Knúzið spyr – Björt framtíð svarar

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma.

Þessi svör bárust frá Bjartri framtíð.

 

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei. Björt framtíð er meðvituð um að fullum jöfnuði kynja er ekki náð. Konur eru í minnihluta í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum og samtökum, færri í stjórnmálum og valdameiri hlutverkum í samfélaginu og óútskýrður kynbundin launamunur er enn til staðar. Kynbundið ofbeldi er alvarlegur samfélagsvandi á Íslandi sem og í heiminum öllum ásamt því sem birtingarmyndir kynjanna byggja að miklu leyti á stöðluðum hugmyndum um kynin sem hefur skaðleg áhrif á bæði konur og karla. Við viljum breyta þessu eins og kemur fram í ályktun okkar númer eitt.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Björt framtíð er mannréttindaflokkur og erfitt er að standa fyrir mannréttindi ef við erum ekki tilbúin til þess að gera sérstakar ráðstafanir og beita aðgerðum til þess að bregðast við þessari stöðu. Við teljum t.d. að það sé hlutverk stjórnmálamanna að tryggja það að lög um jafna stöðu kvenna og karla séu ekki eingöngu orð á blaði heldur lög sem þarf að framfylgja í verki. Björt framtíð veit að best jafnvægi fæst þegar bæði kynin vinna saman því með því fæst breiðara sjónarhorn á öll málefni. Við munum styðja allar skynsamlegar aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun og erum m.a. mjög hrifin af kynjaðri fjárlagagerð og hagstjórn sem hefur sýnt sig að geti virkað vel í þessu augnamiði. Við teljum að rétta þurfi hlut foreldra sem ekki búa saman í þá veru að þau geti bæði, ef vilji er fyrir hendi, deilt forræði barna sinna og verið lögheimilisforeldrar. Mikilvægt er að konur sem karlar sinni barnauppeldi jafnt, fyrst og fremst barnanna vegna, en einnig til að auka jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, í stjórnmálum og samfélaginu öllu.

