Svar við svari Irisar

Um daginn skrifaði ég vangaveltu um hversu kvenfjandsamlegt tungumál mér finnst íslenskan vera. Iris Edda Nowenstein, MA-nemi í almennum málvísindum, svaraði mér. (Ég mæli með því að þeir sem hafa ekki lesið pistlana okkar geri það áður en þeir lesa lengra.)

Ég vil byrja á því að þakka Irisi kærlega fyrir svarið og svo vil ég óska henni og sjálfri mér til hamingju með að fá fullt af fólki til að rífast um íslensku og málfræði á internetinu.

Meint kúgun málkerfis

Við Iris erum sammála um að kvenfyrirlitningu megi finna í íslenskum orðaforða og orðræðu. Við erum ósammála um það hvort málkerfið sjálft sé kvenfjandsamlegt og ekki síst hvort að málkerfið geti mótað hugsanir okkar og skynjun. Iris segir að hugmyndir mínar um að það geti gert það séu „forneskjulegt viðhorf“ og að kenningar þar að lútandi séu „nú taldar úreltar“. Hún segir: „Þrátt fyrir fjölda rannsókna hefur engum tekist að sýna fram á tengsl tungumáls og hugsunar nema að verulega litlu leyti og þá aðallega í lita- og rýmisskynjun (sjá t.d. umfjöllun Pinker í The Language Instinct). Að tala ólík tungumál hefur ekki í för með sér ólíka skynjun eða heimsmynd.“ Í niðurlagi greinarinnar fullyrðir hún jafnframt: „málkerfið mótar ekki hugsun okkar og viðhorf.“ Af grein hennar að dæma virðist vera fullkomin eining um þetta í fræðasamfélaginu.

Það er ekki rétt. Ingólfur Gíslason kemur með dæmi um hið gagnstæða í athugasemd við grein Irisar og árið 2003 birtist til að mynda greinin Sex, syntax and semantics. Í henni er bent á þónokkrar rannsóknir sem hafa þvert á móti gefið vísbendingar um að tungumál móti með einhverjum hætti hugsanir. Greinin fjallar um það hvernig málfræðilegt kyn mótar sýn fólks á kynlausa hluti. Þar kemur t.d. fram að fólk er líklegra til að eigna kynlausum hlutum eiginleika sem hefð er fyrir að telja að einkenni kynin. Í einni rannsókninni sem um ræðir var fólk sem talar móðurmál sem hefur málfræðileg karl- og kvenkyn beðið að lýsa hlutum á ensku (sem hefur ekki kynjakerfi). Þannig lýstu Þjóðverjar til að mynda brú (sem er kvenkynsorð í þýsku) sem fallegri, fágaðri, brothættri og grannri á meðan Spánverjar lýstu henni sem stórri, hættulegri, langri, sterkri og hárri (brú er karlkynsorð í spænsku). Iris kemur reyndar inn á þessa rannsókn í athugasemd við grein sína en segir hana þó hafa „þann stóra galla að neyða þátttakendur til þess að útdeila einhvers konar líffræðilegu kyni til ókynjaðra hluta. Það gæti haft í för með sér einhvers konar sýndaráhrif í rannsóknunum þar sem orsakasamhengi er skapað frekar en að því sé lýst.“ Það var reyndar prófað fyrir þessum sýndaráhrifum með því að endurtaka rannsóknina án þess að útdeila flokkum líffræðilegu kyni, eins og fram kemur á blaðsíðu 74 í greininni (hún er aðgengileg hér, hún er mjög áhugaverð og ég mæli með því að þið kíkið á hana).

