Klósett, jafnrétti og limgerði

Höf.: Gísli Ásgeirsson

 

Sviðið er Reykjavíkurmaraþon rétt fyrir aldamót. Í blíðskaparveðri kemur þétt halarófa þúsunda hlaupara út á Seltjarnarnes og fyllir út í götuna en einhvers staðar í hliðargötu liggur óþolinmóður Seltirningur á flautunni því hann verður að bíða í nokkrar mínútur á leið sinni út í sjoppu. Þarna er landið fagurt og frítt og fallegir garðar hvarvetna og í einum þeirra sitja roskin hjón með morgunsopann sinn. Miðað við meðalhæð alþýðu manna sjá þau aðeins höfuð og herðar flestra yfir gerðið, en í góða veðrinu snýst allt um upplifunina, ef taktfast fótatak, skvaldur, svitalykt og más er fólki að skapi. Við þessar aðstæður upplifa sumir sitt nírvana en engar tölur eru til um vellíðan hjónanna á þessari stundu.

Skyndilega stekkur ákaflega leggjalangur hlaupari yfir limgerðið, lendir þéttingsfast á flötinni fyrir framan hjónin, rífur niður stuttbuxur og nærhald og hægir sér hratt og fimlega til baksins á grasið. Að því loknu gyrðir hann sig leiftursnöggt í brók, stekkur út fyrir og gleymir að kveðja og þakka fyrir. Eftir sitja hjónin í losti og að sögn komu þau ekki upp orði fyrir hádegi þennan dag. Það þarf ekki að taka fram að þau nutu ekki áhorfsins á hlaupið sem skyldi eftir þetta. Ekki fylgir sögunni hver mokaði.

Þessi krúttlega saga úr hversdagslífi langhlauparans er nauðsynlegur formáli að kjarna málsins, sem er meðal annars gildi þess að hafa aðgang að skikkanlegu klósetti á leið sinni um borgarlendurnar og áhrif aðgengis að snyrtingu á þátttöku kvenna í langhlaupum.

Þeim sem stofnuðu Félag Maraþonhlaupara á þessum árum fyrir aldamót þótti miður hve fáar konur voru þá með á lengri vegalengdum en 10 km. Skýringin fékkst um það leyti sem hópur vaskra kvenna falaðist eftir þjálfun hjá einum okkar reyndasta hópþjálfara. Þær langaði í Lundúnaþonið. Þjálfi spurði hvort þær vildu ekki byrja hér heima, prófa vorþon eða haustþon, en þær kváðu nei við. Í London væru nefnilega klósett á hverjum 5 km og ekki bara tvö ferðaklósett, eins og þúsundir hlaupara þurftu að láta sér nægja í Lækjargötunni við rásmark Reykjavíkurmaraþonsins á þessum árum. Þótt strákum nægi húsveggir, skot eða limgerði (þess vegna heitir það limgerði) til að létta á sér, segir það sig sjálft að konur þurfa aðeins meira.

Þær hlaupastöllurnar fóru til London eftir stífar æfingar með þjálfa allan veturinn, skemmtu sér vel og kláruðu sitt hlaup með sóma. Framtakið vakti verðskuldaða athygli kynsystra þeirra, sem og umræðu í hlaupasamfélaginu. Þetta varð sumum hlauphöldurum hér heima lærdómur og ferðaklósettum fjölgaði hægt en bítandi næstu árin þar sem efnt var til langhlaupa. Næsta skrefið var að fjölga þeim í Reykjavíkurmaraþoninu, einkum meðfram leiðinni, en þrátt fyrir stuðning framkvæmdanefndar hlaupsins var fyrirstaðan mikil hjá þeim sem réðu og töldu þeir þetta mesta óþarfa, tilbúnar þarfir, pempíuhátt og þar fram eftir götunum. Þá var ekki búið að finna upp öfgafemínismann en sennilega hefðu einhverjir verið virkir í kommentakerfum á þeim tíma, þrútnir af bræði yfir frekjunni í kjellingunum. En til allrar hamingju var nóg af fólki sem sá ljósið. Sá sem þessar línur ritar er ánægður með að hafa lagt sitt lóð á vogarskálina í þessu máli og víðar.

Þessi andstaða dvínaði svo með árunum, enda sáu hlauphaldarar að jafnrétti í þessum efnum væri álíka sjálfsagt og drykkjarstöðvar við leiðina. Reikningsglöggir geta sér til skemmtunar skoðað kynjaskiptingu þátttakenda á þessum árum og séð aukninguna sem varð í kvennaflokki. Hún byrjaði um svipað leyti og klósettunum fjölgaði. Við síðustu talningu höfðu 1827 Íslendingar lokið heilu maraþoni. Þar af voru 627 konur.

Oft lendir jafnréttisumræðan í leiðindafari músarholufræða og hugtakastagls, að ógleymdu blessuðu skítkastinu. En af því að jafnréttið er sjálfgildið í tilverunni, því annað ofbýður réttlætiskennd manns, eru hæg heimatökin að láta verkin tala í hvert sinn sem maður rekst á eitthvað í nærsamfélagi sínu sem betur má fara. Stundum er lausnin álíka einföld og ferðaklósett.

Ein athugasemd við “Klósett, jafnrétti og limgerði

  1. Reyndar held ég að enn betri greining væri á þá leið að konur og stelpur hlaupi þegar þær hafa færi á því að komast á klósett, en jú, af því leiðir að þær hlaupa þá væntanlega síður þegar þær komast ekki á klósett. Að hlaupa heilt maraþon getur tekið allt frá rúmum 2 klukkustundum (heimsmet kvenna sýnist mér að sé 2.15 mín) upp í 8 klukkustundir (þ.e. ef maraþonið er gengið), svo það er nú varla óeðlilegt að fólk þurfi að létta á sér á þeim tíma.

Færðu inn athugasemd við Elín Pjetursdóttir Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.