Angelina, brjóstin og kvenleikinn

Höfundur: Erna Magnúsdóttir

 

Í gær fjallaði heimspressan af miklum ákafa um ákvörðun leikkonunnar Angelinu Jolie að láta fjarlægja á sér bæði brjóstin til þess að forðast brjóstakrabbamein.  Angelina er nefnilega arfberi stökkbreytingar í DNA-viðgerðargeni sem kallast BRCA1.  Hún erfði þessa stökkbreytingu frá móður sinni sem dó fyrir aldur fram úr brjóstakrabbameini.

Ég tek ofan fyrir kynsystur minni fyrir hugrekkið.  Fyrir að þora að horfast í augu við staðreyndir, leggjast undir hnífinn og fara í stóra skurðaðgerð.  Ég dáist ekki síst að henni fyrir að standa keik fyrir framan heiminn og segja frá því að hún hafi látið fjarlægja á sér brjóstin og þar með minnkað líkurnar á því að hún fengi brjóstakrabbamein úr 87% í innan við 5%.

Heimspressan hefur gert sér mat úr yfirlýsingu Jolie í dag.  Nokkuð fyrirsjáanlega hefur mikið verið fjallað um það hversu ríka áherslu Jolie leggur á að kvenleiki hennar hafi ekki borið skarðan hlut frá borði við aðgerðina:

Sem einstaklingur líður mér ekkert eins og ég sé neitt minni kona.  Ég finn afl mitt í því að ég tók góða ákvörðun sem dregur ekki úr kvenleika mínum á nokkurn hátt.

Brjóstakrabbamein er algengur sjúkdómur meðal kvenna á Vesturlöndum.  Líkurnar á því að kona fái brjóstakrabbamein á lífsleiðinni er um 8%, ef ekki býr að baki fjölskyldusaga um sjúkdóminn. Líkurnar margfaldast svo þegar um er að ræða ættgengan brjóstakrabba.  Í um helmingi þessara fjölskyldna er vitað nákvæmlega hvaða genabreytingar það eru sem valda brjóstakrabbanum og þá má gera DNA-rannsókn og ráðleggja konum um forvarnir af ýmsu tagi, allt eftir því hvort þær bera skaðlegu stökkbreytinguna eða ekki. Beri kona stökkbreytingu í t.d. BRCA1 eða BRCA2 eru svo miklar líkur á því að hún fái brjóstakrabba að það er oft talið öruggara að fjarlægja brjóstin.

Það er því löngu tímabært að konur fái að taka þá ákvörðun að fjarlægja líffæri eins og brjóstin sem ekki eru lífsnauðsynleg, án þess að þurfa að takast á við þrýsting um að fórna ekki „kvenleikanum“, eins og hann sé geymdur á einhvern undraverðan hátt í þessum líffærum sem á sama tíma virðast eiga að undirstrika kvenleika, kynverund og móðurhlutverk kvenna.  Það er því kannski ekki skrýtið að það ruggi bátnum þegar konur taka ákvörðun sem þessa .  Það vill nefnilega stundum brenna við að konur eru gagnrýndar harðar fyrir að láta fjarlægja á sér brjóstin til að fyrirbyggja krabbamein en að gangast undir svipaða aðgerð til að stækka á sér brjóstin.  Því fagna ég ákaft ákvörðun Jolie að tala opinberlega um  brottnám brjósta sinna og stuðla þannig að opinni umræðu um brjóstakrabbamein og úrræði við þeim.

 

———————

Ítarlegri upplýsingar um brjóstnám í forvarnarskyni má finna hér.

Ein athugasemd við “Angelina, brjóstin og kvenleikinn

  1. Mig dreymir þann dag að það verði allt í lagi að láta fjarlægja brjóstin án þess að settir séu púðar í staðinn og enginn kippi sér upp við það. Því ef brjóstapúðamálið hefur sýnt okkur eitthvað þá er það það að maður þarf að hafa varann á hvað við setjum inn í líkama okkar. Og hverjum kemur það við öðrum en okkur sjálfum hversu stór eða lítil brjóstin okkar eru (ja, hugsanlega hafa hjásvæfur okkar einhverja skoðun á þeim, jafnvel að þeim líki betur við annað fremur en hitt en það kemur almenning heldur ekkert við).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.