Iris segir þessar rannsóknir sýna að „sýn okkar á kynjunum [svo] smiti út frá sér til ókynjaðra hluta í gegnum málfræðilegt kyn“. En ég spyr þá á móti: Hvaðan kemur sýn okkar á kynin? Er hún sjálfsprottin og sönn? Rannsóknir benda til þess að tungumálið hafi frekar áhrif á hugsanir um abstrakt fyrirbæri, einsog t.d. tíma. Er sýn okkar á kynin til handan tungumálsins? Ef tungumálið og málkerfið hefur áhrif á það hvernig við upplifum teketil, getum við þá gert ráð fyrir því að sýn okkar á konu eða sýn okkar á karl sé ekki mótuð af tungumálinu og málkerfinu? Og ef við búum við málkerfi þar sem málfræðilegt karlkyn er normið og kvenkynið er frávik, getum við þá gengið út frá því að það hafi engin áhrif á okkur? Og hvaða áhrif hefur það á sýn okkar á kynin að „við notum margfalt fleiri karlkynsorð um konur en kvenkynsorð um karla“ einsog Iris bendir á?

Iris tekur dæmi úr greininni sem Ingólfur ræðir, en þar segir: „we do find support for the proposal that language can make some distinctions difficult to avoid, as well as for the proposal that language can augment certain types of thinking“ (leturbreyting mín). Í ljósi þessa, er það jafnmikil fjarstæða og Iris vill meina að gera ráð fyrir því að málkerfi þar sem karlkynið er normið jaðri konur enn frekar? Sér í lagi þegar það er talað í samfélagi sem gerir körlum almennt hærra undir höfði en konum?

Bleikja (Salvelinus alpinus)

Urriði (Salmo trutta)

Hér er lítið persónulegt dæmi um það hvernig málkerfið í íslensku hefur mótað sýn mína á heiminn: Þegar ég var lítil hélt ég alltaf að bleikja væri kvenkynssilungur og að urriði væri karlkynssilungur. Það var enginn sem sagði mér það, þetta var ályktun sem ég dró sjálf út frá málfræðilegu kyni orðanna. Þegar ég varð eldri komst ég að því að þetta hefði verið misskilningur hjá mér og í raun væri um tvær ólíkar tegundir að ræða. En þrátt fyrir það, þrátt fyrir að ég viti betur, þá finnst mér enn í dag sem að allar bleikjur hljóti að vera kvenkyns. Ég þarf að minna mig á að það er rangt.

Það er m.a. þetta sem ég á við þegar ég segi að tungumálið móti sýn okkar. Ég held ekki að fólk sem talar mismunandi tungumál hafi gjörsamlega „ólíka heimsmynd“ einsog Iris virðist telja mig gera, en tungumálið hefur áhrif. Irisi og fleirum kann að þykja þau smávægileg og ekki til staðar nema að „verulega litlu leyti“. Það hlýtur að vera háð gildismati hvers og eins. Safnast þegar saman kemur og mér finnst það að minnsta kosti ekkert smámál að málkerfi geti fengið einn til að finnast brú vera „brothætt“ og annan til þess að finnast hún „sterk“.

(Ó)kynjuð kínverska

Iris spyr hvernig megi útskýra að karlmenn séu kvengerðir í niðurlægingarskyni á svæðum þar sem tungumál hafa ekki kynjakerfi. Því svara ég til að kynjað málkerfi er ekki forsenda kvenfyrirlitningar. En kynjað málkerfi getur normalíserað kvenfyrirlitningu og tekið þátt í því að viðhalda henni.

Iris tekur kínversku, persnesku, grænlensku, finnsku, ungversku og basknesku sem dæmi um tungumál sem hafa ekkert kynjakerfi. Ég kann ekkert í persnesku, grænlensku, finnsku, ungversku og basknesku en ég hef lært svolitla kínversku. Það fer fjarri því að ég telji mig hafa nægilega góð tök á henni til að geta stundað nokkurskonar samanburðarmálfræði, en ég held að ég treysti mér engu að síður til þess að segja að þó það sé vissulega satt að það séu ekki málfræðileg kyn í kínversku þá sé það mikil einföldun að segja að þar með sé málkerfið á engan hátt kynjað. Kennarinn minn í háskólanum í Taívan lýsti kínverska tákninu fyrir konu sem stílfærðri mynd af krjúpandi, þungaðri konu. Táknið fyrir karl er samansett úr táknunum fyrir engi og styrk.

