Vituð ér enn?

Höfundur: Halla Sverrisdóttir

Nú þegar kosningar eru afstaðnar og fyrir liggur hverja þjóðin telur gæfulegasta til að stjórna landinu næstu fjögur árin er ekki úr vegi að rýna eilítið í svör þeirra flokka sem mest fylgi fengu, við spurningunum sem Knúzið sendi til flokka og framboða í aðdraganda kosninganna og velta fyrir sér hvort þau feli í sér einhverja fyrirboða um þróunina í jafnréttismálum á komandi kjörtímabili.

Sum þessara svara eru raunar æði stöðluð og gætu hafa verið afrituð og límd í hraði, enda að mörgu að huga á lokaspretti kosningabaráttu. Önnur vekja athygli og sum segja jafnvel meira en orðin sem til þeirra var kostað.

Spurning 1 hljóðaði svo: Telur þú að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Lítum fyrst á svarið frá Framsóknarflokknum:

Nei, Framsókn vill útrýma launamun kynjanna og sér fyrir sér launavottunarkerfi sem hluta af þeirri lausn.

Úr þessu svari má lesa að Framsókn telji vissulega að jöfnuði kynja hafi ekki verið náð og að veigamesta birtingarmynd þess sé kynbundinn launamunur. Honum þurfi að útrýma og þá sé jöfnuður kynja í höfn. Því tengt er annað atriði sem nefnt er, að gera þurfi „bæði konum og körlum kleift að minnka við sig vinnu til þess að sinna fjölskylduábyrgð eins og umönnun barna“. Sem er sannarlega mikilvægur punktur og nauðsynlegur hluti af heildstæðri jafnréttisstefnu.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist býsna samstíga Framsókn í þessum efnum og kveður afdráttarlaust „nei“ við spurningu 1, með samskonar áherslum, að því frátöldu að kynbundið ofbeldi fær að fljóta með í pakkanum:

Nei, svo lengi sem kynbundið ofbeldi viðgengst sem og laun endurspegla ekki hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launamanna, hefur fullu jafnrétti ekki verið náð.

Hvorugur flokkurinn telur sig hins vegar þurfa að leita út fyrir beinharðar tölur og staðreyndir og líta til áhrifsþátta sem eru síður mælanlegir með reglustikum og línuritum – sívaxandi klámvæðingar, staðalímynda, nauðgunarmenningar. Þessir áhrifsþættir tengjast enda félagslegum og samfélagslegum þáttum frekar en hagfræðilegum. Báðir flokkar tengja skort á jöfnuði kynjanna fyrst og fremst við kynbundinn launamun og annað hvort kjósa að hunsa hina óefnislegri þætti eða telja þá einfaldlega ekki skipta neinu máli. Jafnréttið byrjar og endar á vinnumarkaðnum. Staða kynjanna inni á heimilunum eða mismunandi birtingarmynd þeirra í fjölmiðlum virðist ekki vera þar veigamiklir áhrifsþættir, jafnvel þótt Framsókn eigi hrós skilið fyrir að minnast á jafnari hlutverkaskiptingu í umönnun barna.

Í þessu samhengi er áhugavert að að skoða afstöðu þessara atvinnuvegamiðuðu flokka til beitingar sértækra aðgerða til að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum.

Spurning 4 sneri einmitt sérstaklega að því efni og hljómaði svo: Styður þú kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Svör flokkanna við þessari spurningu eru afar ólík, bæði að efni, umfangi og formi. Sjálfstæðisflokkurinn svarar henni mjög ítarlega og hefur mál sitt með því að lýsa því yfir að flokkurinn starfi„á grundvelli frelsis einstaklingsins og jafnrétti“. Þarna er komið eitt af lykilhugtökum í allri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, sem er „frelsi einstaklingsins“, nokkuð sem engin löggjöf á að mega skerða, jafnvel þótt í almannaþágu sé. Það frelsi er heilagt. Það er enda, samkvæmt svarinu,

… markmið Sjálfstæðisflokksins að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum tækifærum allra einstaklinga …  Sjálfstæðisflokkurinn trúir á öfluga hvatningu þess efnis á öllum sviðum samfélagsins.

