Af dönsku frjálslyndi

Frjálslyndi Dana hefur löngum þótt til fyrirmyndar og er iðulega dregið fram og lofað hástöfum þegar brestur á með umræðum um klám og vændi. Danir afnámu til dæmis öll höft á klámi í rituðu máli 1967 og tveimur árum seinna voru klámmyndir af öllu tagi gerðar frjálsar. Á árunum þegar ég ætlaði að verða sálfræðingur og las sexologi ásamt öðrum skyldugreinum námsins við Kaupmannahafnarháskóla var sjálfsali með klámblöðum og „hjálpartækjum ástarlífsins“ á horninu heima, við hliðina á sjálfsala með Yankee Bar og Tom‘s Guldbarre og sígarettusjálfsalanum. Rúmum aldarfjórðungi síðar flutti ég heim úr annarri Danmerkurdvöl en þá voru flestir sjálfsalar horfnir og sígarettur og sælgæti keypt í kioskum þar sem kvenmannsbrjóst og -sköp blöstu við hvar sem augað leit, innan um fyndin og rómantísk afmæliskort, teiknimyndasögur og misalvarlega fréttamiðla. Þetta þótti ekki tiltökumál heldur sjálfsögð þjónusta og Pakistananum í sjoppunni minni datt ekki einu sinni í hug að fækka ritunum fyrr en hann kvæntist. Þá hurfu öll þessi rit og hann svaraði því þegar ég spurði að hann gæti ekki boðið konunni sinni upp á það að vinna innan um þennan viðbjóð. „Hvað með okkur hin?“ spurði ég eins og auli en hann kippti sér svo sem ekki upp við það. „Þið viljið kaupa þetta,“ sagði hann. „Þess vegna seldi ég það.“ Hinir frjálslyndu Danir hafa meira að segja viljað rýmka löggjöfina og afnema aldurstakmörk á klámi.

Danir eru heldur engar teprur þegar kemur að vændi og reyndar er vændi löglegt í Danmörku og auglýst í blöðum eins og önnur þjónusta. Í fyrra kom upp umræða í danska þinginu um að breyta ef til vill vændislöggjöfinni í sömu átt og hún er í Svíþjóð og á Íslandi en við nánari umhugsun þótti mönnum það ótækt – nær væri að auka frelsið enn og gera vændi að löggiltri starfsgrein, með öllum þeim skyldum og gjöldum sem fylgja og sú umræða er enn í gangi. Því má ekki gleyma að talsverð velta er í báðum þessum geirum, kláminu og vændinu, miklir peningar í húfi og margir sem græða, þótt aurarnir lendi ekki endilega hjá þeim sem leggja til skrokkinn.

Blachman og einn vina hans skeggræða um nakta konu

Í Danmörku kippa menn sér svo sannarlega ekki upp við að sjá kvenmannshold í ýmsu samhengi, ekki síst auglýsingum. Í dönsku sjónvarpi var til dæmis – og er kannski enn – þáttur þar sem tveir karlmenn sátu og ræddu um konur á meðan kvenmaður fækkaði fötum fyrir framan þá og nýlega ók varla sá strætisvagn um götur að ekki blöstu við kvenmannsbrjóst til að auglýsa brjóstastækkanir. Side-9 stelpan í EkstraBladet hefur berað á sér brjóstin frá 1976 og önnur blöð skarta einnig myndum af fáklæddu kvenfólki, væntanlega öllum til yndis og ánægju.

En þar kom að Dönum ofbauð.

Brjóstagjöf á kaffihúsum og öðrum opinberum stöðum særði svo blygðunarkennd þeirra að danska jafnréttisráðið fann sig knúið til að álykta um að slíkt athæfi væri ekki ásættanlegt. Brjóstabörn í bæjarferðum verða því eftirleiðis að nærast inni á klósettum eða í skúmaskotum þar sem enginn sér til, væntanlega vegna þess að brjóst á að nota til þess sem náttúran hlýtur að hafa ætlað þau: til sölu á alls konar varningi og kynlífsnautnar.

Það er kannski ekki að undra að fólk haldi það, eftir næstum hálfa öld af frjálsu klámi. Við höfum séð brjóst út um allt: með brundslettum, ilmvötnum og áfengi, á bílþökum og húddum, við hliðina á stríðsfréttum og pólitískri umræðu, í tónlistarmyndböndum, klámmyndum og umfjöllun um vaxtarlag kvikmyndastjarna, í samfélagsmiðlum og netmiðlum og prentmiðlum og bíó og bröndurum – bókstaflega allstaðar. Brjóst eru sexí. Brjóst örva kynhvöt. Brjóst selja.

Það er varla von að fólk kæri sig um að sjá fyrirbærinu troðið upp í varnarlaus börn.

 

13 athugasemdir við “Af dönsku frjálslyndi

 1. Tetta er reyndar ekki alveg rétt hjá tér, Jafnréttisnefnd komst ad teirri nidurstødu ad veitingahúsaeigendum væri heimilt ad banna brjóstagjøf, ekki ad hún væri bønnud allstadar.

 2. Tek undir með Elíasi. Einnig má rifja upp frægan danskan hæstaréttardóm þar sem kveðið var upp að verslunareiganda á Strikinu væri heimilt að neita, af tilfinningaástæðum, að selja Íslendingum vörur í verslun sinni.

