Máni Pétursson: Ég er harður femínisti

[Uppfært kl. 13.33. Höfundi barst kvörtun um að greininni fylgdi ekki mynd af Ragnari. Úr því hefur verið bætt neðan við þetta greinarkorn.] 

Hinn ó svo aktívi kommentakerfabloggari og millifyrirsagnakóngur Ragnar Halldórsson mætti í sjónvarpið í gær og útvarpið í morgun sem einhverskonar álitsgjafi eða áhugamaður um skólamál. Í sjónvarpsþættinum Tossarnir eftir Lóu Pind Aldísardóttur ræddi Ragnar hvernig drengir í skólakerfinu eru fórnarlömb þröngsýns og herskás femínisma.

Hann mætti svo í símaviðtal til Mána Péturssonar og Frosta Logasonar í Harmageddon á X-inu í morgun og endurtók þessar skoðanir sínar. Það er ekki beinlínis auðvelt að bregðast við Ragnari, hann hefur í aðra röndina skoðanir sem beinlínis má telja feminískar – þ.e. að honum finnst vanta karla inn í menntakerfið, hann bendir á að drengi vanti karlfyrirmyndir inn í stofnanauppeldi sitt. Ég tek heilshugar undir með Ragnari, ég gleðst yfir (og dáist að mörgu leyti að) körlum sem velja sér starfsframa í skólum og leikskólum, körlum sem velja sér hjúkrunarfræðinám og svo framvegis. Að sama skapi gleðst ég yfir og dáist að konum sem fara á sjó eða læra bifvélavirkjun. Fyrir mér eru þessi mál nefnilega stærri en hið afskaplega stóra áherslumál margra annarra femínista; fleiri konur í stjórnunarstöður.

Máni og Frosti. Mynd: vísir.is

Ég er ekki nógu mikill kapítalisti til að geta deilt óbilandi trú margra vina og vinkvenna minna á að það sé til bóta að gera konur að virkari þátttakendum í stéttaskiptingu og valdapíramídum. Ég er þeirrar skoðunar að allajafna komist konur til valda, t.a.m. í viðskiptalífinu, með því að spila eftir strákareglunum og láta sig kvenréttindi litlu varða. Ég trúi því að jafnrétti náist með öflugum og góðum fyrirmyndum nýrra kynslóða, helst á þeim sviðum sem sem standa næst börnunum. Það er minn femínismi.

Þess vegna skil ég ekki að Ragnar skuli á sama tíma komast að þeirri niðurstöðu að þessir drengir, sem skortir karlkyns fyrirmyndir á öllum skólastigum, séu á einhvern hátt fórnarlömb femínisma. Femínisminn vill einmitt fjölga karlkyns fyrirmyndum í skólakerfinu.

Nema hvað. Hann delerar þarna lengi um sjúklegan egóisma kvenna og vanvirðingu femínista gegn strákum og lúxusvandamál kvenna (eins og kúgun, kynferðisofbeldi og launamun) sem fá endalaust pláss í fjölmiðlum. Svo talaði hann um að hann væri sjálfur mikill femínisti og fór svo beinustu leið yfir í að það væri fáránlegt að kalla sig femínista. Svo lýsir hann því að á Íslandi sé heill her af ráðríkum, sjálfselskum, egóískum konum á launum frá hinu opinbera fyrir að spúa áróðri sínum meðal annars inn í kennslukonur til að gera þær fráhverfar drengjunum sem þær kenna. Sem dæmi um slíkt starfsfólk og stofnanir nefnir hann frjálsu félagasamtökin Femínistafélag Íslands. Hvað getur maður sagt?

Kannski er þetta brandari. Kannski má færa rök fyrir því að þetta hafi verið áhugavert. Eða eitthvað. Maðurinn hefur allavega ansi greiðan aðgang að fjölmiðlum; prentmiðlum, sjónvarpi og útvarpi, og það er örugglega til fullt af fólki sem tekur hann alvarlega. Smellið hér til að hlýða á viðtalið. Það endar á eftirfarandi orðaskiptum;

Ragnar: „Við erum allir jafnréttissinnar, náttúrlega, þannig að það er bara gott mál.“
Frosti: „Að sjálfsögðu.“
Máni: „Ég er harður femínisti.“

9 athugasemdir við “Máni Pétursson: Ég er harður femínisti

 1. „Þess vegna skil ég ekki að Ragnar skuli á sama tíma komast að þeirri niðurstöðu að þessir drengir, sem skortir karlkyns fyrirmyndir á öllum skólastigum, séu á einhvern hátt fórnarlömb femínisma. Femínisminn vill einmitt fjölga karlkyns fyrirmyndum í skólakerfinu.“

  Án þess að ég sé að taka afstöðu með Ragnari vil ég benda á að það er ekkert því til fyrirstöðu að telja femínisma valda vondu viðhorfi kvenkennara til drengja á sama tíma og femínisminn vill fjölga körlum í kennarastéttinni. Gangi femínismanum betur að dímónisera karlmenn en að fjölga körlum í kennarastétt má etv. segja að drengirnir séu einmitt fórnarlömb femínisma.

