Knúzið spyr – Píratar svara

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma.

Helgi Hrafn Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, sendi þessi svör:

Jafnréttisstefna Pírata hefur verið unnin með víðtæku fundarstarfi og umræðu þótt hún eigi eftir að fá formlega kosningu í kosningakerfi Pírata. Hér er svarað samkvæmt stefnunni eins og hún er þegar þetta er ritað en víðtæk sátt hefur þegar náðst um þau atriði sem hér eiga við.

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, jöfnuði hefur ekki verið náð. Þótt lagalegu jafnrétti hafi verið náð eru þrír stórir málaflokkar eftir, þ.e. kynbundið ofbeldi, kynferðisglæpir og launamunur kynjanna en þar hallar enn á konur.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Launamun kynjanna þarf að tækla með eftirfarandi hætti:

a) Hækka þarf laun svokallaðra hefðbundinna „kvennastarfa“, umönnunarstarfa sérstaklega. Leikskólakennsla, skólakennsla, hjúkrun og önnur umönnunarstörf eru skammarlega illa launuð miðað við mikilvægi þeirra.

b) Gefa þarf annaðhvort yfirvöldum eða stéttarfélögum heimild til að rannsaka óútskýrðan launamun hjá fyrirtækjum og stofnunum, sérstaklega ríkisstofnunum, og ávíta yfirmenn, finnist óeðlilegur launamunur byggður á mismunun.

c) Að tryggja skuli rétt fólks til að tala um eigin laun við aðra og stuðla að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllum starfsmönnum aðgengilegar réttar upplýsingar um launakjör allra starfsmanna. Þó verði óheimilt að deila þeim upplýsingum utan fyrirtækis nema til að tilkynna eftirlitsaðilum.

Hvað varðar kynbundið ofbeldi þarf aukna sálfræðiaðstoð handa fórnarlömbum um leið og þau tilkynna um kynferðisafbrot gagnvart sér, svo þau geti betur tekist á við það erfiða ferli að höfða mál gegn maka eða öðrum nærkomnum. Þá gildir einu hvort um sé að ræða kynferðisofbeldi eða annað ofbeldi eða af hvoru kyni fórnarlambið sé.

Festa þarf í sessi kynfrelsi sem sérstök borgararéttindi á borð við tjáningarfrelsi, ferðafrelsi og önnur frelsi sem teljast til borgararéttinda í dag. Kynhegðun og fjölgun eru í grunneðli mannkyns og það er sjálfsagt að það séu sérstaklega skilgreind réttindi, umfram önnur réttindi gegn líkamsskaða, að hver einstaklingur taki einn ákvörðun um eigið kynferði og kynhegðun.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já, vegna þess að kynferðisbrot eru ekki eins og hver önnur brot. Líkamstjón getur átt sér stað t.d. með slysi eða með eigin óvarkárni og varða manns eigin afkomu. Kynferðisbrot gerast hinsvegar eingöngu í félagslegu samhengi og hafa djúp, sálræn áhrif þar sem þau varða grunnhegðun fólks, nefnilega kynferði.

Eyrnamerkja ætti fjármagn til dómsmeðferðar kynferðisafbrota til að vega upp á móti þeirri staðreynd að sakamálum sé forgangsraðað eftir því hversu líklegt þykir að sakfelling náist. Þannig er hægt að taka á fleiri kynferðisafbrotamálum án þess að snúa við sönnunarbyrði ákæruvaldsins.

Þótt kynfrelsi sé nefnt í athugasemdum í lögum telja Píratar að kominn sé tími til að skilgreina kynfrelsi sem sérstaka tegund borgararéttinda á borð við skoðana-, trú- og ferðafrelsi. Hæstaréttardómur 521/2013 sem féll um hið svokallaða Hells Angels mál, sýndi fram á nauðsyn þess að lögfesta hugtakið og skilgreina nákvæma lagalega þýðingu þess. Einnig myndu slík réttindi gera yfirvöldum erfiðara að skerða rétt fólks til að ákveða eigin kynferði og kynhegðun í framtíðinni. Hefði slíkt frelsi verið skilgreint sem borgararéttindi snemma á 20. öldinni hefði aldrei verið mögulegt að banna samkynhneigð.

