Höfundar: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir
Knúzinu barst ábending frá lesanda um texta sem finna má á heimasíðu flugfélagsins WOW, á upplýsingasíðu um Amsterdam. Neðarlega á síðunni, undir millifyrirsögninni „Hass og hórur,“ má finna eftirfarandi texta:
Rosse Buurt eða Rauða hverfið hefur löngum verið frægt og margir rata þangað fyrir forvitnissakir. Sumir segjast álpast þangað alveg óvart og furða sig á búðaútstillingunum. Í þessu alræmda lastabæli, sem allt sómakært fólk forðast eða þykist forðast er stunduð ein elsta atvinnugrein í heimi. Með fram Warmoesstraat, Oudezijds Voorburgwal, Oudezijds Achterburgwal og Zeedijk má finna hvern gluggann á fætur öðrum þar sem gleðikonur stilla sér upp og bíða eftir næsta kúnna. Margar hverjar gamlar og lúnar en aðrar ef til vill ferskari. Já strákar mínir, grasið er sko ekki alltaf grænna hinum meginn. [sic]
( Hér má sjá mynd af heimasíðunni.)
Hér er lágt lagst. Flugfélagið tekur það beinlínis upp hjá sjálfu sér að markaðssetja líkama kvenna til að selja flug. Flugfélagið finnur líka hjá sér hvöt til að raða vændiskonunum í Amsterdam upp eftir girnileika þeirra og gefur til kynna að með sumum vændiskonum sé jákvætt að halda framhjá en með öðrum ekki því þær séu gamlar og lúnar. Þar með er ekki einungis gert ótrúlega lítið úr þeim konum sem um ræðir heldur er gert ákaflega lítið úr því alvarlega félagslega vandamáli sem vændi er. Leiga á líkömum kvenna er þarna kynnt til sögunnar sem hluti af hressilegu sumarfríi en ekki birtingarmynd kynferðislegs ofbeldis.
Árið 2011 voru skráðir þolendur mansals í Hollandi 1.222. Þar af voru u.þ.b. 1.000 konur og af þeim voru 716 keyptar, seldar og fluttar milli staða til kynferðislegrar misnotkunar. Mansal þrífst meðal annars á vændis- og klámiðnaðinum sem skapar eftirspurn eftir því að líkamar fólks séu seldir, keyptir og notaðir í kynferðislegum tilgangi.
Við höfum tekið okkur það bessaleyfi að endurskrifa kynningartextann fyrir WOW og hvetjum til þess að sýnishorninu hér að ofan verði skipt út fyrir þetta hér:
Rosse Buurt eða Rauða hverfið hefur löngum verið frægt og margir rata þangað fyrir forvitnissakir. Sumir segjast álpast þangað alveg óvart og furða sig á búðaútstillingunum. Á þessum dapurlega stað, sem fólk með siðferðiskennd ætti að forðast nema það sé þar í mannúðlegum tilgangi, fer fram sala á líkömum kvenna frammi fyrir allra augum. Meðfram Warmoesstraat, Oudezijds Voorburgwal, Oudezijds Achterburgwal og Zeedijk má finna hvern gluggann á fætur öðrum þar sem konum hefur verið stillt upp eins og kjötvörum, hugsanlega vegna þess að þær fæddust fátækar og fundu ekki aðra leið til að sjá sér farborða, hugsanlega vegna þess að þær eru langt leiddir fíklar að leita leiða til að fjármagna neysluna og lífið, hugsanlega vegna þess að þær voru seldar nauðugar milli landa eða blekktar með gylliboðum um eitthvað allt annað líf, hugsanlega vegna þess að þær hafa verið beittar svo miklu ofbeldi í gegnum árin að þær eru löngu hættar að trúa því að þær eigi nokkuð betra skilið. WOW hvetur alla sína viðskiptavini til að leiða hugann að hlutskipti þessara kvenna, en dánartíðni meðal vændiskvenna er hærri en í öllum öðrum starfsgreinum, hættan á smitsjúkdómum er gríðarleg og líkurnar á að þær verði fyrir niðurlægingu, barsmíðum og nauðgunum eru yfirgengilegar miðað við allt sem við þekkjum í kringum okkur. Vertu manneskja og slepptu því að kaupa þér fólk.
Í 2. mgr. 13. gr. l. nr 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir:
Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Skal sérstaklega kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 14.–17. gr. laga þessara.