 3. Elías, hvort að veitingahúsaeigendum sé heimilt að banna brjóstagjöf, eða hvort hún er bönnuð almennt skiptir í raun ekki máli. Niðurstaðan er sú sama: Það er eitthvað ljótt við brjóstagjöf sem þarf að fela fyrir öðrum. Svo ljótt, að veitingahúsaeigendur mega senda konur inn á klósett til að næra börnin sín. Ég er ansi hrædd um að ef að veitingahúsaegendum væri tildæmis leyft að reka út fólk með dökkan húðlit, eða samkynhneigðum, eða mönnum með skegg, eða bláeygðum, eða, fylltuíeyðuna, . . . . að það myndi ekki þykja smart.

  Egill, ég sé ekki hvernig þessi tvö mál eiga nokkuð skilt, nema að um ræði veitingahúsaeigendur sem er tilfinningalega í nöp við konur sem eru með börn á brjósti sem þurfa næringu.

 4. „Elías, hvort að veitingahúsaeigendum sé heimilt að banna brjóstagjöf, eða hvort hún er bönnuð almennt skiptir í raun ekki máli.“

  Þetta finnst mér hæpin fullyrðing. En burt frá því séð, hvers vegna ekki að segja bara rétt frá í greininni?

  • Því verður höfundur hennar að greina frá Hilmar. Málsgreinin sem þú leggur áherslu á hjá mér er mín skoðun. Hin rétta fullyrðing er þessi: „Niðurstaðan er sú sama: Það er eitthvað ljótt við brjóstagjöf sem þarf að fela fyrir öðrum. Svo ljótt, að veitingahúsaeigendur mega senda konur inn á klósett til að næra börnin sín.“

   En mér finnst áhugavert að aðal atriði greinarinnar sé nú orðið að aukaatriði. Og það gert af karlmönnum sem 1) þurfa ekki að díla við þessa fordóma, og 2) sem mögulega voru á móðurbrjósti sem ungabörn. Mér þykir í raun ótrúlegt að það sé hægt (eða vilji til) að taka greinina svona úr samhengi og gera lítið úr þessu máli, sem er grafalvarleg árás á mæður og börn.

   • Ertu að grínast? „Grafalvarleg árás á mæður og börn.“? Ertu í alvörunni svona biluð og úr öllum tengslum við raunheima?

   • Heyrðu vinur. Með fullri virðingu, ef þú værir hæfur til að dæma um það, þá myndi ég kannski taka mark á því sem þú segir. En þar sem þú hefur ekki hugmynd um hvað þetta gengur út á þá geri ég það ekki. Og svona þar fyrir utan, fólk sem drullar svona vel yfir fólk eins og þú gerir er bilað og úr öllum tengslum við raunheima.

   • Það er augljóslega munur á því að banna brjóstagjöf á opinberum stöðum og leyfa veitingahúsaeigendum að banna brjóstagjöf á sínum stöðum. Það má raunar efast um að það felist meira frjálslyndi í því að skylda veitingahúsaeigendur til að leyfa brjóstagjafir.

    Það væri gagnlegt ef einhver væri til í að vísa í áreiðanlegar heimildir fyrir því að brjóstagjöf sé bönnuð á opinberum stöðum í Danmörku eða að aðeins sé um að ræða leyfi handa veitingahúsaeigendum til að banna brjóstagjöf.

 5. Sammála. Af hverju er ekki hægt að fara með rétt mál? Þið eruð sífellt að skreyta og færa í stílinn sem gerir lítið út því sem þið eruð að reyna að gera. Ég skoða þennan vef reglulega og er ánægður með hann en rek mig sífellt á ósannindi og rangfærslur í málflutningi ykkar.

 6. Reyndar virðist tepruskapur Dana gagnvart klámi að aukast. Þegar ég var í Kaupmannahöfn í kringum 1995 var klámefni ótrúlega aðgengilegt: í sjoppum, bókabúðum, og jafnvel í DVD rekkum úti á götu á Strikinu. Ég fór þangað aftur í fyrrasumar, og tók eftir mun minna framboði. Sennilega er það öðrum þræði vegna þess að danskir feministar hafa verið duglegir við að kvarta yfir þessu. Til dæmis fylgdi ég tengli Magneu á stúlkuna á síðu 9 í ExstraBladet, og sá að þær stúlkur eru ekki lengur brjóstaberar.

  Því kemur mér alls ekki á óvart að tepruskapur Dana gagnvart brjóstagjöf sé að aukast líka. Um leið og fólk fær þá flugu í höfuðið að efni sem sýnir nekt og kynlíf sé eitthvað slæmt í eðli síni, þá má eiga von á siðaumvöndunum um nakið hold almennt. Enda er það svo að kvennfrelsi og frelsi í kynferðismálum haldast oft í hendur. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

 7. Og afleiðingin af þessu öllu er að Danmörk er eitt stórt ræsi kvenhaturs og -fyrirlitningar, heimsþekkt fyrir bága stöðu kvenna.

  Minna frjálslyndi!

 8. Páll: Átti þessi færsla að vera svar við minni færslu? Ef svo er, þá kannksi skýrirðu aðeins betur hvað þú átt við?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.