  Þetta má því að ég held hæglega skilja. Að því sögðu tek ég fram að ég held að það sé ekkert sérstaklega mikið til í þessu hjá honum, amk. ekki í þeim anda sem hann setur þetta fram. Hitt er annað mál að brottfall drengja úr skólakerfinu og slakur árangur þeirra er áhygguefni sem etv. verður einmitt rakið til einhverra svona hluta; kvenlegra áherslna, en svo má vera að það sé hverfandi þáttur í vandanum og þessi lægð jafni úr sér á nokkrum árum. Það mál er félagsvísindafólk væntanlega að rannsaka þessa stundina.

  • Ég hygg að skilaboðin sem kynjakerfið sendir börnum og uppalendum þeirra, bæði heima og að heiman, séu grundvallarástæða slaks námsárangurs drengja. Stelpum er kennt að vera stilltar og prúðar, samviskusamar og duglegar. Strákum er kennt að læti og kæruleysi og árásargirni séu eðlileg hegðun sem stundum er sérstaklega verðlaunuð, t.d. með athygli frá fullorðnum meðan börnin eru ung, og verður svo félagslega styrkt hegðun hjá unglingum, auk þess sem heilmikið hefur verið skrifað um hvernig íþróttaheimurinn hvetur til árásargirni og óheilbrigðs keppnisskaps hjá unglingsstrákum. Fréttir af launamun kynjanna senda svo þau skilaboð að strákar þurfi minna að leggja á sig í skóla til að ná betri árangri en stelpur. Þau skilaboð komast auðvitað bæði til barna og uppalenda þeirra. Að kenna femínisma um þessa hluti (sem femínisminn berst einmitt gegn) er að mínu mati gjörsamlega óskiljanlegt.

   • Þeir sem daðra við einhvern vott af eðlishyggju geta verið ósammála því að kynjakerfið eigi alla sök á ærslagangi og keppnisskapi drengja. Fyrir þeim verður það þá einmitt dæmi um karlfjandsamlega orðræðu að tala um þessa eiginleika í sömu andrá og árásargirni og kæruleysi og sem óheppilega afurð kynjakerfis – sem verði að -leiðrétta- með femínisma.

    Það verður tíminn líklega að leiða í ljós hvort betur gangi að laga kerfið að eðli kynjanna eða laga uppeldi þeirra að forsendum femínismans.

   • Er að hlusta á þetta núna, missti af þessu í útvarpinu. Verð nú að segja eins og er, hef séð Ragnar pósta á netinu og commenta kerfum og þriðji hver póstur sem hann skrifar finnst mér eins og einhver geðsjúklingur sé á ferðinni. Er sammála honum að flestu leiti hvað þetta varðar samt.

 2. „To be honest, I don’t like male feminists. They always seem to be overcompensating. I honestly think the majority of them decide to become feminists because they like they attention and brownie points. They’re also desperate for female attention and acceptance, they love being one of the „good guys“, and will take any chance to use their „feminism“ to pick up women. It’s annoying.“ tamingoftheshrew/Jezebel.com

 3. Menntamálaráðherra fjallaði einnig um hugmyndir um styttingu námstíma til stúdentsprófs og sagði að um þessar mundir stæði yfir mikil undirbúningsvinna vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Margir hefðu bent á að ekki ætti bara að beina sjónum að framhaldsskólunum, skoða þyrfti allt nám í heild frá leikskólanámi, grunnskólann og framhaldsskólann. „Ég vil taka undir þessar raddir. Ég tel mikilvægt að við skoðum skólagönguna sem eina heild frá leikskóla að lokum framhaldsskólans og miðum aðgerðir næstu ára við þá meginsýn að þetta sé allt ein heild. Stytting námstímans til stúdentsprófs er einungis einn liður af mörgum í þessu starfi,“ sagði Þorgerður Katrín.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.