Við lýsum eftir jafnréttisstefnu WOW. Ef ofangreint er í lagi samkvæmt jafnréttisstefnu WOW, þá er sú stefna ónýt. Að baki svona markaðssetningu liggur djúpstæð kvenfyrirlitning og hún er fyrirtækinu til ævarandi skammar. Við hvetjum lesendur okkar til að segja WOW skoðun sína á þessari umfjöllun með því að senda þessu fólki póst:
Skúli Mogensen, forstjóri: skuli@wow.is
Anna Huld Óskarsdóttir, forstöðumaður þjónustudeildar: annahuld@wow.is
Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs: inga@wow.is
Ísabella Leifsdóttir, ritstjóri í markaðsdeild: isabella@wow.is
Uppfært kl. 12.15:
WOW brást hratt og undarlega við þessari gagnrýni. Textanum sem greinin fjallar um var breytt í skyndi án skýringar eða afsökunarbeiðnar. Starfsfólk WOW deilir hinsvegar linknum á breyttu umfjöllunina allsstaðar á Facebook þar sem gagnrýni kemur fram og gefur til kynna að sú útgáfa sé hin upprunalega og þar með að við séum að ljúga. Þetta er allt frekar vandræðalegt. Við fylgjumst áfram með. Hér er samanburðarmynd: Fyrir og eftir knúz!
Takið eftir hækkandi læk-tölu, hún gefur vísbendingu um tímaröðina.
og afhverju gefur einstaklingurinn sem skrifaði þessa grein ekki upp emailið sitt =/ frekar skrtítið
Það er ótrúlega dapurlegt að nýstofnað, ungt fyrirtæki skuli kjósa að nota aðferðir við markaðssetningu sem eru algjörlega úr takti við aukna meðvitund um vændi, svo ekki sé minnst á gamaldags, billegar og hreinlega hallærislegar.
Þetta er bara lýsing eins aðila á hverfinu og sýnir enga „djúpa kvennfyrirlitningu“. Ef karlmenn stæðu í þessum gluggum væri sennilega það sama uppi á teningnum. Þetta er löglegt þarna og sannanlega eru sumar konur fallegri en aðrar. Má ekki dæma neitt eftir hefðbundnum aðferðum lengur? En það má dæma nokkuð ómerkileg skrif sem algera fyrirlitningu á hálfri jarðkringlunni! Ég vona að kvennréttindafólk sjái sér einhvern tíma hag í því að finna stigsmun fordómum, óviðeigandi skrifum og hreinn fyrirlitningu! Held samt ekki í mér andanum miðað við margt sem maður les.
Ég var að því komið að panta flug hjá þeim þegar ég las þennan pistil. Vá hvað ég varð reið. Ég skrifaði þeim á facebook með bón um að þeir myndu fjarlægja þennan viðbjóð af síðunni sinni. Þeir sjá kannski nýja textann ykkar og skipta honum út.
Er ekki frekar vandræðanlegt að tala um jafnréttisstefni fyrirtækis þegar að kynjahlutfallið hjá ykkur er langt frá 50%. Hvernig væri svo að slaka á lífið er ekki svona alvarlegt. kannski var þetta ekki rétt orðað en ef þessi tilkyning er lesin með uppnum huga þá sér maður ekkert athugavert við það að grínast með þá staðreynd að Amsterdam er þekkt fyrir það að bjóða upp á bæði vændi og hass. Þetta veit hvert mannsbarn og afhverju ætti það að vera kvennfyrirlítning að nefna þessa staðreynd? og fyrst að þið eruð að berjast svona mikið í þessum málum þá mæli ég með því að kíkja á einkamál.is þar þurfa karlmenn að borga fyrir aðgang en konur ekki. Baráttumenn jafnréttis ættu ekki að leyfa því að viðgangast
Af hverju eiga feministar að redda fríum aðgang fyrir karlmenn á einkamal.is? Af hverju eru karlmenn ekki að kvarta yfir þessu og reddað þessu sjálfir? Eiga feminstar að redda öllum?
Af hverju eiga karlmenn að skipta sér af jafnréttisbaráttu kvenna? Þið standið ykkur vel að kvarta og kveina yfir flest öllu, svo þið þurfið ekki á okkur að halda í þessar baráttu. Þetta kemur okkur greinilega bara eeekkert við.
Mikið óskaplega þykir mér þetta vera sorgleg ummæli hjá þér Spiki.
Jafnréttisbaráttan snertir okkur öll, konur OG karla.
Ég legg til að þú kynnir þér málið betur.
Sólrún, held að þú sért að misskilja gagnrýni hans Spika. Hann er að koma með kaldhæðnislegt komment á Lindu sem segir: „Af hverju eiga feministar að redda fríum aðgang fyrir karlmenn á einkamal.is? Af hverju eru karlmenn ekki að kvarta yfir þessu og reddað þessu sjálfir? Eiga feminstar að redda öllum?“
Þar af því leiðandi kemur Spiki með sitt komment. Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að ef konur vilja ekki taka upp hanskann fyrir karlmenn (eins og Linda vill augljóslega ekki) þá er engin skylda fyrir karlmenn að gera það fyrir konur.
