Þýðir það „já“ að segja ekki „nei“?

Eftir Guðrúnu C. Emilsdóttur

*TW* Greinin inniheldur lýsingar á grófu kynferðislegu ofbeldi

Á dögunum birtist frétt um ungan mann sem sýknaður var af ákæru vegna nauðgunar. Það er margt undarlegt við þessa frétt og vekur upp spurningar um almenna þekkingu dómara á mannlegum samskiptum, burtséð frá niðurstöðu dómsins. Það er vitað að þegar um orð á móti orði er að ræða í nauðgunarmálum, er tilhneigingin að dæma ákærða í vil. Í þessum dómi virðist hins vegar enginn vafi vera á ferðinni, heldur gefið í skyn að stúlkan geti sjálfri sér um kennt. Í honum endurspeglast allir fordómar í garð kvenna sem verða ofurölvi, fara heim með karlmanni og segja ekki „nei“ með beinum og skýrum hætti.

Skoðum fréttina aðeins nánar. Þar kemur fram að ákæran er byggð á þeim grundvelli að stúlkan hafi verið mjög ölvuð og að maðurinn hafi nýtt sér ástand hennar til þess að hafa við hana samræði. Það virðist ekki vera deilt um ástand hennar, enda hafði vinkona hennar áhyggjur af henni og taldi rétt að henni yrði fylgt heim. En dómarinn kemst að þeirri undarlegu niðurstöðu að stúlkan hefði átt að vera „meðvituð um hvert hlutir stefndu“. Hún var sem sagt ekki með nægilega dómgreind til þess að fara ein heim, en átti alveg að geta tekið meðvitaða ákvörðun um að hafa kynmök við manninn! Nú spyr maður sig: Hafði maðurinn ekki dómgreind til þess að sjá að stúlkan væri ekki í ástandi til þess að taka þessa ákvörðun? Hvað svo sem samskiptum þeirra fyrr um kvöldið líður? Sagt er að þau hafi verið góðir vinir – maður hefði haldið að góður vinur myndi vilja innilegt og meðvitað kynlíf, þar sem enginn vafi léki á samþykki beggja aðila.

Stöldrum aðeins við orðalagið í fréttinni: „Verður að telja að brotaþoli hafi verið meðvituð um það hvert stefndi í samskiptum hennar og ákærða en óumdeilt er að hún gerði ákærða ekki grein fyrir því að hún væri mótfallin kynferðislegu samneyti við ákærða. Á hvaða forsendum er talið að „brotaþoli“ (af hverju er talað um brotaþola þegar ekkert brot hefur verið framið skv. úrskurði dómara?) hafi verið meðvitaður um hvert stefndi? Var dómarinn á staðnum? Hlustaði hann á samskipti stúlkunnar og mannsins? Segjum svo að þau hafi verið á daðurslegu nótunum, þýðir það að stúlkan sé búin að gefa samþykki fyrir kynmökum? Ég á vini sem ég daðra stundum við og öfugt, án þess að okkur dytti nokkurn tímann í hug að það leiddi til kynferðislegra athafna. Ímyndum okkur samtal tveggja góðra vina á skemmtistað:

– Rosalega ertu sexý í þessum kjól!

– Já, finnst þér hann ekki flottur?

– Karlarnir hafa ekki augun af þér og ég eiginlega ekki heldur …

– Haha, you wish …! Komdu og dansaðu við mig!

Í þessu samtali er ýmislegt gefið í skyn, en ekkert í því gefur til kynna að vitað sé hvert stefnir, hvað þá að í orðaskiptunum felist samþykki til kynmaka. Síðari hluti tilvitnunarinnar er enn undarlegri. Hvernig getur það verið „óumdeilt“ að stúlkan hafi ekki gert ákærða grein fyrir því að hún væri mótfallin kynferðislegu samneyti? Ætti stúlkan í ímyndaða samtalinu að segja í stað síðustu setningarinnar:

– Heyrðu vinur, bara svo þú vitir það, þá er ég mótfallin kynmökum við þig í kvöld.

