindum“ í „femínisti og nemi í málvísindum“. Fagið heitir Almenn málvísindi, ekki málvísindi og ég sé ekki ástæðu til að downgrade-a menntunarstigið.

  10. Hér að framan tekur Selma Káradóttir fram að ég hafi ekki haft neitt út á túlkun Hildar að setja í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun. Hið rétta er að ég var aldrei spurð beint hvernig mér litist á þær skoðanir Hildar sem komu fram í pistli hennar. Þetta samtal var allt hið vinsamlegasta og spyrlarnir gerðu ekkert til að etja okkur saman. Ég var ekki spurð: „Er þetta rétt hjá Hildi?“ eða „Kúgar tungumálið konur?“ Til mín var beint almennum spurningum um fyrirbærið málfræðilegt kyn og kynjakerfi íslensku og ég talaði almennt um þetta, um umkvörtunarefni sumra femínista og um algeng viðbrögð málfræðinga við þeim. Talið barst ekki að mínum eigin skoðunum.

    • Ég hjó einmitt eftir því að þinn þáttur í viðtalinu var aðallega að útskýra þessi atriði í tungumálinu út frá sjónarhorni fræðanna, til dæmis að gera skýran greinarmun á þeim þáttum sem femínistar gagnrýna svo sem málkerfi annars vegar og kurteisisvenjum hins vegar. Ég hefði viljað heyra meira um námskeiðið þitt, Málfræði og kyn (ef ég man titilinn rétt), og e.t.v. líka hvað annað megi álykta út frá fræðunum um fullyrðingar Hildar (ef eitthvað). Ég ætlaði alls ekki að leggja þér orð í munn en reiknaði með að það hefði komið fram ef þú hefðir séð ástæðu til að mótmæla einhverju.

  11. Búið að afsanna? Best að hringja í ritstjóra tímaritsins, eða höfunda greinarinnar: Wolff, P. and Holmes, K. J. (2011), Linguistic relativity. WIREs Cogn Sci, 2: 253–265. Hér er pdf: http://userwww.service.emory.edu/~kholme2/WHwires.pdf

    Þeir segja m.a. „Although the literature on linguistic relativity remains contentious, there is growing support for the view that language has a profound effect on thought“.

    Vandamálið er að það er mjög óljóst hvað fólk á við þegar það segir eitthvað eins og „tungumál ákvarðar hugsun“ eða „tungumál hefur áhrif á hugsun“. Hvað er tungumál? Hvað er hugsun? Þetta eru ekki heimspekilegar æfingar heldur grundvallarspurningar.

    • Þetta er mjög áhugaverð grein, hún lýsir vel rannsóknum sem ég verð að viðurkenna að ég þekki lítið til ennþá. Þær hafa átt sér stað innan ramma hugrænna fræða og verið kallaðar einhvers konar endurreisn á Whorfismanum. Í þessum ramma hafa töluvert betur útfærðar útgáfur af einhvers konar málfræðilegu afstæði verið settar fram og rannsóknir sýnt (þó umdeildan) árangur. Ég minnist á þetta með lita- og rýmisskynjuna í pistlinum, en áhrifin sem koma fram í þessum rannsóknum takmarkast einmitt yfirleitt við slíka þætti hugsunar. Rétt fyrir ofan tilvitnuna sem þú tekur hérna stendur til dæmis: „We identify seven categories of hypotheses about the possible effects of language on thought across a wide range of domains, including motion, color, spatial relations, number, and false belief understanding. While we do not find support for the idea that language determines the basic categories of thought or that it overwrites preexisting conceptual distinctions, we do find support for the proposal that language can make some distinctions difficult to avoid, as well as for the proposal that language can augment certain types of thinking“.

      Þetta breytir því ekki að hugmyndir um málfræðilega nauðhyggju af því tagi sem birtist í grein Hildar hafa ekki hlotið neina endurreisn eftir því sem ég best veit, þær eru ennþá taldar úreltar, og hafa í raun verið taldar úreltar í fjörtíu ár. Ég er þó algjörlega opin fyrir þeim möguleika að nýjar rannsóknir umbylti þessu viðhorfi og sýni okkur að málfræðilegt kyn eða önnur málkerfisleg atriði móti að einhverju leyti viðhorf okkar til kynjanna. Miðað við stöðuna í fræðunum í dag virðist það hins vegar afskaplega hæpið. Það virðast ekki vera nein tengsl á milli málfræðilegs kyns og þeirrar staðreyndar að í orðræðunni séu karlar kvengerðir í niðurlægingarskyni (þetta var undirliggjandi í grein Hildar og gagnrýni á þessu var útgangspunkturinn með dæmunum um tungumál sem ekki hafa kynjakerfi).

