Langþráðar úrbætur á danskri kynferðisbrotalöggjöf

 

Amnesty International í Danmörku sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu þann 31. maí, 2013:

 

Danska þingið samþykkti í dag nýja nauðgunarlöggjöf – og nýju lögin fela í sér sigur fyrir réttarstöðu danskra kvenna. Ríkisstjórnin hefur nefnilega farið í öllu að tilmælum Amnesty International um að fella úr gildi þau fullkomlega úreltu lagaákvæði sem þar til í dag voru í gildi í þessum brotaflokki.

  • Nú er ekki lengur hægt að falla frá refsingu eða milda refsingu á þeim forsendum að nauðgunin hafi átt sér stað innan hjónabands.
  • Nauðgun þegar brotaþoli getur ekki varið sig, t.d. þegar brotið er gegn sofandi, meðvitundarlausum eða líkamlega fötluðum einstaklingi, er nú einfaldlega skilgreind sem nauðgun og refsað er fyrir slíkt brot á sama hátt, og í engu vægar, en fyrir aðrar nauðganir.
  • Ekki verður lengur hægt að krefjast mildari refsingar á þeim forsendum að gerandi og brotaþoli hafi þekkst fyrir.
  • Nauðgun verður héðan í frá skilgreind sem kynferðisbrot fremur en siðgæðisbrot og um leið er endanlega ljóst að nauðgun er árás á aðra manneskju en ekki brot gegn almennu siðgæði.

 

Enginn afsláttur þegar varnarlausu fólki er nauðgað

Fram til þessa dags hefur refsiramminn verið skemmri þegar um er að ræða nauðgun á einstaklingi sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi lögskilningur hefur byggt á þeim forsendum að kynferðisbrot teljist því aðeins nauðgun ef ofbeldi er beitt og brotaþoli veiti mótspyrnu. Sem meðvitundarlaus eða sofandi manneskja getur til dæmis ekki gert.

Með þessari lagabreytingu hefur ríkisstjórnin upprætt þennan „refsiafslátt“ og það gleður okkur hjá Amnesty mjög.

„Lögin eru ekki lengur skilaboð í sjálfum sér um að það sé ekki eins alvarlegt að nauðga manneskju sem ekki getur varið sig. Héðan í frá munu allir danskir brotaþolar njóta sömu lagalegu verndar, hvort sem nauðgarinn er bláókunnug manneskja, vinur eða kærasti. Þetta er mikill sigur,“ segir Stinne Lyager Bech, sem hefur stjórnað herferð Amnesty fyrir breytingunum.

 

15.000 áskoranir til dómsmálaráðherra

Undanfarin fjögur ár hefur Amnesty unnið að úrbótum á dönsku löggjöfinni um nauðgun. Í maí árið 2009 afhenti Amnesty Lars Normann Jørgensen, aðstoðarmanni ráðherra, 15.429  undirskriftir undir ákall til þáverandi dómsmálaráðherra, Brian Mikkelsen, þar sem þess var krafist að refsilöggjöfinni yrði breytt. Síðan þá hafa fulltrúar Danmerkurdeildar Amnesty átt fjölda funda með stjórnmálamönnum og samið ályktanir um þetta málefni. Þetta starf hefur nú borið ávöxt.

„Undirskriftirnar voru skýrt merki um að þetta skiptir mjög marga Dani miklu máli. Það er nú einu sinni hálf þjóðin, það er að segja konurnar, sem átti öðrum fremur á hættu að sæta órétti vegna gömlu laganna. Og þessar konur eru kærustur, systur og mæður karlmannanna, ef menn vilja líta þannig á,“ segir Stinne Lyager Bech.

 

Aðeins einu máli af hverjum fimm lýkur með refsidómi

Nú þegar nýju lögin taka gildi er tilvalið að rýna vandlega í þau vafaatriði sem tengjast meðferð nauðgunarmála í framkvæmd.

Af hverjum fimm nauðgunum sem eru kærðar til lögreglu lýkur aðeins einu dómsmáli með refsidómi. Flest málanna koma aldrei fyrir dómara – þau eru felld niður hjá lögreglu eða saksóknara áður en dómara gefst færi á að skoða þau. Þar að auki er aðeins lítill hluti nauðgana yfirhöfuð kærður til lögreglunnar.

„Þetta þýðir að refsileysismörkin í nauðgunarmálum eru afar há hér í Danmörku. Ríkisstjórnin þyrfti að gera aðgerðaáætlun til forvarna og um aðgerðir gegn nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi. Slík aðgerðaáætlun ætti að tryggja samhæfða stefnu um aðgang brotaþola í nauðgunarmálum að réttlátri málsmeðferð innan danska réttarkerfisins,“ segir Stinne Lyager Bech.

—-

Halla Sverrisdóttir þýddi úr dönsku.
Frumtextinn er af síðu Amnesty International í Danmörku og hann má nálgast hér.

Frekari upplýsingar um nýju löggjöfina er að finna hér:

Nýju lögin

Frétt af vefsíðu DR (danska útvarpsins/sjónvarpsins) um nýju lögin og afstöðu ýmissa stjórnmálaflokka til þeirra.

Frétt úr dagblaðinu Politiken frá því í febrúar sl. um væntanlegar breytingar á refsiramma vegna nauðgana á rænulausu og/eða varnarlausu fólki.

Frétt úr dagblaðinu Information frá 2011, um breytingar sem þáverandi ríkisstjórn gerði á gildandi löggjöf

 

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Langþráðar úrbætur á danskri kynferðisbrotalöggjöf

  1. „Þetta þýðir að refsileysismörkin í nauðgunarmálum eru afar há hér í Danmörku. Ríkisstjórnin þyrfti að gera aðgerðaáætlun til forvarna og um aðgerðir gegn nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi. Slík aðgerðaáætlun ætti að tryggja samhæfða stefnu um aðgang brotaþola í nauðgunarmálum að réttlátri málsmeðferð innan danska réttarkerfisins,“ segir Stinne Lyager Bech.

  2. „Þetta þýðir að refsileysismörkin í nauðgunarmálum eru afar há hér í Danmörku. Ríkisstjórnin þyrfti að gera aðgerðaáætlun til forvarna og um aðgerðir gegn nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi. Slík aðgerðaáætlun ætti að tryggja samhæfða stefnu um aðgang brotaþola í nauðgunarmálum að réttlátri málsmeðferð innan danska réttarkerfisins,“ segir Stinne Lyager Bech.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.