Knúzið spyr – Vinstri græn svara

Eins og fram hefur komið hefur knuz.is sent tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma. Flest framboð hafa svarað og Knúzið hefur birt svörin síðustu daga.

Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins, sem skipar 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður, sendi svör Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi?  Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, því miður er allnokkuð í land og margt sem upp á vantar: kynbundinn launamunur, kynskiptur vinnumarkaður, kynferðisofbeldi, klám, vændi og mansal.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Vinstri græn vilja grípa til allra aðgerða til að byggja upp samfélag jafnréttis og kvenfrelsis, og hafa sýnt það í verki á þessu kjörtímabili. Að hluta til er minnst á þær aðgerðir hér í síðari svörum en þess utan má t.d. nefna að styrkja framkvæmd kynjaðar fjárlagagerðar, efla stúlkur og drengi í gegnum menntakerfið, vinna gegn staðalmyndum o.fl.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Vinstri græn tóku meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til skoðunar um leið og Ögmundur Jónasson varð ráðherra dómsmála, haustið 2010. Var efnt til viðamikils samráðs þar sem kallaðir voru til fulltrúar lögreglu, ríkissaksóknara, dómstóla, grasrótarsamtaka, fræðasamfélags, neyðarmóttöku vegna nauðgana, Stígamóta o.fl., með það að markmiði að greina þá þætti sem má bæta við meðferð þessara mála innan réttarkerfisins. Niðurstöðum úr þessu ferli hefur verið fylgt markvisst eftir. Má þar nefna að haldin var alþjóðleg ráðstefna um meðferð kynferðisbrota, komið var á formlegu samráði helstu aðila um rannsókn og saksókn nauðgunarmála og lögum um skaða- og miskabætur var breytt til að auka rétt brotaþola kynferðisofbeldis. Innanríkisráðuneytið styrkti og á í samstarfi um rannsókn á meðferð nauðgunarmála sem EDDA – öndvegissetur við Háskóla Íslands vinnur að og ætla má að niðurstöður hennar gefi vísbendingu um næstu skref. Þá er í farvegi fræðsla sem beint er sérstaklega að réttarkerfinu um kynferðisbrot. Vinstri græn telja að réttarkerfið nái ennþá illa utan um þennan brotaflokk og vilja halda áfram að leita allra leiða til að bæta það. Slíkar aðgerðir verða jafnframt að haldast í hendur við almenna vitundarvakningu um kynferðisbrot og þá þætti í menningunni – þar með talið hefðbundin kynhlutverk, staðalmyndir og meðvirkni með ofbeldi – sem gera að verkum að slíkt ofbeldi þrífst í svo miklum mæli sem raun ber vitni.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Já, við höfum stutt tímabundnar sértækar aðgerðir til að jafna hlut kvenna í atvinnulífinu.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Já. Samfélag sem vill taka annars vegar barnavernd og hins vegar kvenfrelsi alvarlega getur ekki litið framhjá útbreiðslu ofbeldisfulls kláms og áhrifum þess. Börn eru að meðaltali 11-12 ára þegar þau sjá klám í fyrsta sinn og fagaðilar telja að áhrifa kláms gæti í kynferðisbrotum hér á landi. Ofbeldisklám hefur afgerandi áhrif á hugmyndir ungmenna um eigin líkama, kynlíf og samskipti kynjanna. Vinstri græn hafa þegar sýnt að þau eru óhrædd við að taka þessa umræðu og ráðast þar gegn hinu viðtekna. Fræðsla um kynferðisofbeldi og klám hefur verið liður í Vitundarvakningu stjórnvalda um kynferðisofbeldi gegn börnum með stuttmyndinni Fáðu já – um mörkin milli ofbeldis og kynlífs. Þegar hefur farið fram víðtækt samráð á vettvangi þriggja ráðuneyta, að frumkvæði innanríkisráðherra, um samfélagsleg áhrif kláms og var m.a. haldin opin ráðstefna um klám í október sl. Tillögur að aðgerðum eru komnar fram í innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti. Innanríkisráðherra hefur falið refsiréttarnefnd að skerpa á skilgreiningu á hugtakinu klám í almennum hegningarlögum og er þar horft til fyrirmynda í norskri löggjöf. Þá hefur hann skipað starfshóp sem kannar hvort og þá með hvaða hætti unnt væri að hamla gegn grófu ofbeldisklámi á netinu. Hefur þetta vakið mikla alþjóðlega athygli og varð m.a. til þess að yfir hundrað einstaklingar og samtök sem vinna að réttindum kvenna um allan heim lýstu yfir stuðningi við áform innanríkisráðherra um að bregðast við óheftu aðgengi klámiðnaðarins að börnum og unglingum.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Í kosningaáherslum okkar sem kynntar voru nýverið er lögð áhersla á mikilvægi starfsfólks í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu og sagt nauðsynlegt að bæta kjör þessara stétta umfram annarra. Að baki þessari áherslu er m.a. sú staðreynd að þessar kvennastéttir hafi setið á hakanum í því launaskriði sem átti sér stað fyrir hrun.

Á undanförnum fjórum árum hafa Vinstri græn unnið að gerð jafnlaunastaðals. Nauðsynlegt er að fylgja eftir þeirri vinnu. Það er ein leið sem hægt er að fara.

Þó verður aldrei hægt að fjalla um launamun kynjanna sem sjálfstætt viðfangsefni. Launamunur kynjanna sýnir mælikvarða kapítalismans á manngildi og mismunandi gildismat í kynjakerfi á konum og körlum.

Megináherslan hlýtur því að vera á að breyta samfélaginu í heild sinni í þá átt að bæði kyn geti notið sín, verið frjáls og verið metin að verðleikum. Við upprætum kynbundinn launamun með því að styrkja velferðarkerfið, við upprætum kynbundinn launamun með því að brjóta upp staðalmyndir kynjanna, með því að losa konur við ógn af ofbeldi, með því að vinna gegn því að það geti talist eðlilegt að líkamar kvenna og sjálfsvirðing geti verið föl fyrir aura. Og síðast, en alls ekki síst, með því að frelsa karlmenn undan úreltum hugmyndum um að karlar eigi öðru fremur að vera fyrirvinnur sem vinna mikið og harka af sér.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Já. Vísað er til svara hér að ofan. Á kjörtímabilinu sem er að líða hefur austurríska leiðin verið leidd í lög sem heimilar lögreglu að fjarlægja ofbeldismann af heimili, kaup á vændi hafa verið gerð refsiverð og nektardansstaðir bannaðir. Fylgja þarf þessari lagasetningu enn betur eftir. Fræðsla og forvarnir þurfa að haldast í hendur við löggjöf og meðöl réttarkerfisins. Þetta er ekki einstaklingsbundinn vandi heldur viðfangsefni samfélagsins í heild sinni, enda er eitthvað athugavert í samfélagsgerðinni þegar ofbeldi er svona algengt. Vinstri græn ætla ekki að láta staðar numið fyrr en kynbundnu ofbeldi hefur verið útrýmt að fullu.

—-

Knúzið þakkar VG kærlega fyrir svörin.

 

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Knúzið spyr – Vinstri græn svara

  1. Bakvísun: Knúzið spurði – og þetta sögðu frambjóðendur | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.