Kynbundið ofbeldi er samfélagsvandi á Íslandi og leggjum við áherslu á að mikilvægt sé að styðja þau samtök sem nú þegar eru til og hafa unnið í þessum málum s.s. Kvennaathvarfið, Stígamót, Kristínarhús og önnur mikilvæg samtök og grasrótarhreyfingar. Dómskerfið þarf að vera skilvirkara og meira hvetjandi fyrir brotaþola kynferðisofbeldis og heimilisofbeldis að leita réttar síns. Mikilvægt er að nýta þá miklu sérfræðiþekkingu sem til staðar er í landinu og að sett verði langtímamarkmið sem miði að því að útrýma hvers konar kynbundnu ofbeldi. Við leggjum í þessu samhengi áherslu á að gera þurfi átak í að bregðast við stöðu fatlaðra kvenna sem rannsóknir sýna að verða í mun ríkara mæli fyrir ofbeldi en ófatlaðar konur og hafa minni möguleika á að koma sér út úr aðstæðunum eða hafa aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði fyrir brotaþola ofbeldis. Vændi og mansal er smánarblettur á öllum samfélögum og gegn því þarf að vinna. Hjálpa þarf  þeim sem lent hafa í vændi og vilja komast úr því líkt og gert er nú í Kristínarhúsi. Lögin í dag eru líklega skásta leiðin, þar sem þriðja aðila er bannað að græða á vændissölu og kaupendum er refsað.  Það sama á við um mansal, vinna þarf í að upplýsa slík mál með það að markmiði að hjálpa þolendum mansals.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Við teljum ástæðu til að taka meðferð kynferðisafbrotamála til skoðunar með það að markmiði að einfalda leiðirnar og gera það skilvirkara ásamt því að byggja það upp þannig að það hvetji brotaþola til að leita réttar síns og mat dómsstóla stýrist af raunverulegri þekkingu á ofbeldi og afleiðingum þess.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Björt framtíð vill útrýma kynjamisrétti og setur stefnu sína á samfélag sem þarf ekki kynjakvóta og aðrar forvirkar leiðir til þess að viðhalda jafnrétti. Við erum þó ekki komin þangað enn og styðjum því beinar aðgerðir til þess að breyta menningu okkar og kerfum sem stuðlar að jöfnum tækifærum og stöðu kynjanna, m.a. kynjakvóta.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Með tilkomu internetsins hefur aðgengi að klámi orðið mikið, því miður oft mjög ofbeldisfullu og niðurlægjandi. Það sem við í Bjartri framtíð teljum mikilvægast í þessu máli er að ráðast á rót vandans og upplýsa, ekki síst börnin okkar. Jafnréttisfræðsla, í orðum og gjörðum, þarf að vera meiri inn á heimilum og í skólakerfinu öllu en við teljum að mikilvægt sé að flétta hana markvisst inn í námsgreinar auk þess sem jafnréttismál séu rædd sérstaklega. Þar að auki teljum við að kynfræðsla þurfi að þróast frá því að vera nær eingöngu læknisfræðileg yfir í að fjallað verði um kynlíf út frá samfélagslegum sjónarhornum og með tilliti til fjölbreytileikans í samfélaginu. Kynfræðslan þarf einnig að gera góðan greinarmun á kynlífi og klámi og fjalla um virðingu fyrir líkama okkar og annarra og þeim mörkum sem hver og ein manneskja setur sér. Við aðhyllumst almennt minna vesen og meiri sátt og liður í því teljum við t.d. vera að losa okkur við tabúin og tala opinskátt um kynlíf sem eðlilegan hlut af okkar tilveru. Þá aukast líkurnar að okkar mati á að við höfum betri sameiginlegan skilning á þessum málum, börn og unglingar finni sig síður knúin til að svala forvitninni eða fræðast í gegnum óábyrgar leiðir eins og klám og í staðin getum við átt opin og heiðarleg samskipti þar sem er minna um vandræðagang og fólki líður betur. Við fögnum þ.a.l. myndum eins og Fáðu já sem fjallar um þessi mál á opinskáan og skemmtilegan hátt.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Það er margt sem við teljum geta útskýrt launamun karla og kvenna og teljum við mikilvægt, eins og fram hefur komið, að útrýma honum. Rótgrónar hugmyndir um konur og karla lita menningu okkar og kerfi, verðmætamat starfsgreina er ábótavant og þarf að hafa áhrif á það með þeim hætti að svokölluð „kvennastörf“ séu ekki verr metin (og lægra launuð) en svokölluð „karlastörf“. Vinna þarf að viðhorfsbreytingu samhliða þessu til þess hvað flokkast sem kvenna- og karlastörf, t.d. með aukinni jafnfréttisfræðslu á heimilum og í skólum sem felst m.a. í að skapa fjölbreyttar raunverulegar fyrirmyndir fyrir bæði kynja. Leiðrétta þarf einnig viðhorf gagnvart fæðingarorlofstengingu þar sem markmiðið verði að feður taki fæðingarorlof til jafns á við mæður ásamt því sem við ítrekum mikilvægi þess að leiðrétta ójafna stöðu foreldra sem búa ekki saman. Við teljum jafnframt að mikilvægt sé að auka gagnsæi í launamálum og fyrirtæki þurfi í verki að birta upplýsingar um laun svo þær séu aðgengilegar öllum þar sem launaleynd er ólögleg. Mikilvægt er einnig í okkar huga að fyrirtæki séu með jafnréttisstefnu sem fylgt er eftir með markvissum leiðum og að henni sé raunverulega komið í framkvæmd.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Við ítrekum það sem fram hefur komið að við viðurkennum að hér viðgangist kynbundið ofbeldi og viljum við bregðast við því með opinni umræðu, fræðslu, með því að styðja við þá staði sem vinna með brotaþolum ofbeldis og minnka vesen í dómskerfinu með það að markmiði að það hvetji brotaþola til að leita réttar síns og skilvirkni aukist.

—-

Knúzið þakkar Bjartri framtíð kærlega fyrir svörin.

 

 

Ein athugasemd við “Knúzið spyr – Björt framtíð svarar

  1. Bakvísun: Stefnuleysi Bjartrar framtíðar | Freyja

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.