Athyglisvert er að sama dag birtist frétt á svipuðum nótum í sænska blaðinu Aftonbladet. Þar segir frá niðurstöðu dóms vegna nauðgunarákæru. Í hnotskurn er niðurstaðan sú að dómararnir töldu að stúlkan sem kærði hafi upphaflega verið búin að gefa í skyn að hún væri til í að hafa kynmök við þrjá menn, en hafi e.t.v. ekki verið til í að fá flösku inn í sig. Hún hafi hins vegar ekki gefið það skýrt til kynna og að hugsanlegt sé að hún hafi kært vegna þess að henni fór að blæða úr leggöngunum(!). Og þar sem þessir „góðu gæjar“ heyrðu ekki klárt „nei“, þá hafi þeir „eðlilega“ haldið að það væri í lagi (og þess vegna einn haldið um axlirnar á henni, annar glennt fætur hennar í sundur og sá þriðji væntanlega stungið flöskunni í leggöngin).

Nú spyr ég: Af hverju í ósköpunum halda menn að kona vilji láta reka inn í sig flösku? Hvernig dettur þeim það í hug? Eða að kona vilji láta ríða sér rænulausri?

Skilaboðin sem þessir dómar gefa eru að við hvaða aðstæður sem er eigi konur (og karlar þegar það á við) að segja hátt og skýrt „nei“ séu þær mótfallnar einhverjum kynferðislegum athöfnum, jafnvel þegar gerendum ætti að vera ljóst að litlar líkur séu á því að konur njóti ákveðinna athafna. Það er sem sagt á ábyrgð kvennanna að koma í veg fyrir misskilning sem leitt gæti til kynmaka sem ekki er óskað eftir (lesist: nauðgunar).

Skilja karlar ekki mælt mál?

Í ljósi þessara dóma er áhugavert að skoða kenningar Celiu Kitzinger og Hannah Frith um samskipti út frá samtalsgreiningum. Að þeirra mati ætti ekki að vera þörf á því að segja skýrt og beint „nei“ til að gefa í skyn að fólk sé ekki til í kynmök. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að konur segi ekki klárt „nei“ þegar þær standa frammi fyrir því að annar aðili vilji hafa við þær kynmök. Ef um mann er að ræða sem sýnir ógnvekjandi hegðun getur konan hreinlega frosið og ekki komið upp neinu orði. Eins getur kona metið aðstæður þannig að betra sé að styggja ekki ofbeldismanninn með því að veita mótspyrnu. Það samrýmist þeim fyrirmælum sem starfsfólki í búðum er gefið um hvernig eigi að bregðast við ránum, sérstaklega ef viðkomandi er ógnandi í fasi. Svo eru tilfelli þar sem aðstæður eru ekki ógnvekjandi, en höfnun er gefin til kynna á annan hátt en með því að segja beint „nei“. Í fyrri tveimur tilfellunum má gera ráð fyrir að ekki hefði skipt máli þótt konan hefði sagt „nei“, ofbeldismaður rökræðir ekki við fórnarlömb sín, hann bara framkvæmir. Það síðasta er hins vegar annars eðlis, því það snertir samskipti fólks og hvernig það bregst hvert við öðru. Um þau samskipti snúast kenningar þeirra Kitzinger og Frith.

Þær stöllur ganga út frá því að enginn munur sé á því hvernig karlar og konur komi höfnun til skila í venjulegum samskiptum án þess að segja beint „nei“ og því ætti enginn munur að vera heldur á því þegar kemur að kynlífi:

Drawing on the conversation analytic literature, and on our own data, we claim that both men and women have a sophisticated ability to convey and to comprehend refusals, including refusals which do not include the word ‘no’, and we suggest that male claims not to have ‘understood’ refusals which conform to culturally normative patterns can only be heard as self-interested justifications for coercive behavior.

Öfugt við það að segja einfalt „já“ á fólk almennt erfitt með að segja beint „nei“ þegar það hafnar einhverju. Oft er höfnunin í formi afsakana eða réttlætinga í löngu máli:

– Hvað segirðu um að skreppa yfir í smástund og fá þér kaffi?