Píratar hafa áður gagnrýnt skort á lagalegri skilgreiningu á kynfrelsi sem sérstökum borgararéttindum.*

*http://www.dv.is/frettir/2013/2/2/braut-thannig-freklega-gegn-kynfrelsi-hennar/

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Nei, kynjakvótar og fléttulistar eru rangar aðferðir. Þau geta fegrað tölfræðina en þau eru í reynd viðurkenning á því að annað kynið sé raunverulega æðra hinu og að hitt geti ekki komið sér áfram nema með einhvers konar forréttindum. Slíkar aðgerðir styrkja fordóma og veita fordómafullu fólki óverðskuldaða réttlætingu á viðhorfum sínum. Í einstaka tilfellum getur verið að sérstaklega þurfi að tryggja aðkomu fólks af öðru kyni, ef alger skortur er á því, en almennt laga slíkar aðgerðir ekki sjálfan vandann heldur þvert á móti gera okkur blind gagnvart honum.

Í þessu sambandi má benda á góða reynslu Pírata af galopnum kosningum á framboðslista án kynjakvóta þar sem síður en svo hallar á konur. Til að mynda er hlutfall kynjanna í oddvitastöðum Pírata jafnt, jafnvel þótt töluvert fleiri karlar hafi boðið sig fram. Kosið var lýðræðislega og helmingur frambjóðenda sem þóttu hæfir voru konur. Píratar hafa sýnt fram á með óyggjandi hætti að jafnrétti kynjanna og óheflað lýðræði séu fullkomlega samhæf.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Píratar vilja takmarka neikvæð áhrif af klámi með fræðslu sem leggur áherslu á virðingu fyrir öðrum í kynlífi. Neikvæð áhrif efnis á borð við kláms, hatursáróðurs og þvíumlíks þrífast eingöngu í tómarúmi sem ber að fylla með mótvægi í formi fræðslu og opinnar umræðu um kynlíf.

Til að stemma stigu við óæskilegu efni á internetinu almennt, hvort sem það er klám, hatursáróður eða hvað, þá ber foreldrum og stofnunum að takmarka sín eigin net á sínum eigin forsendum og hverju landi að framfylgja lögum innan eigin lögsögu. Píratar eru eini flokkurinn sem hefur sérstaklega útbúið leiðbeiningar fyrir foreldra og starfsmenn stofnana til þess að sía sín net.

Mýmargar aðrar leiðir eru fýsilegri til að bregðast við neikvæðum áhrifum kláms á kynhegðun og kynjaímyndir. Flestar þeirra leiða eru einfaldari í útfærslu og líklegri til að skila árangri en löggæsluinngrip en í því sambandi má sérstaklega nefna grasrótarátök á borð við fræðslumyndina Fáðu já ásamt öflugri þjóðfélagsumræðu sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um eðli kláms og áhrif þess.

Ritskoðun hefur verið reynd í mörgum löndum, bæði lýðræðislegum og ólýðræðislegum, en hún hefur aldrei borið árangur sem erfiði. Óhjákvæmilegt er að lögmætt efni sé ritskoðað í leiðinni og ógerningur er fyrir almenning að staðfesta réttmæti ritskoðunar nema með því að hafa aðgang að ritskoðuðu efni, sem er mótsögn. Til að ritskoða netið þarf í reynd að útiloka allt nema það sem er sérstaklega leyft en einnig að banna dulkóðun, en það myndi engu áorka nema að skemma internetið í stað þess að bæta.

