„Telja náttúruverndarsinna hafa brugðist Lagarfljóti“

Nokkur orð í tilefni opnunar á sögusýningu um 10 ára starf Femínistafélags Íslands, 5. apríl 2013

Höfundur: Steinunn Rögnvaldsdóttir

Umrædd sýning er byggð á vinnu Karenar Ástu Kristjánsdóttur og Rósu Bjarkar Bergþórsdóttur sem skrásettu sögu Femínistafélagsins á seinasta ári. Var skráningin unnin undir handleiðslu Þorgerðar Einarsdóttur, prófessors í kynjafræði, og styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Uppsetning sýningarinnar er styrkt af Hlaðvarpanum. Sýningarstjóri og hönnuður sýningarinnar er Kolbrún Anna Björnsdóttir og er sýningin hluti af námi hennar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Á sýningunni verður stiklað á stóru í aðgerðum og áhrifum Femínistafélags Íslands síðustu 10 ár. Sýningin stendur yfir á Landsbókasafni – Þjóðarbókhlöðu allan apríl 2013.

Það er við hæfi að staldra við og líta um öxl þegar að 10 ár eru liðin frá stofnun Femínistafélagsins. Félaginu var ýtt úr vör á tveimur fjölmennum stofnfundum vorið 2003. Þessi 10 ár hefur tekist að viðhalda virku félagi sem hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagsumræðuna og verið sterkt þrýstiafl. Það er meira en að segja það í grasrótar-félagasamtökum með takmörkuð fjárráð, töluvert marga andstæðinga og afar krefjandi verkefni. En þessi sýning ber vitni um að það er hægt, vegna þess að markmiðið er svo mikilvægt. Markmiðið sem er raunar að leggja félagið niður vegna þess að tilgangi þess hafi verið náð, konur og karlar njóti jafns réttar á öllum sviðum samfélagsins.

Við höfum ekki enn náð markmiðinu. En við höfum náð langt. Völd kvenna í samfélaginu hafa aukist, athygli hefur verið beint að samfélagslegum vandamálum, jafnréttismál eru fyrirferðameiri umfjöllunarþáttur í fjölmiðlum. Kaup á vændi hafa verið gerð ólögleg, súlustaðir eru í lægð, kynferðislegt ofbeldi rætt miklu meir og aukin áhersla á að fordæma það og berjast gegn því. Klámvæðingin er gagnrýnd opinberlega, sem er ekki sjálfsagt enda hefur normalíseríng kláms á síðustu árum gert það að verkum að jafnvel hópar femínista eru ragir við að gagnrýna klám. En gagnrýnin á klámvæðinguna er þörf. Hún er þörf fyrir þær 12 konur sem að leituðu til Stígamóta á síðasta ári vegna kláms. Vegna þess að klámnotkun maka þeirra misbauð þeim og skaðaði. Vegna þess að myndir voru teknar af þeim í kynlífsathöfnum, með eða án þeirra vilja, og hótað að þeim yrði dreift án þeirra vilja. Vegna þess að stundum var staðið við þessa hótun.

Þetta er klámvæðingin í aksjón, þetta er sú kúgun og niðurlæging sem hún leiðir til. Í breskum grunnskólum er klámvæðing nú álitin alvarlegt vandamál, sem m.a. birtist í því að það er aukinn þrýstingur á skólastelpur að senda jafnöldrum sínum kynferðislegar myndir af sér í gegnum síma. Fegrunaraðgerðir á skapabörmum færast í aukana, sem má rekja beint til klámmynda, enda eru þær einu staðlarnir sem settir eru á hvað séu „fallegar“ píkur, fyrir klámmyndirnar þá máttu píkur bara líta út eins og þær litu út. Mainstreem klám á internetinu er gríðarlega ofbeldisfullt, og getur hver sem er sannreynt það með smá vafri ef viðkomandi reynir að rengja þá fullyrðingu mína. Og börn eru að meðaltali 11 ára þegar þau sjá klám í fyrsta skipti og það verður jafnvel þeirra kynfræðsla.

Frá sýningunni í Landsbókasafninu, Þjóðarbókhlöðu

Góðu fréttirnar eru þær að það er viðnám. Það veita femínistar og sá þrýstingur sem femínistar setja á að valdafólk í samfélaginu beiti sér gegn mannfyrirlitningu, óréttlæti og ofbeldi, og fyrir jafnrétti. Sagt er að betur megi ef duga skal. Nýlega birti DV frétt með fyrirsögninni „telja femínismann hafa brugðist lágstéttarkonum“, um að bresk eftirlitsstofnun (think tank) telji femínista hafa brugðist lágstéttarkonum í Bretlandi með því að einblína um of á kynjajafnrétti í stjórnunar- og valdastöðum og efri lögum samfélagsins.

Þegar ég hafði lesið fyrirsögnina fór ég ósjálfrátt að skima eftir fyrirsögnunum „Telja náttúruverndarsinna hafa brugðist Lagarfljóti“ og „Telja friðarsinna hafa brugðist Írak“. Ég fann ekki þessar fyrirsagnir. Ég held það sé engin tilviljun.

Ég nefni þetta til að vekja athygli á því vandamáli hvernig feminískri gagnrýni er í raun misbeitt. Hér er henni t.d. hér ekki beitt á samfélagið, valdhafa eða feðraveldið. Nei femínisminn, sem ástundar raunar mikla sjálfsgagnrýni, fær að heyra það í staðinn. Þetta er ekki einungis ósanngjarnt heldur beinlínis absúrd, en kemur ekki á óvart. Þetta er merki um að ríkjandi valdakerfi stafar ógn af femínisma og reynir að grafa undan femínistum. Og þá hljótum við að vera að gera eitthvað rétt.