– … hmm … sko … ég vildi það gjarnan, en ég held að ég komist ekki núna … ég er með auglýsingu í blaðinu … og ég þarf að vera við símann.

Út frá samtalsgreiningu er hægt að greina höfnun af nokkrum atriðum; hiki eða þögn, úrdráttarorðum (orð eins og „hmm“, „sko“ í dæminu hér að ofan), mildandi orðalagi („ég vildi það gjarnan“), afsökunum („ég er með auglýsingu í blaðinu … og ég þarf að vera við símann“).

Það sama á við þegar kynlífi er hafnað. Fólk hneigist til þess að milda höfnunina, í samræmi við óskráðar reglur um höfnun almennt, til þess að vera ekki dónalegur eða særa viðkomandi. Hver kannast ekki við svarið: „Æ, fyrirgefðu, en ég er of þreytt(ur) núna“ þegar annan aðilann í sambandi langar til að hafa kynmök, en hinn ekki? Vissulega er hægt að segja „nei“ án frekari útskýringa og margir gera það, en oftar en ekki er reynt að milda höfnunina með „löglegri“ afsökun. Í tilfellum þar sem um fólk sem þekkist lítið eða ekkert er að ræða gætu sambærilegar afsaknir verið á borð við: „Þú ert indæll, en ég er ekki tilbúin til þess núna.“

Það er því ekki nauðsynlegt að segja „nei“ til að viðmælandi skilji höfnun. Nóg er að greina hik eða þögn í svari til að átta sig á að um höfnun gæti verið að ræða. Flestir hegða sér í samræmi við þessa vitneskju og sést það á því hvernig fólk bregst við t.d. þögnum, jafnvel mjög stuttum þögnum:

– Viltu koma með mér í partý á eftir?

(þögn)

– Vinkona þín getur komið með.

Í þessu dæmi hefur sá sem talar skilið þögnina sem ákveðna andstöðu og flýtir sér að bæta við að vinkona geti komið með, til að draga úr líkum á höfnun og sannfæra viðmælanda um að koma með sér. Eins eru mildandi svör oft merki um höfnun, eins og „þakka þér gott boð, en …“ eða „ég er upp með mér að þú skulir sýna mér áhuga, en … “ Jafnvel getur „já“ með semingi verið skilið sem höfnun af þeim sem bíður svars:

– Má ég hringja í þig í kvöld?

– … jaaá …

– Gerðu það, má ég það?

Þessar greiningar sýna að mati Kitzinger og Frith að í aðstæðum þar sem kynlíf ber á góma sem konur hafa ekki áhuga á, bregðast þær oft við á þann hátt sem algengast er þegar hlutum er hafnað almennt. Athyglin ætti því ekki að snúast um samskiptahæfni þeirra þegar kemur að nauðgunarmálum, heldur miklu frekar um staðhæfingar karlanna sem segjast ekki hafa áttað sig á að þær hafi ekki viljað hafa kynmök við þá. Með slíkum staðhæfingum eru þeir í raun að segja að þeir skilji ekki mælt mál eða kunni ekki að lesa í menningarlega viðurkennda samskiptahætti þegar kemur að kynlífi, þótt þeir skilji þá mætavel við aðrar aðstæður. Þeir geta einfaldlega ekki falið sig á bak við það, að konan hafi ekki sagt skýrt og beint „nei“. Dómarar ættu heldur ekki að gera það.

Það má velta fyrir sér hvort herferðir eins og „Nei þýðir nei“ hafi misheppnast og í raun snúist upp í andstöðu sína. Því nú virðast dómarar taka það gott og gilt að svarið sé „já“ ef ekki er sagt „nei“. Eins má ætla að gerendur nýti sér þessa glufu í kerfinu til fulls. Er ekki kominn tími til að varpa ábyrgðinni yfir á gerendur í stað þess að beina athyglinni alltaf að því hvað konur gera eða gera ekki? „Fáðu já“-herferðin leggur einmitt áherslu á ábyrgð aðila til þess að fá samþykki fyrir kynmökum og ættu dómarar líka að beina athyglinni að því í nauðgunarmálum, þ.e. að kanna hvort klárt samþykki hafi verið fyrir kynmökum.

