Kvennafræðarinn – Leikdómur með ýmsum útúrdúrum, vangaveltum og leiksýningatengslum

Höfundur: Sigurlín Bjarney Gísladóttir

 

Við erum nokkrar konur sem hittumst einu sinni til tvisvar á ári til að borða saman og gera eitthvað menningarlegt, eins og við köllum það. Með hækkandi sól nálgaðist árviss viðburður og forsprakkinn í hópnum stakk upp á leikverkinu Kvennfræðaranum eftir Kamillu Wargo Brekling sem sýnt er um þessar mundir í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Áhugi hennar spratt einkum af því að hún hafði áður séð verk í leikstjórn Charlotte Böving og hrifist af. Charlotte Böving er allt í senn söngkona, leikkona, leikstjóri og margt annað. Hún hefur komið að og tekið þátt í ýmsum skemmtilegum verkefnum undanfarin ár.

Umgjörðin var því öll hin heppilegasta: hópur af jákvæðu fólki sem kemur saman til að gera sér glaðan dag og njóta listar. Leikverkið er þýðing á dönsku leikriti sem byggir á bókinni Kvennafræðaranum (Kvinde, kend din krop), sem kom fyrst út í Danmörku árið 1975 og hafði mikil áhrif *. Tilgangur bókarinnar var að fræða konur (og karla eflaust líka) á opinskáan hátt um kvenlíkamann, samskipti kynjanna, kynlíf, kynfærin, kynsjúkdóma og margt fleira sem kvenkynið gengur í gegnum út lífið. Þögnin sem áður hafði hjúpað þessa mikilvægu reynslu var rofin og það hefur verið nauðsynlegt og kærkomið. Auðvitað olli bókin hneykslun á sínum tíma og því er áhugavert að sjá hvernig hægt er að setja saman leiksýningu út frá riti sem talaði inn í annan tíma en við lifum í dag. Í stuttu máli aðlagar höfundur verkið að nútímanum og fjallar um hluti sem ekki þekktust fyrir 20 árum eins og t.d. rakstur kynfæra og fleira.

Um einhvers konar klippiverk er að ræða þar sem tveir leikarar bregða sér í mörg hlutverk og í raun er engin ein aðalpersóna. Atriðin eru ólík og miðla ólíkum hlutum. Sum eru fræðsla á meðan önnur sýna samskipti og jafnvel ofbeldi. Léttleikinn og húmorinn eru alltaf skammt undan og áhorfendur fá góðan skammt af hlátri. Leikararnir Maríanna Clara Lúthersdóttir og Jóhann G. Jóhannsson sýna afbragðsgóðan leik. Jóhann bregður sér í fjölmörg hlutverk og gaman að sjá að þegar hann leikur konur þarf hann ekkert að skipta um föt og hann skilar sínu hlutverki vel. Maríanna fer á kostum og í alvarlegum atriðum sem fjalla um erfiðar tilfinningar sést vel hversu afbragðsgóð og öflug leikkona hún er.

Úr sýningunni Kvennafræðarinn

Í stuttu máli er margt mjög vel gert í sýningunni og komið inn á marga áhugaverða hluti. Hins vegar sat ég eftir með þá tilfinningu að eitthvað vantaði. En það er erfitt að sjá hvað það er sem vantar og þá hefst hin mikilvæga leit. Það sem mér finnst ókostur við sýninguna er að þar er tiplað á yfirborðinu á svo mörgu að það er aldrei kafað dýpra eða tekið almennilega utan um mikilvæg málefni. Umfjöllunarefnin eru of mörg og mig langaði í meiri dýpt. Kaflinn um fæðingarþunglyndi fannst mér mjög flottur og líka atriðið þar sem konan beitir manninn sinn ofbeldi. Gott hefði verið að sjá meira af slíku, auk þess sem gott hefði verið að sjá beittari ádeilu, kafað dýpra í það hvernig sjálfsmynd kvenna mótast og brýst fram í athöfnum og hegðun. Lýsingar á kynfærum og samfarastellingum voru smellnar en hins vegar vantaði meiri ást, sannar tilfinningar og meiri sál í verkið. Þegar ég sé leiksýningu þar sem eitthvað vantar hef ég tilhneigingu til að kenna leikskáldinu um en eflaust hefur leikstjórinn líka sín áhrif. Kannski liggur sökin hjá bókinni sjálfri og þeim efnivið sem leikskáldið hefur í höndunum.