Tek það fram að ég styð jafnrétti og er tilbúinn til þess að taka upp hanskann fyrir konur sem og karlmenn en það eru karlmenn og konur þarna úti (eins og ef til vill Linda) sem eru ekki reiðubúin að gera hið sama.
Ég hef nú ekki tekið eftir því að karlmenn séu neitt mikið að styðja konur í þeirra réttindabaráttu. Það eru aðallega karlmenn sem tala niður réttindabaráttu kvenna og saka konur sem berjast fyrir þeim réttindum öfgafemínista og gera þeim upp allt illt. Þannig að hvar er þessi stuðningur karla?
Farðu i orðabók Linda og lestu um feminista………
Vantar samt ekki í nýa textann „… eða hreinlega vildu/ákváðu stunda vændi“ ?
Spyr sá sem ekki veit.
Það sem mér þykir nú enn furðulegra en annað við textann er að einhver skuli halda að leifar Rembrand skuli vera í gröfu.
Rembrandt, vitanlega.
Góðar vel ritaðar athugasemdir hjá Hildi og Steinunni við mjög svo ömurleg skrif kynningaraðila Wow.
Sá eða sú sem skrifaði þessa grein hlítur að vera mjög fáfróð. Mér líst vel á útgáfu Knúz af auglýsingunni, það er löngu orðið tímabært að fólk sé meðvitað um hvað það er að gera þegar það kaupir vændi. Oft er fólk bara að borga fyrir að fá að nauðga manneskju. Ég hef aldrei keypt vændi, enda skil ég ekki hvað er hægt að fá út úr kynlífi með manneskju sem vill það ekki? Lóa fimmboga er alltaf til í tuskið. Kenna þessu fólki á hana frekar. Ef hún er eitthvað löt þá er hægt að kaupa sér vél og festa á hana múffu. En að misnota fólk í þetta er bara ofbeldi. Og þú „pælari“, það er kannski ekki hægt að alhæfa neitt, kannski fyrirfinnst hamingjusama hóran einhvers staðar í heiminum sem „hreinlega vildi/ákváð að stunda vændi“, en ég er nokkuð viss um að hún sé ekki í glugga í rauða hverfinu.
Það er einkum tvennt sem fer fyrir brjóstið á mér varðandi innihald þessa texta. Annað er þessi þreytta klisja um að vændi sem eina af elstu atvinnugreinum veraldar. Hitt er hverning vændiskonum er stillt upp eins og vöru í textanum en þar er segir um vændirkonur: „Margar hverjar gamlar og lúnar en aðrar ef til vill ferskari“. Líklega á þetta að vera hip og kúl texti í anda nýja og hressa flugfélagsins en missir algerlega marks og er frekar bjánaleg lesning.
Sammála þessu, Kristín. “Margar hverjar gamlar og lúnar en aðrar ef til vill ferskari” er vægast sagt misheppnað.
Mér finnst vel gert að segja aðeins frá sannleiknum! Hass og hórur eru í Amsterdam og eru meðal kostum borgarinnar fyrir ferðamenn hvort að við líkum við það eða ekki. Ég veit að það var hugsaðp mikið um hvort ætti að birta þessi partur eða ekki og það var ákveðið að íslendingar eru nógu opin og hugsandi til að taka þetta eins og það var meinað. Það er húmór og „tongue in cheek“ í allt sem WOW gerir og það breytir engu að fela það sem Amsterdam er í rauninni best þekktur fyrir. Finnst mér a.m.k…
Alveg sammála þessu. Afhverju ættu WOW air ekki að segja frá hlutunum eins og þeir eru? Það er mikið um hass í Amsterdam, það er mikið um hórur í Amsterdam. Ef ég myndi fara til Amsterdam myndi ég líklega labba í gegnum þetta hverfi, svona til að kynna mér menningu íbúa Amsterdam. Af hverju viljið þið á knuz sykurhúða allt?
Og greinin var skrifuð af konu…FYI. Ef það skiptir máli.
ææææ hvað þetta er nú ómerkileg og yfirborðskennd kynning á annars frábærri borg , )
Það er eins og krakki hafi skrifað þennan texta hjá WOW og er í stíl við annað frá þessu blessaða kompaníi.
Hvet hins vegar þá sem vilja kynnast fólki OG menningu Amsterdam að skoða aðra staði en Rauða hverfið (t.d hið ágæta Van Gogh safn).
Einnig að fresta „græna“ grasinu þar til menn hafa aldur til, þegar hvort eð er þarf að taka inn alls kyns töflur til að halda maskínunni gangandi.