Að lokum langar mig að gera að mínum orð vinkonu minnar sem sagði af tilefni þessarar fréttar sem upphaflega er vísað til:

„Svona til að hafa þetta á hreinu þá tilkynnist hér með að ég er mótfallin kynferðislegu samneyti með ykkur öllum nema ég gefi annað skýrt og skilmerkilega til kynna.“

8 athugasemdir við “Þýðir það „já“ að segja ekki „nei“?

 1. „Á hvaða forsendum er talið að „brotaþoli“ (af hverju er talað um brotaþola þegar ekkert brot hefur verið framið skv. úrskurði dómara?) hafi verið meðvitaður um hvert stefndi?“

  Brotaþoli gæti hafa verið meðvitaður hver stefndi vegna þess að brotaþoli tók þátt í atvikum sem benda til þess að báðir aðilar hafi áhuga á kynmökum. Þetta gæti verið kossar, þukl væntumþykkja og almenn samskipti sem sýni áhuga á hvort öðru, jafnvel í tilvist vitna og síðan haldið heim með viðkomandi.

  (Tek það fram að slíkt finnst mér ekki réttlæta nauðgun þegar heim er komið)

  Ég veit ekki hvaða mál þú ert að qvóta, en þetta getur bæði bara verið slæmt orðalag, eða þá eins og í tilfelli flöskunar að það sé engin að neita að atvikið hafi átt sér stað eða þá að þær hafi í framhaldi meitt stúlkuna með athæfinu og þar af leiðandi brot…. Annars ætla ég ekkert að gefa mér upp neitt í þessu máli….

  Fannst þessi frétt sjálfur mjög gruggug þegar ég las hana í fjölmiðlum, án þess að ég hafi kynnt mér dómsmálið sjálft.

  „- Rosalega ertu sexý í þessum kjól!

  – Já, finnst þér hann ekki flottur?

  – Karlarnir hafa ekki augun af þér og ég eiginlega ekki heldur …

  – Haha, you wish …! Komdu og dansaðu við mig!“

  „Í þessu samtali er ýmislegt gefið í skyn, en ekkert í því gefur til kynna að vitað sé hvert stefnir, hvað þá að í orðaskiptunum felist samþykki til kynmaka.“

  Nei, en þarna er drengurinn hinsvegar greinilega að sýna henni áhuga og hefur orð á áhuga sínum. Staðinn fyrir að segja „æjji þegiðu“ eða „já hef engan áhuga því miður vinur“ þá tekur hún í þessu dæmi þínu vel í commentið og óskar eftir frekari samskiptum. Ef ég lýsi yfir áhuga mínum á stelpu og hún býður mér í framhaldi á kaffihús þá segjir það sitt.
  Það gefur mér ekki rétt á líkama hennar, enda er engin að tala um það, en það gefur skilaboð um að einstaklingur sé opinn fyrir frekar innilegum samskiptum.

  “ Það er sem sagt á ábyrgð kvennanna að koma í veg fyrir misskilning sem leitt gæti til kynmaka sem ekki er óskað eftir (lesist: nauðgunar)“

  Það er auðvitað á ábyrgð beggja aðila það sé ekki verið að nýta sér aðstæður þegar annar eða báðir aðilar eru orðnir of glasaðir. En þegar á slíkan stað er komið og ef fólk hefur ekki orð á því að það vilji ekki sofa hjá, þá er andskoti harkalegt að telja eðlilegt að annar aðilinn sé dæmdur fyrir nauðgun.

  Ég hef vaknað við hliðina á stelpum eða vinkonum og verið bara „úff… djöfull hef ég verið fullur, þetta var slæm hugmynd“…
  Viðbrögðin ættu væntanlega að vera „ég var alltof fullur, þessi stelpa notfærði sér það, ég er farinn niður á lögreglustöð að leggja fram kæru“ ??

