Knúzið spyr – Sjálfstæðisflokkurinn svarar

Knuz.is sendi tengiliðum þeirra sem bjóða fram til alþingiskosninga spurningalista um afstöðu til jafnréttismála og femínisma. Flokkarnir hafa brugðist vel við og svörin hafa verið birt hér á síðunni í þeirri röð sem þau birtust. Hér er það Sjálfstæðisflokkurinn sem svarar.

1. Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, svo lengi sem kynbundið ofbeldi viðgengst sem og laun endurspegla ekki hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launamanna, hefur fullu jafnrétti ekki verið náð.

2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, telur þú rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Kynbundið ofbeldi er samfélagsmein sem verður að sporna við með forvörnum og opinni umræðu í samfélaginu og styðja þar við fagaðila eins og Kvennaathvarfið og Stígamót. Þörf er á að bregðast á öflugri hátt við þegar brot hefur verið framið með að auka fjármagn til löggæslu svo að rannsóknir og eftirfylgni þessara mála verði í forgangi.

Þrátt fyrir ný jafnréttislög hefur óútskýrður launamunur karla og kvenna fyrir sambærileg störf farið vaxandi á líðandi kjörtímabili. Á þessum vettvangi þurfa ríki og sveitarfélög að ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja að hvergi í hinu opinbera kerfi líðist óútskýrður launamunur kynjanna. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð,  vinnuframlag og frammistöðu launþega. Sjálfstæðisflokkurinn telur það vera grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla. Lögum um fæðingarorlof, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um, er meðal annars ætlað að ná þessu markmiði. Sjálfstæðisflokkurinn telur þannig mikilvægt að tryggt verði að greiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði endurskoðaðar þannig að útivinnandi foreldrum sé fjárhagslega mögulegt að vera heima þann tíma sem þeir eiga rétt á. Fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga er grundvöllur jafnréttis og huga þarf að fjárhagslegu sjálfstæði óháð hjúskaparstöðu, sér í lagi þegar kemur að skatta-, lífeyris- og örorkumálum. Sjálfstæðisflokkurinn telur það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri  kvenna og karla og er fæðingarorlofslögunum meðal annars ætlað að ná því markmiði.

3. Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Sjálfstæðisflokkurinn telur afar mikilvægt að sporna gegn hvers kyns ofbeldi og skipta forvarnir og rannsóknir þar miklu máli. Nauðsynlegt er að veita nægilegt fjármagn til lögreglunnar svo tækifæri sé til að haldið sé á rannsóknum og meðferðum kynferðisbrotamála svo sómi sé að. Sanngjarnt dómskerfi sem byggir á virðingu gagnvart þolendum skiptir miklu máli svo að þolendum stafi ekki ógn af því. Þegar hafa verið stigin góð skref eins og meðal annars með skipun réttargæslumanna. Nýlega hefur kynferðisbrotakafli hegningarlaga verið endurskoðaður þar sem nauðsynlegar breytingar voru til að mynda gerðar á nauðgunarákvæðinu. Þó ber sífellt að vera vakandi fyrir réttarbótum og Sjálfstæðisflokkurinn telur til að mynda að að fyrningarákvæði í lögum um kynferðisbrot gegn börnum verði afnumin. Almennt verður kerfið að bera þess merki að allt frá rannsókn mála til dómsuppkvaðningar séu send þau skilaboð að slíkum málum sé mætt af virðingu og forgangi því að kynbundið ofbeldi verður ekki liðið í íslensku samfélagi.

4. Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Sjálfstæðisflokkurinn starfar á grundvelli frelsis einstaklingsins og jafnrétti. Það er markmið Sjálfstæðisflokksins að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum allra einstaklinga. Til að svo megi verða trúir Sjálfstæðisflokkurinn á öfluga hvatningu þess efnis á öllum sviðum samfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn stendur sjálfur undir þeirri hugmyndafræði með því að sjá til þess að jafnréttisstefnu flokksins sé fylgt vel eftir þar sem haldið er utan um hvatningu til beggja kynja um að taka þátt í allri starfsemi. Árangur kvenna vegna þeirrar hvatningar er talsverður og nærtækt dæmi er að á síðasta landsfundi flokksins hlutu konur flest atkvæði í málefnanefndir og unnu formannssæti í sjö nefndum af átta og af 125 frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar eru 64 konur eða 51% frambjóðenda. Sjálfstæðisflokkurinn trúir að með slíkri nálgun megi ná fram raunverulegu jafnrétti til framtíðar og með því sé lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls.

5. Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Dreifing á klámi er bönnuð samkvæmt lögum og ekki er stefnt að því að aflétta því banni. Ekki er skýrt af spurningunni hvernig ofbeldisklám er öðruvísi en klám samkvæmt skilgreiningu hegningarlaga.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað telur þú útskýra þennan launamun? Finnst þér og þínum flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Sjá svar við spurningu 2.

7. Telur þú og þinn flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Sjá svar við spurningu 2.

—–

Knúzið þakkar Sjálfstæðisflokknum kærlega fyrir svörin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.