Kínverska táknið fyrir konu

Kínverska táknið fyrir karl

Er það merkingarlaust? Er undirgefna, krjúpandi konan í tákninu ekki hluti af málkerfinu? Er undirskipun konunnar ekki byggð inn í málkerfi kínversku? Þó að kínversk orð hafi ekki málfræðilegt kyn þá er táknið fyrir konu til dæmis til staðar í táknunum fyrir græðgi, öfund og þræl í ritmálinu. Eru orðin samt sem áður ókynjuð?

Maður um mann

Mér þykir Iris afgreiða gagnrýni mína á orðið maður ansi billega. Hún segir: „Ef við skoðum þetta í samhengi annarra tungumála og erum tilbúin til þess að samþykkja að orðið maður merki alls ekki bara karl, er þetta í raun mjög skiljanleg þróun.“

Ég skil ekki alveg hvað hún er að fara. Orðið maður merkir ekki alltaf bara karl. Í sumum tilfellum merkir maður bæði karl og kona. En mjög oft þýðir maður bara karl. Ég tók mörg dæmi í upphaflegu greininni. Ég get alveg tekið fleiri: Er hjónaband manns og konu t.d. lesbískt samband? Ef einhver segir Irisi: „Það hringdi maður hérna áðan að leita að þér“, hver sér hún fyrir sér að hafi hringt? Getur það hafa verið kona?

Ég er tilbúin að samþykkja að í sumum tilvikum merki orðið maður alls ekki bara karl. En mér finnst það ekki nóg. Mér finnst óþolandi að kynin eigi ekki jafnmikið í svona mikilvægu orði. Maður er orð sem á að vera samheiti yfir okkur öll, orð sem er heiti yfir tegundina, en það þýðir samt meira karl. Konur fá bara að fljóta með í merkingunni í ákveðnum samhengjum.

Það eru mjög skiptar skoðanir meðal femínista um orðið maður, enda er orðið ákaflega próblematískt. Margar vilja „endurheimta“ það og færa það inn á miðjuna. Sumar vilja hafna því. Ég veit ekki alveg hvar ég stend í því máli, ég sveiflast til og frá eftir dögum og ég held að bæði verði alveg djöfulli erfitt. En ég þoli bara ekki stöðuna einsog hún er núna. Að við konur eigum að heita menn, en samt bara stundum.

Niðurstaða?

„Málkerfið mótar ekki hugsun okkar og viðhorf“, staðhæfir Iris. Það er ekki rými fyrir vafa. Henni finnast vangaveltur mínar „misskilningur“, „úreltar“, „forneskjulegar“ og „óþarfi“. Henni finnst ég vera að búa mér til ímyndaðar vindmyllur til að berjast við þegar nóg sé til af raunverulegum andstæðingum. Það er afar freistandi að máta svarpistil Irisar og þá stöðu sem hún tekur sér í honum við kenningar Foucault um fræðigreinar, handhafa orðræðunnar og hvað rúmast „innan sannleikans“ hverju sinni, en nógu langt er þetta víst orðið svo ég læt það vera.

Íslenska er kvenfjandsamlegt tungumál. Hún er á margan hátt kúgandi, jafnt orðaforðinn, orðræðan sem málkerfið. Og ekki bara fyrir konur heldur líka fyrir samkynhneigða, transfólk og hvern þann sem fellur ekki að þeim skaðlegu staðalmyndum sem finna má í menningunni og tungumálið speglar. Íslenska hefur áhrif á það hvernig við sem tölum hana upplifum heiminn. Hún bjagar að einhverju leyti skynjun okkar og beinir hugsunum á ákveðnar brautir. En íslenskan er ekkert fangelsi. Hún er eina móðurmálið sem ég hef, mér þykir mjög vænt um hana og ég geri mér grein fyrir því að við sitjum uppi með þetta málkerfi. Ég vil einfaldlega að við séum meðvituð um þann ramma sem íslenskan setur okkur og að við reynum að hugsa út fyrir hann. Að við reynum að átta okkur á því hvenær við erum að tala tungumálið og hvenær tungumálið talar okkur. Og þannig getum við jafnvel breytt því, smám saman.