  “ Ef um mann er að ræða sem sýnir ógnvekjandi hegðun getur konan hreinlega frosið og ekki komið upp neinu orði. Eins getur kona metið aðstæður þannig að betra sé að styggja ekki ofbeldismanninn með því að veita mótspyrnu.“

  Þetta er rétt.
  Sérstaklega ef aðili er beittur ofbeldi eða þá hótunum.

  Mér sýnist þú samt ekki vera að ræða slík athæfi, þú ert að ræða þegar aðili er fullur og sefur hjá og fólk sé að misnota sér aðstæður þess aðila.
  Að koma með þessa röksemd inn í slíkt mál hefur ekkert að gera með málin sem þú ert að ræða.

  Þú gefur þér annað dæmi.

  „- Hvað segirðu um að skreppa yfir í smástund og fá þér kaffi?

  – … hmm … sko … ég vildi það gjarnan, en ég held að ég komist ekki núna … ég er með auglýsingu í blaðinu … og ég þarf að vera við símann.“

  Þarna er karlmaðurinn orðin kynferðisofbeldismaður ef hann nær að tala stelpuna yfir í að kíkja í heimsókn gegn hennar vilja þá væntanlega ?
  Ég skil ekkert hvað þú ert að fara…..
  Hún hefur kost á að ákveða að koma ekki yfir í kaffi, hún miðað við þínar pælingar veit að hugsunin sé bootycall…
  Hún gerir það samt en útaf gaurinn hefur þá talað hana út í að kíkja í kaffi þá er hann orðinn nauðgari ef það endar upp í rúmi, þetta er þín sönnun á málinu ?
  Hún upplýsti hann um í byrjun samskipta að hún þyrfti helst að vera við síman ?

  Ég endaði með að kúra hjá vinkonu minni í fyrradag, ég sagði henni að ég væri rosalega syfjaður, ætlaði að fá mér smá lúr (semsagt gæti ekki komið og hitt hana) hún spyr í framhaldi hvort hún eigi bara ekki að kíkja yfir og kúra með mér…. Þarna er ég þá væntanlega að koma með neitun og hún að brjóta á mér með því að taka ekki þeirri neitun ?

  Enn annað dæmi.

  „- Viltu koma með mér í partý á eftir?

  (þögn)

  – Vinkona þín getur komið með.“

  Þarna getur drengurinn haft áhyggjur á að henni finnist óþægilegt að fara ein og þekkja engan, hann býður henni að taka vinkonu með.
  Þú lest það þannig að hann er creep og áttar sig ekki á höfnun um kynlíf á þessum tímapunkti ?

  Þetta er svo pleh… ég veit ekki hvar ég á að byrja.

  Segja þér alveg eins og er, ég hef verið fullur niður í bæ, ég hef endað heima með stelpu sem ég hef séð eftir.
  Stelpa hefur örugglega verið full niður í bæ og hefur endað heima með mér og séð eftir því.

  Á meðan fólk drekkur áfengi þá mun slíkt koma fyrir. Það þýðir ekki að nauðgun hafi átt sér stað ef annar aðilinn ákveður að kæra eftir slíkt athæfi.

  Við verðum að halda okkur við fólk sé dæmt eftir sönnunum eða þegar vafi er mjög lítill á að það hafi verið brotið á öðrum aðilanum.

  Skal segja þér alveg eins og er, ég er skíthræddur við stelpur eins og þig og ég vona að ég lendi ekki í að hössla stelpu niður í bæ sem hefur þessar lífsskoðanir. Ég er ekki nauðgari, ég styð ekki við nauðgandir, ég geri mitt besta að fara ekki illa með neinn, hvorki karlmann né kvennmann, en mér finnst fólk sem hefur svona skoðanir virka á mig eins og jarðsprengjur.

  Ég get ekki ímyndað mér hve harkalegt það er að vera kærður fyrir nauðgun þegar engin nauðgun átti sér stað, heldur það að stelpan fékk blackout eða bömmer eftir atvikið.
  Ég hef sjálfur lent í að fá blackout, það er nógu slæmt fyrir og manni líður eins og skít.

