Knúzið spyr – Samfylkingin svarar

Knuz.is sendi tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma. Flestir flokkar brugðust vel við og svörin hafa verið birt hér á síðunni í þeirri röð sem þau birtust. Hér er það Samfylkingin sem svarar.

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi?

Nei. Fullum jöfnuði hefur ekki verið náð. Við eigum því miður enn langt í land á mörgum sviðum er kemur að kynjajafnrétti og þessa baráttu þarf stöðugt að há. Enn er kynbundinn launamunur hár og kynbundið ofbeldi útbreitt. Þar verðum við að beita kröftum okkar til þess að hér sé réttlátt samfélag.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Já það er mjög mikilvægt að beita sértækum aðgerðum sem stuðla að jafnrétti því við höfum séð og vitum að jafnrétti kemur ekki að sjálfu sér. Þrátt fyrir að kynin séu jöfn fyrir lögum þá viðgengst hér ójöfnuður meðal kynjanna. Í tíð ríkisstjórnarinnar undir forystu jafnaðarmanna hefur kynjuð fjárlagagerð verið höfð að leiðarljósi til að tryggja að kynin njóti til jafns aðgerða á vegum ríkisins, jafnlaunastaðall hefur verið útbúinn og raunveruleg barátta gegn launamun kynjanna er hafin. Þá hefur aðgerðaráætlun gegn mansali verið samþykkt og austurríska leiðin sem þáttur af baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar?
Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já Samfylkingin hefur þegar haft frumkvæði að sérstakri skoðun kynferðisbrota gegn börnum innan allsherjar- og menntamálanefndar  Alþingis og lagt fram tillögur um aukið fjármagn til lögreglu og saksóknara til að hraða meðferð slíkra mála og bæta þjónustu við þolendur.
4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Já Samfylkingin hefur í stjórnartíð sinni komið á lögum um að í stjórnum lífeyrissjóða og fyrirtækja sé hlutur annars kynsins a.m.k. 40%. Þarna hefur augljóst kynjamisrétti verið til staðar og nauðsynlegt að rétta hlut kvenna innan stjórna.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Allt ofbeldi er af hinu illa og ofbeldisfullt klám fellur að sjálfsögðu þar undir. Það er mikilvægt að til staðar sé fræðsla og forvarnir sem kennir ungu fólki og öðrum að þetta sé ekki eðlilegur hluti af kynlífi, enginn eigi að þurfa að þola ofbeldi eða misnotkun og að hver manneskja, sérstaklega stúlkur, hafi rétt til þess að setja sín eigin mörk.

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um hvernig hægt sé að stemma stigu við framboð eða aðgengi að ofbeldisfullu klámi. Aftur á móti hefur flokkurinn lagt áherslu á fræðslu og forvarnir.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Aldalöng hefð á að meta vinnu kvenna minna en vinnu karla útskýrir launamun karla og kvenna, hefðbundin viðhorf til kvenna sem ólaunað vinnuafl innan heimila og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Eins og áður segir hefur Samfylkingin staðið fyrir átaki í að berjast gegn kynbundnum launamun og bindur mikla vonir við jafnlaunastaðalinn sem unnin hefur verið á þessu kjörtímabili. Staðallinn er brautryðjandi og á sér hvergi fordæmi í heiminum. Staðallinn er aðeins ein af þeim aðgerðum sem Samfylkingin hefur og vill beita til að uppræta hinn rótgróna kynbundna launamun sem til staðar er.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi?

Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Já það ætti enginn að geta þrætt fyrir að hér viðgangist kynbundið ofbeldi. Það sýna allar tölur. Ef hér væri ekki kynbundið ofbeldi þá væru samtök eins og Stígamót og Kvennaathvarfið ekki til. Því miður er mikil þörf á þeirra þjónustu.

Samfylkingin hefur brugðist við kynbundnu ofbeldi með því að samþykkja aðgerðaráætlun gegn mansali og innleiða austurrísku leiðina þar sem ofbeldismaður er fjarlægður af heimilinu. Það er þó ekki nóg, eins og sjá má af heimsóknum og gistinóttum í Kvennaathvarfinu. Halda verður baráttunni áfram, bæta þarf enn þjónustu við þolendur kynbundnu ofbeldi, auka forvarnir og berjast gegn vændi.

—–

Knúzið þakkar Samfylkingunni kærlega fyrir svörin.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.