Við þurfum líka að muna að það er mikilvægt að staldra reglulega við og velta fyrir sér kerfunum sem eru rótgróin og við erum samdauna. Kerfunum sem okkur er sagt að séu bara svona. Kerfunum sem okkur er sagt að hafi bara alltaf verið svona. Kerfunum sem okkur er sagt að sé ekki hægt að breyta. Kerfunum sem okkur er sagt að hafi engin áhrif.

Og það er mikilvægt að spyrja: Afhverju er þetta svona? Þarf þetta að vera þannig? Hefur það áhrif? Skiptir það máli?

 

6 athugasemdir við “Svar við svari Irisar

 1. Úff, ég get bara engan veginn verið sammála því að málkerfið sé kvenfjandsamlegt. Mér finnst orðræðan vera það og margt sem tengist henni en ekki málfræðin. Bæði feministinn og málfræðingurinn inní mér eru sammála um það.

 2. Takk fyrir gott svar! Það nýtir alvarlegan vankant á minni grein, en ég gerði ráð fyrir því að einingin í fræðunum hvað varðar tengsl máls og hugsunar væri meiri (bók Pinker er í eldra lagi – mæli samt með því að þú lesir kaflann um málfræðilega nauðhyggju sem er þar). Þetta breytist náttúrulega mjög hratt og við getum líklega verið sammála um að það er töluvert áhugaverðara að tala um efnislegu rökin. Ég er búin að kynna mér aðeins verkin sem þú talar um hérna og hlakka til að svara þér, því við erum enn ósammála. Það verður samt kannski eftir próf og lokaverkefnamadness.

  Stutta svarið snýr samt aðallega að þessari klausu hjá þér:

  „Ef tungumálið og málkerfið hefur áhrif á það hvernig við upplifum teketil, getum við þá gert ráð fyrir því að sýn okkar á konu eða sýn okkar á karl sé ekki mótuð af tungumálinu og málkerfinu? Og ef við búum við málkerfi þar sem málfræðilegt karlkyn er normið og kvenkynið er frávik, getum við þá gengið út frá því að það hafi engin áhrif á okkur? Og hvaða áhrif hefur það á sýn okkar á kynin að „við notum margfalt fleiri karlkynsorð um konur en kvenkynsorð um karla“ einsog Iris bendir á?“

  Hérna stígur þú skrefið sem mér finnst fráleitt, þetta eru yfirfærslur sem eiga engan veginn rétt á sér málfræðilega. Þrátt fyrir rannsóknir Boroditsky og félaga. Við getum komist að nánast öllu með analógíu á vísindalegum rannsóknum, en það merkir ekki að yfirfærslan sé réttmæt. Þannig verður svarið við þessari spurningu:

  „Í ljósi þessa, er það jafnmikil fjarstæða og Iris vill meina að gera ráð fyrir því að málkerfi þar sem karlkynið er normið jaðri konur enn frekar?“

  Einfaldlega já. Það er ekkert, í ljósi þeirra fræða sem þú nefnir, sem bendir til þessara áhrifa. Það er svo sem ómögulegt að afsanna þessi áhrif, en ef þau kynnu að vera til staðar bendir allt til þess að þau yrðu mjög lítilvæg og óbein.