  Eins og ég segji, reyndu að snúa þessum kynjaorðum á hinn bóginn og sjáðu hve ánægð þú ert með útkomuna…

  • Ég er sammála Brynjari.

   Palli, ég get ekki sagt að ég hafi ekki pælt í þessu sjónarhorni samt, og hef þess vegna reynt að vera mjög viss um að stelpan væri til í kynmök þegar um áfengi er að ræða (sérstaklega).

   Man eitt skiptið spurði ég eftir að heim var komið: ég vil ekki gera neitt sem þú vilt ekki gera, og þá sagði hún ekki neitt, en togaði mig niður í rúmið og kyssti mig (eða horfði mjög eggjandi á mig og brosti, man ekki hvort, hún var talsvert ölvaðari en ég). Ég ætla að túlka það sem já.

   Kannski eru einhverjir i þessum aðstæðum hræddir um að spilla múdinu, en já, það er worth it til að koma í veg fyrir eitthvað sem ætti ekki að gerast (nauðgun).

 2. Palli, ég sé ekki betur en þú sért að misskilja ansi mikið, þú ættir ef til vill að lesa þetta betur.

  Hún er ekki að tala eingöngu um eitt mál. Hún notar mál sem dæmi til þess að tala almennt. Dæmin um höfnun snerust ekki um höfnun á kynlífi, heldur einmitt öðru, til þess að sýna fram á hvernig fólk hafnar frekar með mildari hætti en einfödu nei-i. Þegar hún talar um íslenska málið finnst mér mjög eðlilegt að hún spyrji hvers vegna það hafi verið þolandans að vera meðvituð um hvert samskiptin stefni, en ekki skylda geranda að vera meðvitaður um ástand þolandans og um hvort þolandinn hafi yfirleitt verið í ástandi til þess að geta annað hvort veitt samþykki eða höfnun.

  • Ef fólk fer að hafna með einhverju flóknu ómildu nei-i þá er fáranlegt að búast við því að fólk átti sig nákvæmlega á því hvað sé í gangi í kollinum á viðkomandi. Stelpur eru alveg nógu harðar af sér til þess að tjá sig um hvað þær vilja og vilja ekki.

   • Ég held að strákar séu alveg nógu klárir til þess að skilja höfnun ef þeir sætta sig við hana á annað borð, og þeir sem treysta sér ekki til þess eru alveg nógu harðir af sér til þess að spyrja hvað aðrir vilji og vilji ekki.

   • Ef fólk hafnar með einhverju flóknu og ómildu nei-i og sá sem fyrir þeirri flóknu höfnun verður skilur ekki alveg 100% hvað er að gerast: Hvernig er eðlilegt að áætla að þessi ruglingur þýði „já“?

    Ef þú skilur ekki nákvæmnlega hvað er verið að segja við þig, afhverju myndirðu þá taka áhættunna á því að brjóta á manneskju í staðin fyrir að gera það ekki?

 3. „Verður að telja að brotaþoli hafi verið meðvituð um það hvert stefndi í samskiptum hennar og ákærða en óumdeilt er að hún gerði ákærða ekki grein fyrir því að hún væri mótfallin kynferðislegu samneyti við ákærða.“

  Í þessu samhengi er þetta mjög áhugavert: http://www.visir.is/omerkti-dom-i-naudgunarmali/article/200880214095

  Sérstaklega þessi klausa:

  „Mat á því hvort ákærða hafi átt að vera ljóst að konan hafi ekki viljað eiga kynmök við hann verði þannig ekki að réttu lagi reist á þeim grunni að hún hafi ekki verið honum andhverf áður en hún hafi farið inn á salernið.“

  Þessi dómur endurvekur því að því er virðist ‘lagatúlkun’ sem Hæstiréttur hefur áður vísað aftur í hérað.

 4. Bakvísun: Hvernig „samþykkja“ konur kynmök? | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.