Formæður og matur

Höf.: Nanna Rögnvaldardóttir

 

Ég minntist í morgun á Facebook-veggnum mínum, í tengslum við þessa grein, á það sem Michael Pollan sagði, „Don’t eat anything your great-great-grandmother wouldn’t recognize as food“ (reyndar sagði hann líklega „great-grandmother“ en sama er) og er satt að segja búin að vera að hugsa um það síðan. Það og langalangömmurnar mínar, sem ég þekkti auðvitað aldrei og veit kannski ekki mikið um en get þó rakið æviferil þeirra að einhverju leyti og getið mér til um annað. Og mér finnst mjög áhugavert að velta þeim dálítið fyrir mér – þegar allt kemur til alls er helmingurinn af genunum mínum kominn frá þessum átta konum þótt ég viti lítið um hvað ég hef erft frá hverri þeirra.

Til dæmis veit ég ekkert hvort einhverri þeirra fannst gaman að elda eða hvort einhver þeirra hafði minnsta áhuga á mat, nema sem lífsbjörg handa fjölskyldunni. Sennilega átti engin þeirra matreiðslubók og þurfti ekki á henni að halda. En hitt veit ég að þær þurftu allar að elda, hvort sem þær höfðu áhuga á því eða ekki.

Langalangömmur mínar – taldar frá þeirri elstu til þeirrar yngstu – voru þær Margrét á Hofi, Guðrún í Bólu, Hólmfríður á Skatastöðum, Þuríður á Kambsnesi, Valgerður í Djúpadal, Sigríður á Frostastöðum, Ingibjörg í Axlarhaga og Aðalbjörg í Tröllakoti. Sex bjuggu í Skagafirði, ein í Þingeyjarsýslu og ein í Dalasýslu. Þær voru fæddar á árunum 1820-1851. Sú fyrsta dó 1894, þær sem lengst lifðu dóu árið 1926, önnur 89 ára, hin 98.

Þær giftust allar og engin oftar en einu sinni. Að minnsta kosti tvær þeirra áttu þó barn fyrir hjónaband. Þrjár giftust um tvítugt, þrjár  aðrar á aldrinum 25-28 ára , ein líklega um þrítugt og ein 38 ára. Tvær voru 7-8 árum eldri en eiginmaðurinn en í sex tilvikum voru hjónin á mjög svipuðum aldri. Sjö þeirra urðu ekkjur en aðeins ein dó á undan manni sínum.  Fimm voru í ekkjustandi í tvo áratugi eða lengur, þar af ein í 47 ár.

Ég veit ekki alltaf hvað þær eignuðust mörg börn því í heimildum er oft ekki getið um nema þau börn sem komast upp. Ég veit þó að Sigríður á Frostastöðum eignaðist aðeins einn son og Valgerður í Djúpadal frænka hennar eignaðist ellefu börn en þrjú náðu fullorðinsaldri. Hólmfríður á Skatastöðum fæddi átta börn en aðeins þrír synir komust upp. Hinar áttu 4-5 börn sem ég veit af.

Efnahagur þeirra var misjafn. Tvær voru í þokkalegum efnum, þrjár voru líklega bjargálna en þrjár blásnauðar. Ingibjörg, sem ég skrifa hér á Axlarhaga af því að það er hefð fyrir því, bjó raunar með manni sínum á einum tíu kotum og jarðarpörtum í Akrahreppi og var stöðugt að flytja. Guðrún, sem var síðasta selráðskona í Skagafirði að ég held, bjó líka á nokkrum kotum og var svo víða í sínu langa ekkjustandi. Aðalbjörg bjó lengi við kröpp kjör í Tröllakoti við Húsavík, þar sem nú á að reisa stóriðju – ég held að samkvæmt teikningum nái hornið á verksmiðjuhúsinu i inn í kálgarðsrústirnar í Tröllakoti.

Þær gerðu líklega ekki mjög víðreist um dagana. Bæði Valgerður og Margrét voru fæddar í Djúpadal og Valgerður bjó þar alla ævi en Margrét giftist frænda sínum og fluttist fram í Vesturdal. Hólmfríður og Sigríður bjuggu líka alla tíð í Skagafirði, Ingibjörg var fædd í Svartárdal í Húnavatnssýslu en fluttist yfir Vatnsskarðið ung að árum, Þuríður átti alltaf heima í Laxárdal í Dölum, Aðalbjörg fæddist á Tjörnesi og bjó þar alla tið en Guðrún gamla Klemensdóttir yfirgaf fæðingarsveitina, Akrahreppinn, um sjötugt og bjó seinasta aldarfjórðunginn á Húsavík. Ég veit ekki til að nein þeirra hafi lagst í langferðir og jafnvel óvíst hvort þær sem bjuggu í Skagafjarðardölum komu nokkurntíma í kaupstað.