Góður vinur minn kom með það áhugaverða sjónarhorn að tungumálið í verkinu væri í raun karllægt. Ég treysti mér ekki út í þá sálma en gaman væri að fá álit sérfróðra um það því sú umræða er mikilvæg. Að leita að sökudólgi er aldrei vænlegt til árangurs. Leikskáldið, leikstjórinn, leikararnir og allir sem að sýningunni standa sitja uppi með þá staðreynd að salurinn er fullur af gjörólíku fólki sem upplifir sömu sýningu á ólíkan hátt. Væntingarnar eru ólíkar og lesturinn misjafn. Flestir virtust skemmta sér vel þetta kvöld og vinkonur mínar gengu ánægðar út. Ef tilgangurinn með sýningunni er að vera létt skemmtun sem hreyfir örlítið við áhorfandanum þá er tilganginum náð.

Úr sýningunni Karma fyrir fugla

En nú get ég ekki hætt. Í raun ætti þessu að ljúka hér og leikdóminum að vera lokið. Hins vegar vöknuðu hugrenningatengsl, eða öllu heldur leiksýningatengsl, við þessa sýningu. Nýverið sýndi Þjóðleikhúsið í Kassanum leikverkið Karma fyrir fugla þar sem konur gegna einnig stórum hlutverkum (leikskáld, leikstjóri og aðalpersónan í verkunum). Karma fyrir fugla fjallar líka um stöðu konunnar, líkama hennar og það ofbeldi sem hún og líkami hennar mæta í samfélaginu, tungumálinu og svo framvegis. Hér er um gjörólík verk að ræða en mér finnst nálgunin sem leikskáldin í Karma fyrir fugla nota mun áhrifameiri en Kvennafræðarinn. Í Karmanu er eins og verkið fari til hliðar við tungumálið og reyni að sýna eða orða hluti sem erfitt er að koma orðum að. Út frá því vaknar þessi mikilvæga spurning: Hvernig getur listin breytt heiminum? Getur leikverk hrist svo upp í fólki að það fari heim til sín og breyti lífi sínu? Getur listin nálgast veruleikann á svo óvæntan og nýjan hátt að áhorfandinn verði aldrei samur? Ég kýs að svara öllum þessum spurningum játandi. Þetta er ekki lítil krafa sem hægt er að gera til leikhússins og ég veit að þar starfa allir af lífi og sál og ómældri ást á listinni og leiklistarforminu. Áhorfendur mega því gera þá miklu kröfu að allt sé lagt undir: lífið, ástin og dauðinn. Allt.

Og enn halda leiksýningatengslin áfram og óábyrgar fabúleringar út frá þeim. Færum okkur yfir á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu. Þar var fyrir stuttu uppsetning á leikverkinu Fyrirheitna landið, sem er bæði stór og áhugaverð sýning. Eftir þá sýningu fékk ég því miður óbragð í munninn því karlkynið virtist taka allt yfir þar, leikskáld, leikstjóri, þýðandi og aðalpersónan voru karlar og það er allt í lagi eitt og sér. Hins vegar sveið sárast að leikverkið var tiltölulega nýtt frá 2009 og þær aukapersónur sem reyndust kvenkyns voru mjög veikar og nánast gufuðu upp í verkinu. Eftir það verk kom hin stórgóða sýning Englar alheimsins sem með mikilli einföldun er líka hægt að setja í karlakvótakassann, þ.e. leikskáld og leikstjóri og aðalpersóna af karlkyni.

Ég vil hrósa Þjóðleikhúsinu fyrir að gefa bæði karl- og kvenröddum rými, bæði sér og í bland. Sýningarnar Karma fyrir fugla og Kvennafræðarinn gera það að verkum að raddir kvenna fá að hljóma í leikhúsinu með trompi. Næst mundi ég hins vegar vilja sjá raddir þeirra hljóma hærra á Stóra sviðinu.

—-

* Aths. ritstjórnar: Kvinde, kend din krop kom út á íslensku árið 1981 í þýðingu og staðfærslu nokkurra íslenskra kvenna og hét þá Nýi kvennafræðarinn. Líklega var sá titill valinn vegna þess að þegar var fyrir á íslensku bókin Kvennafræðarinn, sem Elín Briem gaf út seint á 19. öld, en í því riti var höfuðáherslan á matreiðslu og hússtjórn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.