Skýrara getur það varla orðið. Flokkurinn tekur afdráttarlausa afstöðu gegn íhlutun eða inngripum sem gætu, að hans mati, orðið til að skerða í frelsi einstaklingsins. Síðar í svarinu, sem er eins og áður segir ítarlegt, kemur fram að:

Sjálfstæðisflokkurinn trúir að með slíkri nálgun megi ná fram raunverulegu jafnrétti til framtíðar og með því sé lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélagsins alls.

Hér er varla annað hægt en að staldra við hugtakið „raunverulegt jafnrétti“. Fullyrðingin felur í raun í sér að jafnrétti sem náð verði fram með íhlutun, inngripum eða öðrum beinum og sértækum aðgerðum geti í raun  aðeins orðið „óraunverulegt“ jafnrétti, þ.e. þvingað og óeðlilegt. Þá vekur tvítekning orðsins „trúir“ eftirtekt og notkun þess er tæpast af handahófi. Það er verið að tjá djúpstæða, jafnvel tilfinningalega (en ekki endilega rökræna) grundvallarlífsskoðun – hér er ekki ályktað, talið eða haldið heldur „trúað“. Það er sagt að trúin flytji fjöll en hvort það mun einnig gerast hér verður tíminn að leiða í ljós.

Framsókn svarar spurningunni með ívið færri orðum og virðist ekki vilja gera neina sérstaka grein fyrir hugmyndafræðinni á bak við svarið:

Framsókn hefur ályktað um að standa eigi vörð um lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja.

Af svarinu verður ekki annað ráðið en að Framsókn styðji lögin um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem sett voru af nýgenginni ríkisstjórn á þinginu 2009-2010  og eiga að taka gildi í september í ár. Og Framsókn hefur hefur sem sagt ályktað um það. Það er auðvitað freistandi að spyrja sig af hverju Framsókn hafi ályktað um það en svarið er að minnsta kosti ekki að finna undir spurningu 4.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig kynjakvótalögunum reiðir af ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verður að veruleika. Lögin voru samþykkt með atkvæðum allra flokka nema Sjálfstæðisflokks þannig að í því máli virðast flokkarnir ekki ganga í takt, en það er vissulega áhugavert hversu ítarlega Sjálfstæðisflokkurinn gerir grein fyrir sinni afstöðu og hversu fámáll Framsóknarflokkur er um sína afstöðu.

Það getur því ekki annað en talist nokkuð líklegt að lög um kynjakvóta verði í það minnsta endurskoðuð í tíð næstu ríkisstjórnar, skilyrði þeirra og reglurammar hugsanlega rýmkaðir eða gildistöku þeirra frestað enn og það getur ekki talist útilokað að þau taki jafnvel aldrei gildi. Annar flokkanna tekur ekki afgerandi hugmyndafræðilega afstöðu með þeim, hinn tekur mjög skýra og vel skilgreinda afstöðu á móti þeim. Tíminn verður að leiða í ljós hverjar afleiðingarnar verða fyrir þessi tímamótalög.

Lítum þá á spurningu 6, sem hljóðaði svo: Telur þú rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Spurningin varðar mál sem margir hafa ákaflega sterkar skoðanir á, einkum þar sem það hefur verið tengt lykilhugtökum í lýðræðissamfélagi, svo sem netfrelsi, hættu á ritskoðun og höftum á málfrelsi en einnig kúgun kvenna, barnavernd og klámvæðingu. Þetta er því mál sem enginn stjórnmálaflokkur ætti að geta látið hjá líða að taka afstöðu til. Ja, nema Framsóknarflokkurinn:

Framsókn hefur ekki ályktað um aðgengi að klámi.