Síðast en ekki síst lögum við ekki vandamál heimsins með því að loka augunum fyrir þeim. Það er ekki í verkahring yfirvalda að ákveða fyrir fólk hvað það megi sjá og heyra, sérstaklega það ljóta í heiminum. Það sem birtist á netinu er endurspeglun af samfélagi fólks og það er mikilvægt að við horfumst í augu við heiminn eins og hann er, ekki eins og við vildum óska þess að hann væri. Því er mikilvægt að fullorðið fólk hafi óheflaðan aðgang að frjálsu og opnu interneti án tillits til þess sem þar er að finna.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

a) Hefðbundin „kvennastörf“, sérstaklega umönnunarstörf eru ekki metin að verðleikum.
b) Fordómar, bæði karla gegn konum og konum gegn sjálfum sér.
c) Réttindi og tækifæri til að tilkynna óeðlilegan launamun eru ekki nógu skýr.

Lausnin er að hækka laun í umönnunarstörfum og öðrum hefðbundnum „kvennastörfum“, auka gagnsæi með því að afnema launaleynd innan stofnan og fyrirtækja ásamt því að bjóða upp á úrræði annaðhvort ríkisins eða stéttarfélaga til þess að takast á við kynbundna launamismunun.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Já, þeirri staðreynd er ekki hægt að neita. Við því þarf að bregðast með því að auðvelda fólki eftir fremstu getu að tilkynna slíkt til lögreglu þannig að fórnarlambið skynji að það sé í rétti. Helsti erfiðleikinn við að tilkynna kynbundið ofbeldi og kynferðisbrot er skömmin sem fórnarlambið upplifir. Við því þarf að bregðast með því að breyta markvisst viðhorfum á öllum sviðum til kynbundins ofbeldis. Mikilvægt er að fórnarlömb kynbundins ofbeldis fái samstundis sálfræðiaðstoð, ekki bara til að takast á við ofbeldið sjálft heldur líka til að hjálpa fórnarlambinu að leita réttar síns.

Sérstaklega mikilvægt er að stuðla að opinni umræðu um málaflokkinn. Þetta felur m.a. í sér fræðslu, en stefna Pírata um lögbundna kynfræðslu tilgreinir t.d. að í kynfræðslu verði áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og upplýst samþykki.

———

Knúzið þakkar Pírötum kærlega fyrir svörin.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Knúzið spyr – Píratar svara

 1. Mikið er ég glaður að sjá þetta stefnumál: „Hækka þarf laun svokallaðra hefðbundinna “kvennastarfa”, umönnunarstarfa sérstaklega. Leikskólakennsla, skólakennsla, hjúkrun og önnur umönnunarstörf eru skammarlega illa launuð miðað við mikilvægi þeirra.“

  Maður hefði haldið að núverandi ríkisstjórn hefði gert eitthvað í þessum málum, verandi til vinstri og annt um kvennréttindi og hag kvenna almennt. En hvað gerði hún fyrir þessar stéttir? Nákvæmlega ekkert! Enda „ekkert svigrúm til launahækkana“…

  En það var svigrúm til að borga 3 milljónir fyrir kynjafræðilega greiningu á hrunskýrslunni (og niðurstaða þeirrar miklu „greiningar“ var gefin fyrirfram áður en höfundar skýrslunnar svo mikið sem flettu henni). Ég hefði getað séð um greininguna fyrir fimmkall: „Karlar í karlaveldi vondir, konur góðar, Valgerður fórnarlamb karlaveldis og því ekki svo slæm“.

  Það var líka svigrúm til að bjóða fúskaranum Gail Dines til að tala á ráðsefnu ál Íslandi og dubba hana upp sem „sérfræðing“ sem fór í trúboð í ráðuneyti og ríkisstofnanir. Eitthvað hefur það kostað.

  Semsagt nægir peningar í háskólafeminisma, en enginn áhugi eða vilji til að bæta stöðu láglaunakvenna. Enda er ríkisstjórnin núna að uppskera eins og hún sáði.

  Óska pírötum alls hins besta í komandi kosningum!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.