Knúzið spyr – Húmanistaflokkurinn svarar

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma.

Júlíus Valdimarsson, sem á sæti í landsstjórn Húmanistaflokksins, sendi svörin frá þeim.

1.Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Svar: Nei, fullum jöfnuði kynjanna hefur engan veginn verið náð. Hin karllæga menning er aldagömul og konur eiga erfitt uppdráttar í því að standa jafnt körlum á flestum sviðum í þjóðfélaginu. Þetta kemur m.a. fram í launamismun og í því hvernig konum gengur að komast í t.d. stjórnunarstörf og önnur ábyrgðarstörf..

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Svar: Já, það verður að bregðast við þessu m.a. með því að koma á umræðu og vitundarvakningu um að þrátt fyrr líkamlegan mismun búa bæði kynin yfir mennsku og óendanlegum möguleikum. Mismunun milli karla og kvenna er ekki náttúrulögmál heldur þáttur í gamalli úreltri menningu sem þarf að breytast í átt til algjörs jafnréttis milli karla og kvenna.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar?

Svar: Já það þarf að skoða karllæga menningu innan dómarastéttarinnar eins og annars staðar þannig að hún breytist, þannig að dómarar beri jafna virðingu fyrir framburði þolenda og gerenda. Kynferðisbrot ættu ekki að fyrnast. Einnig þarf að breyta um meðferð þessara mála, m.a. með því að stuðla að því ef mögulegt er að sættir geti orðið milli þolanda og geranda. Slíkar sættir eru eina raunhæfa meðalið til þess að þjáningunni linni og þessir atburðir endurtaki sig ekki eins og dæmin sanna þar sem fórnarlambið verður síðar gerandi.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Svar: Já, Húmanistaflokkurinn er fylgjandi því sem við köllum jákvæðri mismunun á meðan verið er að leiðrétta þann halla sem er á jafnri stöðu karla og kvenna. Þetta er nauðsynlegt til að brjóta upp þá aldagömlu tilhneigingu til þess að karlar hafi öll völdin en konan eigi að vinna á „mjúkum sviðum“ en helst valdalitlum til þessa að ógna ekki karlaveldinu.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Svar: Já, Húmanistaflokkurinn er á mótt hvers kyns ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist. Klám sem felur í sér ofbeldi ætti ekki að gera að söluvöru og það ætti að leita leiða til þess stemma stigu við framleiðslu þess. Við trúum ekki að bann leysi málið heldur opinber umræða og skoðanaskipti og ekki síst menntun og fræðsla fyrir kennara og foreldra um þessi mál og samskipti foreldra við börn sín og unglinga. Lykillinn hér eins og á mörgum öðrum sviðum er að iðka lífsregluna um að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Svar: Það sem útskýrir þennan launamun er enn og aftur karllæg menning og að körlunum sem hafa völdin og stjórna fyrirtækjunum finnst betra að hafa karla sér við hlið og þeir ganga á rétt kvenna vegna þess að þeir komast upp með það. Við viljum að fyrirtækjum verði veitt sérstök skattaívilnun sem sýnt geta fram á að það ríki fullt launajafnrétti og jafnræði kynjanna til allra starfa innan fyrirtækis – þar með talinna stjórnunarstarfa og setu í stjórn. Einnig er hægt að beita sektum ef fyrirtæki og opinberar stofnanir gæta ekki að jafnrétti kynjanna innan sinna vébanda.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Svar: Já vissulega viðgengst kynbundið ofbeldi hér á landi. Það þarf að bregðast við því með opinni umræðu um rétt allra til þess að ráða yfir eigin líkama. Eins og kemur fram í fyrri svörum þarf að breyta hinni karllægu menningu, leiðrétta efnahagslegt ofbeldi sem beinist að konum, leiðrétta hellisbúaviðhorf karla gagnvart konum og umfram allt koma á gagnvæmri virðingu milli kynjanna. Karlar og konur eiga flest sameiginlegt þrátt fyrir mismunandi líffæri til æxlunar og þess vegna er mikilvægt að við getum losnað út úr þessari sífelldu flokkun í karla og konur sem er úrelt hugsun úreltrar menningar. Mikilvægt er að koma á beinu lýðræði – einn maður eitt atkvæði – á sem flestum sviðum, einnig innan fyrirtækja, og með þeim hætti er mun líklegra að gætt verði þeirra mannréttinda að kynin búi við jafnan rétt.

———
Knúzið þakkar Húmanistaflokknum kærlega fyrir svörin.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.