      Fyrst við erum komin dýpra í pælingar um þessa endurreisn á Whorfismanum langar mig að benda á eitt sem ég rakst á í dag þegar ég skoðaði þessi fræði betur. Það virðist einn fræðimaður, Boroditsky, sérstaklega hafa einbeitt sér að málfræðilegu kyni í þessum ramma. Rannsóknir hennar snúast um það hvort málfræðilegt kyn hluta hafi einhver áhrif á það hvort við lítum á þá sem kvenleg eða karlleg fyrirbæri. Þetta eru pælingar eins og að Íslendingar líti á lampa sem karlkyns fyrirbæri en Frökkum finnist þeir frekar kvenlegir, þar sem lampi er karlkyns í íslensku en kvenkyns (la lampe) í frönsku. Þetta er í rauninni hinn póllinn á því sem Hildur lýsir, að sýn okkar á kynjunum smiti út frá sér til ókynjaðra hluta í gegnum málfræðilegt kyn, straumurinn liggur í hina áttina. Þessar rannsóknir eru skammt á veg komnar, töluvert umdeildar og eiginlega aðeins stundaðar af fólki innan þessa ramma (mikill ókostur) – en alveg gríðarlega spennandi! Þær hafa þó þann stóra galla að neyða þátttakendur til þess að útdeila einhvers konar líffræðilegu kyni til ókynjaðra hluta. Það gæti haft í för með sér einhvers konar sýndaráhrif í rannsóknunum þar sem orsakasamhengi er skapað frekar en að því sé lýst. Mér datt alla vega í hug að einhverjir hér hefðu áhuga á að kynna sér þetta. Það er hægt að byrja á þessari grein: http://public.wsu.edu/~fournier/Teaching/psych592/Readings/Gender_Grammar.pdf.

      Annars finnst mér þetta alveg frábærar umræður og virkilega gaman að skoða öll þessi ólíku sjónarhorn, þó ég svari ekki öllum athugasemdunum sem beint er að mér (aaaðeins of tímafrekt í lokaverkefnatörninni).

  12. Selmu hefði þótt fróðlegt að heyra meira um námskeiðið Mál og kyn:
    Námskeiðið á heima í kennslugreininni íslensku en er opið meistaranemum og lengra komnum BA-nemum í íslensku, almennum málvísindum, ritlist, þýðingafræði, tungumálagreinum, kynjafræði og fleiri greinum. Það er líka þverfaglegt að því leyti að ég kenni það ekki ein, heldur koma ýmsir gestafyrirlesarar úr hópi málfræðinga og úr öðrum greinum.
    Það er fjallað um fyrirbærið málfræðilegt kyn, notkun málfræðilegra kynja í íslensku og fleiri tungumálum, orðaforða um karla og konur, málfar tengt kynhneigð, muninn á máli karla og kvenna og margt fleira, m.a. baráttuna fyrir jafnrétti í tungumálinu. Á þessu misseri var það til dæmis nýjung að heyra nýútskrifaðan talmeinafræðing segja frá meistaraverkefni sínu um radd- og framsagnarvandamál þeirra sem láta leiðrétta kyn sitt.
    Nú er þetta misseri að renna á enda og of seint að bætast í hópinn, og námskeiðið verður ekki á dagskrá næsta vetur. Ef einhverjir hafa áhuga á þessu námskeiði og vonast til að það verði kennt aftur, þá er um að gera að koma því á framfæri.

  13. Þetta er nokkurn veginn greinin sem ég ætlaði sjálfur að fara að skrifa.

    Það sem er ruglingslegt í þessu máli er að mörg af orðunum sem við notum til að tala um tungumál og málvísindi eru misvísandi. Dæmi er orðið ,málfræði‘. Málfræði getur þýtt: 1) reglur tungumáls almennt séð, 2) beyginga- og orðhlutafræði tungumáls sérstaklega, með aðra þætti tungumáls undanskilda, 3) bók með reglum um tungumál, (oftast samkvæmt skilningi 2), 4) innbyggt reglukerfi tungumáls í heila fólks.

    Annað dæmi er orðið ,kyn‘ í málfræðilegum skilningi. Það vísar til 1) ákveðins ósýnilegs þáttar sem tengist hverju nafnorði sem krefur meðfylgjandi orð innan sama nafnliðar til að vera í ákveðnum beygingarflokki („sambeygjast“), 2) ákveðins hóps beygingarflokka sem tengjast téðum ósýnilegum þætti nafnorðanna, 3) líffræðilegs kyns.

    Meðal annars stafar þessi ruglingur af því að orðin eru tökuþýðingar úr rúmlega 2000 ára gömlum rómverskum fræðiheitum. Málvísindamenn eiga sér ný og skýrari orð yfir þetta allt og forðast oft loðin orð eins og málfræði og kyn.