Femínistafélagið er það sem við gerum það. Saman. Ég er sem femínisti stolt af því mikla verki sem unnið hefur verið, beint og óbeint í gegnum félagið, stolt af því góða fólki sem hefur lagt sitt af mörkum. Það hefur verið mikilvægt fyrir félagið að ætíð hafa starfað með því bæði kvenkyns og karkyns femínistar. Ég er ekki stoltari af karlkyns femínistunum sem hafa starfað af krafti með félaginu heldur en þeim kvenkyns, en mér þykir vænt um það á sérstakan hátt. Þetta eru menn sem kvarta ekki yfir því að karlar fái ekki pláss í jafnréttisbaráttunni, þetta eru karlmenn sem vilja vera femínistar og krefjast ekki þess að femínisminn búi til rými fyrir þá. Þeir vita að þeir þurfa að taka rýmið sem þeir hafa í samfélaginu og gera það feminískt.

Við þurfum öll að taka okkur rýmið til að vera femínistar og gera okkar rými feminískara. Þetta hefur Femínistafélagið gert og við tökum sífellt stærra pláss, eins og sést ágætlega á þessari sýningu.

Svo – takk fyrir að koma, takk fyrir að vera, takk fyrir tíu ár og takk fyrir mig. Skál.

Steinunn Rögnvalds, talskona Femínistafélags Íslands

2 athugasemdir við “„Telja náttúruverndarsinna hafa brugðist Lagarfljóti“

 1. Þetta er áhugaverð grein frá Guardian – þar sem bent er á að barátta fyrir launahækkun kvenna í hærri stöðum, hafi orðið til þess að launamunurinn á milli láglaunaðra kvenna og hálaunaðra, sé 4 sinnum meiri en munurinn á milli sömu hópa karlmanna. Semsagt, launabilið hefur aukist MEÐAL kvenna. Óréttið, ójöfnuðurinn.

  Er með góðu móti hægt að vinna fyrir réttindum þessara hópa samtímis? Svo tel ég ekki vera. Það er nauðsynlegt að íslenskir femínistar fari að átta sig á einfeldninni í því að kalla femínisma bara femínisma, óháð því hvernig samfélagið er skipulagt og hverskonar valdamisræmi má finna í því – á milli karla og kvenna – á milli karla og karla – OG á milli kvenna og kvenna.

  Að taka þetta dæmi, asnalega þýdda grein frá Bretlandi, til ÞESS EINS að kvarta yfir því að aðrir baráttuhópar fái ekki á sig sömu gagnrýni er BARNALEGT. Þetta eru barnaleg rök. Gefið mér eitthvað sem ég get tengt við, plís. Þetta er fyrir neðan mína virðingu. Er ekki lágmark að svara gagnrýninni með samantekt um íslenskt samfélag og stöðuna á sama hlut þar? Fremur en að bara hunsa inntakið og tuða yfir því að hinir fái að komast upp með að ná ekki fram öllu sem þeir reyna að berjast fyrir? Þetta er eins og ungingur að kvarta yfir því að fá ekki að fara í partí- já en allir HINIR mega fara!

  Náttúruverndarsinnar eru fæstir að reyna að telja sér eða öðrum trú um að þeir séu einn, sameinaður hópur sem hægt sé að veita réttindi. Nei. Sumir náttúruverndarsinnar eru einfaldlega lífrænsmatar- og endurvinnslusinnar sem spara líka vatn og kaupa ekki í umbúðum ef hægt er. Aðrir standa alfarið gegn stóriðju. Enn aðrir eru dýraverndarsinnar.

  Það hefði verið mögulegt að orða þetta öðruvísi – en ég ber ekki virðingu fyrir kéllingum í yfirburðarstöðum, ekki neitt fremur en köllum, og það að femínistar telji slíkur „árangur“ vera málstaðnum til framdráttar er ömurlegt.

  Niður með yfirstéttir. Niður með valdakéllingar og -kalla!

 2. Hvað finnst mér?

  Að minnsta kosti verð ég að spyrja út í þetta:

  Getur einhver sagt mér eitthvað meira um þessar 12 konur sem falla undir það að hafa leitað sér aðstoðar hjá Stígamótum vegna kláms? Ég hjó sérstaklega eftir þessu í skýrslunni frá Stígamótum. Þær virðast allar settar undir sama hatt sem: a) Misbauð klámnotkun maka sinna, b) var hótað að nektarmyndum yrði dreift af sér og c) nektarmyndum var dreift af.

  Hverjar eru raunverulegu tölurnar? Eru það þá u.þ.b. 4 konur sem passa í hvern þessara hópa a, b og c?

  Það er a.m.k. fáránleg flokkun, Einföldun, svo vægt sé til orða tekið, að setja þær allar í sama hópinn – hóp þeirra sem leituðu til Stígamóta vegna kláms.

  Hvað er þá klám í þessu tiltekna samhengi? Eru myndir sem teknar eru í svefnherbergi pars, með fullum vilja beggja, klám? Eða er það bara klám, ef myndunum er dreift eða hótað að þeim sé dreift. Eða er klám myndefni sem inniheldur nekt og sýnir niðurlægingu einhvers aðilans?

  Hvað er um að ræða hér?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.