Það er svolítið erfitt að lesa í þetta svar. Telur Framsóknarflokkurinn ekki ástæðu til að álykta um aðgengi að klámi? Hefur flokkurinn ekki haft tíma til þess? Telur flokkurinn málið ekki nægilega mikilvægt til að álykta um það?

Það er ekki fyrir óinnvígða að geta sér til um það.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hins vegar að minnsta kosti meðvitaður um að klám sé til og að tilvist þess sé ekki háð ályktunarvilja miðstjórnar flokksins. Hins vegar er ekki hægt að segja að afstaða flokksins til málsins sé sérlega skýr eða vilji hans til stefnumótunar einbeittur:

Dreifing á klámi er bönnuð samkvæmt lögum og ekki er stefnt að því að aflétta því banni. Ekki er skýrt af spurningunni hvernig ofbeldisklám er öðruvísi en klám samkvæmt skilgreiningu hegningarlaga.

Hegningarlög þau sem hér er á vissan hátt skotist í felur á bak við eru upprunnin í lagaumhverfi þar sem enginn sá fyrir að það yrði hversdagskostur að kíkja á hópnauðganir á netinu, svo það er kannski ekkert skrýtið að þau lög taki ekki sérstaklega til ofbeldiskláms. Hér er eins og verið sé að segja „það eru til reglur um klám, þar er ekki minnst á ofbeldisklám, við ætlum ekkert að ræða þetta og vísum þess vegna bara í lögin um klám og svo er það bara ykkar vandamál ef þið eruð eitthvað að vesenast með hugtök sem ekki fyrirfinnast í hegningarlögunum“. En er hugtakið „ofbeldisklám“ virkilega svona torskilið og órætt? Klám er klám. Ofbeldisklám er klám þar sem er beitt ofbeldi. Eða hvað? Kannski sérvaldir lögspekingar úr þingliði flokksins eigi eftir að skýra þetta betur fyrir almenningi þegar líður á kjörtímabilið. Það er hins vegar ljóst að eins og sakir standa lítur Sjálfstæðisflokkurinn svo á að hann sé stikkfrír hvað varðar ofbeldisklám og að Framsóknarflokkurinn hefur bara ekkert ályktað um málið. Það er því varla að vænta mjög beinskeyttra aðgerða eða víðtækrar umræðu á því sviði á komandi kjörtímabili.

Og loks er áhugavert að bera saman svör flokkanna tveggja við spurningu 3, sem hljóðaði svo:  Telur þú ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvers vegna ekki?

Það leyndi sér ekki á nýliðnum vetri að efnið sem spurt er um, dómar og málsmeðferð í þessum brotaflokki, er nokkuð sem almenningur ber mjög fyrir brjósti og margir hafa sterkar og ákveðnar skoðanir á. Nægir að minna á nýlegan dóm Hæstaréttar þar sem það að stinga fingri upp í endaþarm konu var ekki skilgreint sem kynferðislegt ofbeldi, jafnvel þótt aðrir löglærðir og sérfróðir bentu á að fyrir því væru ríkar forsendur í gildandi hegningarlögum (sjá t.d. hér og hér). Einn dómaranna í fjölskipuðum Hæstarétti skilaði sérákvæði og taldi umrætt brot augljóslega kynferðisbrot í skilningi laganna.

Þetta er því mál sem nokkuð beint liggur við að inna eftir svari um.