Þær voru auðvitað allar ómenntaðar, enda hófu þær búskap fyrir daga kvennaskólanna. Líklega hafa þær þó allar verið læsar. Þrjár þeirra lifðu það að fá kosningarétt en Aðalbjörg í Tröllakoti missti naumlega af því, dó tíu dögum áður en íslenskar konur fengu kosningarétt.

Og hvaða mat þekktu svo þessar konur? Jú, mjólk, skyr og smjör. Kindakjöt og kýr- og kálfakjöt og þær fátækari kannski hrossakjöt. Einhverja villta fugla. Slátur og innmat. Fisk, en aðallega hertan nema þær tvær sem bjuggu við sjó. Kornmeti, aðallega rúg og bygg líklega – grauta og flatbrauð og eitthvað af fínna bakkelsi eins og lummur og kleinur og ýmsu öðru bakkelsi hafa þær svo kynnst á efri árum, allavega þær sem langlífar urðu. Baunir og grjón, rúsínur, sveskjur, kandís, hvítasykur, síróp – og auðvitað kaffi. Sumar þeirra (en ekki allar) hafa þekkt kartöflur og líklega eitthvert kálmeti. Ber og fjallagrös og svo rabarbara, þessar langlífari. Og sitthvað fleira, svosem.

En hvaða mat þekktu þær þá ekki? Ekki osta nema kannski takmarkað (helst mysuost). Ekki svínakjöt. Ekki kjúklinga, varla hænuegg. Ekki humar, rækjur eða skelfisk (jú, kannski Þuríður á Kambsnesi, kræklingur var borðaður sumstaðar við Breiðafjörð). Ekki gulrætur, tómata, gúrkur, papriku, salat og næstum ekkert grænmeti.  Ekki sveppi. Næstum enga ferska ávexti (ég, barnabarnabarnið þeirra, man þegar ég smakkaði banana í fyrsta sinn og fékk bara epli og appelsínur um jólin, það er nú ekki lengra síðan). Og þannig mætti lengi telja.

Sko, heilræðið hans Michaels Pollan um að borða ekkert sem langalangamma manns (eða langamma manns) mundi ekki kannast við sem mat á ekkert sérlega vel við á Íslandi. En hann segir nú held ég sjálfur að það beri ekki að taka þetta mjög bókstaflega, að hann hafi eingöngu átt við verksmiðjuframleiddan mat. Og það get ég tekið undir. En það er samt bæði hollt og skemmtilegt að velta því fyrir sér hvað langalangömmur manns – og langömmur – elduðu og borðuðu og hvernig mataræði og matarvenjur breytast milli kynslóða.

Og hugsa um líf og lífskjör formæðranna og hvað flestu hefur nú farið fram þrátt fyrir allt. Líka hvað varðar matinn.

En svo að þessu fylgi nú einhver uppskrift, þá er hér brauð sem allar formæðurnar hefðu örugglega kannast við sem mat þótt í því sé kannski eitthvað sem þær smökkuðu aldrei.

Ég byrjaði á að gera grunndeig eins og ég hef oft lýst áður, til dæmis hér, en bara hálfan skammt, notaði heilhveiti og brauðhveiti til helminga og bætti við 150 g af fimm korna blöndu og 50 g af graskersfræi og bætti svo við dálitlu heilhveiti svo að deigið varð nógu þykkt til að hægt var að fletja það út á hveitistráðu borði.

Ég lét deigið lyfta sér í einn og hálfan til tvo tíma og skipti því svo í kúlur og flatti þær út á hveitistráðu borði í fremur þunn, kringlótt flatbrauð sem ég lét svo aftur lyfta sér í svona tíu-fimmtán mínútur.

         

Ég hitaði þykkkbotna pönnu nokkuð vel, setti brauðin á hana, eitt í einu, pikkaði vel með gaffli og bakaði þau við ríflega meðalhita í svona tvær mínútur á hvorri hlið.

Staflaði brauðunum upp jafnóðum og bar þau fram volg.  Ég hugsa að formæðurnar hefðu alveg kunnað að meta þau. Eða að minnsta kosti áttað sig á að þetta væri matur.

Ég tala nú ekki um með nýstrokkuðu smjöri (nei, ókei, smjörið var nú ekki nýstrokkað).

En það væri nú gaman að vita hvað formæðrunum hefði þótt um cheddarost, ítalska hráskinku og basilíku ofan á flatbrauðið. Mikið vildi ég að ég gæti sest með þeim öllum átta við borðstofuborðið, boðið þeim að smakka og fengið að heyra viðbrögðin …

 

 

—-

Þessi pistill birtist á bloggi Nönnu 2. maí 2013 og er endurbirtur hér með góðfúslegu leyfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.