    Að lokum langar mig að koma með tvær gerðir af dæmum til að sýna fram á að beygingafræði og setningafræði máls hefur ekki áhrif á sýn okkar af heiminum, eins og Íris rekur hér að ofan. Ástæðan er í grunninn sú að öll tungumál geta tjáð sömu hugmyndir. Eini munurinn er hvaða aðferðum er beytt til þess. Þetta er kallað lexicalization vs. grammaticalization á ensku, sem þýða má sem orðaforðavæðing og málfræðivæðing (en vísindamennirnir hér geta sagt mér ef betri þýðingar eru til—allt sem ég hef lesið um málvísindi er á ensku).

    Dæmi: Í japönsku er kurteisi beygingarformdeild í sagnorðum. Sagnorð eru beygð eftir hvort mælandi eru undirgefinn, jafningi eða hærra settur áheyranda. Í frönsku eru mismunandi fornöfn notuð, vous og tu, til að gefa sama í skyn. Í nútímaíslensku beytir maður öðrum minna fastsettum aðferðum, orðar hlutina öðruvísi, notar meiri skrauthvörf o.s.frv. Stundum notar íslenska viðtengingarhátt eða frasa eins og ,gætir þú‘ eða ,nennirðu plís‘. Hér er japanska mjög málfræðivædd og íslenska mjög orðaforðavædd þegar kemur að kurteisi. Einfeldningsleg afleiða af þessum upplýsingum er sú að Japanir séu kurteisari en Íslendingar af því sagnir þeirra beygjast í kurteisi. Ef svo væri ættu Frakkar að vera meira kurteisir en Íslendingar en minna kurteisir en Japanir. Við sjáum strax að þetta er bara vitleysa. Kurteisisvenjur eru mjög flóknar og huglægar, og eins manns kurteisi er annars manns dónaskapur. Tungumálið er bara einn þáttur í þessu.

    Annað dæmi: Í íslensku beygjast nafnorð og nafnliðir eftir falli sem gefur aukaupplýsingar um setningarfræðilegt hlutverk orðsins og breytir stundum merkingu setningar (svo sem í „ég fór með honum til læknis“ og „ég fór með hann til læknis“). Í spænsku beygjast nafnorð ekki í falli. Þessar mikilvægu aukaupplýsingar eru gefnar í gegnum setningafræði (orðaröð, með forsetningarliðum) en ekki í gegnum beygingar. En hvaða ályktun er hægt að draga af þessu? Að Íslendingar falli meira af því þeir hafa fall í tungumálinu sínu?

    Þriðja dæmið: Íslenska leyfir svokölluð langdræg afturbeygð fornöfn, eitt ógnarfárra mála í heiminum sem gera það (og er því vinsælt rannsóknarefni málvísindamanna). Flestir skilja varla orðið fornafn, hvað þá orðið afturbeygt eða langdrægt. Því er ekki hægt að draga neinar ályktanir af þessu málfræðiatriði fyrir samfélagsgerðina.

    Íris minntist þegar á tungumál sem hafa ekki kyn vs. tungumál sem hafa þau. Það vill svo til að indó-evrópsk mál hafa þessa málfræðiformdeild sem rómverjar kölluðu kyn. Ástæðan fyrir því að þetta fyrirbæri var kallað kyn var af því fornöfn í flokki I eru notuð til að vísa í líffræðilega karlkyns verur og fornöfn í flokki II eru notuð til að vísa í kvenverur. Hún minntist þó ekki á að mörg mál eru með mun flóknari kerfi en íslenska eða latína. Stundum eru þessir flokkar orða tengdir merkingu þeirra: mannfólk, dýr, plöntur, hlutir, óhlutbundin hugtök – stundum eru þeir alveg út í bláinn og eru bara kallaðir I, II, III, IV o.s.frv.

    Loks langar mig að benda á nokkuð sem Hildur virðist þó hafa tekið eftir í sinni grein en að mínu mati dregið langa ályktun af. Kvenkyns orð sem oft vísa í karla eins og lögga, hetja eru samt kvengerð ef „undantekningin“, konur, á við. Fólk segir „kvenlögga“ en aldrei heyrir maður „karllögga“. Undirlyggjandi staðalmyndir tengdar starfstéttum eru það sem ræður, ekki málfræðilegt kyn. Eins hugsa flestir um konu þegar ég segi snyrtifræðingur, hjúkrunarfræðingur eða grunnskólakennari. Þó eru þetta karlkynsorð.

    Samfélagið ræður hvernig við hugsum, ekki tungumálið. Tungumálið er bara tól til að koma þeirri hugsun frá okkur.

  14. Bakvísun: Svar við svari Irisar | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.