Það stendur reyndar ekkert á svarinu frá Sjálfstæðisflokknum:

Sjálfstæðisflokkurinn telur afar mikilvægt að sporna gegn hvers kyns ofbeldi og skipta forvarnir og rannsóknir þar miklu máli. Nauðsynlegt er að veita nægilegt fjármagn til lögreglunnar svo tækifæri sé til að haldið sé á rannsóknum og meðferðum kynferðisbrotamála svo sómi sé að. Sanngjarnt dómskerfi sem byggir á virðingu gagnvart þolendum skiptir miklu máli svo að þolendum stafi ekki ógn af því. Þegar hafa verið stigin góð skref eins og meðal annars með skipun réttargæslumanna. Nýlega hefur kynferðisbrotakafli hegningarlaga verið endurskoðaður þar sem nauðsynlegar breytingar voru til að mynda gerðar á nauðgunarákvæðinu. Þó ber sífellt að vera vakandi fyrir réttarbótum og Sjálfstæðisflokkurinn telur til að mynda að að fyrningarákvæði í lögum um kynferðisbrot gegn börnum verði afnumin. Almennt verður kerfið að bera þess merki að allt frá rannsókn mála til dómsuppkvaðningar séu send þau skilaboð að slíkum málum sé mætt af virðingu og forgangi því að kynbundið ofbeldi verður ekki liðið í íslensku samfélagi.

Þarna er í sjálfu sér fátt annað en gott sagt. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að í svarinu er sveigt hjá hluta af málefnalegum kjarna spurningarinnar, sem sneri augljóslega að framkvæmd og túlkun hegningarlaganna, ekki hvað síst þeirrar útvíkkunar á nauðungarhugtakinu sem bæði Rún Knútsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir tilgreindu í sínum greinum um málið (sem vitnað er til hér að ofan). Sjálfstæðisflokkurinn virðist forðast að mæta þeirri áskorun að taka afstöðu til dómaranna og dómsorðanna sem slíkra og það getur ekki annað en vakið upp spurningar. Hverjar þær spurningar á endanum verða og hvort þeim verður svarað verða næstu misseri að leiða í ljós.

Svar Framsóknarflokksins við spurningunni er öllu knappara:

Framsókn hefur ekki sérstaklega ályktað varðandi það.

Af þessu má, líkt og af svarinu við spurningu 6 um ofbeldisklámið, ráða að Framsóknarflokkurinn hafi einfaldlega afar lítið sinnt málefnavinnu tengdri efnum á borð við kynferðisofbeldi og dómskerfið annars vegar og ofbeldisklám, sem er tengdur málaflokkur, hins vegar. Hvað veldur er erfitt að segja. Flokkurinn verður í það minnsta ekki vændur um yfirlýsingagleði í þessum efnum og augljóst að fyrst ekki liggur fyrir skýlaus ályktun um þessi málefni vill sá/sú sem sendi inn svörin ekkert um þau segja fyrir hönd síns flokks. Það er kannski skiljanleg varfærni en auðvitað eru það viss vonbrigði að flokkur sem orðinn er jafnumsvifamikill í íslenskum stjórnmálum og Framsóknarflokkurinn er nú skuli ekki hafa gefið sér tíma til að fjalla um jafnveigamikil samfélagsmál og þessi. Það stendur vonandi til bóta.

Svör við spurningum sem þessum geta auðvitað aldrei talist fela í sér heildstæða jafnréttisstefnu stjórnmálaflokka; í besta falli eru þau vísbending um hugarfar eða leiðarhnoða um það völundarhús hugmyndafræði, hagsmunagæslu, hentistefnu, undirstöðuviðhorfa og grunngilda sem hver stjórnmálaflokkur, sama hvar í litrófinu hann staðsetur sig, óhjákvæmilega er.

Að afstöðnum kosningum skipta Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur neð sér 38 þingsætum í jöfnum hlutföllum og hafa því traustan meirihluta á löggjafarþinginu og teljast langlíklegastir til að mynda saman stjórn. Vonandi eiga þeir, og sú stjórn sem þeir kunna að mynda saman, eftir að standa sína plikt þegar kemur að jafnréttismálum.

Áhugafólk um femínisma, baráttuna fyrir jöfnuði kynjanna og lifandi umræðu um jafnréttis- og kynjamál mun fylgjast vel með.

Það er nefnilega mikið í húfi.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.