Mér finnst ótrúlegt að segja að knuz-ið sé að sykurhúða eða vilji ekki segja frá sannleikanum Þær eru einmitt að biðja um að það sé gert og eru með tillögu að texta.
Og svo herja feministar á pósthólf fyrirtækja til þess að fyrirtækjum sé kennd lexía fyrir það að orða hlutina ekki með þeim hætti sem feministar sætta sig við….. Fólk er nafngreint sem tengist ekki skrifum auglýsingarinnar svona til þess að bæta gráu ofan á svart og einka email þeirra er hent inn í skíta pittinn svo það sé örugglega hægt að senda emailin á einstaklinga sem koma kvörtunum hjá wow air ekkert við.
Viljið þið ekki bara mæta á svæðið með nokkrar sveðjur og öskra „Allah Feminista!!“……
Palli Valli hvernig í ósköpunum skilgreinir þú einka email?
Mér finnst það alveg hræðilegt að þau hafi ekki tekið út „… er stunduð ein elsta atvinnugrein í heimi“. Mansal er ekki og hefur aldrei verið atvinnugrein heldur kúgun og misrétti.
– Ég sendi þeim póst með þessari hugleiðingu 😉 Elskum þessi knúz!
Það er ljóst að WoW air reynir að vera hresst og fyndið flugfélag og tekst það að mörgu leyti ágætlega í ýmsu öðru sem ég hef séð frá þeim. Þegar húmor er kominn í gang er hins vegar stundum erfitt að vita hvar eigi að draga mörkin og mikilvægt að vita hvert hann stefnir. Það að Wow air segi frá Rauða hverfinu í Amsterdam er ekki óviðeigandi því að þetta vændi er þarna fyrir alla að sjá. Þetta er umdeildur hluti borgarinnar og þegar flugfélag fræðir væntanlega viðskiptavini sína um hverfið þarf það að gæta þess hvert er stefnt með skrifunum. Flest í textanum er ágætt og uppfræðandi en það eru nokkur atriði sem skera sig út úr og breyta talsvert eðli hans:
1. Það er verið að skrifa til stráka í lok textans og farið út í einhvers konar yfirborðslegt glettið tal sem gæti átt sér stað á milli karla sem væru að spá í útlit vændiskvennanna í gluggunum. Þetta með að einhverjar þeirra séu lúnar og að grasið sé ekki alltaf grænna hinu megin, kemur eins og út úr kú og virkar eins og einhver misheppnuð og óþörf skilaboð um að íslenskir karlmenn þurfi ekki að leita til þessarra kvenna. Með þessu er verið að breyta upplýsandi texta í einhvern daðurtexta til karla sem gæti þótt Rauða hverfið spennandi. Feitletraði textinn í lokinn um „…og ekkert rugl“ beinir þannig athyglinni að því að einmitt eitthvað karlarugl gæti átt sér stað í svona ferð. Textinn er því allt í einu orðinn að sértæku markaðstæki til að höfða til karla sem sjá fyrir sér að fara út á lífið í Rauða hverfinu. Í leiðinni er textinn ekki allra lengur og lyktar af markaðssetningu á kynlífi þó óbeint sé.
2. Klisjan um að vændi sé „elsta atvinnugreinin“ er annað frávik frá því að þetta sé upplýsandi texti. Mér hefur alltaf fundist þetta furðuleg og fáránleg fullyrðing. Kannski sögð í gríni en samt notuð í vanhugsaðri alvöru af mörgum. Hér er klysjan sett inn sem eitthvað krydd í textann, en það er óbragð af því. Þessi fullyrðing klisjunnar setur þörfina fyrir kynlíf ofar þörfinni fyrir að nærast (væntanlega hefur elsta atvinnugreinin tengst fæðuöflun) og fullyrðir eitthvað um eðli kynlífs okkar mannanna frá upphafi sem við vitum e.t.v. ekki mikið um.
Þessi texti Wow höfðar til menningar þar sem konan er samþykkt sem söluvara og það þykir fyndið eða sjálfsagt mál að meta þær í sýningargluggum hvort að þær séu „lúnar“ eða „ferskar“. Hvatt er til einskis rugls karlanna en með þessari markaðssetningu fór Wow-air sjálft í ruglið. Kannski vill félagið bara vera í ruglinu og höfða til þess sem er miður fagurt í mannlífinu og ýmissa gamalla „atvinnugreina“ en það hefur nú tekið út þennan texta sýnist mér og er líklega að hugsa málið. Ég vona samt að Wow-air hætti ekki að reyna að halda svolitlum húmor á lofti. Bara á smekklegan máta. Það er of lítið af léttleika í lífinu.
Bakvísun: Laugardagsbíó – Demand | Innihald.is | Þjóðmál – Afþreying
Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*