  Framhald væntanlegt. 🙂

 3. Þetta er svo endalaust áhugavert umræðuefni. Varðandi tengsl tungumáls og hugsunar, þá hugsum við kannski ekki í fullmótuðum setningum eða einusinni alltaf í skýrt afmörkuðum orðum, en hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við háð orðum og setningum um að koma hugsunum okkar út fyrir mörk eigin hugarheims – út í samfélagið og innanum hugsanir annarra. Og það sem Iris kallar „málkerfið“ í sinni grein er ekkert einangrað og sjálfstætt fyrirbæri innan samfélagsins, heldur í stöðugri mótun og opið fyrir allskonar áhrifum. Tungumálið er valdatæki, ekki bara til að skilgreina hluti og festa á þá merkimiða heldur líka til að viðhalda valdastrúktúrum innan samfélagsins þar sem það er talað, og kynjadýnamík er engin undantekning frá því.

  Fyrir ca. 25 árum var unnin rannsókn við finnskudeildina í háskólanum mínum hérna í Turku, þar sem listar með orðum úr atvinnuauglýsingum dagblaða – aðallega starfsheitum og lýsingarorðum, sem í finnsku eru einmitt að stærstum hluta kynlaus (og alfarið kynlaus, sé bara horft í málfræðina) – voru lagðir fyrir menntaskólanema og þeir beðnir að krossa við hvort kynið þeir tengdu frekar við hvert orð fyrir sig. Niðurstöðurnar í sjálfum sér komu lítið á óvart: nánast öllum þótti forstjóri frekar karlkyns og ritari kvenkyns, kokkur karlkyns og eldabuska kvenkyns, o.s.frv. o.s.frv. (öll þessi orð eru alveg hlutlaus á finnsku bæði hvað snertir málfræði og orðsifjar).Oft var það líka svo að hlutfallaskipting svaranna var ekkert óralangt frá raunverulegu kynjaskiptingunni í þessi störf á þessum tíma – að einhverju leyti voru svör nemendanna bara að endurspegla þann veruleika sem þeir voru vanir. Síðan var athyglisvert hvernig lýsingarorð komu út – orð eins og „sjálfstæð/ur“ og „[lýsingarorð yfir að hafa frumkvæði]“ voru yfirgnæfandi tengd við karla, en t.d. „þolinmóð/ur“ og „stundvís“ við konur.
  Rannsóknin var semsé gerð með það í huga að kanna hvort mögulegt væri að fara kringum (þá nýtilkomið) jafnréttislagaákvæði um að ekki mætti auglýsa eftir tilteknu kyni í tiltekið starf, með því einfaldlega að nota orðfæri sem gæfi það til kynna á einhvern hátt hvors kynsins væri frekar óskað án þess þó að segja það berum orðum. Ef að 95% framhaldsskólanema geta verið sammála um að tiltekin orð eigi frekar við um annað kynið en hitt, eiga þau þá ekki líka eftir að lesa í svona auglýsingar í samræmi við það? Þetta þýðir auðvitað ekki að neinn hafi meðvitað ætlað að sniðganga löggjöfina, en viðtökuáhrifin geta verið jafnraunveruleg fyrir því (og ómeðvitaði vinkillinn er ekki síður áhugaverður).

 4. Ég hef alls ekki lesið Hildi þannig að hún tali fyrir málfræðilegri nauðhyggju. Eins og ég skil slíka nauðhyggju myndi hún segja að við værum „föst“ í tungumálinu og gætum ekki séð út fyrir það, eins og það að kk sé ómarkað kyn hafi nauðsynlegar afleiðingar fyrir skynjun. En með því að ræða þetta hefur Hildur einmitt sýnt í verki að svo er ekki – við getum talað um þetta, hugsað um þetta, gagnrýnt, og verið meðvituð um þetta. Það virðist líka augljóst að það er hægt að ná jafnstöðu kynjanna þrátt fyrir þetta einkenni málsins. Og ekkert myndi tryggja jafnstöðuna þó að það væri ekki svona í málinu. Það breytir ekki því að þetta hefur áhrif – en ekki bein útreiknanleg áhrif, það fer allt eftir samhengi og persónum.

  Eitt af því sem hefur breyst í minni grein, menntunarfræði, er að í enskum textum fyrir nokkrum áratugum var undantekningarlaust notað karlkyn þegar talað var almennt um kennara og nemanda. „The teacher“ og „the student“ voru alltaf „he“. Núna hefur þetta snúist við og yfirleitt er notað „she“ eða skipst á. Hefur þetta „engin áhrif“? Ég held að inntak hvoru tveggja skiljist jafn vel en það er engu að síður eitthvað þarna sem skiptir máli.

  Annars finnst mér rétt að líta á þetta með díalektískum augum. Tungumálið mótar okkur og hugsun okkar á sama tíma og við erum sífellt að endurmóta tungumálið. Og þá er ég ekki bara að meina hið platónska málkerfi sem málfræði reynir að lýsa heldur allar okkar tjáskiptaleiðir og -bjargir.

 5. Fínasta grein og áhugaverðar pælingar hjá ykkur dömur. Ég hef einmitt velt þessu mikið fyrir mér alveg frá því ég var lítil skotta. Ég er ekki með neinar vísindalegar rannsóknir til að styðja mál mitt en persónulega hef ég oft óskað þess að íslenskan væri kvenlegra tungumál. Ég hef einmitt tekið eftir þessari þróun í kennslubókunum á mínum námsferli þar sem allt í einu er byrjað að setja inn orðið „she“ í dæmin, hún forstjórinn, bóndinn, verkfræðingurinn. Mér hefur fundist þetta vera mjög kærkomin breyting. Ég nota oftar orðið hún í eigin rigerðarskrifum meðvitað til að jafna hlut kynjanna (og mér er alveg sama ef kennaranum mínum eða öðrum finnst það ekki eðlilegt, mér líður einfaldlega betur með það svoleiðis).

  Það er merkilegt hvernig konur verða ósköp eðlilega ráðherrar en karlkyns makar þeirra fá ekki jafneðlilega titilinn ráðherrafrú. Mér finnst afar leiðinlegt, hafandi alist upp í sveit, að vita til þess að kvenkyns orðin tík, belja, hryssa og hæna séu oft notuð í niðrandi merkingu. Afhverju er svona mikill munur á orðunum gleðikarl og gleðikona?

  Mér fannst að vísu önnur tungumál eins og franskan vera mun karllægari tungumál en íslenska þegar ég var að læra hana og þar var frönskukennarinn mér sammála. En ég hef líka verið mjög ánægð með margt í íslenskunni, eitt gott dæmi um hvað okkar ástkæra tungumál getur nú líka verið kvenlægt er t.d. orðið hetja sem er kvenkyns. En á móti kemur þá eru samt orðin hetja og svo kvenhetja notuð en ekki karlhetja.

 6. Frábært framtak hjá Hildi og tímabær umræða. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að Íris Edda Nowenstein skuli rjúfa hugvísindamúrinn – ekki seinna vænna á paradigmskiptum á íslenskri grundu þar – ef til vill fyrir þær sakir að ég sjálfur er nokkuð innmúraður í heimspeki, og tel að (póst)-strúktúralísk tæki hafa hjakkað í sama farinu og auki engan veginn skilning á hugðarefnum sínum (sú skoðun er auðvitað umdeilanleg meðal heimspekinga, enda er nútíminn í heimspekin allt sem áður hefur verið hugsað). En færa má rök fyrir því að þessi tæki gagnast lítið í pólítiskri baráttu (sérstaklega í stórum stéttbundnum samfélögum) og hafa einangrað hugvísindi þar sem þau eru ráðandi – þau þykja einfaldlega ekki relevant eða upplýsandi. En 5 áratuga rifrildi um strúktúra hjá málgefnu fólki hefur auðvitað skilað okkur áhugaverða hugmyndasögu, og helst munu lifa einstök dæmi sem tekin voru úr samfélaginu til þess að varpa ljósi á kenningasmíðina, – frekar en að nokkuð blóð sé eftir í kenningunni sjálfri. Kringumstæðurnar sem hafa kallað á samfélagsgagnrýni eru jú enn til staðar og áríðandi að brýna þau verkfæri sem virka og henda þeim sem gera það ekki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.